22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því, að ég sé ekki, að hæstv. fjmrh. sitji í sæti sínu eða sé mættur hér í d., og af því að þetta er hans mál tvímælalaust og af því líka að búið er að vekja athygli á því, að ágreiningur sé milli mín og hans í þessu máli, þá vil ég eindregið óska þess, að fjmrh. sé viðstaddur, þegar ég flyt mína ræðu. Mér virðist ekki sanngjarnt að ætlast til þess, að ég geri mínar aths. án þess, að hann sé við. Mér finnst ekki sanngjarnt að veita honum rétt til þess að hvíla sig frá því að fylgjast með þessu máli. — Þá er hæstv. fjmrh. kominn eins og hann væri kallaður, og get ég þá þess vegna sagt það, sem ég ætla að segja.

Hv. frsm. meiri hl. talaði á þá leið, að það er ekki hægt að segja, að hann kallaði eftir neinum mótmælum, og fór það saman við það nál., sem hann var að gera grein fyrir. En nál., sem þm, hafa hér fyrir sér, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

N. hefur athugað frv. og borið saman við ríkisreikninginn. Hefur n. ekki fundið neitt athugavert við niðurstöðutölur. Leggja undirritaðir nm. til, að frv. verði samþ. óbreytt, en tveir nm. (KK og BjörnJ) munu væntanlega skila séráliti.“

Það er til gömul skrýtla, sem hljóðar eitthvað á þessa leið, höfð eftir tilteknum manni: Það er leiðinlegast við lognið, að enginn veit, hvaðan hann er. — Það má segja bæði um þetta nál. og að töluvert miklu leyti um ræðu hv. frsm., að Það er ekki gott að átta sig á því vegna lognsins, hvaðan hann er. Jú, það er sagt frá því í nál., að niðurstöðutölur hafi verið bornar saman milli ríkisreikningsins og frv. og fundizt réttar í þeim samanburði. Og út af því leggja svo hv. meirihlutamenn það til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Nú hlýtur sú spurning að vakna, til hvers ríkisreikningurinn sé lagður fyrir hv. Alþingi. Er það til þess, að þessar tölur séu bornar saman? Þyrfti svo mikið við að hafa? Ég held varla, að það eitt sé tilefnið. Vitanlega er það eitt af því, sem sjálfsagt er að gera, ég er ekki að hafa á móti því. Og ber þá Alþingi eftir því, ef það hefur samþ. reikning, aðeins ábyrgð á Því, að þessum niðurstöðutölum beri saman? Ég held, að það geti varla verið aðeins þetta formsatriði, sem verið er að fullnægja með því að leggja ríkisreikninginn árlega fyrir hv. Alþingi. Ég held, að það hljóti að vera eitthvað meira, og ég held, að þrátt fyrir lognið, sem er þarna á ferðinni, séu áreiðanlega fyrir hendi þær staðreyndir, að beri eitthvað sérstaklega út af eftir á með ríkisreikninginn, — og þá á ég ekki við það, þótt leiðréttar séu villur, sem fram kunna að koma, því að með slíkum fyrirvara eru jafnan reikningar samþ., bæði hér á hv. Alþingi og annars staðar, — en komi eitthvað sérstakt fyrir, sem gerir það að verkum, að sýnt hefur verið, að gallar hafi verið á reikningnum aðrir eða í sambandi við hann hafa verið einhverjir skuggar, sem ekki hafa verið upplýstir og í hefur falizt eitthvað það, sem telja má til ámælis fyrir Alþingi, að það hafi ekki veitt athygli, þá verður það svo, að það verður talið Alþingi til óvirðingar og vanrækslu að hafa ekki gert sér grein fyrir því.

