12.04.1962
Neðri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Mér þótti margt einkennilegt í þessari ræðu, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm) var að flytja, en hann er sem kunnugt er einn af þremur yfirskoðunarmönnum ríkisreikninganna. Hann sagði: Þetta mál, sem hér er deilt um, er engu verra mál en mörg önnur, sem við höfum gert aths. við.

Ég man ekki eftir máli þessarar tegundar, sem betur fer. Yfirskoðunarmenn hafa oft gert aths. um ýmsa liði á ríkisreikningunum. Þeir hafa gert aths. um það, þegar einhverjar greiðslur fóru mjög fram úr áætlun fjárl. Þeir hafa gert aths. um það nú og áður, þegar mikið var óinnheimt hjá ríkisstofnunum, mikið af útistandandi skuldum hjá þeim, og lagt áherzlu á, að hert væri á innheimtunni. Þeir hafa gert aths. um það, þegar þeir hafa talið, að ríkisstj. hafi varið fé í heimildarleysi úr ríkissjóði, og eins líka núna gerðu þeir aths. við það, að ríkisstj. hefur borgað í fullkomnu heimildarleysi nærri 300 þús. kr. úr ríkissjóði fyrir að gefa út áróðurspésa sinn og dreifa um allt landið snemma árs 1960. Þó að svona aths. komi, þá sé ég ekki ástæðu til að fresta afgreiðslu ríkisreiknings út af því. Ég geri ráð fyrir, að Það liggi fyrir, að þessi upphæð hafi verið greidd úr ríkissjóði, og það verður að deila á ríkisstj. réttilega á öðrum vettvangi fyrir að fara þannig með ríkisfé og er auðvitað gert. En ég man ekki eftir, að svipað mál þessu hafi verið hér til meðferðar í sambandi við ríkisreikning. Ég man ekki eftir því. Og það er full ástæða til út af þessum orðum yfirskoðunarmannsins að nefna aðeins örfá atriði, sem hér hafa komið fram í þessu máli og alls ekki eru hliðstæð öðrum athugasemdum nú eða áður.

Þeir tala hér um, — það er í kaflanum um óumdeilanlegar skuldir útgerðarstjórans, skuld Ásfjalls h/f, rúml. 68 þús., og segja hér innan sviga: „Skuld þessi er orðin til með Þeim hætti, að inneign í sjóði, sem bókhaldið leiddi í ljós við uppgjör A.K., var færð sem peningagreiðsla til Ásfjalls h/f án nokkurra fskj. Það er viðurkennt af hálfu A. K., að hér hafi ekki verið um að ræða raunverulega greiðslu, heldur einungis færslu til bókhaldslega að tæma sjóðinn, sem enginn var fyrir.“ Þeir tala hér um eftirstöðvar af aflasölu hjá þýzku firma, ísl. krónur 25 074.15. Eftirstöðvar þessar voru ekki greiddar inn til útgerðarinnar, en munu hafa blandazt uppgjöri vegna b/v Keilis. Og í skýrslu skilanefndarinnar, sem ég vitnaði til áður og er dags. 3. des. 1960 og yfirskoðunarmenn höfðu vitanlega til athugunar og vitna einmitt í og taka atriði upp úr hér í sínum athugasemdum, er ýmislegt, sem er ákaflega athugavert og ég held að eigi sér ekki hliðstæðu í sambandi við uppgjör hjá ríkinu og ríkisreikninga. Ég fer ekki að eyða tíma í að lesa þetta upp allt. Ég ætla að taka hér eitt eða tvö atriði, sem sýna, hvernig þarna hefur verið haldið á málum. Það er hér einn liðurinn, það eru viðskipti við firma í Bremerhafen. Meðal úttektarreikninga frá þessu firma í sambandi við aflasölu b/v Brimness þar 13.–15. okt. 1959 er einn fyrir steel-bobbins — í svigum (bobbingar) — various sizes, together 82 pieces að fjárhæð þýzk mörk 9872.30. Reikningurinn er ókvittaður við móttöku og alls óstaðfestur eins og raunar fleiri sams konar reikningar. Reikningurinn ber nr. 33. Með reikningi þessum fylgdu 3 kvittanir merktar 33 Á og 33 B og 33 C, fyrir samtals þýzk mörk 382,45, sem eru kvittaðar af skipstjóra ein og fyrsta matsveini tvær. Gjaldeyri þennan hafa þessir menn greitt af launum sínum hér heima, auk þess gjaldeyris, sem þeim ber í söluferð. Nefndar kvittanir sýnast augsýnilega vera undirfylgiskjöl með bobbinga-reikningnum. Rétt þykir að geta þess, að þetta er langstærsta bobbinga-úttektin og jafnframt eini reikningurinn fyrir þessa vöru, þar sem ekki er getið, hversu margir bobbingar séu af hverri stærð. Við þetta gerðu endurskoðendur athugasemd. Svar Axels Kristjánssonar var svo hljóðandi: „Þrjár kvittanir úttektar í Þýzkalandi hafa verið færðar á viðkomandi.“ Eftir sem áður er jafnóljóst, hvernig á þessari úttekt stendur, því að útgerð b/v Brimness hefur greitt þetta fé fyrir bobbinga. Þess skal jafnframt getið, að bobbingakaup samkv. reikningunum eru mun meiri en svo, að einn togari geti komið þeim í lóg við venjuleg skilyrði.

