13.03.1962
Efri deild: 63. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. (BGuðm) talaði hér síðast og gat hann þess réttilega, að það væri seintekinn gróði í landbúnaði og útilokað fyrir bændastétt landsins, þegar bændur hyrfu frá störfum að dagsverki loknu, að fá sannvirði fyrir sínar eignir, sem þeir hefðu unnið að í sínu ævistarfi. Þetta var alveg rétt hjá hv. 10. landsk. þm. Og rökin fyrir því hjá hv. þm. voru þau, að það færi svo mikið af fé bændanna í framkvæmdir, sem eingöngu kæmu framtiðinni að notum. Þess vegna hélt ég í upphafi máls hv. 10. landsk. þm., að framhaldið mundi verða eftir því, að hann mundi ekki ætlast til þess, jafnframt því sem bændurnir legðu í varasjóð varðandi jarðyrkju og byggingar fyrir framtíðina, að það væri lagður sérstakur skattur á tekjur bænda landsins. Ég hélt, að hann mundi ekki fylgja því ákvæði þessa frv., þar sem Það er nokkuð sérstætt, að jafnhliða því, sem ætlazt er til þess, að bændurnir byggi upp fyrir framtíðina og Þar af leiðandi njóti ekki nema að nokkru leyti sinna verka, þá er það merkilegt, að nokkur skuli geta fundið upp á því að skattleggja Þá sérstaklega umfram það, sem gert er um aðrar stéttir. Hvað mundu launamenn landsins segja, ef þeir ættu að borga í sérstakan sjóð af sínum tekjum til að lána sjálfum sér?

Hv. 10. landsk. gat þess einnig, að það væri heimild í þessu frv. að taka 300 millj. kr. erlent lán. Ég hélt, að það væri bara 300 millj. kr. innlent lán. En eitthvað er hann samt hræddur við, að Þarna sé um erlent lán að ræða. Hann óttast, hv. þm., og hann veit sennilega meira en ég og ýmsir aðrir um það mál, og má vel vera, að hann hafi rétt fyrir sér í þeim efnum, — og hann virtist bera mjög mikinn kvíðboga fyrir því, að bændastétt landsins yrði til neydd að taka þessi lán með gengisklásúlu, sem er alveg nýtt varðandi stofnlánasjóði landbúnaðarins. Það hafa aldrei verið ákvæði í lögum um Það, þótt tekið væri erlent fé til útlána, að lána það síðan út með gengisklásúlu. En hv. 10. landsk. þm. virtist bera mikinn kviðboga fyrir því, ef bændur þyrftu á slíku að halda, og hygg ég, að sá ótti hans sé ekki algerlega ástæðulaus.

En þrátt fyrir þessa annmarka, sem hv. þm. sá á þessu frv., ætlar hann dyggilega að fylgja því, eftir því sem hann lýsti yfir í lokin, og má það merkilegt heita, að til skuli vera sá bóndi í landinu, sem er því fylgjandi að skattleggja sjálfan sig og sína stétt, um leið og hann er að leggja stóra fjármuni í sjóði fyrir framtíðina með sínum verkum í búskapnum. Það er merkilegt. Ég kem nokkuð að þessu síðar, en vildi minnast á þetta fyrst, vegna þess að mér kom ræða hv. þm. mjög á óvart.

Út af fyrir sig verð ég að játa það, að mér kom fátt eitt á óvart, sem hæstv. landbrh. minntist á, því að hann hefur smám saman í þeim ræðum, sem hann hefur haldið á þessum vetri, verið að boða þennan boðskap, sem loksins brauzt út í sambandi við þetta mál í dag, og var hann ákaflega lukkulegur yfir því, að það skyldi þó takast að uppfylla eitt af þeim loforðum, sem mér skildist að hæstv. ríkisstj. hefði gefið, um leið og hún settist í valdastólinn, að treysta öryggi stofnlánasjóða landbúnaðarins. Já, það er nú svo. En hverjir hefðu trúað því, að það skyldi gert á þennan hátt, sem þetta frv. mælir fyrir um, og hver skyldi hafa trúað því fyrir nokkrum árum, að núv. hæstv. landbrh. mundi verða fyrstur talsmaður þessa máls, því að hann sagði í þingræðu 1958, með leyfi forseta, í sambandi við annað mál að vísu: „Hér er um dálítið sérstakt mál að ræða. Það er um það að ræða, hvort bændur eigi að borga nýjan skatt, sem nemur nú a.m.k. 2 millj. kr.“ Þetta var 1958. Þá var 2 millj. kr. skattur á bændastéttina mjög mikill skattur í augum þessa hæstv. ráðh., en nú er 8 millj. kr. skattur bara ofur lítið smáræði. En það er nú svo, að „þetta, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann“, það sannast áþreifanlega á þessum hæstv. ráðh. Og Það má með sanni segja, að það er ekki ein báran stök, hvorki hjá þessum hæstv. ráðh. né þessari hæstv. ríkisstj., því að þegar ein báran rís, þá er önnur vís. Og það hefur aldrei síðan með löggjöf var farið að vinna að uppbyggingu landbúnaðarins verið búið jafnilla og verið staðið jafnilla að þeirri löggjöf eins og nú hjá þessari hæstv. ríkisstj., þannig að það er um alger straumhvörf að ræða. Og ég get nefnt nokkur dæmi og sýnt hæstv. ráðh. og þm. fram á það, hvernig búið hefur verið að uppbyggingu landbúnaðarins á liðnum áratugum, því að ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. hugsi lítið um það og kæri sig kannske ekki mikið um að vita Það, en það skal þó staðfest í þingtíðindum, hvernig að landbúnaðinum hefur verið búið á hinum einstöku tímum.