Mál þetta er, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, búið að liggja æðilengi fyrir Alþingi. Því var útbýtt hér á Alþingi 11. des. í vetur og lagt fyrir þessa hv. d. og vísað til fjhn. sama dag. Það, sem hefur valdið því, að reikningurinn hefur ekki verið afgreiddur, er, að það er við hann tengt sérstakt mál, sem er sérstaklega mikið óreiðumál, og á ég þar við útgerð togarans Brimness. Menn vita, hvernig sú útgerð lenti á vegum ríkisins, og það þarf ekki að rifja þá sögu upp. Forstjóri var ráðinn til þess að stýra þessari útgerð fyrir ríkið. Hæstv. núv. fjmrh. réð ekki þann forstjóra, heldur fyrrv. ráðh., þ.e.a.s. fyrirrennari núv. hæstv. ráðh. og núv. hæstv. utanrrh. Þegar þessi forstjóri var ráðinn, lítur út fyrir, að ekki hafi þótt ástæða til þess að gera við hann nokkurn samning. Hins vegar rétti sá hæstv. ráðh., sem hann réð, honum 2.5 millj. kr. til að koma fyrirtækinu af stað, koma fyrirtækinu úr því dauðamóki, sem það hafði fallið í, og til þess hafði hann fulla heimild Alþingis að leggja fram þetta fé skv. 22. gr. fjárl. Brimnes fór á veiðar í maí 1959, og um það var heimild frá Alþingi, að ríkisstj. gerði hann út til 1. sept., en lengur ekki. Þetta var árið 1959, 1, sept. 1959. En hins vegar var útgerðartíminn framlengdur þar til í maí 1960, og þess vegna kemur hluti af útgerðartímanum á stjórnartið núv. hæstv. fjmrh. En ég skal ekki að þessu sinni gera framlengingu útgerðartímans að umtalsefni. Það munu vera afsakanir fyrir því, að tíminn var framlengdur, en það má benda á, að vist hefði hæstv. fjmrh. getað útvegað sér heimild á Alþ., ef hann hefði leitað eftir því, eða a.m.k. var tækifæri fyrir hann til þess. Ég er ekkert að segja, að líklegt hefði verið, að Alþingi hefði neitað um þessa heimild, en formlegra hefði vitanlega verið að fá hana. Þessu skal þó sleppt.

Eins og vænta mátti á þessu útgerðarári ultu margar millj. kr. í rekstri togarans Brimness, þegar útgerðarstjórinn var þannig settur, að líta mátti á hann sem starfsmann hv. núv. ríkisstj. og þá a.m.k. fjmrh. seinni hluta rekstrarársins. Er hann hætti, kom í ljós, að tregt var um glögg skil á fjárreiðum fyrirtækisins. Yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna segja frá þessu í 39. aths. sinni við ríkisreikninginn 1960. Skilanefnd var skipuð. í henni eiga sæti Sigurður Ólason, Jón Sigurðsson og Jónas Jónsson framkvæmdastjóri. Enn fremur voru tveir menn settir til að endurskoða bókhald Brimness, og skiluðu þeir ýtarlegum aths., sem fylla mundu nokkurt kver á prenti. Hinn 3. des. 1960 ritaði skilanefndin fjmrn. og sagði, að meðan stór atriði, sem hún tilgreindi, væru svo óljós sem raun bæri vitni um, gæti hún ekki lokið reikningsskilum útgerðarinnar og gæti ekki heldur upplýst málin frekar en orðið væri með þeim ráðum, sem henni væru tiltæk. Útgerðarstjórinn svaraði sumum aths., en margt er, sem hann virðist ekki hafa reynt að bera hönd fyrir höfuð sér í. Aths. yfirskoðunarmannanna við ríkisreikninginn, þessar aths. nr. 39, eru svo gerðar, eftir að gögn þau, sem ég hef lýst, komu fram, eftir að endurskoðendurnir höfðu athugað bókhaldið, eftir að skilanefndin hafði gefizt upp og sagzt ekki geta meira að svo stöddu og eftir að útgerðarstjórinn hafði svarað. Gögnin, sem ég hef nefnt, eru þess vegna undirstöður Þeirra aths., sem yfirskoðunarmennirnir gera.