Mönnum er sjálfsagt ljóst, hvað í þessari seinustu aths. felst. Útgerðin og þar með ríkissjóður hafði verið látinn greiða þarna, mér skilst án þess að kvittanir lægju fyrir, mun meira fyrir þessa bobbinga en skilanefndin telur að einn togari hafi getað komið í lóg við venjuleg skilyrði.

Næsta athugasemd er um viðskipti við firma í Grímsby. Það er víst fisksölufirma þar. Samkv. yfirlitsreikningi um aflasölu í Grímsby 18. marz og úttekt eru eftirstöðvar útgerðar b/v Brimness af söluferðinni £ 2025–15–11, eldri innstæða £ 5—18–6 og inneign samkv. Þessu varð £ 2031–.10–5. 13. apríl eru yfirfærð frá firmanu til Axels Kristjánssonar £ 2547–18–10 og gagngert tekið fram, að yfirfærslan sé vegna sölu botnvörpungsins Brimness 18/3 1960. Hér er yfirfært rúmum £ 500 meira en útgerðin átti inni samkv. fyrrgreindu fskj., en þó talið vera af söluverði afla b/v Brimness 18/3 1960. Mismunur þessi var ekki greiddur inn til útgerðar b/v Brimness, heldur til Ásfjalls h/f. Svar Axels Kristjánssonar um þetta atriði er svo hljóðandi: „Einhver mismunur hefur orðið á reikningi Rinovia, Grimsby. Virðist helzt eitthvað hafa bætzt við, eftir að yfirlitið var sent. Gögn liggja ekki fyrir til viðbótar færðu.“ Eftir sem áður er engin skýring fengin á því. hvernig stendur á þessum mismun, og þá ekki heldur, hvers vegna Ásfjall h/f á að fá hann, en ekki útgerð b/v Brimness.

Þetta eru nú bara sýnishorn, sem ég hef hér lesið úr þessari skýrslu. Ég minnist þess ekki, að hliðstæðar athugasemdir hafi verið áður við ríkisreikninga. Og svo segir hv. 2. þm. Norðurl. v.: Þetta er eitt af vandaræðamálum Seyðisfjarðarkaupstaðar. Þessi útgerðarstjórn og þetta reikningshald, það er eitt af vandræðamálum Seyðisfjarðarkaupstaðar. — Hvernig geðjast mönnum að svona málflutningi? Á kannske að gera kröfu á Seyðisfjarðarkaupstað í sambandi við þetta?