Árið 1928 eru lán samkv. byggingar- og landnámssjóðslögunum til endurhýsingar með 5% vöxtum og lánstíminn 42 ár, lán út á nýbýli á ræktuðu landi með 31/2% vöxtum og lánin til 50 ára og lán til nýbýla á óræktuðu landi með 2% vöxtum og til 50 ára. Ræktunarsjóður hafði frá 1925 til 1946 aðeins 41/2 % vexti og frá 1947 21/2% vexti, veðdeildin frá 1930 til 1946 4% vexti, og frá 1947 til 1954 veitti byggingarsjóður lán til 42 ára, Þegar um varanlegar byggingar var að ræða, en annars til 25 ára með 2% vöxtum. Ræktunarsjóður tók á sama tíma 21/2% vexti og lánstíminn 25 ár, allt til þess að þessi hæstv. ráðh. kom til valda, og veðdeildin 4% vexti til 30 ára. En síðan hin nýja landbúnaðarstefna hófst og hin nýja viðreisn hófst í þessu landi, eru lán hjá byggingarsjóði með 6% vöxtum og ræktunarsjóði 61/2%, jafnframt því sem lánstíminn var styttur niður í lengst 15 ár, og lánstími veðdeildar styttur fyrir skömmu niður í 25 ár með 8% vöxtum. Samhliða því sem lánakjör landbúnaðarins eru stórskert, er lagður nýr skattur á bændastétt landsins, um það bil 2% af launum hvers bónda í landinu, og nemur sú upphæð samkv. verðlagsgrundvallarverði um 1700 kr. á vísitölubúið í landinu, — um 1700 kr. skattur á vísitölubúið eða hvern bónda, sem hefur tekjur samkvæmt vísitölubúinu í landinu. Þetta er fáheyrt, að úrræðaleysið skuli vera svona mikið hjá þeim, sem hafa endurskoðað þessi lög og átt að byggja upp þessa sjóði fyrir framtíðina. Og þetta er líka alveg gagnstætt því. sem bændastétt landsins hefur ætlazt til. Eða hefur Stéttarsamband bænda verið spurt, hefur verið leitað ráða til þess varðandi þessa lagasetningu — eða Búnaðarfélags Íslands? Ég bara spyr. Hafi þau gefið svar í þá átt, eins og þetta frv. mælir fyrir um, Þá er það algerlega gagnstætt því, sem samþykkt hefur verið á aðaifundum Stéttarsambands bænda. Á síðasta fundi Stéttarsambands bænda, sem haldinn var að Bifröst í byrjun september 1961, voru óskir Stéttarsambands bænda í lánamálum eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1961 litur svo á, að þær stórstígu breytingar á verðlagsmálum í landinu, sem átt hafa sér stað að undanförnu, einkum þó á síðasta ári, hafi svo neikvæð áhrif á þróun landbúnaðarins meðal þjóðarinnar, sér í lagi að því er snertir byrjendur í búskap, að ekki sé unandi við það ástand, er ríkir í þessum málum nú. Sem tilraun til að draga nokkuð úr þeim erfiðleikum, sem þarna er við að stríða, telur fundurinn nauðsynlegt, að Stéttarsamband bænda beiti sér fyrir eftirfarandi:

1) Veðdeild Búnaðarbankans verði efld, svo að hún verði fær um að veita frumbýlingum nægileg lán með hagstæðum kjörum til kaupa á jörð, búi og landbúnaðarvélum.

2) Að tryggt verði fjármagn til stofnlánasjóða landbúnaðarins.

3) Að lausaskuldir bænda fáist yfirfærðar í bankana og verði lánað til langs tíma með lágum vöxtum.

4) Að ríkissjóður taki að sér greiðslu hinna erlendu lána, sem sjóðir Búnaðarbankans hafa fengið.

5) Að vextir stofnlána verði lækkaðir og lánstíminn lengdur í Það, sem áður var.“

Og svo er hér ein tillaga til viðbótar: „Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1961 skorar á þing og stjórn að hlutast til um það, að rekstrarlán til landbúnaðarins vaxi í hlutfalli við aukna framleiðslu og njóti að öðru leyti svipaðra kjara og sjávarútvegurinn.“

En á þetta skortir allmikið, að það sé í nokkru fylgt óskum Stéttarsambands bænda frá þessum aðalfundi eða öðrum þeim fundum, sem Stéttarsambandið hefur gert ályktanir á. Það skortir mikið á, að svo sé. Og það er vert að geta þess líka, af því að á stéttarsambandsfundi eru fulltrúar bænda innan allra stjórnmálaflokka landsins, að þessar till. voru samþykktar einróma, með öllum atkvæðum fundarmanna, þannig að það var enginn ágreiningur um þessi atriði á meðal bænda landsins.

Það er ekki mikið verið að hlusta á bændurna og þeirra vilja og þeirra getu til uppbyggingar í landbúnaðinum. Og það er mikill uggur í bændum um, að hin nýja stefna hæstv. landbrh. kunni að valda gífurlegum samdrætti í landbúnaðarframleiðslunni á komandi árum. En í þessu sambandi vil ég geta Þess, að á árinu 1950 var gerð áætlun um framfarir innan landbúnaðarins næstu 10 ár, og stóðst sú áætlun fullkomlega og fór að nokkru fram úr því. sem gert hafði verið ráð fyrir, vegna þess að það var það vel búið af löggjafarvaldinu að landbúnaðinum á þeim árum, á þessu tíu ára tímabili. Og það erlenda kapítal, sem kom til landsins á þeim árum, varð því þjóðarheildinni til mikils gagns varðandi uppbyggingu, bæði í landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og ýmsum öðrum atvinnugreinum þjóðarinnar. Það er því engin goðgá að ætlast til Þess, að ríkið, sem nýtur framleiðslunnar, sem fer fram í landinu, taki á sig þau gengistöp, sem núverandi valdhafar hafa valdið þjóðinni, síðan Þeir komust í stólana. En í Árbók landbúnaðarins stendur, með leyfi forseta, þar sem er lýst áhrifum þess fjármagns, sem veitt var til landbúnaðarins á þeim árum:

„Þetta viðhorf og þær þjóðfélagsaðstæður, sem að framan eru greindar, voru frumorsök þess, að á árunum 1950–1960 má segja, að bylting hafi átt sér stað í vélvæðingu og ræktun í íslenzkum landbúnaði, og óhætt er að fullyrða, að meira hafi verið framkvæmt á þessu tíu ára tímabili í íslenzkum landbúnaði en nokkru öðru tíu ára tímabili í sögu þjóðarinnar.“

