22.03.1962
Neðri deild: 71. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

118. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Frsm (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af hæstv. iðnmrh. samkv. beiðni Iðnaðarbanka Íslands h/f, en á síðasta aðalfundi bankans var samþ. till. þess efnis, að athugaðir yrðu möguleikar á því að auka verulega hlutafé bankans. Var þá sérstök nefnd kjörin til þess að vinna að framgangi málsins.

Í l. um stofnun og rekstur Iðnaðarbanka Íslands h/f er ákveðið, að hlutafé hans skuli nema allt að 61/2 millj. kr. Þar af er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður eigi 3 millj. kr. Í 4, gr. nefndra laga er tekið fram, að á hluthafafundi félagsins, þ.e.a.s. aðalfundi Iðnaðarbankans, skuli engar takmarkanir vera á atkvæðisrétti, að því er hlutafé ríkissjóðs snertir. Af ákvæði þessu hefur leitt, að umboðsmaður ríkissjóðs hefur á aðalfundi ráðið tveimur mönnum í stjórn bankans, en með 5. gr. I. er ákveðið, að stjórn bankans, þ.e.a.s. bankaráðið, skuli kosið með hlutfallskosningu.

Eins og fram kemur á þskj. 436, hefur iðnn. athugað frv. og orðið sammála um að mæla með því með Þeirri breyt. að setja það takmark, að auka megi hlutafé Iðnaðarbankans h/f upp í allt að 10 millj. kr. Er þá út frá því gengið, að ríkissjóður sem núverandi hluthafi taki svo mikið af hlutafjáraukningunni, að umboðsmaður hans geti áfram ráðið tveimur mönnum í stjórn bankans.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.