Yfirskoðunarmennirnir reka eftir afgreiðslu málsins, eins og þeim var skylt. Ráðh. svaraði Þessari aths. yfirskoðunarmannanna 5. des. 1960, og vitnaði hv. frsm. meiri hl. í svarið áðan, en svar hæstv. ráðh. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið hefur fullan hug á því, að reikningsskilum þessarar útgerðar ljúki sem allra fyrst. Hefur endurskoðanda verið falið málið, og vinnur hann nú að því að uppiýsa þau atriði, sem enn eru óljós eða eigi hafa verið skýrð á fullnægjandi hátt, og leggur rn. áherzlu á, að þeirri rannsókn sé hraðað svo sem verða má..“

Síðan Þetta gerðist eru nú meira en þrír mánuðir liðnir. Mál þetta er auðsæilega svo mikið óreiðumál, að það er einstakt, og þess vegna tel ég, að reikningur sá, sem það kemur fram í, hljóti að fá sérstaka meðferð. Yfirskoðunarmennirnir hafa auðsjáanlega áhyggjur af þessu máli. Þeir hafa, að mér virðist, ekki venjulega verið að hrópa: úlfur, úlfur, en það gera þeir í athugasemdum sínum nú, og þess vegna er vert að gefa sérstaklega vel gaum að athugasemdunum.

Ég óskaði þess, að formaður fjhn. útvegaði mér til skoðunar ýmisleg gögn, er yfirskoðunarmennirnir vitna til, svo sem bréf skilanefndarinnar frá 3. des. 1960 og svör útgerðarstjórans, og þetta gerði formaðurinn. Og hann kvað hæstv. fjmrh. hafa gefið heimild til þess, að ég mætti skoða þessi skjöl og fá þau hjá endurskoðanda ríkisins. Af þessum gögnum, sem ég hef alirækilega kynnt mér, þykist ég fullkomlega sjá, að fjármálastjórn og bókun fyrir togarann Brimnes hefur verið óskapleg. Ég get þess í nál. mínu, að ég leggi til, að afgreiðslu ríkisreikningsins sé frestað, og legg á það áherzlu, að afgreiðslunni verði frestað, meðan fyllri upplýsingar liggja ekki fyrir um þau atriði, sem eru óupplýst, eða fullkomnar ráðstafanir hafa ekki verið gerðar til Þess, að málið verði gert upp að lögum. En ég tek fram, að ég muni lesa upp úr þessum gögnum, sem ég hef verið að minnast á, ef meiri hl. finnst ekki, að ástæða sé til að fresta afgreiðslu ríkisreikningsins. Nú hefur komið fram vefenging á því frá hv. frsm. meiri hl., og þess vegna vil ég strax á þessu stigi umr. lesa upp til sönnunar því, að ég fari með rétt mál um það, að hér sé óvenjulegt óreiðumál á ferð, sem ekki er enn búið að greiða úr óreiðunni f, og til sönnunar því líka, að full ástæða sé til að doka við með afgreiðsluna á ríkisreikningnum fyrir hv. Alþingi, svo að ekki verði síðar talið, að það hafi tekið á sig ábyrgð í þessu máli, sem það hefur þó veitt athygli. Ég ætta að lesa upp bréf nokkurt, — ég held, að það skipti ekki máli, þótt ég lesi upp allt þetta bréf. Það er nógur tíminn, sýnist mér. (Fjmrh.: Því ekki ljúka því fyrir páska?) Ég býst við, að það verði hægt, það er sagt, að mikið megi, þegar vel vill. Mér skilst, að það sé mikill vilji fyrir Því hjá vissum aðilum, þeim sem fara með verkstjórn hér á hv. Alþ., að ljúka þessu máli og Þess vegna sé nógur tíminn.

Þetta bréf er skrifað af skilanefnd þeirri, sem ég sagði frá áðan. Það er til fjmrn., dags. 3. febr. 1960:

„Með bréfi fjmrn., dags. 16. ágúst s.l., var okkur undirrituðum falið að annast uppgjör og reikningsskil vegna útgerðar botnvörpungsins Brimness þann tíma, sem Axel Kristjánsson framkvæmdastjóri gerði skipið út í umboði fjármálaráðuneytisins.“

Ég tel mig lesa þetta bréf með leyfi hæstv. forseta.

