16.10.1961
Efri deild: 4. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það frv., sem nú er hér til 1. umr., er gamall kunningi að meginstofni til, þó að því fráskildu, eins og hæstv. fjmrh. reyndar hefur þegar getið um, að 5. gr. þess, um viðbótarsöluskattinn, er ný í þessu árlega framlengingarfrv. Það má heita orðin föst og undantekningarlaus venja hin síðari ár, að á hverju reglulegu Alþingi sé lagt fram og afgreitt frv. sem þetta um áframhaldandi heimild til þess að heimta inn á næsta fjárlagatímabili þar til tekna skatta og gjöld með viðauka. Þessi venja er orðin svo föst og rótgróin, að almennt mun nú orðið litið á þessa skattaviðauka, bæði af þingmönnum og öllum almenningi, sem varanlega skatta þrátt fyrir þetta sérstæða form, sem á er haft. Þó að segja megi, að þessi árlega lagasetning skapi óþarfa umsvif, Þar eð raunverulega er um fasta og varanlega skatta að ræða, vil ég þó alls ekki finna að þeim starfsháttum út af fyrir sig, sem sagt að árlega sé að formi til leitað álagningarheimildar Alþingis. En ég vil undirstrika, að í reyndinni og í vitund almennings, eins og ég áðan sagði, er þarna um að tefla skatta, ákveðna alveg óákveðið og til ófyrirsjáanlegs tíma, hvað sem öllu formi á þessu liður. Um þetta frv. hefði því vissulega ekki verið ástæða til þess að ræða, ef ekkert nýtt hefði þar komið fram. En eins og þegar hefur verið sagt, er ákvæði 5. gr. um viðbótarsöluskattinn nýtt í þessu framlengingarfrv., og það er þetta atriði frv., sem gefur mér tilefni til nokkurra orða.

Hjá því verður ekki komizt að mínum dómi að gera nú þegar á þessu stigi málsins nokkrar athugasemdir við þetta efni frv., 8% viðbótarsöluskattinn. Um leið og viðbótarsöluskatturinn er tekinn inn í þetta fasta framlengingarkerfi og þar með viðurkennt, að honum sé í raun og veru ætlað varanlegt frambúðargildi um ófyrirsjáanlegan tíma, þykir mér full ástæða til við 1. umr. málsins að minna aðeins á og rifja upp stuttlega tilurðarsögu þessa söluskattsviðauka, enda þótt því verði að sjálfsögðu síðar við 2. umræðu málsins gerð miklu fyllri skil.

Það var vitað, þegar löggjöfin um efnahagsmál var sett árið 1960, að í kjölfar hennar mundi sigla almennur söluskattur, og enn fremur, að haldast mundi sá innflutningssöluskattur, sem þá hafði verið um skeið. Hins vegar var ekki á það minnzt, að innflutningssöluskatturinn ætti að hækka. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir almennum söluskatti að upphæð 280 millj. kr., og í greinargerð þess frv. var orðrétt sagt: „Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi, en hann er áætlaður 154 millj. kr. með hliðsjón af reynslu s.l. árs og áhrifum væntanlegra efnahagsaðgerða.“ Í athugasemdum og umræðum um efnahagsmálafrv. á sínum tíma var aldrei að því vikið, að áformað væri að breyta söluskatti af innflutningi, og í áróðursbæklingi ríkisstj., Viðreisn, sem svo var kallaður og út var gefinn á ríkiskostnað, svo sem frægt er orðið, var sagt frá því, að nýr, almennur söluskattur yrði lagður á allar nauðsynjar landsins barna, frá vöggu til grafar, en jafnframt tilkynnt, að innflutningssöluskattinum skyldi ekki breytt. En þegar söluskattsfrv. nokkru síðar var lagt fram, kom nokkuð annað í ljós, svo sem flestum hv. þdm. mun enn í fersku minni.

