03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

155. mál, verkamannabústaðir

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. til I. um verkamannabústaði er eitt af þeim málum, sem hv. þm. stjórnarliðsins hafa verið settir til að afla sér aukatekna með því að endurskoða, og útkoman er svipuð og í málinu, sem við vorum að ræða um hér rétt áðan. Það eru engar verulegar breyt. gerðar á l. um verkamannabústaði, og hefði þó verið allmikil ástæða til þess að endurskoða þann lagabálk gaumgæfilega. En það er engan veginn hægt að segja það, að þetta frv. sé ávöxtur af gaumgæfilegri endurskoðun laganna. Allri byggingu lagabálksins, eins og hann er og hefur verið frá öndverðu, er enn þá haldið í þessu frv., og það er í raun og veru aðallega breytt tölum nokkuð með tilliti til þeirra verðlagsbreyt., sem hafa átt sér stað, síðan 1. var síðast breytt. Þannig eru breytingarnar til komnar, að því er snertir hækkun á meðaltali tekna þriggja síðustu ára hjá þeim mönnum, sem hafa rétt til að notfæra sér heimildir þessara laga, og enn fremur eru fleiri talnabreytingar þess sama eðlis í frv., að þeim er breytt með tilliti til þeirra breytinga, sem orðið hafa á verðlagi í landinu og verðmæti peninga, síðan I. var síðast breytt.

Þegar farið er að endurskoða l. um verkamannabústaði, er það vitanlega augljóst mál, að þar hefði fyrst og fremst þurft að bæta úr fjármagnsskorti sjóðsins. Einmitt vegna hinna öru verðlagsbreytinga og auknu dýrtíðar hefur starfsgeta sjóðsins farið dvínandi frá ári til árs og tilfinnanlegast núna síðustu árin. Það hefur nú farið svo vegna fjárskorts hjá byggingarsjóði verkamanna, að starfsemi hans hefur ákaflega mikið dregizt saman s.l. ár. Á árinu 1960 voru aðeins veitt 8 lánsloforð úr sjóðnum, og á árinu 1961 voru það 14 lánsloforð, sem voru veitt. En á árunum 1957–59 var starfsemi sjóðsins með nokkrum blóma. Þá voru byggðar á annað hundrað íbúðir, t.d. veitt lán til 110 íbúða á árinu 1957, og hæsta lánatala, sem ég veit til að hafi verið veitt frá sjóðnum, var veitt á árinu 1959, þá voru veitt lán til 150 íbúða. Þetta byggðist á því nokkuð, að þá hafði sjóðurinn meira en sínar árlegu tekjur, því að starfsemi hans hafði verið frekar dauf árin þar á undan, og þá höfðu safnazt óinnheimt framlög frá allmörgum sveitarfélögum og ríkið þannig ekki lagt sín framlög heldur á móti. En þegar losnaði um starfsemi sjóðsins, hann fór að byggja á ný, há var gert átak í því að innheimta framlög sveitarfélaganna, og kom þá ríkisframlagið á móti, auk hinna árlegu tekná sjóðsins. Þannig stendur á því, að sjóðurinn á tímabilinu 1957–59 veitti lán til miklu fleiri íbúða en áður og síðar. Þá var líka framlag sveitarfélaganna skylduframlag sveitarfélaganna — hækkað úr 12 kr. í 24 kr. á íbúa og hámarkið sett 36 kr. á íbúa í sveitarfélagi. Þær hækkanir, sem nú eru gerðar á skylduframlögum sveitarfélaganna miðað við einstakling, eru aftur, að 24 kr. breytast í 40 og 36 kr. færast upp í 60 kr., held ég. Þó efast ég um, að sjóðurinn verði nú færari en t.d. 1956 til þess að starfa, þrátt fyrir þessar hækkanir. En tölurnar, sem ég nefndi áðan. frá seinustu tveim árum, árunum 1960 og 1961, 8 lán fyrra árið og 14 lán seinna árið, þær sýna það, að starfsemi sjóðsins er orðin mjög óveruleg. Hann er orðinn svo févana, að hann getur ekki gegnt hlutverki sínu, og þess vegna hefði endurskoðunin nú þurft að bæta úr þessu ástandi með sjóðinn og gera hann starfhæfan á ný, en það er vitanlega óhugsanlegt með öllu, nema með því að afla honum mikils aukins fjármagns. En í þessu frv. er engin ráðstöfun í þá átt gerð, nema í þessu, að skylduframlög þeirra sveitarfélaga, sem hlut eiga að máli, hækka úr 24 kr. í 40 kr. Ef menn vilja halda því fram, að Það sé líka hámarkið 60 kr., þá er því til að svara, að reynsla síðustu ára er sú, að nálega öll sveitarfélögin hafa haldið sér við lágmarksupphæðina — skylduupphæðina — og ekki farið neitt upp fyrir hana. Það má því ætla, að það verði nú 24 kr. gjaldið á íbúa, sem verður grundvöllur fyrir tekjum sjóðsins. Það hefur verið áætlað, að hann fái nokkurra millj. kr. tekjuauka vegna þessa, og þetta er, að því er ég fæ bezt séð, einasta till. í frv., sem leiðir til þess, að sjóðurinn fái að krónutölu auknar tekjur, en mjög vafasamt, að að verðgildi haldi hann sömu tekjum og hann hafði eftir síðusta endurskoðun.

