31.10.1961
Efri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð út af ræðu hæstv. fjmrh. Ég bað hann í fyrri ræðu minni að nefna dæmi um það, hvernig núv. stjórnarflokkur, Sjálfstfl., hefði bent á fjáröflun á árum vinstri stjórnarinnar, þegar hann lagði til að fella mál fyrir þeirri stjórn. En hann nefndi ekkert dæmi, og ég er ekkert að lá honum það, ég get vel skilið það.

Hann taldi ástæðulaust af okkur að vera að fetta fingur út í 8.8% söluskattinn, af því að það hefði verið söluskattur áður, 7.7%. En skiptir það kannske engu máli fyrir fólkið í landinu, hvort 7.7% söluskattur er hækkaður upp í 16.5% og þar á ofan bætt 3% söluskatti af öllum vörum í smásölu? Ef þetta væri nægileg röksemd, mætti alveg eins hækka söluskattinn upp í 80% og segja: Það er ekkert við hann að athuga, því að það var 7% söluskattur hérna áður.

Hæstv. ráðh. taldi heppilegra að sameina þessi gjöld í einn innflutningsskatt eða toll. Ég er ekki að andmæla því, fjarri því, ég býst við, að það sé rétt hjá honum. En ekki eru það meðmæli með söluskattinum að gera hann t.d. að tolli, og ekki er söluskattur sama eðlis og tollur að því leyti, að tollar eru misjafnir á vörutegundum, en söluskatturinn er jafnhár á mestu lífsnauðsynjum manna eins og óþarfavarningnum. Allt þetta mælir gegn söluskattinum.

Hann gat þess, að það mundi spara vinnu að sameina þetta. Það getur verið. En ég geri varla ráð fyrir því, að hann búist við mikilli lækkun innflutningsgjalda með því einu að spara einhverja skrifstofustúlku hjá tollstjóra.

En hann lagði mikið upp úr því, að það þyrfti að afnema smyglið, og það er alveg rétt, það er nauðsynlegt. Reyndar veit ég ekki, hvaðan þeir fá þessar skýrslur yfir smyglið, sem stjórnarblöðin hafa verið að skýra frá og ræðumenn hér á hv. Alþ. Ég undrast það, hvernig þeir skuli geta talið þetta, jafnvel upp á milljónir, hvað smyglið er mikið. Hver heldur skrána yfir þetta? Hæstv. ráðh. sagði, að smyglið hefði alveg keyrt um þverbak á árum vinstri stjórnarinnar. Ekkert man ég eftir, að hann talaði um það þá eða hefði nein gögn í höndum að benda á þetta smygl. Hvaðan fékk hann þessar upplýsingar? Ekki neita ég því, að það mundi kannske hafa áhrif á smygl að lækka innflutningsgjöld og lækka þau þá eitthvað að ráði, þannig að þessir smyglarar græddu verulega minna á því að smygla. En ekki er þetta frv. um það. Það ber allt að sama brunni, það er ekki til að styðja áframhaldandi söluskatt. Og hvernig er hægt að lækka þessi innflutningsgjöld og með því koma í veg fyrir smygl? Ef það er hægt að koma í veg fyrir smygl með einhverjum ráðstöfunum, því hefur þá hæstv. ríkisstj. ekki gert það?

Nei, ég held, að ástæðan fyrir því að taka upp söluskatta í staðinn fyrir beina skatta sé önnur, hún sé sú, að það er náttúrlega auðveldara í innheimtu og að það ívilnar mjög rækilega, eins og ég nefndi, hátekjumönnunum, en leggst með meiri þunga á allan almenning, og með því móti er hægt að fá meiri tekjur, af því að það er allur fjöldinn, sem verður að greiða þessa skatta, um leið og fólkið kaupir í matinn. Ætli þetta sé ekki ástæðan? En út af aðfinnslum þeirra um það, að við gerum ekki ráðstafanir til tekjuöflunar í staðinn fyrir að fella niður þennan skatt, þá er náttúrlega fyrst og fremst því að svara, að þeir, sem hafa skapað þörfina fyrir 16.5% söluskatti, eiga sjálfir að sjá fyrir tekjunum. Hitt sagði ég og stend við, þegar þeir eru að kvarta undan því eða spyrja, hvort við ætlum að afgreiða fjárlögin með tekjuhalla, að það er ekki verið að afgreiða fjárlög og að þeir ættu að kvarta, þegar að því kemur, en það á ekki heima undir umr. um þetta mál.