En við skulum nú bara líta ofur lítið á dæmið og vita, hvort þessi sama þróun á sér stað, siðan þessi hæstv. ríkisstj. kom til valda. Það er að vísu ekki liðinn langur tími, og maður gæti búizt við, að það færu ekki að verða djúp sporin innan landbúnaðarins enn þá eftir svo skamman tíma. En því miður eru staðreyndirnar allt aðrar. Og það stendur í bók, sem útbýtt var í Þinginu fyrir nokkru, þ.e. Til búnaðarþings 1962, og allir þm. hafa þetta á borðunum fyrir framan sig og geta vitanlega fylgzt þar með málum. Ef maður tekur eina sýslu, eins og t.d. Rangárvallasýslu, sýslu þessa hæstv. landbrh., hvernig hefur þróunin verið þar árið 1960, á því fyrsta herrans ári, sem hæstv. landbrh. ræður ríkjum í þessu landi? Þar stendur, með leyfi forseta: „Nýrækt 381.03 hektarar árið 1960.“ En hvað var hún árið áður? Hún var 648.46 hektarar eða 267 hekturum meiri í sýslu þessa hæstv. landbrh. Og hvernig er með girðingarnar? Það voru girtir 58138 m árið 1960, en árið áður 73 366 m. Það er yfir 15 þús. m, sem minna er girt á árinu 1960 en árinu áður. Hvernig skyldi það vera með byggingarnar í þessu ágæta héraði? Þurrheyshlöður steyptar 10396 rúmmetrar árið 1960, en 20369 rúmmetrar árið 1959, eða um 10 þús. rúmmetrum meira. Og vélgrafnir skurðir voru árið 1960 317496 rúmmetrar, en árið áður 609 747 rúmmetrar, eða 292 þús. rúmmetrum meira. En einhver mundi kannske segja, að það væri ekki rétt að taka svona út úr eina sýslu. En sannleikurinn er bara sá, að þessi eina sýsla er ekkert sérstök í sinni röð, vegna þess áð í flestöllum sýslum landsins á sér stað svipaður samdráttur í framkvæmdum á vegum bændastéttar landsins. Og heildarniðurstaðan fyrir árið 1960 er — með leyfi forseta — á þennan veg:

„Í sambandi við ræktunarframkvæmdir, er unnar hafa verið 1960, er nokkur ástæða til að vekja athygli á því, að árið 1960 er eina árið um tíu ára skeið, þar sem dregið hefur úr framkvæmdum, sem framlag er veitt til úr ríkissjóði. Í tíu ár, nánar tiltekið frá 1949, hafa framkvæmdir bænda aukizt ár frá ári, einkum nýræktin, en árið 1960 snýst blaðið við. Frá 1959 hafa eftirtaldar framkvæmdir minnkað sem hér segir:

Nýrækt um 826.34 hektara eða 19%. Vélgrafnir skurðir um 831700 rúmmetra eða um 19%.

Girðingar um 67 929 metra eða ca. 11%.

Þurrheyshlöður um 53 408.7 rúmmetra eða 30%.

Þetta er heildarniðurstaðan á árinu 1960. Á Því herrans ári, þegar núv. landbrh. er búinn að sitja eitt ár í ríkisstj. Svona verkuðu hans aðgerðir þrátt fyrir fögur loforð til bændastéttar landsins það herrans ár. Og það er vitað mál, að árið 1961 varð þessi samdráttur meiri, eins og greinilega kom fram í þeirri útvarpsræðu, sem Gísli Kristjánsson flutti snemma á þessu ári. Og þetta liggur líka tölulega fyrir, þótt það sé ekki aðgangur að því í einu lagi nú, enda ekki orðið það áliðið árs, og hægt er að fá upplýsingar um það, áður en langir tímar liða.

En hver er svo ástæðan fyrir þessum samdrætti? Er það vegna þess, að framleiðslan sé nóg, ræktunin sé nóg, að bændur hafi það svo gott, að þeir þurfi ekki meira að gera? Er það aðalorsökin og eina orsökin? Nei, aðalorsökin er fjárskortur. Og þetta hefur líka hæstv. ríkisstj. viðurkennt með þeim kreppulöggjöfum, sem hún hefur verið að beita sér fyrir hér á Alþingi. Það hefur ríkt kreppa á meðal atvinnuveganna og orðið að gera sérstakar ráðstafanir, til þess að atvinnuvegirnir gætu gengið nokkurn veginn óhindrað. Í fyrra var sett löggjöf um stofnlánadeild sjávarútvegsins, og svo aftur nú í ár er a.m.k. að nafninu til verið að koma á svipaðri löggjöf varðandi lausaskuldir bænda, um að koma þeim í föst lán. En kverkatökin hafa ekki verið nógu sterk hjá hæstv. ríkisstj. á bændastétt landsins með gengisfellingunni, vaxtahækkuninni, styttingu lánstímans og minnkuðum ríkisframlögum, heldur þarf enn fremur nú að höggva í sama knérunn og sérstaklega skattleggja bændastétt landsins. Þáð er seint nóg að gert. En allar þessar ráðstafanir miða fyrst og fremst að höfuðstefnu núv. ríkisstj., það er samdráttur í allri framleiðslu, og Þetta frv. er byggt á því. að það eigi sér stað samdráttur og þess vegna verði hægt að fullnægja eftirspurn eftir lánum í framtiðinni. En það veitir engin sérstök fríðindi í lánastarfsemi fram yfir það, sem áður hefur verið.