Þrátt fyrir yfirlýsingu ríkisstj. um, að hún ætlaði sér ekki að breyta þágildandi söluskatti af innflutningi, kom í ljós að hún meir en tvöfaldaði hann, eða úr 7 og upp í 15%, eða þó öllu heldur úr 7.7% upp í 16.5%. Í greinargerð söluskattsfrv. sagði þá, að m.a. af því, að hinn almenni söluskattur, 3% skatturinn, kæmi ekki til framkvæmda fyrr en nokkuð væri liðið af árinu, þá væri fyrirsjáanlegt, að með honum einum saman fengist ekki sú fjárhæð, sem frv. til fjárlaga gerði ráð fyrir. Síðan segir í grg. með söluskattsfrv. orðrétt svo: „Hefur því verið horfið að því til bráðabirgða að afla þess, sem á vantar, með viðbótarsöluskatti á innfluttar vörur. Er áætlað, að til þess þurfi að hækka núgildandi innflutningssöluskatt um 8% eða úr 7% í 15%, og er lagt til, að sú hækkun gildi til ársloka 1960.“ Þetta átti svo sem ekki að verða neinn varanlegur skattur eða standa um langan, ófyrirsjáanlegan tíma, heldur átti þetta aðeins að vera bráðabirgðaúrræði til að brúa bilið, sem varð af því, að almenni neyzlusöluskatturinn varð ekki innheimtur allt árið, vegna þess að almenni neyzlusöluskatturinn var ekki innheimtur á fyrsta ársfjórðungi 1960. Í ræðu, sem ég hélt þá við meðferð söluskattsfrv., leyfði ég mér að vefengja þetta fyrirheit hæstv. ríkisstj., og fleiri stjórnarandstæðingar tóku nú í þann strenginn og létu í ljós, að vafasamt mundi vera, að stjórnin stæði við það fyrirheit sitt að fella þennan viðaukasöluskatt niður um n.k. áramót. En stjórnarsinnar voru þá ákaflega hneykslaðir af þessum getsökum í ríkisstjórnar garð. Svo leið tíminn, og í draumalandi efnahagsaðgerðanna hefur hann sjálfsagt liðið hjá hæstv. ríkisstj. í áhyggjuleysi, og ef til vill hefur hún getað tekið undir með skáldinu og sungið: „Ég vissi ei, hvernig tíminn leið“, — en eitt er víst, að í desembermánuði vaknaði stjórnin upp við vondan draum og varð þess vör, að hugsa þyrfti fyrir næsta ári. Og viti menn, þá var lagt fram frv. um breytingu á bráðabirgðaúrræði söluskattslaganna, á þá lund, að í stað orðanna „til ársloka 1960“ skyldi koma: til ársloka 1961. M.ö.o.: bráðabirgðaviðbótarsöluskatturinn skyldi innheimtur allt árið 1961. Og hverjar voru ástæðurnar? Í athugasemdum við það lagafrv. sagði orðrétt: „Það er stefna ríkisstj. að afgreiða fjárlög fyrir árið 1961 hallalaus án þess að leggja á nýja skatta eða aðflutningsgjöld. Til þess að svo megi verða, er ekki unnt að fella niður á árinu 1961 söluskatt þann af innfluttum vörum, sem nú er í gildi samkvæmt a-lið ákvæða til bráðabirgða við lögin um söluskatt.“

Ég efast ekkert um það út af fyrir sig, að á fjárhæð þeirri, sem þarna var um að tefla, hafi þurft að halda til þess að afgreiða fjárlög hallalaust, en í munni hæstv. ríkisstj. er það að framlengja bráðabirgðaviðbótarsöluskattinn, sem úr gildi átti að falla um áramótin og samkvæmt eindregnu fyrirheiti átti ekki að framlengja, það er allt annað en að leggja á nýja skatta, en ég er hræddur um, að flestum gangi illa að gera greinarmun á þessu tvennu. Og ég hygg, að flestir verði að líta svo á, að þarna sé um hreinan orðaleik að ræða, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Og nú er svo þessi viðaukasöluskattur kominn í þetta frv., settur inn í þetta fasta framlengingarfrv., eins og ég hef áður sagt. Þar með er það af hálfu hæstv. ríkisstj. undirstrikað svo glöggt sem verða má og viðurkennt, að þessum skatti er ætlað varanlegt gildi til frambúðar, til alveg óákveðins tíma, og í athugasemdum við þetta frv., sem hér liggur fyrir, eru engar ástæður tilfærðar. Þar segir aðeins um þetta atriði, með leyfi forseta: „Þá gerir frv. ráð fyrir, að ákvæðin um 8% viðbótarsöluskatt á innfluttum vörum í bráðabirgðaákvæði við lög nr. 10 1960, um söluskatt, skuli gilda til ársloka 1962.“ Þarna er ekki hægt að segja annað en að mjög sé talað af mikilli hógværð orðið um þennan söluskatt nú.

