22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. virtist vera nokkuð miður sín í ræðu sinni, og undrar mig það ekki, vegna þess að bagginn, sem hann ber, er óþægilegur. Samt varð ég dálitið hissa á því, að hann byrjaði á því að lýsa því beint og óbeint yfir, að hann væri dálítið móðgaður yfir því, að minni hlutar fjhn. skyldu ekki í sambandi við þetta mál minnast á fjármál ríkisins og prýðilega frammistöðu sína, sem reikningurinn fyrir 1960 bæri með sér. Hann saknaði um þetta auðheyrilega lofsyrða. Ég get nú ekki fundið Það sem sök hjá okkur minnihlutamönnum, þó að við færum ekki út í þessa sálma. Ég hygg, að hann hafi frá okkur eða okkar flokksbræðrum heyrt dóminn um fjármálamennskuna á árinu 1960 í sambandi við eldhúsdagsumr. t.d., og ég vil skírskota til þess. En á það vil ég líka minna, að meiri hl. minntist ekki á þetta heldur. Anzi var það nú miklu harðara, að stuðningsmennirnir skyldu ekki sjá ástæðu til þess að fara lofsorðum um niðurstöðuna á reikningnum. Kannske það sé þannig með hæstv. fjmrh., að hann sé svo ógæfusamur að fá ekki heldur lof hjá þeim nokkurn tíma. Núna fékk hann það ekki. Þeir gleymdu því alveg.

Hæstv. fjmrh. sagði, að við framsóknarmenn værum anzi örðugir í sambandi við afgreiðslu ríkisreikninga. Hann hefði gert stóra umbót á því, að ríkisreikningarnir væru nú afgreiddir miklu fyrr en áður hefði tíðkazt, en við vildum tefja fyrir því, að þeir væru samþykktir strax og þeir væru lagðir fram. Og hann leit svo á, að þetta væri eins konar afbrýði. Nú vil ég segja það og rifja það upp, að ég hafði einhvern tíma orð um það, að mér þætti það ágætt, að lagt væri kapp á það, að reikningurinn væri sem fyrst afgreiddur, þ.e.a.s. ef hann væri þá byggður upp og undirbúinn í samræmi við það, sem þyrfti að vera, þegar Alþingi legði á hann samþykki sitt. Ég vil ekki draga úr því, að það er bót að því, að það dragist ekki í mörg ár, að ríkisreikningur sé fullgerður og frágenginn. Hann sagði sögu af því, hæstv. ráðh., að við framsóknarmenn hefðum alveg að tilefnislausu 1960, að því er snertir reikninginn 1959, byrjað að tefja fyrir honum og tekizt að tefja fyrir afgreiðslu hans, — og af því að hann sagði, að það hefði verið að tilefnislausu, þá vil ég minna á það, sem stendur í aths. endurskoðenda þá á bls. 248–249 og er 42. aths. Hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirskoðunarmönnum barst ósk um það frá fjmrh., að hraðað yrði yfirskoðun ríkisreikningsins fyrir árið 1959, eftir því sem unnt væri. Við þessum tilmælum vildu yfirskoðunarmenn verða, eftir því sem þeim væri mögulegt. Við yfirskoðun reikningsins kom í ljós, að umboðslega endurskoðunin átti mjög mikið eftir að endurskoða, og ef yfirskoðunarmenn hefðu átt að bíða eftir því, að því verki væri lokið, hefði reikningurinn ekki getað verið afgreiddur frá þeim fyrr en löngu síðar. Fyrir þessar sakir hurfu yfirskoðunarmenn að því ráði að afgreiða reikninginn frá sér svo fljótt sem þeim var mögulegt. Samkv. greinargerð frá ríkisendurskoðuninni, dags. 12. okt. s.l., hafði hún lokið endurskoðun reikninga fyrir árið 1959 frá 15 aðilum, en hins vegar voru athugasemdir við þá óafgreiddar. Endurskoðun var ólokið á reikningum 42 aðila.