Það er ekki í fyrsta skiptið, sem reynt er að byggja upp þessa sjóði fyrir framtíðina. Ég man ekki betur en það væri 1946, þegar sjálfstæðismenn beittu sér þá fyrir breytingu á byggingar- og landnámssjóðslögunum, að þá væri búið að bjarga þessum málum um alla framtið. Bændurnir ættu að vísu ekki að fá styrk út á byggingar, en þeir ættu að fá svo hagkvæm lán, að það yrðu ekki mikil vandræði hjá bændunum eftirleiðis. Hver er svo reynslan af þessu? Ég held, að höfuðsjónarmiðin, þegar sú löggjöf var sett, 1946 eða 1947, — ég man nú ekki, hvort árið það var, — hafi verið þau, að ríkið átti að greiða með sérstökum fjárframlögum vaxtamismuninn á þeim lánum, sem byggingar- og ræktunarsjóður tækju, og útlánsvöxtum til bænda frá þessum sjóðum. Ríkisframlagið átti að brúa bilið þarna á milli, en gert ráð fyrir því, að sjóðirnir gætu notað innlent fé til útlána, eftir því sem möguleikar gæfust, samhliða því sem reynt yrði að efla höfuðstól sjóðanna, eftir því sem tækifæri gæfust til hverju sinni. Ef maður flettir upp í Morgunblaðinu frá þessum árum, þá var búið að tryggja þetta um alla framtíð. Hvers vegna hefur það þá ekki orðið í reyndinni? Við getum líka minnzt annars atviks í sambandi við þessa sjóði, að Þegar mótvirðisframlagið kom til sögunnar og það var lögfest á Alþingi, að lánasjóðir landbúnaðarins fengju helming mótvirðissjóðs til útlána, þá var svo sem búið að tryggja Þetta um alla framtíð. Og á þeim árum, miðað við það verðlag, sem þá ríkti, nægði að vísu mikið af mótvirðissjóðsframlaginu til útlána úr byggingar- og ræktunarsjóði. En Adam var ekki lengi í Paradís að þessu sinni frekar en endranær. Og þær verðbreytingar, sem orðið hafa í landinu, hafa valdið því í og með, að uppbygging sjóðanna hefur ekki reynzt á þann veg, sem til hefur verið stofnað í upphafi, og á því hygg ég, að verði ákaflega lítill munur að þessu sinni, þótt þessi tilraun sé gerð. Og það er nokkuð víst, að undir forustu þeirrar ríkisstj., sem nú er, standast ekki þeir útreikningar, sem nú eru gerðir, lengi, ef fram heldur sem byrjað hefur með þær verðbreytingar í landinu, sem hófust í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Það er nokkuð víst, að það stendur ekki lengi.

Hér er um algera stefnubreytingu að ræða í sambandi við lánamál landbúnaðarins. Það er tekin upp ný stefna, samhliða því. sem lánakjörin eru stórum skert frá því. sem áður var. Með háum vöxtum og stuttum lánstíma þykir ekki nóg að gert, heldur á Þar ofan í kaupið að skattleggja bændur. Þetta er vel að verið hjá þessari hæstv. stjórn.

Höfundar þessa frv., sagði hæstv. ráðh., að væru Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Magnús Jónsson bankastjóri Búnaðarbankans og Gunnlaugur Briem í stjórnarráðinu, og síðan hefði verið fenginn höfundur einn úr Alþingi, úr Alþfl., Jón Þorsteinsson, til þess að leggja blessun sína yfir þetta frv. Ráðh. gat þess, að Það væru miklar líkur til þess, ef á þyrfti að halda og þetta frv. næði fram að ganga, að það yrði þægilegra um vik að útvega sjóðunum fjármagn í framtíðinni, ef þessi ákvæði laganna næðu öll fram að ganga, það væri eiginlega búið að tryggja það á einhvern hátt, að ef skatturinn á bændurna stæði um nokkurra ára skeið, þá yrðu ýmsir viljugri til að lána þessum sjóðum, ef á þyrfti að halda, en ella væri. En hverjir eru það? Það væri fróðlegt að vita, hverjir það eru, sem hafa gefið þannig loforð upp á framtíðina. Ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi sagt það satt, að Það sé e.t.v. svo, að það hafi kannske verið kaup kaups að taka inn þetta ákvæði til þess að tryggja sjóðunum lán frá Seðlabankanum eða einhverjum öðrum aðila.

Það var að skilja á hæstv. ráðh., að það hafi ákaflega lítið verið gert til þess að afla þessum sjóðum fjár á undanförnum árum og höfuðstóll sjóðanna væri sem sagt í mínus nú. Ég hugsa, að hann segi það satt, að Þeir séu í mínus og hafi komizt það fyrst í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Árið 1953 ákvað Alþingi með sérstökum lögum að láta ræktunarsjóð hafa 14.4 millj. og byggingarsjóð 14.4 millj., eða 28.8 millj. þá á einu ári, til að efla höfuðstól sjóðanna. Og aftur árið 1957 er ræktunarsjóður látinn hafa 32.3 millj. og byggingarsjóður 4.3 millj., eða 36.6 millj. þá í einu, og á þessu fimm ára tímabili fengu sjóðirnir í óafturkræft framlag frá ríkinu auk þess, sem árlega er tekið inn á fjárlög, 65.4 millj. kr. eða álíka háa upphæð og mér skilst að eigi að láta sjóðina hafa nú samkvæmt þessu frv., þrátt fyrir það að dýrtíðin hefur margfaldazt, síðan þessar fjárupphæðir voru látnar til sjóðanna.

Ég hef lýst hér nokkuð lánamálum landbúnaðarins áður fyrr og einnig þeirri nýju stefnu, sem nú er upp tekin í lánamálum landbúnaðarins. Og bað má segja sem svo, að þetta komi engum á óvart, þessi nýja stefna, því að henni hefur skotið upp hér og þar á vegum sjálfstæðismanna, og það verður mörgum landsmönnum minnisstæður kafli úr ræðu, sem einn af framámönnum Sjálfstæðisfl. flutti, — ég held, að það hafi verið 1. maí, — hér í Reykjavík fyrir nokkrum árum, en það var Guðjón í Iðju, þegar hann lýsti því yfir, að það ætti að fækka bændum um helming. En þetta er sennilega stefna sumra sjálfstæðismanna, þótt ég trúi því tæpast, að Þetta sé almenn skoðun sjáifstæðismanna í landinu, þótt vafalaust séu nokkrir til, sem vilja gera þetta að sinni meginhugsjón, en eru þá ragir við að láta mikið á Því bera. En þetta kemur óneitanlega fram í huga manns nú, þegar maður stendur frammi fyrir aðgerðum hæstv. ríkisstj. í lánamálum landbúnaðarins og mörgum öðrum gerðum hennar, sem skella á bændastéttinni, því að allt miðar þetta í hina einu og sömu átt, þ.e. í samdráttarstefnuna. Við höfum hlustað á það oft og mörgum sinnum í þinginu í vetur, að nú ætti að tryggja, að hver einasti bóndi gæti fengið það mikil lán til sinna framkvæmda og vélakaupa, að það kæmi ekki til mála, að það söfnuðust neinar lausaskuldir í framtiðinni. Það er fjarstætt. Og meira að segja er því nú haldið fram í sambandi við lausaskuldamálin, að það hafi verið lánað það mikið út á framkvæmdir 1961, að Það beri ekki að taka til greina lausaskuldasöfnun á því ári, vegna þess að þær séu svo hverfandi litlar, miðað við það, sem áður var.