„2. ágúst hafði Axel Kristjánsson skilað efnahags- og rekstrarreikningi fyrir útgerðina og bókhald hennar þá þegar verið sett í endurskoðun hjá endurskoðunardeild fjmrn. Endurskoðunina önnuðust Guðmundur Magnússon endurskoðandi og Jón Ólafsson fulltrúi. Skýrslu um meginþátt endurskoðunarinnar skiluðu endurskoðendur í lok september, og kom í ljós, að þeir töldu margt athugavert. Skýrsla endurskoðendanna hefur þegar verið send fjmrn. Þar eð Axel Kristjánsson var erlendis, er skýrsla endurskoðenda var tilbúin, var ekki unnt að halda fund með honum til að ræða hana þá þegar, en 4. okt. var slíkur fundur haldinn í fjmrn. Frásögn af fundinum hefur þegar verið send fjmrn. Svo sem fram kemur af þeirri frásögn, var óskað upplýsinga og skýringa um ýmsa helztu liði athugasemda endurskoðenda, án þess þó að þeir upplýstust í neinu verulegu. Hins vegar var Axel Kristjánssyni fengið eintak af skýrslu endurskoðenda og honum gefið tækifæri til að gefa skrifleg svör við henni og lagfæra það í bókhaldinu, sem hann taldi ástæðu til. Svör við aths. töfðust nokkuð, einkum vegna utanfarar Axels Kristjánssonar, en bárust oss 25. okt. s.l., og fylgja þau hér með.

Með svörum þessum er fullnægjandi gerð skil á 15 aths. endurskoðenda af hér um bil 55. Meðal þeirra atriða, sem ekki er fullnægjandi gerð grein fyrir, eru öll hin veigamestu, og munu nokkur þeirra rakin nánar hér á eftir:

1) Þóknun fyrir framkvæmdastjórn, skrifstofukostnað o.fl. í bókhaldinu, eins og því var skilað 2. ágúst, voru fjórir reikningar frá Axel Kristjánssyni: Fyrsti dagsettur 26/7 1960 fyrir framkvæmdastjórn, skrifstofukostnað, húsaleigu, ljós, hita o. fl. í 15 mánuði, frá 1/4 1959 til 1/7 1960, 214 þús. kr. Ódagsettur, en ársettur 1960, vegna botnvörpungsins Brimness, 1500 kr. á mánuði í 12 mánuði eða 18000 kr. Þriðji ódagsettur, en ársettur 1960, fyrir leigu á geymsluplássi með ljósi og hita, 2000 kr. á mánuði í 12 mánuði eða 24 þús. Fjórði ódagsettur, ársettur 1960, fyrir vörzlu á veiðarfærum o.fl., hirðu á þeim og viðhald, 3000 á mánuði í 12 mánuði, 36 þús. Samtals verða þetta 292 þús. Frekari sundurliðun eða skýringar á þessum liðum hafa ekki fengizt. Einkum hefur verið reynt að fá þóknun til framkvæmdastjórans aðgreinda, en án árangurs.

Í svörum Axels Kristjánssonar segir um þetta efni: Fskj. 459, 460, 461 og 462 falli í burt, og í stað þeirra komi meðfylgjandi reikningur frá Axel Kristjánssyni fyrir þessa liði. Reikningurinn var jafnhár hinum fjórum. Ekki mun hafa verið samið um það fyrir fram, hver þóknun framkvæmdastjórans skyldi vera fyrir útgerðarstjórn skipsins. Þess skal getið til upplýsingar um, hvernig skrifstofuhaldið, sem þessi greiðsla er fyrir, hefur verið, að auk þeirra 55 atriða, sem endurskoðendur höfðu ástæðu til að gera athugasemdir við, þurftu þeir að færa 47 færslur í bókhaldinu, ýmist vanfærðar eða rangar, og þá ótaldar 53 leiðréttingar á kaupútreikningum skipverja, sem hver um sig snertir allt frá einum skipverja til allrar skipshafnarinnar.