Við framsóknarmenn vöktum athygli á því, að það væri óviðkunnanlegt, að ríkisreikningurinn hefði ekki að miklu leyti hlotið afgreiðslu hjá hinni umboðslegu endurskoðun, áður en ætlazt væri til þess, að Alþingi staðfesti hann. Og við bentum á það, að þarna í október, þegar yfirskoðunarmenn lýsa þessu yfir, þá taka þeir einmitt fram, að umboðslega endurskoðunin er aðeins búin að ganga frá endurskoðun á 15 aðilum af 57, en hins vegar ekki búin einu sinni að ganga frá aths., - ekki ganga frá aths. við þessa 15, hinir 42 voru eftir. Þó að þessar aths. okkar tækju dálítið fartina af reikningnum 1959, þegar átti að fá hann afgreiddan í einni roku, þá álít ég, að það hafi ekki verið nema afar eðlilegt, úr því að svona stóðu sakir, og ég hygg, að hæstv, fjmrh. þurfi ekkert að telja það til afbrýði hjá okkur, þó að við vildum ekki láta svona mikla fljótaskrift eiga sér stað í þessu máli.

Þá segir sami hæstv. ráðh., að nýi ríkisreikningurinn 1960 verði fyrir þessum töfum, ekki fyrir ástæður, heldur aðeins átyllur, og hann bendir á til sönnunar því, að yfirskoðunarmenn hafi ekki verið óánægðir með þá yfirlýsingu, sem hann gaf og ég las upp í minni frumræðu, að máli þessu skyldi hraðað svo sem unnt væri og ráðuneytið hefði á það ýtt, því að þeir hefðu sem svar við þessari yfirlýsingu sagt, að Þetta væri til athugunar framvegis, þ.e.a.s. ekki sagt, eins og þeir höfðu stundum gert að undanförnu í ýmsum atriðum gagnvart reikningunum, að þeir vísuðu málinu til aðgerða Alþingis, og nú stæði það hvergi í reikningnum 1960, að aths. væri vísað til aðgerða Alþingis, eins og þó hefði tíðkazt stundum áður. Má geta þess í þessu sambandi, að yfirskoðunarmenn, sem höfðu þennan hátt á oft, eru kannske orðnir þreyttir á því að vísa málum til aðgerða Alþingis, því að Alþingi hefur gert alisnarpar kröfur til þeirra um það að segja þá til um það, gera þá tillögur um það, hvað þeir ætluðust til að Alþingi gerði, en það gerðu þeir yfirleitt ekki í sambandi við þessa reikninga. Ég man svo langt, að þetta var töluvert snerpumál í umr. hér í hv. Ed., meðan Gísli Jónsson átti hér sæti, og hann gerði strangar kröfur til þess, sem eðlilegt var, að yfirskoðunarmennirnir segðu til um það með tillögum, hvers Þeir ætluðust til af Alþingi, þegar þeir afgreiddu sínar aths. á þennan hátt. Og þá var ekki að fá neinar tillögur. Ég gæti trúað því, að þeir kærðu sig ekkert um að lenda oft í því að verða fyrir kröfum um beinar tillögur, sem þeir ættu að búa í hendur Alþingis. En Þetta svar þeirra er, með leyfi hæstv. forseta, núna í sambandi við Brimnesmálið á þessa leið:

„Ráðuneytið lýsir yfir, að reikningsskilum og rannsókn þessa máls verði hraðað svo sem föng eru á og það upplýst til fulls. Afgreiðsla málsins er til athugunar framvegis.“