Þessi nýja stefna hæstv. ríkisstj. á sinn líka hvergi í heiminum, því að allar þjóðir, sem hafa unnað landbúnaði, hafa notað ríkisvaldið til þess að miðla málum og byggja upp öflugan landbúnað í sínu landi. Og Bretar skildu það, ekki sízt á stríðsárunum, hvers virði landbúnaðurinn var þeim, og einmitt eftir þann tíma og frá Þeim tíma hafa þeir lagt mikið af mörkum til uppbyggingar brezka landbúnaðinum. Fyrir utan hin óafturkræfu almennu framlög, sem hver einasti bóndi nýtur í Bretlandi, greiða þeir til þeirra, sem erfiðasta hafa aðstöðuna, vissa fjárupphæð á framleiðslu bændanna, til þess að þeir fái hærra verð en þeir, sem betri hafa aðstöðuna, fyrir utan svo Það, að þar er lánað út til framkvæmda í landbúnaði, til bygginga og ræktunar, lán til langs tíma með mjög lágum vöxtum. Þeir telja, að þetta séu ein af aðalbjargráðunum fyrir landbúnaðinn, að geta haft vaxtafótinn nógu lágan og lánstímann nógu langan. Og bændur landsins hér finna það líka vel, hver breytingin hefur orðið á í þessum efnum, því að Það er ekki sama, hvort maður borgar lánið upp á 15 árum eða 30 árum eða hvort maður borgar 3% eða 6% vexti. Ég tala nú ekki um, ef þar ofan í kaupið á að leggja 2% skatt á laun bændanna í landinu, eins og gert er með þessu frv.

Alveg sama þróun hefur átt sér stað í Noregi. Norsku fjallabyggðirnar hafa haldizt í byggð fyrir það, að valdhafarnir í Noregi hafa skilið hlutverk landbúnaðarins norska og reynt að miða styrki og kjör bænda við það, að þeir gætu haldið áfram sinni framleiðslu. Og svona má viðar fara. Það er alþekkt, að danskir bændur búa við sérstaklega hagstæð lánakjör, og ég efast mjög um það, sem hæstv. ráðh. gat um hér áðan, að það fyrirfinnist nokkur hliðstæður skattur í norskri löggjöf, sem aflar fjár til útlána innan norska landbúnaðarins, eins og hér er lagt til, — ég efast um, að það sé nokkur fótur fyrir því. Það er líka augljóst mál, að íslenzkur landbúnaður getur ekki lengi haldið áfram við þau kjör, sem honum eru nú búin, það er alveg augljóst mál, og þetta veit ég að margir skilja, þótt Þeir styðji þetta mál hér í þingi. Ég hygg, að margir muni skilja það, Þótt þeir fái af einhverjum annarlegum ástæðum ekki við það ráðið og séu eitthvað blekktir í málinu, sem ég efast ekki um að Þeir eru.

En ég verð að segja það, að ég hélt nú satt að segja, að hæstv. ríkisstj. mundi ekki enn á ný ofan í Það, sem hún hefur áður gert í garð bændanna, koma með frv. líkt þessu og þann skatt, sem á að leggja á bændur skv. þessu frv. Ég hélt satt að segja, að hún hefði fengið sig fullsadda af því að stytta lánstímann og hækka vextina. En það er nú ekki svo, og virðast engin takmörk vera fyrir því. hvað hún ætlar sér að gera til þess að minnka landbúnaðinn verulega frá því, sem annars væri. Það er vert að minna á það, að ef núv. stjórnarstefna hefði ríkt á 10 ára tímabilinu frá 1950-1960, þá yrði að flytja inn landbúnaðarvörur nú fyrir á fjórða hundrað millj. kr. En fyrir framsýni þeirra ríkisstjórna, sem verið hafa að undanförnu, á árunum frá 1950—1960, og ekki sízt Þeirra ráðh., sem fóru þá með landbúnaðarmálin, tókst að auka framleiðsluna svo mikið, að við gerum betur en fullnægja Því, sem við þurfum innanlands af landbúnaðarframleiðslu, og getum flutt nokkuð út, enda er Það alveg augljóst mál, að ef landbúnaðurinn á að vera hlutverki sínu vaxinn, sínu fyrsta hlutverki, að sjá þjóðinni fyrir hollri landbúnaðarfæðu, þá verður alltaf að flytja út kúfinn af framleiðslunni, því að annars verður skortur á þessum vörum annað slagið.

