03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

155. mál, verkamannabústaðir

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Ég tel, að svipað standi á um þetta mál og um frv. það, sem hér var áður til umr. á Þessum fundi um breyt. á l. um húsnæðismálastjórn. Hér er lagt til að gera breyt. á l. um verkamannabústaði, en þær breytingar, sem er að finna í Þessu frv.. eru harla lítils virði að mínum dómi og að sumu leyti vafasamar. En Þær snerta hins vegar ekki við Því vandamáli, sem Þar er við að glíma. Ég tel, að hér sé því í aðalatriðum um hreinar sýndartill. að ræða hjá hæstv. ríkisstj., sem stendur að flutningi Þessa frv.

Eins og fram hefur komið í umr., hefur svo verið ástatt með byggingu verkamannabústaða að undanförnu, að segja má, að nú um tveggja ára skeið hafi öll byggingarstarfsemi á vegum byggingarsjóðs verkamanna gersamlega leið niðri Og ástæðurnar til þess, að svo til ekkert hefur verið hægt að byggja samkv. Þessum l. nú síðustu 2 árin, eru þær, að vantað hefur fé til útlána úr byggingarsjóði verkamanna. Tekjur sjóðsins hafa verið, eins og kunnugt er, sárulitlar, og hæstv. félmrh., sem er yfirmaður sjóðsins lögum samkv., hefur ekki útvegað sjóðnum neitt fé, svo að hægt væri að halda áfram venjulegri lánastarfsemi.

Það er mjög athyglisvert, að það var einmitt þannig á tímum vinstri stjórnarinnar, að þá voru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að hleypa lífi í byggingar verkamannabústaða samkv. gildandi lögum. Árin 1957 og 1958 og einnig á árinu 1959 var úthlutað allmörgum lánum til margra staða á landinu og bygging var þá hafin samkv. I. á mörgum stöðum, sem höfðu ekki tekið þátt í byggingum á vegum þessa kerfis áður. Ég hygg, að lánveitingar hafi numið þessi ár nokkuð á annað hundrað, hvert árið um sig. Þannig munu lánin árið 1957 hafa verið 110 og árið 1958 um 150. En svo brá við; eftir að núv. hæstv. félmrh. hafði skipt um formann í byggingarsjóði verkamanna og hið nýja „viðreisnartímabil“ hafði tekið við í byggingarmálum þjóðarinnar, að Þá tók gersamlega fyrir allar lánveitingar á vegum sjóðsins svo að segja. Árið 1960 munu hafa verið veitt 8 lán og árið 1961 14 lán. Þar mun aðeins hafa verið um lánveitingar að ræða til Reykjavíkur eða stærstu staðanna, sem greiða Það mikið fé í sjóðinn, að þessir aðilar gátu raunverulega tekið fé úr eigin hendi.

Í þessu frv. er, eins og ég sagði, ekki gert ráð fyrir Því að bæta úr tekjuþörf sjóðsins á neinn viðhlítandi hátt. Það er að vísu lagt til, að hið árlega framlag ríkissjóðs hækki lítið eitt og framlög bæjarfélaganna eða sveitarfélaganna á móti hækki einnig. En Það er vægast sagt mjög vafasamt að ætla að byggja starfsemi Þessa sjóðs einvörðungu á Því, að bæjarfélögin leggi fram fé til sjóðsins, Því að Það er vitað mál, að Þau geta ekki bætt á sig nýjum útgjaldaliðum sem neinu nemur.