Það er gert ráð fyrir því og er talið til umbóta í frv., að nú megi lána fólki, sem þarna á að njóta réttinda, lán allt upp að 90% af byggingarkostnaði. Þetta er fólk, sem ekki má eiga meira en 150 þús. kr. eign og ekki hafa meira en 65 þús. kr. tekjur að meðaltali þrjú s.l. ár. Þannig verður það aðeins tekjulægsta fólkið í landinu, sem fær rétt samkv. lögunum. Ég álít, að það sé í raun og veru ekki vansalaust, að l. um verkamannabústaði með svona ákvörðun eins og þessari, að menn megi ekki hafa meiri tekjur en 65 þús. kr. að meðaltali s.l. þrjú ár, þau verði til þess að útiloka flesta bátasjómenn, og vissulega ættu þó verkamannabústaðalög að hjálpa þeim til þess að byggja yfir sig og sína. Ég tel það ákaflega hvimleitt. En menn horfast í augu við Það, að með þessu hámarki tekna koma flestallir sjómennirnir til þess að útilokast frá því að mega byggja samkvæmt l. um verkamannabústaði. Ég hefði helzt kosið, að I. heimiluðu sérhverjum starfandi löglegum meðlim verkalýðsfélags að njóta réttinda laganna, en að öðru leyti, ef það væri fólk utan verkalýðsfélaganna, þá væri sett eitthvert tekjumark. Með því móti væri sýnt hjá því að útiloka stétt eins og t.d. sjómannastéttina.

Ég vil nú víkja því til hv. meiri hl., hvort hann vildi ekki leiða hugann að því, hversu óskemmtilegt það er að ganga þannig frá endurskoðun I. Eins og tekjum bátasjómanna er nú háttað, er það augljóst mál, að þeir verða lokaðir úti frá öllum rétti samkvæmt I. um verkamannabústaði. Ég álít, að þeirra vegna ætti þarna að setja eitthvert það ákvæði, sem gerði það að verkum, að þeir kæmust inn undir lögin. Það er vitað, að starfandi sjómaðurinn á að mörgu leyti miklu erfiðara með að koma upp byggingu yfir sig og sína, þó að hann hafi jafnvel hærri tekjur og sé betur efnum búinn en maðurinn, sem starfar í landi. Og löggjafinn ætti sannarlega að meta Það, að hans aðstaða er þannig verri, og auk Þess er þess að geta, að þó að tekjur hans fari upp, kannske eitt, tvö eða þrjú ár í röð, þá getur hann líka orðið fyrir skakkafalli að því er tekjuöflunina snertir, og þá er enn þá hatramlegra, að hann skuli hafa verið útilokaður með lagaákvæðum frá hagkvæmum lánum eins og verkamannabústaðalögin veita.