Hæstv. ráðh. vildi gera lítið úr því. hvað við hefðum gert fyrir þessa sjóði landbúnaðarins á undanförnum árum, og minntist eiginlega ekki á neitt annað en erlendu lánin, sem höfðu verið tekin og hafa engan veginn orðið til skaða þjóðarheildinni eða landbúnaðinum, nema siður sé. Og við höfum lagt til, framsóknarmenn, á mörgum þingum, að ríkið tæki að sér að greiða þann gengismun, sem er á þessum lánum og hefur komið fram við þær gífurlegu gengisbreytingar, sem orðið hafa, síðan lánin voru tekin. Og það er táknrænt fyrir þessa hæstv. ríkisstj., að um leið og hún lætur ríkið taka að sér gengistöp annarra banka, þá skilur hún eftir eina sjóði Búnaðarbankans, sem voru landbúnaðinum til handa. Það er táknrænt fyrir hæstv. ríkisstj. og eftir öðru í garð bændastéttarinnar. En hver heilvita maður í þessu landi skilur, að það er fyrst og fremst þjóðarheildin, sem á að borga þennan gengismun, þar sem það eru valdhafarnir, sem hafa orðið til þess að valda þessum breytingum. Og Það er merkilegt, að hæstv. landbrh. skyldi geta stutt það, þótt það kæmi fram í milliþn., er hann skipaði, að láta leggja þennan sérstaka skatt á bændur landsins. Og það stangast algerlega á við hans skoðun á slíkum sköttum á árum áður. En hann er bara miklu stórstígari en nokkur annar hefur verið á undanförnum árum, því að nú ætlar þessi hæstv. ráðh. að láta bændur landsins greiða um 140 millj. kr. skatt á um það bil 14 árum — um 140 millj. kr. skatt — og að auki láta leggja skatta á framleiðsluvörur landbúnaðarins, sem til samans eru nokkuð á þriðja hundrað millj. kr., þannig að sá höfuðstóll, sem hann var að tala um hér í dag að mundi verða til 1975, mundi verða 507 millj. 150 þús. það ár, en af þeim höfuðstól er komið í hann af framleiðsluvörum landbúnaðarins, -% af upphæð höfuðstólsins, 2/5 af þeim höfuðstól, sem stofnlánadeild landbúnaðarins á á því herrans ári. Og það kalla ég sannarlega vel að verið ofan á annað að ætla að skattleggja bændur svo gífurlega.

Þá eru ýmis ákvæði þessa frv., sem eru varhugaverð bændastéttinni, eins og ég gat um áðan, eins og 12. gr. frv., sem ber það með sér, að hér er um algera nýjung að ræða, alveg nýja stefnu, þar sem sagt er, að það skuli heimilt að lána út lán, sem kunni að vera tekin erlendis, með gengisklásúlu. Við vitum nokkurn veginn, hvernig þetta mundi hafa verkað á undanförnum árum, ef það hefði verið siður og ef yrði lögboðið að lána bændum lán til ræktunar og byggingar með gengisklásúlu. Við skulum segja, að bóndi keypti dráttarvél á s.l. ári fyrir 100 þús. kr. og nú félli hæstv. ríkisstj. gengið á ný, því að hún er alitaf að feila gengið, t.d. um 50%, og það sé lánað út á þessa vél 100 þús. kr. eða kaupverðið, þá kostar hún ekki aðeins 100 þús., heldur er hún komin upp í 150 þús., með kannske lán til 5 ára, eins og mér skildist að mundi verða lánstíminn fyrir vélarnar, ef væri lánað út á þær með 61/2% vöxtum. Það bætast þarna við 50 þús. með 61/2 % vöxtum til skamms tíma. Það sér hver heilvita maður, að það er útilokað mál, að bændastétt landsins geti notfært sér slík lán. Og það kemur líka greinilega fram í grg. þessa frv., að þeir, sem það hafa samið, höfundar þess, þeir sakna þess, að það skuli ekki hafa verið lánuð út þau erlendu lán, sem voru tekin fyrir stofnlánasjóðina, með gengisklásúlu. Það er söknuður hjá þeim um það atriði. Og þeir segja, með leyfi forseta:

„Þar sem engu að síður verður að teljast fráleitt að taka erlent lánsfé án þess að endurlána það með gengistryggingu, þykir rétt að takmarka slík endurlán við vinnslustöðvar og vélakaup, enda hljóta vélakaupalán jafnan að verða til tiltölulega stutts tíma, auk þess sem vélar hækka í verði, ef gengislækkanir verða.“

Þannig er augljóst mál, að ef ekki verður hægt að fá innlent lánsfé til þessara sjóða, þá verður reynt að fá erlend lán og lána þau síðan út með gengistryggingu, eins og lögin mæla fyrir um, en slíkt tel ég vera mjög óheppilegt og útiloka, að bændastéttin almennt geti notfært sér þau.

Það er sannarlega vel hugsað fyrir bremsunni á því hjóli, sem á að takmarka hraðann í framkvæmdum á vegum bændastéttarinnar á komandi árum, því að þar er margföld bremsa, sem ég hef áður getið um.

Tekjurnar samkvæmt frv. eru í 5 liðum í 4. gr. frv. Þar er minnkað fjárframlagið frá því, sem verið hefur á fjárl., fastaframlagið. Síðan kemur 1% á söluverð landbúnaðarins, sem er um 1700 kr. á bónda, sem hefur tekjur samkvæmt meðalbúinu í landinu, og er sérstakur tekjuskattur á bændur. Og í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að ríkið greiði jafnháa upphæð og innheimtist samkvæmt 2. lið frv. Því ber að sjálfsögðu að fagna, og sá liður getur að sjálfsögðu staðið, þótt hinn yrði felldur úr frv. Fjórði möguleikinn er sérstakt gjald, sem á að leggjast við söluverð varanna, 0.75%, en þó að miðast við grundvallarverð landbúnaðarafurða. Það á að miðast við grundvallarverð landbúnaðarafurða, en bætast ofan á heildsöluverðið, þannig að ég geri ráð fyrir, að neytendum sé ætlað að greiða þetta. En fari svo, að Það skorti á, að bændur fái sitt grundvallarverð fyrir afurðirnar, þá vitanlega tekst þetta gjald af þeirra verði einnig, og tæplega trúi ég því, að neytendur verði mjög spenntir fyrir því að greiða Þetta gjald, því að Það er nokkuð táknrænt, að fyrir nokkrum árum urðu málaferli hér á landi milli framleiðsluráðs landbúnaðarins annars vegar og að mig minnir neytendasamtakanna hins vegar út af 90 aura gjaldi, sem framleiðsluráðið bætti ofan á heildsöluverð kjöts til þess að bæta upp útflutningsverð landbúnaðarafurðanna. Þetta var heimilt samkvæmt lögum, en neytendur risu öndverðir gegn þessu gjaldi, þannig að þetta fór í mál, og hæstaréttardómur féll á þann veg, að framleiðsluráð hefði verið í fullum rétti með að leggja þetta gjald á til að bæta útflutningsverðið. Ég er því ekki búinn að sjá, að neytendur verði sérstaklega ánægðir yfir þessu gjaldi. Fimmti möguleikinn með tekjuöflun eru vaxtatekjur.