Þegar löggjöf eins og Þessi, sem hér er um að ræða, er tekin til endurskoðunar, Þá er Það furðulegt, að Það skuli ekki koma fram neinar till. um Það, sem aðalvandinn hefur snúizt um varðandi framkvæmd laganna áður. Það er látið í Það skína, að aðalbreyt. á I. frá því, sem áður var, eigi að verða sú, að nú eigi að hækka lánin til hvers einstaks aðila frá því, sem áður var. Rætt er um Það, að lánin megi fara upp í 90% af kostnaðarverði íbúðar, Þó ekki yfir 300 Þús. kr. á hverja íbúð. En eins og kunnugt er, hefur framkvæmdin verið Þannig að undanförnu, að hámark lána mun hafa verið 160 Þús. kr. En Það Þýðir auðvitað harla lítið að ákveða Það í lögunum, að hámarkslán megi vera upp í 300 Þús. kr. á íbúð, ef ekki er séð neitt fyrir nýrri tekjuöflun til útlánanna. Slík ákvæði eru auðvitað marklaus í framkvæmd. Það má öllum vera ljóst, að þau ákvæði í Þessu frv., sem gera ráð fyrir Því, að Þeir einir geti fengið lán úr sjóðnum, sem hafi ekki hærri tekjur en 65 Þús. kr. á ári miðað við 3 næstliðin ár, áður en lánið er veitt, og Þó 5 Þús. kr. til viðbótar fyrir hvert barn á framfæri, — Það er auðvitað augljóst mál, að aðilar með slíkar tekjur fá ekki risið undir háum lánum. Eða hvernig er hægt að hugsa sér Það, að aðili, sem t.d. hefði 75 Þús. kr. tekjur, gæti staðið undir láni samkv. núgildandi kjörum á lánum frá Þessu byggingarkerfi, — láni, sem nemur 300 Þús. kr.? Ég tel alveg sýnilegt mál, að vextir og afborganir af slíku láni og bein fastagjöld, sem hvíla á hverri íbúð að öðru leyti, hljóti að nema samkvæmt lánskjörunum, eins og Þau eru nú, a.m.k. 30 Þús. kr. á ári eða 2500 kr. á hverjum mánuði. Það sjá auðvitað allir, að aðili, sem má ekki hafa hærri tekjur en 70–75 Þús. kr., getur ekki staðið undir afborgunum og vöxtum og öðrum útgjöldum af sinni íbúð, sem nema 30 Þús. kr. á ári. Það er auðvitað alveg tómt mál að tala um slíkt. Það vita allir, að Það er óframkvæmanlegt. Ef á að halda sér stíft við Þetta tekjumark, þá er vitanlega óframkvæmanlegt að lána slíkum aðilum svona hátt lán, nema Þá vaxtakjörunum verið breytt, lánskjörin verði gerð hagstæðari. Og auðvitað er Það nauðsynlegt í sambandi við Þessa löggjöf. Það er alveg óhjákvæmilegt að ákveða, að vextir af Þessum lánum skuli ekki vera hærri en t.d. 3 eða 31/2%„ eins og Þeir voru, áður en „viðreisnarvextirnir“ komu til.

En Það bólar ekki á Því við afgreiðslu Þessa máls, að hæstv. ríkisstj., sem stendur að flutningi málsins, hugsi sér að breyta Þessum ákvæðum l., sem fjalla um vaxtakjörin. Hún sem sagt virðist ætla að standa að framkvæmd málsins Þannig, að vextirnir skuli vera upp í 6%, Það skuli lána allt upp í 90% af byggingarkostnaði, Þó ekki yfir 300 Þús. á íbúð, og að tekjur einstaklingsins megi ekki vera hærri en 65 Þús. á ári og 5 Þús. á hvern aðila á framfæri. En Þegar Þetta allt er sett saman, Þá sjá menn, að Þetta er með öllu óframkvæmanlegt. Það getur enginn maður framkvæmt Þetta. 90% af byggingarkostnaðinum mundi að sjálfsögðu verða hærri upphæð en 300 Þús. kr. í flestöllum tilfellum, svo að Þar er auðvitað um blekkingu að ræða. En meira að segja 300 Þús. kr. lánsupphæðin fær ekki staðizt til Þess aðila, sem hefur ekki hærri tekjur en Þetta, ef hann á að greiða Þá vexti, sem í gildi eru nú.