Þá vitnar hv. þm. í svar fjmrh. um, að hann vilji láta hraða málinu. Ég hef lýst því nokkuð áður, hver hraðinn hefur verið hér á. Það er seint í maí 1960, sem útgerðarstjórinn segir af sér útgerðarstjórninni og skipinu er lagt. Það dregst fram í ágústmánuð að skila reikningum og bókhaldi, eftir að tveir menn höfðu af ráðuneytinu verið til kvaddir til að ganga eftir reikningunum. Síðan er sett þriggja manna skilanefnd. Hún fær tvo valda menn frá endurskoðunardeild fjmrn. og þaulæfða til þess að yfirfara bókhaldið og reikningana. Þeir skila eftir nokkurn tíma sínum athugasemdum. Skilanefndin heldur fund með útgerðarstjóra og fær svör nokkur, þó aðeins um mikinn minni hl. aths. og minni háttar atriði, og þá er svo komið 3. des. 1960, að skilanefndin skrifar fjmrn. og segir, að hún sjái ekki, að hún hafi nokkra möguleika til að upplýsa neitt frekar um málið eða komast til botns í því með þeim ráðum, sem tiltæk eru fyrir n. Þetta er 3. des. 1960, og maður veit ekki til, að það hafi neitt gerzt í málinu síðan. Það er komið töluvert á annað ár, í þessari skilagrein skilanefndarinnar eru svona alvarlegir hlutir eins og hér hafa verið nefndir og eins og vikið er að í aths. yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna, og það er liðið mikið á annað ár, frá því snemma í desember 1960 og nú er kominn apríl 1962, og það liggur ekki fyrir, að það hafi neitt verið gert til að upplýsa þetta mál frekar. Ráðh. fól að vísu ríkisendurskoðanda að taka málið til athugunar, en eru miklar líkur til þess, að ríkisendurskoðandi hafi getað komizt lengra áleiðis í málinu en tveir menn úr hans stofnun, sem höfðu haft það áður, og þriggja manna skilanefndin? Það er sagt, að ríkisendurskoðandi hafi skilað einhverju bréfi eða skýrslu til fjmrh. nú fyrir nokkru, en fjmrh. segir, að það sé trúnaðarmál og hann megi ekki birta það. En var þá ekki möguleiki, ef ríkisendurskoðandi hefði nú komizt alveg til botns í málinu, að fá hann til að senda til Alþingis einhverja skýrslu um málið, ekki endilega þetta trúnaðarbréf, sem ekki mátti vitnast um, hvað í stóð? Það er ekkert, sem bendir til þess, að það sé búið að upplýsa málið, og má fullyrða, að það er ekki, þrátt fyrir allan þennan biðtíma.

Og svo kemur hv. 2. þm. Norðurl. v. næst í ræðu sinni að málinu, sem er næst á eftir, og segir: Það er miklu stærra en hitt, af því að þar segir í 40. aths.: „Samkvæmt ríkisreikningi hafa verið greiddar 49 884 015.61 kr. vegna ábyrgðarlána 1960.“ Þetta er miklu stærra mál en hitt. Það er hér birtur listi yfir þessar ábyrgðargreiðslur, sundurliðaður listi, og það hefur verið greitt fyrir marga aðila, og þar í eru margar stórar upphæðir, og þessi yfirskoðunarmaður virðist líta bara á þessa stóru upphæð og finnur það út, að þetta sé miklu stærra mál. Það er náttúrlega ekki hægt að líkja þessum málum saman. Ríkið hefur gengið í ábyrgð fyrir fjölda aðila og orðið samkvæmt þeim skuldbindingum að greiða stórar fjárhæðir á þessu ári. En ég geri ráð fyrir, að yfirskoðunarmenn, bæði í endurskoðunardeildinni í fjmrn. og yfirskoðunarmenn ríkisreikninga kjörnir af Alþingi, hafi gengið úr skugga um það, að þetta hafi verið greitt úr ríkissjóði, og þetta voru greiðslur, sem ekki var hægt að komast hjá að inna af höndum, af því að ríkið var þarna í ábyrgð, og það er engin ástæða til að fresta samþykkt á ríkisreikningnum út af því. Og eins og ég sagði áðan, það er engin ástæða til að fresta samþykkt á ríkisreikningnum, þó að það hafi komið upp, að ríkisstj. hafi m.a. tekið í heimildarleysi nærri 300 þús. kr. til að dreifa um landið sínum áróðurs- og blekkingapésa fyrir rúmum tveimur árum. Ég geri ráð fyrir, að það liggi fyrir fullgildar kvittanir fyrir því. að þetta fé hafi verið borgað fyrir að ganga frá þessu þokkalega riti, hvort dreifingarkostnaðurinn er þarna með, ég veit það ekki.

Nei. það er fullkomin ástæða til, eins og haldið hefur verið á þessu máli og þar sem það er þannig óupplýst enn, að fresta því því samþykkja ríkisreikninginn, eins og við í minni hl. fjhn. höfum lagt til. Ég man ekki eftir hliðstæðu máli áður, hliðstæðu þessu. A.m.k. hafi slík mál komið fyrir, þá hafa þau vafalaust verið látin ganga rétta boðleið til fullnaðarrannsóknar, án þess að slíkur óhæfilegur dráttur hafi á orðið.