Í frv. er ekki um neinar nýjungar að ræða gagnvart lánastarfseminni. Það eru ekki teknir upp neinir nýir liðir í þetta frv., aðrir en til lax- og silungseldis, umfram það, sem áður hefur verið í lögum um ræktun og byggingar. Það er það eina. Og ef maður lítur á veðin, þá er þar ekki heldur um neinar nýjungar að ræða. Það hefur verið talað um, að Það ætti að lána út á vélar skv. þessu nýja frv. Þá þarf eftir sem áður að veðsetja fasteign eða fá þá ábyrgð sýslufélags, að mér skilst, þannig að þar er ekki um neina breytingu að ræða heldur, að bóndi, sem ekki á sína jörð og á erfitt með að fá veðieyfi hjá jarðareiganda, getur eftir sem áður ekki fengið nein lán, jafnvel þótt féð væri fyrir hendi.

Hér er gert ráð fyrir skv. þessu frv. að slengt sé saman byggingarsjóði og ræktunarsjóði. Ég skal ekkert segja um það, hvaða áhrif það kann að hafa, en ég hygg þó, að ef stofnlánadeildin hefur mjög takmarkað fé, þá muni þetta sízt verða til bóta. Svo er líka gert ráð fyrir því, að Það sé ekki lánað til neins meira en 60% af kostnaðarverði, en áður stóð í lögum um byggingarsjóð og lagaheimildin náði til 75% af kostnaðarverði húsa. Það skal að vísu játað, að því ákvæði laganna hefur ekki verið hægt að framfylgja, en ef spá hæstv. landbrh. rætist, þannig að stofnlánadeildin hafi nú fullar hendur fjár innan nokkurra ára, Þá held ég. að það væri ekkert úr vegi að láta þetta ákvæði standa áfram, vegna þess að ég er sannfærður um það, að þeim, sem byggja íbúðarhús í sveit eftirleiðis, veitir sannarlega ekki af því. og því væri æskilegt, að sú heimild yrði áfram í lögum, ef fjármagn yrði fyrir hendi til þess að sinna þeirri lánastarfsemi. Lánstíminn á að vera frá 5 og upp 3 42 ár, og er það að sjálfsögðu á valdi hlutaðeigandi ríkisstj. og bankastjóra, hvað lánstíminn verður langur í hverju og einu tilfeili. En hitt vita allir, að það er mjög bagalegt, að stytting lánstímans var gerð jafnframt vaxtahækkun.

Um vextina hef ég talið, að væri hyggilegt að binda þá fasta í lögum og færa þá í það horf, sem þeir áður voru, vegna þess að það er þegar búið að sýna sig, að vaxtakjörin hafa valdið bændum landsins stórkostlegum baga og gert það að verkum, að meiri lausaskuldasöfnun hefur orðið hjá þeim en ella hefði verið.

Það er að sjálfsögðu ekkert að segja við Þeirri lántöku, sem hér er heimiluð. Það veitir sjálfsagt ekki af henni. Geri ég ráð fyrir, að ef svo fer eins og fram kemur af þessum skýrstum, sem hér eru birtar með frv., þá þurfi þegar á Þessu og næsta ári, ef sinna á nokkurn veginn lánsbeiðnum í hlutfalli við það, sem var s.l. ár, þó að maður miði við nokkurn samdrátt, þá veitti ekki af verulegum lánum. En ég harma, að það skuli vera tekið upp í lög að heimila að lána út með gengisklásúlu, ef um erlent lánsfé er að ræða, því að ég hef þegar sýnt fram á það, að slíkt getur ekki orðið nema bagi einn fyrir bændastétt landsins.

Þá er það 13, gr. Hún fjallar um heimild til þess fyrir stofnlánadeildina að kaupa bankavaxtabréf veðdeildar Búnaðarbankans allt að 10 millj. kr. á ári. Nú skal ég ekkert um það segja, hvað veðdeildin kann að þarfnast mikils fjár, en ég hygg þó, að það sé töluvert, vegna þess að mér er ekki kunnugt um og að minnsta kosti hef ég ekki fengið eitt einasta lán afgreitt úr veðdeild árið sem leið og bíð með fjöldamörg lán fyrir ýmsa, og ég veit, að það er mikil þörfin á því. að hægt sé að efla þá deild. En ég fæ ekki séð af því, sem þegar er upplýst í þessu máli, að veðdeildin verði starfhæf nú á þessu eða næsta ári, vegna þess að fjárráð stofnlánadeildarinnar virðast vera það lítil nú í fyrstu að minnsta kosti, að það er óhugsanlegt, að hún geti keypt bankavaxtabréf af veðdeildinni.

Það hefur verið líka margsinnis skýrt frá því í tíð núv. stjórnar, að það sé verið að afhenda fjármagn til veðdeildar Búnaðarbankans, og því hefur margsinnis verið heitið, að það liðu ekki langir tímar, þar til hægt yrði að veita lán úr veðdeildinni. En ef ekkert annað liggur fyrir varðandi veðdeildina en það, sem getið er um í þessu frv., þá hygg ég, að fjöldi hænda verði að bíða nokkuð lengi eftir lánum úr veðdeildinni, fyrir utan svo það, að það er mikil þörf á því að hækka verulega lánsupphæðir úr veðdeildinni frá því, sem verið hefur.

