31.10.1961
Efri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls var rakinn nokkuð aðdragandi þess, og ég ætla, að þá hafi verið sýnt fram á í fyrsta lagi, hverjar ástæður lágu til þess, að þessi 8% innflutningssöluskattur var fyrst lögleiddur snemma árs 1960. Ég benti þá eins og raunar margsinnis áður á þær þrjár ástæður, sem til þess lágu. Svör hv. stjórnarandstæðinga eru þessi: Þeir minnast ekki á nema eina ástæðuna, hún hafi aðeins verið fyrir hendi fyrsta árið, því séu engar ástæður til að framlengja þennan söluskatt.

Ástæðurnar þrjár voru þessar: Í fyrsta lagi, að þegar frv. um söluskatt var samið, nokkrum mánuðum eftir að fjárlagafrv. hafði verið samið, var niðurstaðan sú, að ekki þótti fært að hafa skattinn hærri en 3%. Til að ná þeim upphæðum, sem þurfti, hefði hann þurft að vera nokkru hærri. Í öðru lagi voru stórir flokkar undanþegnir söluskatti, sem í upphafi hafði komið til orða að leggja einnig söluskatt á, eins og mannvirkjagerð í landinu. Í þriðja lagi var svo það, að árið 1960 gat söluskatturinn ekki gilt nema í þrjá ársfjórðunga. Þessi síðasta ástæða átti auðvitað eingöngu við árið 1960. Hinar tvær eiga við áfram, og ég fæ ekki skilið þá röksemdafærslu, að þegar þrjár ástæður liggja til einhverra aðgerða eða lagasetningar og ef ein þeirra á ekki lengur við, þá séu þar með hinar af sjálfu sér úr sögunni. Þessi er röksemdafærsla hv. stjórnarandstæðinga.

Í öðru lagi var sýnt fram á það hér við 1. umr., að það væri uppspuni frá rótum, að fyrirheit hafi verið gefin eða loforð af hálfu ríkisstj. eða minni hendi um það, að þessi skattur mundi alls ekki verða framlengdur, vegna þess að það er skjalfest í umr. frá þingi margsinnis, að ég tók það einmitt skýrt fram, að engin slík fyrirheit væri hægt að gefa, þvert á móti yrði að sjá til haustið 1960, þegar fjárlög yrðu samin eða undirbúin, hvort þyrfti á þessum tekjustofni að halda áfram eða ekki. Ég skal ekki rifja þetta upp frekar, enda var það mál þaulrætt við 1. umr., eins og raunar á tveimur undanförnum þingum ýtarlega.

Nú er óneitanlega dálítið einkennilegur þessi taugatitringur, sem grípur hv. stjórnarandstæðinga út af þessum 8% innflutningssöluskatti, því að þess er að gæta, að innflutningssöluskattur er ekki eitthvert uppátæki, sem núv. ríkisstj. hefur fundið upp á. Innflutningssöluskattur hefur verið hér í gildi lengi. T.d. var 7% innflutningssöluskattur í gildi allan stjórnartíma vinstri stjórnarinnar, án þess að hún gerði nokkuð til að hreyfa þar við. Og ekki aðeins það, heldur man ég ekki betur en sú stjórn, sem þessir hv. þrír þm., sem hér hafa talað við þessa umr. og andmælt frv., studdu, hafi staðið að því, ekki aðeins að halda þessum 7% innflutningssöluskatti, heldur leggja á stórkostleg ný aðflutningsgjöld, sem kölluð voru innflutningsgjöld og lögleidd voru haustið 1956 og síðan hækkuð. Þess vegna er ekki hægt að taka það hátíðlega, þó að þessir hv. þm. séu nú að hneykslast á því, að aðflutningsgjöld séu há, því að ekki aðeins var þeim viðhaldið, heldur stórhækkuð í tíð vinstri stjórnarinnar.

Vitanlega er hægt að ræða um það, og það hef ég komið inn á oft í umr. á Alþingi, að aðflutningsgjöldin í heild eru að mínu viti allt of há. En það er ekki sérstaklega þessi 8% innflutningssöluskattur, sem gerir meiri bölvun en önnur innflutningsgjöld. Vitanlega verður að taka aðflutningsgjöldin í heild, hvaða nafni sem þau nefnast. Ég sé ekki annað en þau hafi svipuð áhrif á vöruverðið, hvort það heitir 7% innflutningssöluskattur eða innflutningsgjöld eða verðtollur eða verðtollsviðauki eða eitthvað annað þess háttar. Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað ekki það sérstaklega að taka einn lið út úr, einn tekjustofn, einn lið af þessum aðflutningsgjöldum, heldur reyna að lækka aðflutningsgjöldin í heild.