2) Vaxtakostnaður samanborinn við sjóðreikning. Á bls. 10—11 í skýrslu endurskoðenda eru gerðar aths. við greiðslur vaxta af tveimur hlaupareikningum Axels Kristjánssonar, öðrum við Iðnaðarbankann, hinum við Útvegsbankann. En annar þessara reikninga, hlaupareikningur 2152 við Útvegsbankann, mun hafa verið notaður fyrir útgerð botnvörpungsins Brimness, en þó ekki eingöngu. Aths. endurskoðenda um Þetta efni stafa af Því, að á sama tíma og hlaupareikningsskuldir þær, sem nefndir vextir eru greiddir af, eru breytilegar á bilinu 57 þús. til 283 þús., eiga peningar í sjóði botnvörpungsins Brimness að vera 410–611 þús. samkv. sjóðreikningi, og því næsta óeðlilegt, að botnvörpungurinn Brimnes hafi þurft að greiða vexti á þeim tíma, ef þetta fé hefur þá raunverulega verið til í sjóði.

Í skriflegum svörum Axels Kristjánssonar er engu til svarað um samanburðinn á sjóðreikningi og hlaupareikningi. Hins vegar er bent á, hversu háir vaxtaliðirnir eru í útgerðaráætlun togara, sem FIB hefur gert fyrir árið 1960 og Svavar Pálsson endurskoðandi fyrir árið 1958. Þær áætlunarfjárhæðir breyta að sjálfsögðu engu um raunverulegan vaxtakostnað útgerðarinnar. Þess ber að geta hér, að svo virðist sem fé það, sem sjóður útgerðarinnar hafði til ráðstöfunar eftir 31. maí, hafi nettó verið um 580 þús. kr. Af Þessu sýnast um 250 þús. kr. notaðar til greiðslu reikninga ýmissa aðila, en um 330 þús. kr. er samkvæmt bókhaldinu greitt: Axel Kristjánssyni um 241 þús. kr. og Ásfjalli h/f, sem er hlutafélag, að mestu leyti eign Axels Kristjánssonar, um 89 þús. Á fundinum 2. okt. viðurkenndi Axel Kristjánsson, þótt ekki sé þess getið í frásögn af fundinum, að téðar 89 þús. kr. til Ásfjalls h/f hafi einungis verið færsla. Það er síðasta færslan í dagbók til Þess bókhaldslega að tæma sjóðinn, sem raunar var Þurr fyrir.

3) Viðskipti við Peter Hein, Cuxhafen. í skýrslu endurskoðenda, bls. 2, aflasölur erlendis, er gerð aths. við viðskipti við Peter Hein, Cuxhafen, eftir aflasölu skipsins í Cuxhafen 20. jan. s.l. Samkv. uppgjöri nefnds firma var söluverð aflans 57 914.08 mörk. Samkvæmt sama uppgjöri er skuld útgerðar botnvörpungsins Brimness, eftir að öll útgjöld hafa verið færð, 16558.44 mörk. Meðal útgjaldanna voru 19302.80 mörk, sem var kostnaðurinn við viðgerð, sem fram varð að fara á skipinu vegna áreksturs í höfninni þar. Þessa síðast nefndu fjárhæð greiddu Samvinnutryggingar síðan til viðgerðarverkstæðisins ytra sem sjótjónsbætur. Þegar svo var komið, átti að standa inni hjá Peter Hein 2744.36 mörk. Af bókhaldi útgerðar botnvörpungsins Brimness eða fskj. verður ekki séð, að fjárhæð þessi hafi verið greidd, en með óskýranlegum færslum í dagbók og viðskiptamannabók hefur inneign þessari verið eytt úr bókhaldinu. Samkv. upplýsingum Peters Heins var firmað aðeins umboðsmaður Gerexim í Bremerhafen í sambandi við téða sölu. Það firma hefur enn ekki svarað fsp. um þetta efni.

Svar Axels Kristjánssonar við þessari aths. er svo hljóðandi:

„Uppgjör frá Peter Hein í Cuxhafen virðist eitthvað hafa ruglazt. Mörg bráðabirgðauppgjör bárust frá þessu firma, en endanlega var þessi túr gerður upp fyrir milligöngu Gerexim í Bremerhafen.“

Þetta svar haggar í engu aths. endurskoðenda. Um leið og Axel Kristjánsson skilaði svörum sínum, skilaði hann yfirlýsingu frá firmanu Gerexim í Bremerhafen ásamt reikningum samtals 14693.29 mörkum, sem skyldu skýra mismuninn, sem fram kom á viðskiptunum við Peter Hein. Reikningum þessum verður að taka með varúð. Þeir eru fram komnir nær 9 mánuðum eftir að viðskiptin samkvæmt Þeim eiga að hafa farið fram, löngu eftir að reikningsyfirliti fyrir útgerðina er skilað og þá fyrst, þegar gerðar hafa verið aths. af hálfu endurskoðenda um skil á erlendum gjaldeyri. Gjaldeyriseftirlitið hefur og ekki stimplað þessa reikninga eins og aðra slíka reikninga.