Því miður sýnist mér svo, að það verði í fáum tilfellum raunhæft, að menn fái lán, sem nemi 90% af fullum byggingarkostnaði, því að þessu er þegar lokað með ákvæðinu um, að þó megi lánin aldrei vera hærri en 300 þús. kr. Ég hef opinberar skýrslur fyrir mér um það, að í októbermánuði 1961 kostaði 300 rúmmetra íbúð, sem er frekar lítil íbúð, 468 þús. kr. — samkvæmt vísitöluhúsi og byggingarvísitölu hagstofunnar 468 Þús. kr. Ég hygg því, að sú íbúð muni nú varla kosta mikið undir 500 þús. kr. En þó að maður haldi sér eingöngu við, hvað slík íbúð kostaði haustið 1961, þá þyrfti að fást lán út á hana, ef lánsupphæðin mætti vera 90% af byggingarkostnaði, sem næmi 421 þús. kr., en slíkt lán fæst ekki, ef hámark lánanna verður ekki hækkað úr 300 þús. í raun og veru er ekkert samræmi í því, miðað við það, sem við vitum að íbúðir kosta núna, að segja, að það megi lána 90% af byggingarkostnaðinum, en þó megi lánið aldrei vera hærra en 300 þús. kr. Það er dálítið skrýtið, því að þessi 90% eru bara silkislaufa, það er punt, það er alveg greinilegt. Það verður ekki neitt raunhæft. Það er gefinn hlutur, að ef nokkurt mark ætti að vera að þessum 90% Þarna, þá þyrfti lánsupphæðin a.m.k. að vera heimil upp í 430–450 þús., því að byggingarkostnaðurinn er nú aldrei undir 500 þús. kr.

Nú skulum við segja, að það fáist sú lagfæring á frv., að lánsupphæðin megi vera allt að 90% af fullum byggingarkostnaði, og þá sýnist mér, að sjóðurinn þyrfti að hafa rúmar 20 millj. kr. í árstekjur, til þess að hann gæti veitt lán til 50 íbúða á öllu landinu á ári. Það yrði engan veginn sagt, að það væri mjög mikill kraftur í starfsemi sjóðsins, þó að hann gæti veitt lán til 50 íbúða í Rvík og öllum kaupstöðum og kauptúnum landsins, sem hann á að veita lán til, ef umsóknir berast. Það væri ekki heldur hægt að segja, að starfsemi hans lægi niðri, ef hann gæti hjálpað um lán til 50 íbúða, en það væri það allra lægsta, sem mér finnst að hægt væri að segja að sjóðurinn væri í fullu starfi, ef hann gæti veitt 50 lán á ári. En þá þyrfti hann að hafa yfir 20 millj. kr.

Ég tók svo eftir, að hv. frsm. meiri hl. segði, að sjóðurinn fengi, ef lágmarksupphæðin væri lögð fram af sveitarfélögunum og af ríkinu, 10.4 millj., og ef hámarksframlögin yrðu greidd, þá gætu tekjur sjóðsins orðið 15 millj. kr. Það er því sýnilegt, að það verða ekki veitt 90% lán af byggingarkostnaði til meira en 25–30 íbúða, að því er mér virðist fljótlega. Og það er daufleg starfsemi, það verð ég að segja. Það þótti dauft yfir starfi sjóðsins á árunum 1952–1956, en á árinu 1952 voru veitt lán til 20 íbúða, 1953 til 26 íbúða, 1954 til 19 íbúða, 1955 til 46 íbúða og 1956 til 32 íbúða, en svo hljóp það upp, eins og ég sagði áðan, á árunum frá 1957–59, þannig að þá voru veitt lán til nokkuð yfir 100 íbúða hvert árið um sig.

