13.04.1962
Neðri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég vil gera athugasemd við það, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra. Hann segir, að við í minni hl. höfum ekki óskað eftir frekari upplýsingum um málið hjá sér í ráðuneytinu.

Þegar frv., sem hér liggur fyrir, var til meðferðar í fjhn. þessarar d., spurði ég að því í n., hvort ekki mundi vera unnt að fá frekari upplýsingar en þegar höfðu fram komið um málið, t.d. um það, sem farið hefði á milli ríkisendurskoðanda og fjmrh., en hv. meiri hl. fjhn. taldi, að það mundi ekki þýða að fara fram á slíkt, það fengjust ekki meiri upplýsingar um þetta mál, og ég efast ekkert um, að hv. meiri hl. eða fulltrúar stjórnarflokkanna í fjhn. eru fúsir til að votta, að þetta sé rétt, og þeir ákváðu þegar á þeim sama fundi að mæla með samþykkt frv. Ég tel það alveg rangt, sem hæstv. ráðherra heldur fram, að við höfum farið með rangt mál í þessari dagskrártill. Það liggur fyrir í þessu máli, að það eru engar upplýsingar fram komnar um athugun á því eða niðurstöður neinna rannsókna á málinu, frá því að skilanefndin skrifaði rn. og tilkynnti, að hún treysti sér ekki til að upplýsa málið frekar með þeim ráðum, sem henni væru tiltæk. Yfirskoðunarmenn ríkisreikninga gerðu svo sínar athugasemdir, m.a. á grundvelli þessarar skýrslu frá skilanefndinni, og meira vita menn ekki um málið, svo að það er ekkert rangt í þessari dagskrártill.