Hvað þýðir þá þetta „til athugunar framvegis“ hér? Sums staðar stendur hér við aths.: „Verður við svo búið að standa.“ „Til eftirbreytni.“ „Til viðvörunar framvegis.“ En þarna stendur: „Til athugunar framvegis.“ Þ.e.a.s., þeir ætlast til þess, að Alþingi fylgist með málinu. Og síðan þetta er sagt, eru liðnir meira en þrír mánuðir, og ekki er vitað enn, að nokkuð hafi gerzt, þrátt fyrir hina frómlegu yfirlýsingu hæstv. fjmrh., sem þeir vitna í, yfirskoðunarmennirnir og hann hefur sjálfur vitnað í. Við héldum, fjhn: mennirnir, að eitthvað nýtt mundi geta komið fram á þessum tíma, sem liðinn er, og ég hafði fullkomlega ástæðu til þess að ætla það, vegna þess að þegar ég fór á fund ríkisendurskoðandans, Einars Bjarnasonar, til þess að fá að sjá þau gögn, sem vitnað er í af yfirskoðunarmönnum í aths. þeirra, þá var mér að vísu vel tekið og ég fékk að sjá þau gögn. Það er alveg rétt, það var ekkert undan dregið af þeim, sem ég bað um. En það voru allt gögn frá því fyrir þann tíma, sem yfirskoðunarmennirnir sömdu sínar aths. En þá sagði endurskoðandinn mér, af því að ég spurði um, hvað liði málinu, að hann væri búinn, fyrir stuttu þá, en ég hygg, að það sé um mánuður síðan þetta var, — hann væri búinn að afhenda hæstv. fjmrh. lokaskýrslu sína um málið. Ég hef fulla ástæðu til þess að ætla, að í þeirri skýrslu komi fram yfirlýsingar, sem gætu gert það að verkum, að forsvaranlegt væri af Alþingi að afgreiða ríkisreikninginn. Og það var þessi skýrsla, sem ég óskaði eftir í fjhn., að formaður n. útvegaði. Svarið var neitandi. Mig minnir, að Það væri sagt, að ráðh. teldi sig ekki vera búinn að athuga þetta erindi endurskoðandans. Ætli það sé ekki rétt, eins og þá stóðu sakir? Enn liðu tímar, og aftur var um þetta beðið, og korn synjandi svar. Ég man, að í spjalli um þetta mál tókum við hv. 5. þm. Norðurl. e. fram, að það væri vel hægt að taka á móti þessari skýrslu þannig, að farið yrði með hana í nefndinni sem trúnaðarmál, ef þess væri krafizt. En ég minnist ekki að hafa heyrt það í hinu synjandi svari, að þarna væri í raun og veru um prívatmál milli endurskoðandans og hæstv. fjmrh. að ræða, eins og hann vildi nú túlka að væri. Ég minnist þess ekki. Ég hef ekki heyrt það fyrr en hér áðan. (Fjmrh.: Ég hef ekki sagt það.) En trúnaðarmál? (Fjmrh.: Er trúnaðarmál og prívatmál sama?) Ja, trúnaðarmál getur verið það sama og prívatmál. En ef þarna væri um trúnaðarmál, venjulegt trúnaðarmál að ræða, þá gat það verið og væri eðlilegt að líta svo á, að það væri sameiginlegt trúnaðarmál ráðh. og fjhn. í þessu sambandi, eðlilegt, að það væri sameiginlegt trúnaðarmál, vegna þess að ég get ekki séð stóran mun á því, hvert verksvið er í þessu sambandi, fjmrh. eða þingnefndar. En af því að hann lagði svo ríka áherzlu á Það, að hann hefði ekki mátt láta þetta í hendur nefndarinnar, þá fannst mér eðlilegast að skilja það Þannig, að trúnaðarmálið hefði verið prívatmál, og þá rifjaðist upp fyrir mér, að líklega væri Þetta ekki fordæmalaust, eins og ég hafði þó haldið að það væri, því að ég minntist Þá hins svonefnda drottningarbréfs, sem annar hæstv. ráðh. gat um að hann hefði í höndum, las að vísu, gerði þar meira en hæstv. fjmrh. hefur enn gert, að hann las einar tvær til þrjár setningar upp úr þessu bréfi, en sagði að öðru leyti, að það væri of mikið trúnaðarmál til þess, og menn kölluðu það prívatmál, þ.e.a.s. litu svo á, að það væri einkabréf frá Englandsdrottningu til ráðherrans. Þetta fordæmi er sennilega fyrir hendi, hvort sem hæstv. fjmrh. telur það vera fullnægjandi handa sér. Þeir eru að vísu, þessir ráðh., báðir útgerðarstjórar í sambandi við Brimnesmálið. Hver dregur dám af sínum sessunaut, er sagt. Ég veit ekki, hvort það kemur til greina hér.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann hefði ekki viljað afhenda mér þetta bréf til að lesa það upp eða til birtingar í blaði. Hann hafði tök á því að setja hvaða reglur sem hann vildi um trúnaðarskyldu okkar fjhn.- manna í þessu sambandi, og ég þykist ekki hafa gefið efni til þess að ætla, að ég kynni ekki með að fara Það, sem hefur verið mér í hendur látið sem trúnaðarmál, og vísa þess vegna algerlega á bug þeim ástæðum. Þær eru bara vífilengjur og undanbragðahjal.