En hvernig er þá líklegast, að fari um framkvæmd Þessara mála? Jú, auðvitað fer um framkvæmdina á þann hátt, sem verið hefur. Það verða ekki veitt 300 Þús. kr. lán til neins aðila. Lánin verða auðvitað ekki höfð hærri en Þau hafa verið, 160 Þús. á íbúð eða Þar um bil. Sjóðurinn ræður ekki yfir tekjum til þess að veita slík lán, og það er auðvitað augljóst mál, að ef hinir tekjulægstu eiga að sitja fyrir lánunum, þá þýðir ekki að lána þeim hærra en þetta, eða þá að gripið verður til þess. eins og gert var reyndar áður, að Það var ekki heldur haldið sér við þetta tekjumark, sem sett var í lögunum. Þeir aðilar fengu einnig lán úr sjóðnum, sem höfðu miklum mun hærri tekjur ert ákveðið var í lögunum að miðað skyldi við.

Nei, það, sem var auðvitað nauðsynlegt í sambandi við endurskoðun á þessari löggjöf, var það að bæta úr ágöllunum, sem augljóslega höfðu komið fram í framkvæmdinni, en ágallarnir voru þessir: Sjóðinn vantaði greinilega tekjur. vantaði fjármagn til frekari útlána. Sjóðinn vantaði fjármagn til þess að geta hækkað lánin úr 160 þús. kr. á hverju einstöku láni, eins og verið hafði nú um skeið, upp í t.d. 300 þús. kr. á íbúð eða jafnvel meira, til þess að fátækir menn gætu ráðizt í það að byggja samkvæmt lögunum og eignast íbúð, því að þeir, sem hafa yfir litlu fjármagni að ráða, þurfa að fá um 300 þús. kr. að láni með hagstæðum kjörum til þess að komast yfir íbúð. Og svo þurfti, ef átti að halda sér í framkvæmdinni við tekjuhámarkið, að gera lánskjörin mjög hagstæð, því að Þeir aðilar, sem eru í lægsta launaflokki, hafa ekki hærri laun en gert er ráð fyrir sem hámarkslaunum fyrir þá, sem eiga að koma til greina við úthlutun úr þessum sjóði, geta ekki staðið undir dýrum lánum, og af því var vitanlega alveg nauðsynlegt við endurskoðun Þessara laga að ákveða að lækka vextina til mikilla muna frá því, sem nú hefur verið. En ekkert af þessu er gert. Það eina, sem er gert, er, að það er hækkað svolítið það framlag, sem sveitarsjóðirnir eiga að leggja fram á ári hverju og framlag ríkisins þar á móti. En auðvitað dregur þetta sárastutt. En það er eins og hæstv. ríkisstj. haldi, að henni dugi Það í öllum málum að vera með sömu sýndarmennskuna, flytja frv. til breyt. á. ýmiss konar lögum, sem í gildi eru, segja jafnvel með slíkum frv.- flutningi, að nú sé búið að endurskoða löggjöfina, það hafi verið gert af sérstakri nefnd manna, þó að svo komi fram, að endurskoðunin sé harla lítils virði og breyt. í því frv., sem lagt er fram, nái svo til ekkert. Ég furða mig á vinnubrögðum eins og þessum.

Nei, það er vissulega athyglisvert, að sú ríkisstj., sem hefur þó séð það, að byggingarstarfsemin á vegum byggingarsjóðs verkamanna hafði stöðvazt svo til alveg undir hennar stjórn. skuli ekki gera neinar ráðstafanir til þess að koma byggingum á vegum þessa sjóðs aftur af stað, þó að hún sé að gutla við það að endurskoða lögin.

