31.10.1961
Efri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Af ræðum hv. stjórnarandstæðinga hér um þetta mál hefur það komið fram, að þeir eru einkum andvígir hinum svonefnda viðaukasöluskatti í tolli. Ég get ekki tekið undir skoðanir þeirra í Þessu máli, þar sem ég held, að til þess að taka afstöðu til ákveðinna skattaálagninga verði maður fyrst og fremst að gera sér grein fyrir tvennu, og það sé í fyrsta lagi, hvort ríkið hafi þörf fyrir þennan skatt, og í öðru lagi, hvort það væri heppilegra að leggja þennan skatt niður og ná þessum tekjum á einhvern annan hátt, með einhverri annars konar skattálagningu. Nú skilst mér á hv. stjórnarandstæðingum, að þeir mæli því ekki móti, að ríkið hafi þörf fyrir þessar tekjur, og þá hlýtur spurningin að vakna um það, hvort ríkið geti aflað þessara tekna að þeirra dómi á einhvern annan heppilegri hátt. Það hafa þeir ekki bent á. Að vísu hefur einn af þessum hv. þm. talað um, að það gæti komið fram við afgreiðslu fjárlaga, en skatta á að leggja á með lögum, en ekki með fjárlögum, þannig að það væri út af fyrir sig grundvöllur fyrir því, að þetta kæmi fram strax. En ef maður lítur til baka til síðasta árs, getur maður í raun og veru ekki tekið þetta alvarlega, sem þeir segja nú, því að þá börðust þeir líka á móti viðaukasöluskattinum í tolli, þá voru þeir beðnir að benda á leiðir, og þá bentu þeir ekki á neinar aðrar leiðir til að afla þessara tekna fyrir ríkið. Og þó að þeir lofi nú einhverjum ábendingum fyrir jól, tekur maður það mátulega hátíðlega.

Þessir hv. þingmenn hafa talað nokkuð almennt um skattamálin og gagnrýnt þá alveg sérstaklega, að þegar hin mikla lækkun fór fram á tekjuskatti, hafi tekjuskatturinn lækkað of mikið að þeirra dómi á hátekjumönnum. Ég vil aðeins minna á, að þegar tekjuskattsfrv. var hér til afgreiðslu á Alþ., báru þessir hv. stjórnarandstæðingar úr andstöðuflokkunum ekki fram neinar tillögur um það, að þeir vildu hafa annaðhvort stigann á hátekjumönnunum óbreyttan frá því, sem hann var áður, eða láta hann lækka minna en frv. ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir. Það skyldi maður þó ætla að væri frumskylda stjórnarandstöðunnar, þegar hún er að berjast gegn einhverju, að hún bendi þá á, hvað hún vill láta koma í staðinn eða hvort hún vill hafa hitt óbreytt. Stjórnarandstaðan sat hjá, er greidd voru atkv, um þessa gr., og með þeim bágborna fyrirvara, ef ég man rétt, að þeir væru samþykkir sumu, þ.e.a.s. niðurfellingunni á lágtekjurnar, en þeir væru hins vegar andvígir svona mikilli lækkun skatts á háu tekjunum, þess vegna sætu þeir hjá. Það var auðvitað hægt fyrir þá að gera brtt., þó að þeir gerðu það ekki við alla greinina, heldur aðeins hluta úr henni, þannig að þetta var í sjálfu sér engin afsökun.

Það er því í raun og veru dálítið erfitt að rökræða þetta atriði, þar sem það liggur ekkert fyrir, engar ákveðnar tillögur um það frá stjórnarandstöðunni, hvað hún vill í þessu máli.

Að öðru leyti skal ég ekki fara út í skattamálin almennt. Mér fannst, að hv. 5. þm. Norðurl. e. héldi hér alveg sömu ræðuna og í fyrra, og ég ætla ekki að fara að endurtaka hér andsvör mín við henni þá. Það má, alveg eins og hæstv. fjmrh. drap á, í raun og veru óska þessum hv. þm., 5. þm. Norðurl. e., til hamingju með það, að hann skuli þó hafa haldið þessa ræðu sína um skattamálin hér á Alþ., en ekki á flokksþinginu fyrir austan, því að þá hefði hann hiklaust verið stimplaður flokksfjandi og fengið þá útreið, sem þeir eiga von á, sem slíkan stimpil fá á sig.

Hv. 4. þm. Vestf. (SE) var að gagnrýna söluskattinn og reyndar hneykslast á því, að núv. ríkisstj. hefði lagt þennan skatt á. Ég vil aðeins af því tilefni rifja upp, að þegar flokkur þessa hv. þm. var í ríkisstj., en Alþfl. var utan ríkisstj., var lagður á söluskattur, og sá söluskattur var lagður á án þess, að beinir skattar væru lækkaðir á móti, og hann var lagður á án þess, að hluti af þeim söluskatti gengi til sveitarfélaganna til þess að lækka útsvörin, svo að það situr sízt á þessum hv. þm. að vera að hneykslast á álagningu söluskatts og hans flokksbræðrum.