Ég tel því, að það vanti mikið á, að aflað sé þeirra tekna til sjóðsins, að hann geti starfað nægilega kröftuglega og veitt 90% lán, eins og hér er þó haft á orði í þessu endurskoðaða frv. Og það er þó mergurinn málsins, eins og í hinu málinu, sem við vorum að ræða í kvöld. Það veltur á öllu, hvaða fjármagn þessum sjóðum er útvegað. Kemur fyrir lítið að hagræða tölum og skrá þær háar, ef ekki er fjármagn til að fullnægja þeim. Auðvitað er þetta höfuðágalli frv., að ekki er séð fyrir nægilegu fjármagni, til þess að hann geti starfað sómasamlega. Annar gallinn er sá, að það er ekkert ákvæði í þessu frv. um, að lækka beri vextina af lánum byggingarsjóðs verkamanna. Svo sem kunnugt er, voru lánin úr þessum sjóði fyrstu árin með 2% vöxtum, svo voru vextirnir hækkaðir upp í 3%, en það var ein af viðreisnaraðgerðunum að hækka vexti byggingarsjóðs verkamanna úr 3% upp í 6%, og þannig eru lánakjörin núna — 6% lánakjör, og það er ekkert ákvæði í frv. um það, að vextirnir skuli lækka. Það á að vera áfram á valdi Seðlabankans að ákveða, hverjir vextirnir séu. Og þegar ekki er neitt ákvæði um, að þeir skuli lækka, þá tel ég, að það sé borin von, að þeir verði nokkuð lækkaðir. Það er þá gefinn hlutur, að það fólk, sem hefur ekki meira en að hámarki 65 þús. kr. tekjur að meðaltali á ári s.l. 3 ár, það hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir 300–400 þús., segjum 400–500 þús. kr. skuldum með 6% vöxtum. Ef það á að vera nokkur von til þess, að fólk með svona tekjur ráði við að standa undir nauðsynlegum lánum vegna sinnar íbúðar, þá verða vextirnir að vera mjög lágir. Það er auðskilið mál, og hefði því verið ákjósanlegast, að vextirnir hefðu verið ákveðnir í frv. annaðhvort 2 eða 3%a, en það vantar alveg í frv.

Þá finnst mér það og mjög óprýða þetta frv., að kippt er út úr gildandi l. ákvæði um það, að þegar stofna skal til byggingar verkamannabústaða, þá skuli þeir vera boðnir út, og þetta er auðvitað gert til þess að tryggja, að sérhverju fáanlegu tilboði byggingarmeistara um að byggja þá eins ódýrt og verða má sé tekið og að þannig fáist sem mest íbúðarhúsnæði fyrir sem minnstan byggingarkostnað. Þetta er tekið út, og ég spyr: Hvers vegna er svona ákvæði tekið út? Þetta er þó einungis öryggisákvæði, til þess að það fjármagn, sem sjóðurinn ræður yfir og lánar út, nýtist sem bezt. Ég sé ekki, að nokkur skynsamleg ástæða geti legið fyrir því að taka svona ákvæði út úr gildandi lögum.

Það eru ýmis fleiri ákvæði, sem felld eru niður með þessu frv. úr gildandi lögum og alveg ástæðulaust var að taka út og eru til bóta í l. heldur en hitt og hefðu því átt að standa áfram. Flest eru þessi atriði að vísu minni háttar, en alveg sama er, það hefði verið meiri ástæða til þess að bæta inn í frv. einhverjum jákvæðum atriðum, sem hefðu stuðlað að aukinni starfshæfni sjóðsins, fremur en að taka þessi atriði, sem ég hér á við, úr gildandi lögum.

Ég tel það óumflýjanlegt, eins og gert er í frv., að hækkað sé skylduframlag sveitarfélaganna úr 24 kr. í 40 kr., og býst ég þó við, að sumum sveitarfélögunum verði fullerfitt að greiða það gjald til íbúðarhúsnæðisbygginga innan sveitarfélagsins, en ríkinu er ætlað að leggja sama framlag á móti. Ég álít, að fjármagnsþörf byggingarsjóðsins sé svo mikil, að það hefði verið fullkomin ástæða til að gera ráð fyrir, að ríkið legði fram tvöfalt á móti sveitarfélögunum, 48 kr. á móti hverjum 24, sem sveitarfélagið legði fram. Við það hefði sjóðurinn fengið allverulegan tekjuauka, og ég leyfi mér að leggja til, að sú breyting verði á gerð, að ríkið leggi fram tvöfalt á móti skylduframtagi sveitarfélaganna.