Í þessu sambandi leyfði hæstv. ráðh. sér að segja, að ég hefði farið rangt með þetta mál í viðtali við Tímann og um það bæri frétt vott, sem stæði á forsiðu Tímans í dag. Ég hafði satt að segja ekki aðgætt þetta í Tímanum, en ég minntist þess, að blaðamaður Tímans hafði í gær spurt mig að því, hvort það væri rétt, að fjhn. hefði ekki fengið að sjá gögn, sem til væru í þessu togaramáli. Ég fór svo nú í fundarhléinu að líta í Tímann og sé, að þar er dálítil klausa, og að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh. með því að telja, að ég hefði farið rangt með staðreyndir, þá vil ég biðja hæstv. forseta um leyfi til þess að mega lesa það, sem stendur í Tímanum um þetta:

„Tíminn hafði spurnir af því í gær,“ segir hér, „að fjármálaráðherra Gunnar Thoroddsen mundi hafa neitað þingnefnd þeirri, sem hefur ríkisreikninginn fyrir 1960 til athugunar, um aðgang að gögnum og athugasemdum ríkisendurskoðanda (E. B.) við endurskoðun á skiptum fjmrn. og Axels Kristjánssonar í Rafha og bókhald togarans Brimness. Er hér um algert einsdæmi að ræða í þingsögunni.

Tíminn sneri sér til Karls Kristjánssonar alþm., fulltrúa Framsfl. í fjhn. Ed., en nefndin hefur haft ríkisreikninginn til athugunar að undanförnu, og spurðist fyrir um sannleiksgildi þessarar lausafregnar. Karl Kristjánsson sagði, að þetta væri alveg rétt, minni hl. fjhn. hefði verið neitað um aðgang að Þessum gögnum, endurskoðunargerðum ríkisbókara (E.B.) við fjárreiður og rekstur togarans Brimness. Hins vegar kveðst Karl hafa fengið að sjá fyrri skýrslur um þetta mál, þ.e. gögn þau, sem yfirskoðunarmenn byggðu aths. sínar á, en þeir höfðu talið þær skýrslur með öllu ófullnægjandi og höfðu krafizt frekari skýringar. Karl Kristjánsson sagði, að þetta væri algert einsdæmi í þingsögunni, kvaðst ekki vita um neitt dæmi slíks.“ — Þetta er það sama, sem ég hef sagt hér, og þó gert svolitla leiðréttingu við. — „Það má teljast furðulegt, að fjmrh. skuli svo mikið sem láta sér detta í hug að Alþingi samþykki ríkisreikning, sem yfirskoðunarmenn hafa gert svo róttækar athugasemdir við, neita svo að gefa þingnefnd kost á að kanna málið til botns og athuga endurskoðunargerðir ríkisbókara á þeim atriðum, sem endurskoðunarmenn hafa athugasemdir við. Eins og sakir standa er fráleitt, að Alþingi geti samþykkt ríkisreikninginn, og því ber skylda til að kanna til hlítar og fá fullnægjandi skýringar við athugasemdum yfirskoðunarmanna, en yfirskoðunarmenn eru sérstakir trúnaðarmenn Alþingis.“

Yfir þessari klausu stendur: „Þingnefnd fær ekki að sjá reikninga Brimness.“

Ég svaraði fréttamanni Tímans án Þess að skrifa nokkuð eða fá að heyra, hvað hann setti á pappírinn, því að hann gerði það víst bara með einhvers konar uppkasti, þar sem hann hitti mig. Og ég skal játa, að slíkt er máske óvarlegt. En þó virðist mér, að í meginmálinu sé ekkert það sagt, sem ekki sé rétt. Hins vegar er það, að fyrirsögnin er ekki nákvæm, þar sem segir: „Þingnefnd fær ekki að sjá reikninga Brimness.“ Fyrirsögnin er ekki nákvæm. Ég á engan þátt í henni, en ég vildi óska þess vegna hæstv. fjmrh., að hann yrði aldrei fyrir því hjá blöðum sínum, að meira bæri út af með, að hárrétt væri skýrt frá, en hér, og það væri vel og hann mætti vera ánægður að mínu viti.