4) Viðskipti við firmað Gerexim í Bremerhafen. Meðal úttektarreikninga frá Gerexim í Bremerhafen í sambandi við aflasölu botnvörpungsins Brimness þar 13.–15. okt. 1959 er ein fyrir steel bobbins („bobbinga“), various sizes, together 82 pieces, að fjárhæð 9872.30 mörk. Reikningurinn er ókvittaður við móttöku og alls óstaðfestur, eins og raunar fleiri sams konar reikningar. Reikningurinn ber númerið 33. Með reikningi þessum fylgdu þrjár kvittanir, merktar 33-A, 33-B og 33-C, fyrir samtals 382.48 mörkum, sem eru kvittaðar af skipstjóra, (einn) og fyrsta matsveini (tveir). Gjaldeyri þennan hafa þessir menn greitt af launum sínum hér heima auk Þess gjaldeyris, sem þeim ber í söluferð. Nefndar kvittanir sýnast augsýnilega vera fskj. með bobbinga-reikningnum. Rétt þykir að geta þess, að þetta er langstærsta bobbingaúttektin og jafnframt eini reikningurinn fyrir þessa vöru, þar sem ekki er getið, hversu margir bobbingar séu af hverri stærð. Við þetta gerðu endurskoðendur aths. Svar Axels Kristjánssonar var svo hljóðandi: „Þrjár kvittanir, úttektir í Þýzkalandi, hafa verið færðar á viðkomandi.“

Eftir sem áður er jafnóljóst, hvernig á þessari úttekt stendur, því að útgerð botnvörpungsins Brimness hefur greitt þetta fyrir bobbinga. Þess skal jafnframt getið, að bobbingakaup samkv. reikningunum eru mun meiri en svo, að einn togari geti hafa komið þeim í lóg við venjuleg skilyrði.

5) Viðskipti við Rinovia Steam Fishing Company, Grimsby. Samkvæmt yfirlitsreikningi Rinovia um aflasölu í Grimsby 18. marz s.l. voru eftirstöðvar útgerðar b/v Brimness af aflasöluferðinni £ 2025—15—11. Eldri innstæða var £ 5-18-6, svo að inneignin samkvæmt þessu var £ 2031-10-5. 13. apríl er yfirfærð frá Rinovia til Axels Kristjánssonar £ 2547-18-10 og gagngert tekið fram, að yfirfærslan sé vegna sölu b/v Brimness 18/3 1960. Hér er yfirfært rúmum £ 500 meir en útgerðin átti inni samkvæmt fyrrgreindu fskj., en þó talið vera af söluverði afla b/v Brimness 18/31960. Mismunur þessi var ekki greiddur inn til útgerðar b/v Brimness, heldur til Ásfjalls h/f. Svar Axels Kristjánssonar um þetta atriði er svo hljóðandi:

„Einhver mismunur hefur orðið í reikningi Rinovia í Grimsby. Virðist eitthvað hafa bætzt við, eftir að yfirlit var sent. Gögn liggja ekki fyrir til viðbótar færðu.“

Eftir sem áður er engin skýring fengin á því, hvernig stendur á þessum mismun, og þá ekki. heldur, hvers vegna Ásfjall h/f á að fá hann, en ekki útgerð b/v Brimness.