Það var vissulega þörf á því að gera aftur kleift að hefja byggingar á vegum þessa byggingarkerfis. Það hefði verið mikil þörf á því að sinna einmitt málefnum þeirra, sem hafa minnsta getu til þess að byggja yfir sig, þeirra, sem alts ekki ráða við það að byggja sér íbúðir með þeim lánum og með þeim lánskjörum, sem hægt er að fá hjá hinu almenna byggingarlánakerfi, því að það er auðvitað gefið mál, að þeir menn, sem hafa ekki hærri tekjur á ári en 60–70 þús. kr., eins og dýrtíð er nú orðin, ráða ekki við það að byggja sér íbúð, sem kostar 400–500 þús. kr., með lánum, sem eru ekki nema í kringum 100–150 þús., eins og hægt hefur verið að fá úr hinu almenna byggingarlánakerfi, en þar hafa hámarkslánin verið 100 þús. kr. fram til þessa, en er nú verið að gera ráð fyrir því, að þau verði að hámarki 150 þús. kr. Það er auðvitað alveg augljóst mál, að aðilar, sem hafa ekki hærri tekjur en þetta, geta ekki byggt samkvæmt Þeirri aðstoð, sem þar er að fá. Þeir þurfa að fá miklu meiri lán, og þeir þurfa einnig að geta fengið lán með hagstæðari lánakjörum en hægt er að fá hjá hinu almenna byggingarlánakerfi. Það hefði því vissulega verið mikið nauðsynjamál að gera byggingarsjóði verkamanna kleift að sinna lánbeiðnum frá þessum aðilum, frá hinum tekjulægstu, og geta lánað þeim allt að 300 þús. kr. út á íbúð með hagstæðum lánakjörum. En að bjóða þeim aðilum upp á slíkar sýndartill. eins og koma fram í þessu frv., það verður þeim lítið til gagns.

Það er ómögulegt annað en hæstv. ríkisstj. hafi veitt því athygli, að sú hefur þróunin orðið í íbúðabyggingum síðustu tvö árin, að bygging íbúðarhúsnæðis hefur stórlega minnkað. Eins og ég sagði hér áður, hefur svo að segja tekið fyrir alta byggingarstarfsemi á vegum byggingarsjóðs verkamanna. En það hefur líka stórdregið úr framkvæmdum hjá þeim, sem hafa þó leitað til annarra um lánveitingar í þessum efnum. Ástæðan er auðvitað sú, að Það er nú miklum mun óhagstæðara fyrir þá, sem eru að brjótast í byggingum, að komast áfram en áður var, lánin frá húsnæðismálastjórn duga miklu lakar en þau dugðu áður, því að byggingarkostnaðurinn hefur stóraukizt og dýrtíðin hvílir með svo miklu meiri þunga á mönnum nú en áður, að menn hafa minna fé handa á milli til þess að ráðstafa til húsbygginga en þeir höfðu áður. Þetta hefur allt leitt til þess. að íbúðabyggingar hafa stórlega dregizt saman, og auðvitað sækir þetta út í hrein vandræði. ef ekki verður á veruleg breyting. En mér sýnist hins vegar, að tilgangurinn hjá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum sé sá, að það á að segja frá því með miklum hávaða, eins og vant er í stjórnarblöðunum, að mikið aðhafist nú ríkisstj. í húsnæðismálum. Hún hafi látið endurskoða löggjöfina um byggingarsjóð ríkisins og hækkað þar lánveitingar út á hverja íbúð og heimildir byggingarsjóðsins til almennrar lántöku, og hún hafi látið endurskoða löggjöfina um verkamannabústaði og þar eigi nú að gera ráð fyrir Því að heimila lán til hvers einstaks upp í um 300 þús. kr. eða 90% — það eigi að stórauka lánin.

Jú, það verður vist enginn vandi að segja frá þessu undir stórum fyrirsögnum og láta mikið yfir sér í þessum efnum, og það mætti kannske duga mönnum eitthvað stutta stund. t.d. í gegnum einar kosningar eða svo. En ég er hræddur um, að það verði heldur lítið um byggingarframkvæmdir út á þessar reglur. Ég er hræddur um, að það verði harla lítið úr því hjá mönnum, að þeir fái aukin lán til sinna framkvæmda samkv. því, sem ákveða á nú í þessu frv. Það er mjög hætt við Því, að þetta fari á þá leið, að menn verði blekktir hreinlega og lokkaðir eitthvað á stað út í byggingarframkvæmdir, sem þeir gera sér vonir um að fá aukin lán út á, en auðvitað engin aðstaða er til að veita aukin lán út á, á meðan ekki er aflað neins nýs fjármagns til sjóðanna, og komast menn þá harla stutt með byggingarframkvæmdir sínar, og er jafnvel hætt við því, að menn lendi þar í algerum vandræðum og tapi jafnvel því, sem þeir leggja fram.