Ég skal ekki draga það neitt í efa, að á fjárhæð þessari, 188 millj., ef ég man rétt, sem þessi viðbótarsöluskattur er áætlaður í fjárlagafrv., þurfi að halda til þess að afgreiða nú greiðsluhallalaus fjárlög. Og ég ætla ekki heldur á þessu stigi, áður en mál þetta hefur verið kannað í nefnd og áður en fjárlagafrv. hefur nokkuð verið kannað, að setja fram neinar fullyrðingar um það, hvort í raun og veru sé hægt að komast af án þessa skatts, eins og allt er nú í pottinn búið, eða ekki. En ég verð að segja það, að ég álít, að hægt væri að finna einhverjar álögur, sem betur kæmu við almenning heldur en þessi skattur gerir, því að engum blöðum er um það að fletta, að þessi skattur er stórlega dýrtíðaraukandi og bitnar þyngst á þeim, sem allra sízt skyldi. Ég vil líka segja það í annan stað, að það ætti að vera hægt að spara eitthvað á útgjaldaliðum fjárlaga, og í því sambandi get ég ekki stillt mig um að minna á það, að í hinu kunna riti, Viðreisn, sem ég áðan nefndi, var heitið algerri endurskoðun á fjármálum ríkissjóðs og því heitið, ef ég man rétt, að upp skyldi tekinn stórfelldur sparnaður. En efndir á þessu fyrirheiti hafa vægast sagt orðið fremur litlar. Staðreyndirnar hafa orðið þær, að fjárlögin hafa á því tímabili, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur setið við völd, hækkað um mörg hundruð milljónir króna, og staðreyndin er líka sú, að á þessu tímabili, sem hæstv. ríkisstj. hefur setið við völd, hefur stærri hluti af ríkistekjum en áður farið í rekstrarkostnað og rekstrargjöld, en minni hluti tiltölulega til stuðnings atvinnuvegum og til uppbyggingar. Og sparnaðurinn er þess háttar, að eftir honum hefur verið ákaflega litið tekið á þessum árum, og ég held satt bezt að segja, að hann sé fólginn í fáeinum sýndarráðstöfunum aðeins, en það sé sannast sagna, að á þessu tímabili hafi alls engar raunhæfar sparnaðarráðstafanir verið gerðar. Og til viðbótar því, sem ég sagði áðan um hitt atriðið, sem augljóst er, að skattur þessi, eins og reyndar má nú kannske segja um tolla yfirleitt, sé dýrtíðaraukandi, þá vil ég aðeins styðja mitt mál með tilvitnun í skýrslu Per Draglands, sérfræðings ríkisstj. í efnahagsmálum, sem þá var, en í þessari skýrslu segir hann orðrétt:

„Er hækkun söluskatts í innflutningi úr 7.7% í 16.5% skoðuð sem bráðabirgðaráðstöfun. Þegar hægt verður að lækka skattinn aftur, mun það eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, hafa í för með sér 3% sparnað fyrir vísitölufjölskyldu.“ Og síðan heldur Dragland áfram: „Slík lækkun ætti að mínum dómi að ganga fyrir, jafnskjótt og hægt er að framkvæma hana, ekki sízt vegna þess, að eftir gengislækkunina situr Ísland uppi með óvenjuháa tollvernd, sem ekki aðeins gerir vörurnar dýrari, heldur getur einnig hvatt til framleiðslu og atvinnurekstrar, sem hvorki í bráð né lengd er hagkvæmur fyrir heildina. Á sama tíma sem bæði útgerðina og fiskvinnslustöðvarnar skortir vinnuafl, ber að forðast eins og unnt er að opna leiðir fyrir atvinnurekstur, sem aðeins getur þrifizt í skjóli hárra tollmúra.“

Þetta sagði trúnaðarmaður hæstv. ríkisstj., Per Dragland, og við þau orð hans þarf ég hér ekki í sjálfu sér neinu að bæta. Og ég skal ekki hafa þessi orð um þetta mál öllu fleiri á þessu stigi málsins. En það, sem ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á á þessu stigi og við þessa 1. umr. málsins, er þetta, að með upptöku viðbótarsöluskattsins í þetta frv., — þetta árlega frv., — er frambúðargildi af hálfu hæstv. ríkisstj. viðurkennt, og eftir þetta fæ ég ekki séð nema um tvennt sé að velja fyrir hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál, að játa annaðhvort hreinlega, að í öndverðu hafi verið í sambandi við það um meiri háttar reikningsskekkju að ræða eða það hafi verið hafðar uppi í sambandi við þetta mál, bæði á því fyrsta þingi, sem það fékk til meðferðar, og eins á því næsta, blekkingar, hreinar blekkingar, þar sem því var haldið þá fram í bæði skiptin, að þarna væri um bráðabirgðaúrræði að ræða, en nú liggur það hreint fyrir og er játað af hæstv. fjmrh., óbeint þó, að þetta hljóti að standa áfram, — jafnvel þótt því sé nú áætlaður takmarkaður tími, þá muni verða að taka það til athugunar í sambandi við samningu tollskrár, og þegar við heyrum það, þá vitum við, hvað klukkan slær.