Nú spyr hv. 4. þm. Vestf., hvernig það megi vera, að hægt sé að lækka aðflutningsgjöld með því einu móti að sameina þau, og mig undrar ekki, þó að hann spyrji. Mig undrar það ekki, því að ég hef ekki heldur komið auga á, að með sameiningunni einni væri hægt að lækka aðflutningsgjöld, svo að hann verður að spyrja fleiri en mig til þess að fá svar við þessari spurningu sinni. Þegar ég talaði um, að aðflutningsgjöld mundu væntanlega geta lækkað, þá er það fyrst og fremst af öðrum ástæðum. Ég tel nauðsynlegt að sameina og samræma aðflutningsgjöldin, m.a. til þess að spara vinnu, skriffinnsku og óþarfa tímaeyðslu, bæði hjá því opinbera og hjá atvinnurekendum og innflytjendum. Hins vegar tel ég, að hægt sé að lækka aðflutningsgjöldin af öðrum ástæðum, og það er fyrst og fremst ef tekst að koma í veg fyrir þann gífurlega ólöglega innflutning eða smygl, sem hér hefur átt sér stað um margra ára skeið. Og það er ekkert launungarmál, að þó að smygl hafi vafalaust átt sér stað um langan aldur hér á Íslandi, þá keyrði um þverbak eftir jólagjöf vinstri stjórnarinnar 1956, þegar innflutningsgjöldin voru á lögð og margar vörur hækkuðu svo stórkostlega í verði, og allar skýrslur, hagskýrslur, innflutningsskýrslur, benda til þess, að þá fyrst hafi smygl verulega færzt í aukana. Nú eru í undirbúningi ýmsar ráðstafanir til þess að reyna að draga úr þessu smygli, og það er sannfæring mín, og hún er byggð á áliti margra hinna kunnugustu manna, sem fjalla um tollamál og tolleftirlit hér á landi, að með því að koma einhverju viti í hæð aðflutningsgjaldanna, — en eins og kunnugt er, fara þau upp fyrir 300% á vissum vörutegundum, — með því að koma einhverju viti í þetta og með strangari tollskoðun og tolleftirliti megi draga verulega úr smyglinu. Það þýðir, að miklu meira af vörum kemur undir hinn löglega tollinnflutning, og þar með mundu tolltekjur ríkissjóðs hækka af þeim ástæðum.

Þetta vænti ég að sé fullnægjandi svar til hv. 4. þm. Vestf.

Hv. frsm. 1. minni hl., ætla ég það hafi verið, þ.e. 1. þm. Norðurl, e. (KK), hann sagði, að með því að ákveða framlengingu þessa innflutningssöluskatts í þessu frv. um framlengingu á bráðabirgðabreytingu nokkurra laga, væri verið að lauma þessum söluskatti hér inn, væntanlega þannig, að hvorki þingmenn né þjóðin tæki eftir því. Mér finnst þetta lýsa ákaflega litlu trausti og trú á athygli alþingismanna, að það muni fara fram hjá þeim, að það sé verið að framlengja skattstofn upp á 188 millj. A.m.k. hef ég ekki þá trú — eða ekki þá vantrú, skulum við segja, á athyglisgáfu þingmanna, að slíkt fari fram hjá þeim, þó að þessi hv. þm. telji alþm. svo skyni skroppna. En út af þessu má einnig taka það fram, að í grg. frv. er alveg sérstaklega skýrt tekið fram, að þetta nýmæli sé í frv., að nú sé aukning 8% söluskattsins tekin þar inn í. Ég ætla, að í framsöguræðu minni hafi það komið allgreinilega fram. Hvað væri unnið við að kljúfa þetta frv. í tvö? Ég sé það ekki. Ég held fremur, að það verði að teljast til aukinnar hagkvæmni í vinnubrögðum að hafa þetta í einu frv. og láta þannig nægja sex umr. í þingi í staðinn fyrir tólf.

En það er annað í þessu máli, sem er rétt að vekja athygli á. Hér er um að ræða, eftir fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fyrir þingið, tekjustofn, sem nemur 188 millj. kr. Hv. stjórnarandstæðingar leggja til, að þessi tekjustofn sé felldur niður. Og á það var bent réttilega af hv. frsm. meiri hl., að varla er hægt að taka þetta alvarlega, þegar engar ábendingar koma fram um það, hvernig á að mæta þessu. Er það ætlun þessara þingmanna að afgreiða fjárlögin þá með þessum greiðsluhalla? Er það ætlunin að fella niður einhverjar ákveðnar fjárveitingar til að mæta þessu — og þær þurfa að vera allríflegar? Eða er ætlunin að afla ríkissjóði tekna á annan veg? Þessu hafa hv. þingmenn ekki svarað, nema hv. síðasti ræðumaður. Hann gefur okkur eiginlega fyrirheit um það, að Framsfl. muni taka það til athugunar fyrir jól, þegar fjárlögin koma til meðferðar. Og það er vissulega góðra gjalda vert, ef við heyrum eitthvað frá honum þá. En einhvern veginn stendur það þannig í mínum huga, að mér fyndist eðlilegra, áður en þessi gr. frv. er felld niður, að þá heyrðist eitthvað frá þessum mönnum, sem vilja fella niður þennan tekjustofn, hvað á að koma í staðinn, en ekki að bíða fram undir jól.