Ég tel, að þetta sé með öllu ósæmilegt, að standa þannig að þessum málum, eins og hæstv. ríkisstj. virðist hafa hugsað sér. Og það væri fyllilega þörf á því, að ríkisstj. léti þessar n. sínar, sem hún hefur haft til að endurskoða þessi lög, vinna upp verkið aftur og koma með einhverjar þær till. til úrlausnar í þessum málum, sem mættu verða að einhverju gagni, en ekki frv. í því formi, sem þetta frv. er t.d. í, sem felur raunverulega ekki í sér neina breyt. frá gildandi l., sem að neinu gagni mætti verða, því að þessi hámarkslán, 300 þús. á íbúð, breyta auðvitað engu frá gildandi lögum. í gildandi l. um verkamannabústaði voru ekki nein ákvæði, sem hömluðu gegn því, að einstök lán kynnu að verða 300 þús. kr. Það var fyllilega heimilt að veita mönnum 300 þús. kr. lán, jafnvel enn þá hærra lán en það. En ástæðan til þess, að það var ekki gert, var einfaldlega sú, að það var ekki fé til þess að lána út svo há lán, og meðan tekjur sjóðsins eru ekki auknar neitt sem heitið getur, þá er ekki frekar aðstaða til þess að hækka lánin en áður var.

Það voru auðvitað ýmsar leiðir til þess að bæta úr fjárhag þessa byggingarsjóðs — byggingarsjóðs verkamanna. 2 fyrsta lagi hefði auðvitað verið mjög eðlilegt, svipað eins og með byggingarsjóð ríkisins, að þessi byggingarsjóður hefði fengið árlega fyrir milligöngu ríkisstj. lánað hjá Seðlabankanum nokkurn hluta af sparifjármynduninni í landinu, því að það er sanngjarnt og eðlilegt, að hluti af sparifjármynduninni í landinu gangi til íbúðabygginga. í öðru lagi hefði líka verið eðlilegt að ætla þessum sjóði einhvern nýjan tekjustofn — árlegan tekjustofn. Ýmislegt gat þar vitanlega komið til greina. Ég álít til dæmis, að það hefði ekki verið óeðlilegt, að einhver hluti af þeim háu sölusköttum, sem núverandi ríkisstj. hefur lagt á, hefði t.d. runnið í byggingarsjóð verkamanna. Það hefði líka mátt hugsa sér það, að þessi sjóður hefði fengið tekjur á þann hátt, að einhver lítill hluti, einhver lág prósenta hefði verið ákveðin af öllum innfluttum vörum til landsins og sjóðnum fengið slíkt sem tekjur á hverju ári um nokkurt tímabil. En það er enginn vafi á því, að sjóðurinn þarf að fá nýja tekjustofna, m.a. til þess að hann geti tekið á sig vaxtamismun, sem hætt er við að á hann kunni að falla vegna lántöku úr hinu almenna bankakerfi. Og þá er auðvitað enginn vafi á því, að það hefðu verið möguleikar fyrir milligöngu ríkisins að útvega þessum sjóði talsvert verulegt lán úr atvinnuleysistryggingasjóði, sem er orðinn öflugur sjóður og verkalýðssamtökin í landinu eiga, því að hann er byggður upp af peningum, sem áttu að vera raunverulegur hluti af kaupi verkamanna. Og það er enginn vafi á því, að það hefðu verið möguleikar á því að semja um það, að sá sjóður hefði látið allverulega fjárfúlgu á hverju ári um nokkurt tímabil sem lán til langs tíma til byggingarsjóðs verkamanna með mjög lágum vöxtum. Ég hefði talið ekki óeðlilegt, að sá sjóður legði fram einar 30–40 millj. kr. á ári til þessa byggingarkerfis, til þess m.a. að gera það kleift, að hægt væri að lána úr byggingarsjóði verkamanna hagstæð lán, einmitt til þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu. En það hefði líka verið mjög eðlilegt að breyta I. um verkamannabústaði þannig, að þau hefðu verið alveg ótvírætt þannig uppbyggð, að meðlimir verkalýðsfélaganna hefðu fyrst og fremst átt rétt til lána úr sjóðnum og að yfirstjórnin á þessum byggingarsjóði hefði þá fyrst og fremst verið í höndum verkalýðssamtakanna. Og þá efast ég ekkert um það, að þessi stóri og mikli sjóður, atvinnuleysistryggingasjóður, hefði fallizt á að veita þessu byggingarkerfi allveruleg lán með hagstæðum kjörum, því að það hefði auðvitað jafngilt beinum kjarabótum fyrir hina lægst launuðu í landinu, hefðu þeir átt kost á því að fá lán, sem nema allt að 90% af raunverulegum byggingarkostnaði íbúðar, til langs tíma og með lágum vaxtakjörum eða á svipuðum grundvelli og gert var ráð fyrir í upphafi í reglunum um verkamannabústaði og eins og Þau lög voru fyrst framan af framkvæmd. Þá var gert ráð fyrir því, að vextir af lánum sjóðsins væru aðeins í kringum 2%, og lánin voru þá veitt til 42 ára. Slík lán gera ekki mönnum það ókleift að standa undir afborgunum og vöxtum og öðrum gjöldum af meðalíbúð, en það virðist ekki vera, að neitt slíkt hafi vakað fyrir þeim. sem endurskoðuðu l. að þessu sinni, að skipa þessum málum á þessa lund.

