13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

169. mál, síldarútvegsnefnd

Eysteinn Jónsson:

Það er að sumu leyti í tilefni af því, að ég og hv. 2. þm. Austf. flytjum frv. til l. um breyt. á l. um síldarútvegsnefnd o.fl. á þskj. 19, að mig langar til að segja örfá orð í sambandi við þetta mál, sem nú hefur verið lagt fyrir, frv. til nýrra laga um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram, eru ekki stórkostlegar breytingar í þessu frv. frá því fyrirkomulagi, sem nú er. En þó er eitt atriði í þessu máli, sem ég vildi sérstaklega gera að umræðuefni. Mér finnst það þurfi ekki lengi að kynnast síldarverkun, síldveiðum og síldarsölu, eða síldarneyzlu í öðrum löndum t.d., til þess að sjá, hve geysilega margbrotin síldarverkunin þarf að vera og sölustarfið, til þess að allir möguleikar nýtist til fulls. Ef menn hugleiða Þetta og líta svo á það, að mjög lítið af íslenzkri síld eða nær ekkert af íslenzkri síld er flutt út t.d. í neytendapakkningum, þá hljóta menn að fara að hugsa um, hvort allir möguleikar hafi notazt eins og skyldi.

Það stendur þannig á, að ég hef tvö sumur verið talsvert fyrir norðan og austan um síldveiðitímann á vegum síldarverksmiðjustjórnar ríkisins og hef gert mér far um að fylgjast dálítið með þessum málum, átt tal við ákaflega marga síldarsaltendur og spurt m.a., hvernig á þessu standi, að ekki skuli meira af síldinni vera unnið á síldarverkunarstöðvunum og pakkað með ýmsu móti til útflutnings úr landinu. Ég hef oft fengið það svar, að það mundi að einhverju leyti stafa af því, að það væri einkasala á saltsíldinni og ekki frjáls útflutningur á henni að neinu leyti. Þess vegna vaknaði ekki áhugi hjá mönnum að leita sér sambanda erlendis varðandi síld pakkaða með ýmsu móti.

Þetta varð svo til þess, að ég og hv. 2. þm. Austf. fluttum hér frv. snemma á Þinginu um, að Það yrði gefinn frjáls útflutningur á annarri síld en þeirri, sem söltuð væri í tunnur, og raunar líka smásíld í tunnum, eftir því sem nánar yrði ákveðið í reglugerð af hendi ráðherra. Skömmu eftir að þetta frv. kom fram, var gefin út tilkynning frá síldarútvegsnefnd, formanni hennar, um, að síldarútvegsnefnd hefði litið svo á undanfarið, að síld í neytendapakkningum kæmi ekki undir einkasölu síldarútvegsnefndar. Þetta kom mér algerlega á óvart, og ég er alveg viss um, að þetta hefur verið mörgum saltendum algerlega hulið.

Nú skiptir í raun og veru ekki aðalmáli, hvað rétt er í þessu, hvort síldarútvegsnefnd hefur ætlazt til, að þetta væri frjálst, eða ekki. Aðatatriðið er, að mönnum hefur áreiðanlega ekki verið ljóst, að þetta væri frjálst, og ár eftir ár lifað í þeirri trú, að þetta væri bundið.

Ég hef líka athugað söluleyfisbréf ráðuneytisins til síldarútvegsnefndar, og þar stendur fortakslaust, að n. hafi einkasölu á allri saltsíld, og ekkert undantekið í því efni. Og mér er ekki kunnugt um, að síldarútvegsnefndin hafi látið ganga nokkrar tilkynningar eða yfirlýsingar um, að síld í alls konar neytendapakkningum væri undanþegin einkasölu.

En þetta er í raun og veru ekki ástæða til að kýta um nú. Aðalatriðið er, hvernig þessu verður komið fyrir í framtíðinni. Og ég stóð hér upp til að láta í ljós ánægju mína yfir því, að einmitt í þessu frv. er tekið fram skýrum stöfum, að söltuð síld í neytendaumbúðum sé undanþegin ákvæðum þessara laga og þar með utan valdsviðs síldarútvegsnefndar. Þarna er tekið upp annað aðalatriðið úr því frv., sem við höfum flutt, og fagna ég því. Úr þessu getur ekkert farið á milli mála um þetta. Síld í neytendaumbúðum er undanfelld Þeirri einkasölu, sem síldarútvegsnefnd fær, og vænti ég Þá, að öllum aðilum verði gert ljóst, hvernig ástatt er um þetta. Ætti þá að vera trygging fyrir því, að síldarsaltendum væri óhætt að leggja verk og einhvern kostnað í að kynna sér nýtízkupakkningar á síld, neytendapakkningar á síld, og útvega sér sambönd erlendis.

Með þessu ákvæði er gert ljóst, að þetta er frjálst, og það vona ég, að þetta verði látið fréttast svo skörulega, að öllum hlutaðeigandi verði þetta ljóst. Það vakti fyrir mér og þeim félaga mínum, sem flytjum frv., sem ég var að geta um áðan, að fá algerlega úr þessu skorið. Ég er því að sjálfsögðu alveg sammála þeim, sem hafa undirbúið þetta frv., að það sé nauðsynlegt að taka þetta fram skýrt, svo að ekki verði um villzt. Ég vil gera mér vonir um, að það yrði einhver árangur af því, að þannig yrði þessu háttað. Þó að ég hafi Þannig stungið upp á því að gera þetta tvímælalaust frjálst, með þeim rökum, sem ég hef verið að greina, þá er ég alveg sammála um, að Það á ekki að gefa síldarverzlunina almennt frjálsa. Það á að halda áfram að hafa það fyrirkomulag, sem verið hefur á sölu saltsíldar í tunnum, og er ég þá auðvitað líka alveg samþykkur þessu frv. að því leyti.

Okkur flm. hins frv. datt í hug, að það mundi vera rétt að undanþiggja einkasölunni smásíldina. En það hafa ýmsir glöggir menn talið mörg tormerki á því og sagt, að það væri mjög erfitt að draga línurnar í því efni. Okkur datt þetta í hug vegna þess, að svo mikið er talað um, að athyglin beindist allt of einhliða að því að selja hinar stærri tegundir síldar, en minna væri unnið að því að selja smærri síldina, sem kölluð væri lakari vara. Því vildum við, að til athugunar kæmi á hv. Alþ., að smásíldin saltaða yrði gefin frjáls. En við viðurkennum, að erfitt sé að draga mörkin í því efni og gæti valdið erfiðleikum í síldarverzluninni. Að svo stöddu beygi ég mig alveg fyrir þeim rökum, sem fram hafa verið færð við mig varðandi það atriði. Hef ég því upp á síðkastið aðallega haft áhuga fyrir því, að verzlun með síld í neytendapakkningum yrði alveg frjáls.