10.04.1962
Efri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

16. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er að veita 57 einstaklingum ríkisborgararétt, Þeim sem taldir eru í 1. gr. frv.

Allir þessir 57 einstaklingar, sem frv. gerir ráð fyrir að fái íslenzkan ríkisborgararétt, fullnægja þeim skilyrðum, sem greind eru í 6 liðum í nál. allshn. Nd., en í það nál. voru upp teknar þær reglur, er hv. Alþ. hefur um allmörg ár farið eftir við ákvörðun um, hvort einum eða öðrum skuli veittur íslenzkur ríkisborgararéttur.

Allshn. þessarar hv. d. hefur haft frv. þetta til meðferðar og leggur einróma til, að það verði samþ., eins og fram kemur í nál. á þskj. 679. En ég vil í leiðinni láta þess getið, að ég er andvígur 2. gr. frv. nú eins og fyrr, en vil ekki stofna frv. í hættu með því að gera tilraun til að fella hana niður.