Ég vil við þessa umr. mótmæla því, að svona skuli vera staðið að málunum. Ég tel það mjög ósæmilegt og þó allra ósæmilegast, ef það er meining hæstv. ríkisstj. að skilja við málið á þann hátt, sem það lítur út nú, því að það getur ekki þýtt neitt annað en að vekja tálvonir og valda blekkingum.

Það sjá auðvitað allir menn, að þó að tekjur þessa sjóðs samkv. þessum framlögum, sem gert er ráð fyrir í lögunum, verði í kringum 10–11 millj. kr. á ári, þá er hann alls ómegnugur til þess að standa undir því verkefni, sem honum er ætlað að sinna. En ef til vill vill hæstv. ríkisstj. segja, að þó að ekkert sé um Það ákveðið í l. að útvegað verði fjármagn til sjóðsins, þá muni hún eigi að síður reyna að útvega sjóðnum fjármagn, svo að hann geti haft þá starfsemi með höndum, sem l. gera ráð fyrir. En þá væri vitanlega eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. skýrði frá því, hvers er að vænta í þeim efnum, því að lög hefur hún haft að undanförnu um verkamannabústaði, sem gert hefðu það kleift á allan hátt að hækka lánin og koma lánunum til hinna lægst launuðu, samkv. lögunum óbreyttum eins og þau voru, ef aðeins hún hefði útvegað byggingarsjóði verkamanna aukið fjármagn. Það þurfti í rauninni ekkert að gera annað en það, og því er sú endurskoðun, sem felst í þessu frv., í rauninni harla lítils virði.

Þetta sýndi sig alveg greinilega í tíð vinstri stjórnarinnar, þegar nýtt líf færðist í þetta byggingarkerfi, að þar þurfti ekki annað til en að útvega sjóðnum nokkurt nýtt fjármagn. Þá var hægt að veita miklu fleiri lán en áður höfðu verið veitt, og þá var hægt að hefja byggingar á vegum sjóðsins á miklu fleiri stöðum en áður hafði þekkzt.

Ég skal ekki ræða um þetta mál lengur nú að sinni, enda er langt liðið á nóttu, og það virðist vera, að hæstv. ríkisstj. telji það í fullu samræmi við þetta mál, að þreyta hér umr. um það langt fram eftir nóttu, en ætla því ekki neinn umræðutíma á eðlilegum fundartíma að degi til. En ég tel nú hins vegar, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, sé svo stórt eða um svo þýðingarmikið málefni að ræða, þó að þetta frv. leysi ekki vandann á neinn hátt, að þá hefði verið full ástæða til þess, að það yrði rætt hér á venjulegum fundartíma og á þeim tíma, sem þm. almennt geta hlýtt á umr. um málið, og tekið á því á allt annan hátt en tekið er á því samkv. þessu frv.