16.10.1961
Efri deild: 4. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera margorður, því að ég þarf svo sem ekki neinu að svara af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, þar sem hann gat ekki, sem vonlegt var, vefengt, að ég hefði farið með rétt mál í minni frumræðu að því er varðaði tilurðarsögu þessa söluskatts. Þannig varð hæstv. fjmrh. að viðurkenna, að ég hefði farið með rétt mál og vitnað rétt í grg. fjárlagafrv., þar sem því var lýst yfir á sínum tíma, að það væri ekki áformað að breyta söluskatti af innflutningi. En hæstv. fjmrh. reyndi að verja sig með því, að þetta fjárlagafrv. hefði verið samið í janúarmánuði og þá hefði ekki allt málið legið svo ljóst fyrir sem þrem mánuðum síðar, þegar söluskattsfrv. var samþykkt, og hæstv. fjmrh. tíndi einkum til þrjár ástæður, sem hefðu valdið því, að það hefði orðið að hverfa að því ráði síðar að hækka þennan innflutningssöluskatt. Ástæðurnar voru þessar, að það hefði orðið að ráði að undanþiggja fleiri vöruflokka söluskatti en upphaflega hefði verið ráðgert. Í öðru lagi, að það hefðu glatazt þrír mánuðir af árinu 1960 í innflutningi af innflutningssöluskattinum, og í þriðja lagi hefði, þegar fjárlagafrv. var samið, ekki verið alveg búið að hnitmiða það, hvort sá illræmdi, almenni söluskattur yrði 3% eða jafnvel farið með hann upp í 4–5%. Ég get að sjálfsögðu ekki sagt um það, hvað hefur verið á yfirvegunarstigi hjá hæstv. ríkisstj. í janúarmánuði 1960, og má vel vera, að það hafi þá verið í ráði hjá henni að leggja söluskattinn á mannvirkjagerð, eins og mér skildist á hæstv. fjmrh. Enn fremur má það vel vera, að það hafi verið hugleitt þá hjá hæstv. ríkisstj. að hafa almenna neyzluskattinn 4 eða jafnvel 5%. En ég hygg, að það standi þó eftir og hafi verið fært þá fram sem meginástæða fyrir viðbótarsöluskattinum, sem og hæstv. fjmrh. veit, að til hans hafi þurft að grípa af því, að ekki hafi verið hægt að innheimta söluskattinn á fyrsta ársfjórðungi 1960. En einmitt þetta sannar bezt, að það var þá hugsað af hálfu ríkisstj., að því er virtist, að þetta væri bráðabirgðaúrræði, og áreiðanlega er það ekki of fast að orði kveðið og ekki vitnað skakkt til hæstv. fjmrh., að hann hafi í umr. á Alþ. þá látið það í veðri vaka, að þessi skattur yrði ekki framlengdur, því þó að ég muni ekki ákveðin orð hæstv. fjmrh. til að tilfæra í þessu sambandi, man ég það vel, að bæði ég og aðrir spáðum því, að þessi skattur mundi verða framlengdur á sínum tíma, en eins og ég sagði áðan, var því tekið mjög illa af hæstv. ríkisstj. og talið, að við færum þar með mjög ósæmilegar og ómaklegar getsakir í garð hæstv. ríkisstj. Þessu getur hæstv. fjmrh, alls ekki mótmælt með góðri samvizku. Enn fremur kom það greinilega fram í sambandi við meðferð viðaukasöluskattsins, að stjórnarsinnar og ég tala nú ekki um málgögn hæstv. ríkisstj. túlkuðu það, — og ég skal óhræddur fletta með hæstv. fjmrh. í gegnum mörg eintök Morgunblaðsins og Alþýðublaðsins, þar sem þetta mun standa skýrum stöfum, — að þessum viðbótarsöluskatti væri aðeins ætlað að gilda til áramóta. En þeir hafa e.t.v., þeir ágætu blaðamenn við þau blöð, ekki kynnt sér nægilega rækilega orðalag á ræðum hæstv. fjmrh., eða hugsanlegt er, að ekki hafi verið alveg nægilega ljós og ótvíræð í þessu efni sú hyggja hans, sem hann taldi hafa komið fram í sínum ummælum, að gera mætti ráð fyrir, að framlengja þyrfti þennan söluskatt.