02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

77. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Lögin um hæstarétt hafa að meginstofni til verið óbreytt, frá Því að hæstiréttur var fyrst settur hér eftir setningu sambandslaganna fyrir rúmum 40 árum. Það þótti því tímabært að endurskoða hæstaréttarlögin og færa þau til samræmis við breytta starfshætti sem komizt hafa á að sumu leyti, og breyttar réttarreglur, að svo miklu leyti sem Þær eru fyrir hendi, og fór sú endurskoðun fram í haust. Þá var að vísu gert ráð fyrir, að samþ. yrði frv. til laga um breyt. á einkamálalögunum, sem liggur fyrir hv. Ed., en mun fyrirsjáanlega ekki ná fram að ganga á Þessu Þingi. Þess vegna var sá háttur nú tekinn, að hæstaréttarlagafrv. var breytt á þann veg, að það getur staðizt alveg án tillits til Þess, hvað um einkamálalagafrv. verður, og var hnigið að Þessu ráði vegna Þess, að mönnum þótti, að ýmsar, að vísu minni háttar breyt. á l. um hæstarétt, mættu ekki dragast, Þangað til sýnt yrði, hvað yrði um einkamálalagabreytinguna, sem er annað og miklu umdeildara mál.

Nefnd í Ed. hefur haft þetta mál lengi til meðferðar og bar síðan fram brtt. í samráði við dómsmrn, og hæstaréttardómara, sem höfðu ásamt Theódór Lindal unnið að endurskoðun laganna. Hygg ég, að ekki geti verið ágreiningur um, þótt hér sé ekki um neinar stórfelldar breyt. að ræða í þessu frv., að þær horfi til góðs. Þær eru nánast leiðréttingar, sem nauðsynlegar eru orðnar vegna breyttra aðstæðna nú og kringum 1920.

Ég vonast þess vegna til, að þetta frv. mæti velvild og skilningi, verði ekki til ágreinings hér í d. Leyfi ég mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.