Ég held, að ég hafi þá minnzt á flest þau atriði, sem ræða hæstv. fjmrh. gaf efni til, —hafi minnzt á þau öll, ég man ekki fleiri. En mér þykir það undarlegt, ef hv. þdm. líta svo á yfirleitt, að ríkisreikningurinn með sínum slóða sé kominn á það stig, að það sé viðkunnanlegt, forsvaranlegt og sómasamlegt af hv. Ed. að leggja samþykki sitt á hann. Ég lít svo á, að það væri undarlegt, ef ekkert nýtt hefur í ljós komið á þeim langa tíma, sem liðinn er, síðan hæstv. fjmrh. svaraði yfirskoðunarmönnum á þá leið, sem hér hefur margsinnis verið upplýst, að ráðuneytið hefði áhuga á því að ljúka þessu máli sem fyrst og mundi gera allt, sem unnt væri, til þess að svo mætti verða. Það er svo langur tími liðinn, að það væri undarlegt, ef ekki væri eitthvað komið í ljós meira en var, eitthvað það, sem gæfi grundvöll til þess, að hægt væri að samþykkja með góðri samvizku, — sæmilegri samvizku, skulum við þá segja, ríkisreikninginn, ella gera þá við hann þann fyrirvara, sem dygði. En ef hann er samþykktur nú eins og hann liggur fyrir með allt á hulu það, sem áður var óupplýst, og meira að segja undir því ástandi, að hæstv. fjmrh. neitar að gefa upplýsingar um það, sem endurskoðandi ríkisins hefur gefið honum skriflega til kynna um þetta mál, þá held ég, að tortryggni almennings um fullkominn heiðarleika eða fullkomna aðgát Alþingis mundi verða vakin. Mér þykir það einkennilegt fóstbræðralag, ef það er til, milli þeirra, sem eru stuðningsmenn ríkisstj., og getur orðið fóstbræðralag áfram um að láta sér í léttu rúmi liggja að afgreiða reikninginn hiklaust, þótt svona standi á.

Ég las upp í dag til áherzlu því, að hér væri ekki um neitt venjulegt bókhaldsmál að ræða, þar sem er Brimnesmálið, bréf, þar sem margt kemur fram, sem gerir það að verkum, að það þarf undarlega menn til að sætta sig við að telja það allt samþykkjandi og að láta reka á reiðanum með það. Það er t.d. talað um, að kaup á veiðarfærum hafi verið meiri en togari hafi getað komið þeim veiðarfærum í lóg á tilgreindum tíma. Það er sagt, að með óskýranlegum færslum hafi vissum upphæðum verið eytt úr bókhaldi. Og enn er það svo, að skipsskrúfa var keypt, sem ekki fyrirfinnst hjá fyrirtækinu. Ég aðeins rifja þetta upp til áherzlu orðum mínum. Ég er sannfærður um það, að ef við samþ. reikninginn eins og hann er án eðlilegs fyrirvara, án þess að hafa fengið frekari upplýsingar, þá muni almenningur líta svo á, að við förum gáleysislega með atkv. okkar og berum ábyrgð á þeim niðurstöðum, sem kunna að verða í þessu máli. Ég leyfi mér þess vegna að vænta þess, að till. mín um frestun á afgreiðslu málsins verði samþ. Hún er þannig, að það er ekki að því stefnt með henni að tefja reikninginn stórkostlega, því að ef sæmilegar upplýsingar lægju fyrir á morgun, skyldi ég taka þátt í því í fjhn. að leggja til, að reikningurinn fái afgreiðslu. Og það er trú mín, að hæstv. fjmrh. búi yfir slíkum upplýsingum, hafi möguleika til að leggja þær fram, ef hann vill.