Hv. þingmenn vilja sem sagt fella þennan tekjustofn niður. En það snertir ekki aðeins ríkissjóð. Af þessum tekjustofni eiga sveitarfélögin að fá fimmtung, eða 37.6 millj. kr. Nú er ástæða til að spyrja sérstaklega hv. frsm. 1. minni hl., hv. 1. þm. Norðurl. e., sem jafnan hefur verið mikill áhugamaður og framámaður um hagsmunamál sveitarfélaganna og er jafnan í trúnaðarstörfum fyrir samband þeirra: Hvers eiga sveitarfélögin að gjalda, að hann ætlar að svipta þau nú tekjustofni upp á 37.6 millj. kr., án þess að hann hafi nokkra till. um það að gera, hvað sveitarfélögin eiga að fá í staðinn? Eða er það ætlun hans að benda sveitarfélögunum á það, að þau eigi bara að hækka útsvörin aftur sem þessu nemur?

Hv. frsm. 2. minni hl., hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ), mælti hér mjög ákaft gegn stefnu núv. ríkisstjórnar í skattamálum. Hann vill hækka aftur beina skatta, en lækka söluskatta og aðflutningsgjöld, að því er virtist. Hann nefndi sig og sína samherja á þessa leið: „Við, sem erum formælendur beinna skatta.“ Nú skal ég ekki í þessu sambandi fara inn á almennar umræður um beina eða óbeina skatta. Ég hef mínar skoðanir á því og fer ekki dult með það, að ég tel, að við þurfum að gæta hófs í hinum beinu sköttum, þannig að þeir verði ekki til þess að draga úr framtaki manna og vinnusemi, og um leið gæta hófs um hina beinu skatta þannig, að skattsvikin verði ekki stórfelld, eins og þau því miður hafa verið hér á undanförnum árum. Í annan stað hef ég einnig minnzt á það, að við þurfum að lækka aðflutningsgjöldin, sem eru óhóflega há. En mér kemur í hug eitt atriði í sambandi við þessar stefnuyfirlýsingar hv. 5. þm. Norðurl. e., þar sem hann vill draga úr óbeinum sköttum, sölusköttum sérstaklega, en hækka í staðinn beina skatta. Fyrir nokkrum dögum bárust mér í hendur tvær greinargerðir, sem samdar voru af skattamálayfirstjórn Sovétríkjanna, þar sem gerð er grein fyrir stefnu Sovétríkjanna og kommúnistanna þar í skattamálum. Og þar er stefnan þegar mörkuð, alveg ákveðið. Það er byrjað að lækka og afnema tekjuskattinn, þ.e.a.s. beinu skattana, og það er ekki eins og hjá okkur, að hann sé felldur niður á almennum launatekjum, en ætlunin sé að halda tekjuskatti að töluverðu marki á hinum hærri tekjum og atvinnurekstri, heldur er það mörkuð stefna Sovétríkjanna að fella niður allan tekjuskatt og hafa lokið því innan fjögurra ára. Þar er fjögurra eða fimm ára áætlun eins og oft áður hjá þeim ágætu herrum, en það er í árslok 1964, að ég ætla, sem á að vera búið, eftir þessari áætlun kommúnistanna, að fella niður allan tekjuskatt í Sovétríkjunum. (BjörnJ: Það skyldi nú koma upp úr dúrnum, að hæstv. ráðh. væri meiri aðdáandi Sovétríkjanna en ég?) Nú hef ég ekkert sagt um aðdáun mína eða gagnrýni á þessu, heldur er ég að skýra frá staðreyndum. Nú er það ekki þannig, að í Sovétríkjunum væri hægt að réttlæta þetta með því, að þar væru allir nokkurn veginn jafnháir í tekjum, því að það vita allir, að óvíða í veröldinni er launamismunur jafnmikill og þar. Gæðingarnir, sem þar eru nú í náðinni, flokksleiðtogarnir og aðrir slíkir, hafa svo margföld laun á við verkamenn, að slíkur launamismunur þekkist ekki þar, sem ég veit til. Og ef þessi gagnrýni hv. þm. er rétt, að við þær tekjuskattsbreytingar, sem hér voru gerðar í fyrra, hafi það verið tekjuhærri menn, sem nutu mests góðs af, hvað er þá að gerast í þessu dýrðarríki þar eystra? Þegar búið er að afnema allan tekjuskatt innan fjögurra ára, ætli það verði þá ekki hátekjumennirnir og foringjarnir, sem hafa haft aðalhagnaðinn og hann margfaldan á við verkamennina? Nú skýri ég ekki frá þessu hér til þess að taka undir þessa stefnu, því þó að ég telji, að lagfæra þurfi mjög skattalög hér, hef ég ekki verið því fylgjandi að fella niður með öllu tekjuskatta eða beina skatta. En ég minni hv. þm. á þetta hér, því að það virðist eftir þessu, að hann sé orðinn ákaflega tæpur á línunni, og ég verð að segja, að mér þykir það leitt, ef þessi hv. þm., sem persónulega er margt gott um, fær nú bágt fyrir hjá húsbændunum þar eystra.