13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

169. mál, síldarútvegsnefnd

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti, Á síðasta þingi var borið fram frv. til l. um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl., sem koma skyldi í stað gildandi laga um þetta efni, sem eru lög nr. 74 frá 1934. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt, að þetta frv. skyldi koma fram, því að lögin frá 1934 eru nú orðin 27 ára og þess vegna ekki óeðlilegt, að tímans tönn og ýmsar breytingar, sem orðið hafa á okkar atvinnuháttum, hefðu gert það nauðsynlegt og eðlilegt, að nokkrar breyt. yrðu á þessum lögum gerðar. Þetta frv. var borið fram svo seint á síðasta þingi, að það náði ekki endanlegri afgreiðslu, en var afgr. með rökst. dagskrá, sem var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða lög nr. 74 29. des. 1934, um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl., og að sú endurskoðun verði framkvæmd í samráði við síldarútvegsnefnd, Landssamband ísl. útvegsmanna, Alþýðusamband Íslands og félög síldarsaltenda, enda geri ríkisstj. ráðstafanir til að koma sem fyrst á Þeim endurbótum, sem þingmeirihluti er örugglega til fyrir, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Í framhaldi af þessari rökst. dagskrá voru svo 9. maí s.l. gefin út brbl. um breyt. á síldarútvegsnefndarlögunum, sem höfðu þá einu breyt. í sér fólgna að bæta tveim mönnum í síldarútvegsnefnd, og væru þeir tilnefndir af félögum síldarsaltenda, annar frá Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og hinn fyrir Félag síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi. Þessi skipan var svo í gildi til s.l. áramóta, eru lengra náðu brbl. ekki.

Hinn 4. jan. s.l. var skipuð nefnd til þess að ganga í það að endurskoða lögin, og voru í nefndina skipaðir Þeir Birgir Finnsson og Jónas Rafnar alþingismenn og Jón Sigurðsson fulltrúi í atvmrn. Nefndin tók strax til starfa og hefur unnið að endurskoðun laganna síðan og hagað störfum sínum í samræmi við fyrrgreinda rökst. dagskrá, þannig að hún hefur haft samband við þá aðila, sem í hinni rökst. dagskrá er gert ráð fyrir, alla saman, og kynnt sér sjónarmið þeirra í málinu. Niðurstaðan af starfi þessarar n. er svo það frv., sem hér liggur fyrir og er flutt óbreytt eins og n. gekk frá því.

Ég skal ekki rekja gang þeirrar lagasetningar, sem gerð hefur verið um síldarmál síðustu 30–40 árin, það er nokkuð ýtarlega gert í grg. fyrir frv. En ég vil aðeins nota tækifærið til þess að leiða athyglina að því, að Þessi lög, sem nú eru í gildi, hafa staðið að heita má óbreytt. síðan 1934, eða í 27 ár, og það er sammæli að ég ætla flestra, að starf síldarútvegsnefndar á grundvelli þessara laga hafi verið farsælt fyrir þennan atvinnuveg og hans afkomu. Þegar Síldareinkasala ríkisins gafst upp á árinu 1931, var talið, að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess, að það hafi verið saltað of mikið umfram samninga, og það tap, sem af því leiddi, riðið síldareinkasölunni að fullu. Eitt höfuðverkefni síldarútvegsnefndar á undanförnum árum hefur verið að samræma þá söltun, sem gerð hefur verið á síld, við það, sem mögulegt hefur verið að selja, setja ákvæði um, hvenær söltun mætti hefjast, sjá um gæði, að ekki væri saltað annað en gæðavara og ýmislegt í því sambandi. Annar aðalþátturinn í starfi n. hefur svo verið sá að gera sölusamninga um síldina og annast um sölu hennar, stundum og jafnvel oftast á þeim grundvelli, að n. hefði einkarétt til útflutnings á síld, en í öðrum tilfellum án þess að það einkaleyfi lægi fyrir.

Breytingarnar, sem í þessu frv. felast, eru ekki ýkjamargbrotnar. Aðalbreyt. er sú, að nefndarmönnum er fjölgað úr 5 og upp í 7, þannig að tveim fulltrúum síldarsaltenda er bætt við, en hinir fimm eru valdir á þann hátt, að Þrír eru kosnir af sameinuðu Alþ., einn af Alþýðusambandi Íslands og einn af síldarútvegsmönnum við almenna atkvgr. Þessu síðasta er nú breytt í þessu frv., sem hér liggur fyrir, þannig að Landssamband Ísl. útvegsmanna, sem ekki var til 1934, þegar l. tóku gildi, velji manninn, í stað þess að hann var áður valinn með almennum kosningum hjá síldarútvegsmönnum. Þetta er ekki óeðlileg breyting, þar sem síldarsaltendur þeir, sem síldina kaupa og verka, eiga náttúrlega mjög mikið í hættu og mjög mikið undir því, að störf síldarútvegsnefndar lánist vel, og með því að gefa þeim aðild að n., þá er verið að leitast við að tryggja þetta.

Í 2. gr. er svo ákveðið um tekjuöflun n. Það er mjög lítil breyt. frá því, sem verið hefur. Hún hefur fengið 2% af andvirði útfluttrar síldar, eins og stendur í I., en til þess að skilgreina það nákvæmar, er hér sett: af fob-andvirði útfluttrar síldar. Síðar fær hún 5% af rekstrarvörum til síldarsöltunar, og það er ákveðið í þessu lagafrv., en var áður ákveðið í reglugerð.

3. gr. er svo um starfstilhögun og lítill munur frá því, sem áður var. Síldarútvegsnefnd er heimilt að takmarka síldarsöltun, ákveða, hvenær söltun megi hefjast, eða banna söltun um skemmri eða lengri tíma, ef n. telur slíkar ráðstafanir nauðsynlegar til að tryggja gæði síldarinnar eða sölu hennar.

Ráðh. er heimilt að fengnum till. síldarútvegsnefndar að veita heildarsamtökum síldarsaltenda eða síldarútvegsnefnd einkarétt til útflutnings á saltaðri síld, samkv. 8. gr. frv. Þetta hefur verið svipað í lögum áður, og heimildin til að veita síldarútvegsnefnd einkarétt hefur verið notuð í ríkum mæli og þó nokkuð oft, en ekki hefur komið til þess að veita samtökum síldarsaltenda þennan einkarétt. En í þessu frv. er þó rýmkað um möguleikana til að geta gert það, og það er samkvæmt óskum, sem fram hafa komið frá síldarsaltendum.

Fleira er raunar ekki að segja um þetta frv. Það er mjög svipað því frv., sem borið var hér fram á síðasta Þingi, og flutt nákvæmlega óbreytt frá því, sem undirbúningsnefndin lagði til. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.