Hér hafa verið rakin nokkur helztu atriðin í bókhaldi útgerðar b/v Brimness og jafnframt þau, sem stærsta fjárhagslega þýðingu hafa, sem enn eru óupplýst af hálfu útgerðarstjórans. Auk þeirra grúir af minni atriðum, sem aths. hefur verið hreyft við, en ekki þykir gerlegt að rekja hér, nema hvað ástæða er til að geta ófullnægjandi fskj. fyrir kaupi á koparskrúfu. Upphaflega var ekki annað fskj, fyrir þessum viðskiptum en ókvittað pappírsblað, sem gaf til kynna, að keypt hafði verið koparskrúfa í skipið fyrir 135 þús. kr. Þegar Axel Kristjánssyni var bent á aths. endurskoðenda um þetta á fundinum 4. okt., færðist hann undan að segja nokkuð um kaup á skrúfunni, en taldi málið þurfa athugunar við. Með svörum sínum skilaði Axel reikningi frá starfsmanni sínum, sem ekki verður talinn mikils virði sem fskj. og engan veginn skýrir þessi viðskipti.

Meðan þessi stóru atriði eru svo óljós og með því að þau hafa úrslitaáhrif á afkomu útgerðarinnar, telur skilanefnd sig ekki geta lokið reikningsskilum útgerðarinnar hvað þau snertir. Það er hins vegar ljóst nú Þegar, að nefndin getur ekki upplýst þessi mál frekar en orðið er með þeim ráðum, sem henni eru tiltæk.“

Þá hef ég lokið upplestri þessa bréfs, sem ég hafði í raun og veru ekki ætlað mér að lesa, ef vel væri tekið í það að fresta afgreiðslu málsins, en hef nú lesið, til þess að hv. Þdm. gefist kostur á að fá dálitla innsýn í það, sem stendur að baki aths. yfirskoðunarmanna. Ég tel, að þessi hv. deild hafi átt heimtingu á því að fá þessa innsýn.

Hæstv. fjmrh. segir í svörum sínum við aths. yfirskoðunarmannanna, þeim sem ég las upp áðan, að hann hafi falið ríkisendurskoðanda að ljúka svo fljótt sem unnt væri rannsókn þessa máls. Ríkisendurskoðandinn sagði mér fyrir um það bil mánuði, að hann væri búinn að skila ráðherranum skýrslu sinni. Ég og við minnihlutamennirnir báðir óskuðum svo eftir því við fjhn., að við fengjum að sjá Þessa skýrslu endurskoðandans, sem hann hafði skilað ráðh. Því var vel tekið af fosmanni nefndarinnar að óska eftir því, að ráðh. leyfði okkur að athuga þessa skýrslu, sem hlaut að geta verið örlagarík til upplýsinga í þessu máli. En hann kom síðar með svarið, að ráðh. neitaði um að láta nm. eða nefndina hafa þessa skýrslu. Og ég veit ekki betur en þessi ósk hafi verið borin upp tvisvar og synjað tvisvar um að verða við henni. Ég get ekki kvartað um það, hvernig meiri hl. fjhn. kom fram gagnvart okkur minnihlutamönnum að því leyti, að hv. formaður var fús til að bera fram óskir okkar. En ég veit ekkert um það, hvað meiri hl. hefur lagt mikla áherzlu á, að við þessum óskum okkar yrði orðið. Ég álít, að það sé leyfilegt að hugsa sér það, að ef stjórnarstuðningsmennirnir þrír í nefndinni hefðu lagt á það ýtrustu áherzlu, að nefndin fengi þessa skýrslu endurskoðandans til athugunar, þá hefði ráðh. orðið við því. Ég hygg, að það sé mjög sennilegt, að hann geri svo mikið með meiri hl. nefndar, þegar í Þeim meiri hl. eru stuðningsmenn hans einir saman.

Nú hefur hæstv. ráðh. gengið frá, þegar ég ætla sérstaklega að tala um þetta atriði, synjun hans um málaleitun Þingnefndarinnar, og ætla ég þess vegna að gera — með leyfi hæstv. forseta — hlé á tali mínu, meðan ráðh. er úti.

