31.10.1961
Efri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fram. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki í raun og veru miklu að svara af því, sem hér hefur komið fram, því að bæði hæstv. ráðh., sem hér talaði, og hv. 9. landsk. þm. (JÞ) komu hvergi við það, sem þó var aðalatriðið í minni ræðu. Það væri þá helzt það, að við, sem erum andvígir söluskattinum og sölusköttum yfirleitt, erum krafðir svara um það, hvar við vildum taka peninga í ríkissjóðinn, ef þessi skattur væri afnuminn. Ég verð að segja, að mér finnst það koma úr hörðustu átt hjá mönnum, sem hafa hækkað alla skatta og tolla til ríkissjóðs, eins og ég sagði í minni frumræðu, um rúmar 600 millj. kr. og þessar hækkanir er allar hægt að rekja til þeirrar stjórnarstefnu, sem þeir hafa fylgt, að krefja aðra um það, hvar eigi að taka fé í þá hít, sem þeir hafa skapað. En ég vil þó segja, að raunverulega fólst í minni ræðu fullkomin ábending um það, hvar ætti að taka það fé, sem ríkissjóður missti í, ef söluskatturinn yrði lagður niður. Ég taldi, að hér hefði verið fylgt þeirri stefnu að lækka óhæfilega mikið hlut beinna skatta í ríkissjóð, og sýndi fram á, að þessi tekjustofn hefur lækkað úr því að vera um það bil fimmti partur af ríkistekjunum í það að verða um líklega tólfti til fjórtándi partur, eða úr 20.7% af ríkistekjunum í 6.7%. Þarna liggur auðvitað meginástæðan fyrir því, að ríkisstj. hefur talið sér nauðugt eða sæmilegt að innheimta þennan skatt. Það má benda á það, að ef hlutur tekjuskatts í heildarskattheimtunni væri nú hinn sami og hann var 1959, þ.e.a.s. rúmlega 20%, næmi tekjuskattur nú til ríkissjóðs kringum 300 millj. kr., eða ríflega 100 millj. kr. meira en hann nú gerir, þótt engar breytingar hafi á orðið, líklega kringum 120–130 millj. meira. Ef tekjuskattar væru nú svipaðir og þeir áður voru, væri því engin þörf á að innheimta þennan skatt.

Þeirri spurningu var að vísu ekki beint til mín, heldur til hv. 1. þm. Norðurl. e., hvort hann vildi lækka hlut bæjarfélaganna í söluskattinum um 37 millj. með því að fella þennan skatt niður. Ég segi fyrir mitt leyti, mér er engin launung á því, að ég teldi hag borgaranna, sérstaklega þeirra láglaunuðu, miklu betur borgið, ef þessar 37 millj. væru lagðar á með stighækkandi útsvörum heldur en með þessum skatti, og ég fyrir mitt leyti mundi ekki hika við að fylgja því, að framlagið til sveitarfélaganna yrði lækkað um þessa upphæð, ef við yrðum þá lausir við þessa skattheimtu. Ég held þess vegna, að það sé alveg ástæðulaust fyrir hv. talsmenn ríkisstj., bæði hæstv. ráðh. og aðra, að vera með nokkrar brýningar í því sambandi, að við getum ekki bent á tekjur handa þeim til að eyða, í sína eyðsluhít, því að við værum vissulega, ef við réðum stefnunni, ekki í neinum vandræðum með þetta.

Þá er það aðeins viðkomandi því, sem hæstv. ráðh. var að fræða okkur hér á, hvernig skattamálum væri varið í Sovétríkjunum. Ég verð að játa, að ég hef ekki þann kunnugleika á, að ég geti dæmt um sannfræði hans í þeim efnum, en efa þó ekki, að hann hafi sagt þar frá alveg eins og hann bezt vissi. En ég held, að hæstv. ráðh. geti sparað sér allar brýningar gagnvart mér í þessu sambandi, að ég þurfi fyrr eða síðar að standa einhvern reikningsskap gerða minna eða stefnu í skattamálum á erlendum vettvangi. En ég hygg, að það sé nokkuð miklu meira en hægt er að segja um hæstv. ráðh. Ég vil t.d. spyrja hann, hvernig það yrði með ákvörðun skatta á Íslandi, ef Ísland gengi í Efnahagsbandalagið, hvort það mundi þá vera Alþingi Íslendinga, sem réði því, hvaða skatta við hefðum hér, hvaða aðflutningsgjöld væru á lögð, og hvort það kynni ekki að fara svo, að hann undir þeim kringumstæðum, að Íslendingar gengju í Efnahagsbandalagið, mundi þurfa að svara til á erlendum vettvangi um sína stefnu í skattamálum. Ég held, að það væri þarfara fyrir hæstv. ráðh. að hugleiða þetta heldur en vera að brýna okkur Alþb.-menn á því, að við viljum ekki fylgja hér sömu stefnu í skattamálum og sovétstjórnin gerir. En samkv. lýsingu hæstv. ráðh. virðist ríkisstj. hafa sótt sína fyrirmynd fyrst og fremst þangað, ef allt er rétt, sem hann hefur um það sagt.