Þá hefði ég talið, að húsnæðisþörfin væri svo mikil, að það hefði verið ástæða til að heimila byggingarsjóði verkamanna allríflegar lántölur, veita honum allríflegar lántökuheimildir. En ég sé ekki, að neitt slíkt sé í frv. Það eru engar líkur til þess, að starfsemi byggingarsjóðs verkamanna geti aftur hafizt af þrótti — nokkrum verulegum þrótti — eða aukizt, þó að þetta, ég vil segja mjög veigalitla stjórnarfrv. verði samþ. Til þess að menn geti gert sér nokkrar vonir um aukna starfsemi byggingarsjóðs verkamanna að marki, þannig að hægt sé að segja, að hann svari sínu hlutverki, þá þarf að margfalda hans tekjur. Og það væri vissulega mikil þörf á því, að fátækasta fólkinu, sem býr við hið lakasta húsnæði, væri veitt veruleg hjálp til þess. Oft eru þetta einmitt hinar stóru og barnmörgu fjölskyldur, og það vita allir, að það er alvarlegt fyrir stóran barnahóp að alast upp við slík skilyrði sem heilsuspillandi húsnæði, og verður því að teljast ein af frumskyldum þjóðfélagsins að hjálpa stóru barnafjölskyldunum til þess að geta eignazt eigið húsnæði og komizt úr heilsuspillandi húsnæði.

Ég vil freista þess, og verð þó að segja, að ég er mjög hófsamlegur í mínum tillögum, — ég vil freista þess að fá eftirtaldar breyt. á frv. Ég teldi, að sjóðurinn væri þá nokkru starfhæfari, ef þær fengjust samþykktar, og er mér þó ljóst. að hann gæti engu verulega stóru til vegar komið, þrátt fyrir það.

Í fyrsta lagi legg ég það til við 3. gr., að í stað orðanna „ríkissjóður leggur í sjóðinn árlega upphæð“, eins og stendur þar í 2. tölulið, komi: „ríkissjóður leggur árlega í sjóðinn tvöfalda þá upphæð“ — þ.e.a.s. tvöfalda þá upphæð, sem sveitarfélögin leggja fram. Og önnur till. mín er við 4. gr. frv., á þá leið, að síðasti málsliður 2. málsgr. orðist svo: „Seðlabankinn ákveður vexti á lánum í samráði við ríkisstjórnina, en aldrei mega þó vextirnir vera hærri en 3% — 3 af hundraði — á ári“. Ég tel æskilegast, að farið væri í gamla farið, að vextirnir væru, eins og þegar verkamannabústaðalögin voru fyrst sett, ákveðnir 2%, og það er vitanlega heimilt samkv. þessari till., en hámark sett að því er snertir heimild Seðlabankans um 3%.

Þá er mín þriðja brtt. á þessu sama þskj. 603 — við 6. gr., um það, að 5. tölul. gr. orðist svo: „Að íbúðir séu hagkvæmar, teikningar samþykktar af stjórn byggingarsjóðsins og bygging íbúðanna ávallt boðin út.“

Ég vil ekki, að þetta ákvæði sé fellt úr l., því að það getur oft fengizt verulega hagkvæmara tilboð í byggingar og tekizt að halda byggingarkostnaði niðri, ef útboð eru höfð og leitað þannig eftir hagkvæmustu fáanlegum tilboðum. Það álít ég, að eigi að vera viðvíkjandi svona starfsemi, þegar verið er að reyna að fá hið mesta út úr litlu fjármagni.

Ég skal játa, að ég geri mér ekki miklar vonir um, að þessar hógværu brtt. til lagfæringar á frv. fáist samþykktar, fremur en aðrar, sem við höfum borið fram í sambandi við byggingarmálin t.d., því að það er sannleikur, sem ég sagði áðan, og engar ýkjur, í sambandi við annað mál, að það hefur verið reynslan á þessu þingi, að jafnvel till, frá stjórnarandstöðunni um lagfæringu á prentvillu hafa verið felldar, eins og allar aðrar till. stjórnarandstöðunnar.