Ég hygg, að það muni vera fordæmalaust, og vona ég, að Það verði leiðrétt strax, ef rangt er, að ráðh. hafi neitað þingnefnd, sem máli hefur verið til vísað af þingdeild, um gögn til athugunar, og það þau gögn, sem hann hefur lagt áherzlu á að þyrftu fljótt að koma fram og lýst yfir í fskj. með reikningnum að hann vilji að komi sem fyrst fram og leggi áherzlu á að komi sem fyrst fram. Ég get raunverulega ekki skilið það, að ráðh. hafi rétt til þess að synja um slík upplýsingargögn. Ég ber fulla virðingu fyrir ráðherrastöðum, en ég leyfi mér samt að líta svo á, að hæstv. ráðh, sé í þessum efnum frekar þjónn Alþingis en húsbóndi þess. Ofbeldi er vitanlega hægt að sýna, a.m.k. um stundarsakir, en venjulega takmarkað, hvað lengi er. Og ofbeldi hefnir sín fyrr eða síðar. Og slíkt ofbeldi sem þetta, það vekur réttmætar — ég segi: réttmætar — grunsemdir um, að mélið í pokanum sé í meira lagi óhreint. Mér sýnist nefnilega, að þó að logn sé yfir hjá meiri hl. fjhn. og sjór sé sléttur, þá verði þarna vart við eitthvað, sem líkist skriði hákarla eða skötu. Geti hæstv. ráðh. réttlætt neitun sína, þá óska ég, að hann geri Það hér við þessa umr. Persónulega vildi ég gjarnan, að hann gæti gert það, en ég sé ekki enn, að hann geti Það. Til hvers er ríkisreikningur lagður fyrir Alþingi til samþykktar? Vafalaust til Þess, að Alþingi beri ábyrgð á honum, eins og ég sagði áðan, og vitanlega þannig, að venjulegar leiðréttingar geti talizt þar fyrir utan. Hann er áreiðanlega ekki lagður fram eingöngu að forminu til. Og til hvers ætli honum sé vísað til nefndar? Það getur ekki verið, að það sé aðeins formsins vegna, Þó að venjulega reyni ekki á, heldur er það gert til athugunar, til að fá umsögn nefndar. Það er gert til öryggis.

Þegar kemur fyrir mál eins og Brimnesmálið, þá má ekki eiga sér stað Það tómlæti, sem kemur fram hjá hv. meiri hl. fjhn. Hvað væri eftir á hægt að segja fyrir þá, sem vilja ekkert gera úr óreiðunni og breiða yfir hana? Hvað væri hægt að gera, sem væri þeim hentugra en þetta? Þeir mundu segja: Alþingi er búið að samþykkja reikninginn fyrirvaralaust fyrir sitt leyti, nefndir þess sögðu ekkert. — Gætu þeir, sem vilja hlífa óreiðu, fengið betri aðstöðu eftir atferli nefndarinnar? Ég mun ekki taka þátt í að vefa slíka ábreiðu yfir óreiðuna. Ég tel Þess vegna, þó að ég vitanlega telji mig ekki hafa aðstöðu til þess að kveða upp neinn úrskurð í þessu máli, því að upplýsingar vantar mig til þess auk annars, þá tel ég hiklaust, að málið sé á því stigi, að Það eigi að fresta afgreiðslu þess, þangað til upplýsingar eru fengnar eða óyggjandi ráðstafanir hafa verið gerðar, til þess að óreiða þessi verði gerð upp að lögum.

Uppgjöri togaramálsins liggur á, eins og hæstv. fjmrh. hefur sagt. Það þarf að hraða því sem mest, m.a. til þess að Það slái ekki í Það. En ríkisreikningnum liggur ekkert sérstaklega á. Það er náttúrlega gaman fyrir hæstv. fjmrh. að geta skilað fljótt ríkisreikningi, en hann verður að neita sér um það gaman að fá hann afgreiddan strax, þegar hann dregur Þennan slóða, reikningurinn, sem hann dregur nú. Ég skora á hæstv. forseta, sem er nú verkstjóri hér í þessari hv. deild, að taka till. mína til greina. Ég tel, að hann gæti fyrir sitt vald, sem er meira en vald ráðh. í þessari hv. deild að mínu viti, þá gæti hann úrskurðað, að málinu skuli frestað, og það væri myndarlegt af hans hálfu. En vilji hann ekki taka á sig þá ábyrgð, þá treysti ég honum hiklaust til þess að bera upp till. mína um, að reikningnum verði að afgreiðslu til frestað, þangað til meiri og betri upplýsingar liggja fyrir. Og ég þykist hafa fært full rök að því, að sú krafa og till. er sjáifsögð.