Ég held, að það séu engar sérstakar breytingar gerðar hér á lögum um landnám ríkisins frá því. sem gilt hefur í lögum áður, nema að því er snertir aðrar breyt., sem gerðar eru á stofnlánasjóðum landbúnaðarins frá því. sem var. Ef svo er, væri fróðlegt að vita um það, því að ég minnist þess ekki, að hæstv. landbrh. gæti þess neitt sérstaklega. Í 3. gr. þessa frv. er talið upp stofnfé stofnlánadeildarinnar. Það er í fyrsta lagi eignir ræktunarsjóðs Íslands og byggingarsjóðs sveitabæja, eins og þær verða, þegar lög þessi taka gildi, í öðru lagi lán, sem ríkissjóður veitti ræktunarsjóði og byggingarsjóði 1960, ásamt áföllnum vöxtum, samtals 34,9 millj. kr., og í þriðja lagi skuldabréf, sem ríkissjóður afhenti deildinni til eignar, samtals að fjárhæð 9 millj. 142 þús. kr., sem sundurliðast þannig: Skuldabréf sex sveitarfélaga, skuldabréf veðdeildar Búnaðarbankans, skuldabréf bjargráðasjóðs og skuldabréf Sölufélags garðyrkjumanna. Þetta eru skuldabréf, og ég geri ráð fyrir, að þau greiðist inn í deildina smátt og smátt, og þess vegna spyr ég: Hvað eru þessi skuldabréf hvert fyrir sig til margra ára? Og út frá því getur maður séð, hvað stofnlánadeildin kann að fá mikið fjármagn gegn þessum skuldabréfum á næstu árum, því að það skiptir höfuðmáli, hvort skuldabréfin eru til nokkurra ára, 5 eða 10 ára eða 50 eða 60 ára. Þetta vænti ég að hæstv. landbrh. upplýsi, því að vafalaust er honum það kunnugt, eða a.m.k. er hv. 6. þm. Norðurl. e. þetta mál kunnugt, þar sem hann er bankastjóri Búnaðarbankans, auk þess sem hann hefur staðið að samningu þessa frv. Þetta er æskilegt að fá upplýsingar um.

Ég andmæli því, að það sé nú gripið til þeirra ráða, örþrifaráða, að leggja sérstakan skatt á bændur landsins ofan á allt annað, sem búið er að gera í garð bændastéttarinnar af þeirri hæstv. ríkisstj., sem nú ríkir í landinu. Ég vil skora á hæstv. ríkisstj. og höfunda þessa frv. að endurskoða þetta mál á þann veg, að það sé hægt að finna tekjuleiðir fyrir sjóðina, án Þess að það sé sérstaklega seilzt ofan í vasa bænda í landinu til þess að lána Þeim sjálfum. (Gripið fram í.) Nei, það er alveg rétt hjá bankastjóranum, það er ekki betra, að aðrir fengju Það. Það má vel vera, að það hafi skotið upp kollinum, að það ætti sérstaklega að skattleggja bændurna til þess að lána almennt út í landinu. Þetta er svo ofarlega í huga hv. þm., að sennilega hefur það eitthvað komið til tals, en ég trúi því tæplega á hann, að hann mundi hafa stutt slíka till. Ég skora mjög á Þessa aðila að endurskoða afstöðu sína í þessu máli og finna aðrar leiðir þar til úrbóta, jafnframt því sem mér finnst, að úr því að verið er að endurskoða þessa löggjöf nú, þá eigi að tryggja bændum landsins lán til lengri tíma en verið hefur og með mun lægri vöxtum en núv. hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, því að það er fráleitt að ætla sér að skattleggja bændurna ofan á það, að það er búið að tvífella gengið nú með stuttu millibili, hækka vextina, stytta lánstímann, leggja á söluskatta, og síðan að fara ofan í vasa bænda til þess að lána þeim til að geta risið undir sínum framkvæmdum í framtíðinni. Þetta er fráleit hugsun, ofan á það, að allar rekstrarvörur landbúnaðarins hafa stórhækkað, gífurlega hækkað frá því, sem áður var. Þetta er merkileg uppfinning.

Það kann aldrei góðri lukku að stýra svona gífurlegt undanhald og hratt undanhald í málefnum bændastéttarinnar eins og hefur verið 2–3 síðustu ár, — alveg gífurlegt undanhald. Það er hvergi staðið í stað, ekki á neinu sviði, og þetta frv. sýnir úrræðaleysi þessara hæstv. valdhafa kannske einna bezt, því að þetta mundi fáum hafa dottið í hug, að seilast ofan í vasa félítilla manna og margra félausra til Þess að ná í krónur til þess að geta síðan lánað þeim eða einhverjum öðrum innan landbúnaðarins. Það er vitað mál, að landbúnaðurinn þarfnast fjármagns annars staðar að en úr eigin vasa, og tilgangur þessa frv. og þessara laga og Þessara sjóða er sá að veita fjármagni í landbúnaðinn annars staðar að en frá landbúnaðinum sjálfum. Þetta hefur verið höfuðatriði þessara stofnana frá upphafi, allt þar til nú, að á að fara að skattleggja bændurna til Þess að lána þeim sjálfum.

Hæstv. ráðh. gumaði mikið af því, að nú væri alveg öruggt mál, að það þyrfti ekki mikið að hugsa um fjáröflun til þessara sjóða í framtiðinni. Það væri svo tryggilega gengið frá þessum málum nú, að það væri alveg öruggt mál, að Það yrði gaman að lifa 1975, því að þá hefðu sjóðirnir fullar hendur fjár. Þetta er nákvæmlega sama og sjálfstæðismenn sögðu 1946, þegar lögin um byggingar- og ræktunarsjóð voru samþ. í þinginu. Þá voru ekki mikil vandræði. En af hverju erum við í vandræðum nú? Það er a.m.k. nokkuð víst, að þessi stjórn situr ekki lengi að völdum, ef þetta frv. á að koma að fullum notum, því að svo hefur dýrtiðin vaxið í tíð Þessarar stjórnar, að ef áfram heldur eins og byrjað hefur, verða ekki lengi not að þeirri fjáröflun, sem hér er gert ráð fyrir og byggð er á því, að allt verðlag í landinu sé stöðugt. En þess er varla að vænta hjá þeirri hæstv. ríkisstj., sem nú ríkir, því að hún virðist vera ákaflega lagin á það að kreppa skóinn æ meira, eftir því sem hún situr lengur að völdum.

Ég skal að lokum segja það, að ég tel fyllilega þörf á því að gera ýmislegt landbúnaðinum til handa. En ég vantreysti hæstv. núv. ríkisstj. mjög til þeirra hluta, því að allar hennar gerðir miða í aðra átt. Ég vil þó mælast til þess, að hæstv. landbrh. og sá bankastjóri Búnaðarbankans, sem hér á sæti á Alþingi, að hann og Þeir í sameiningu vinni að Því að byggja stofnlánasjóðina upp á þann veg, að þeir veiti nýju lífi, nýju blóði og nýju fjármagni til landbúnaðarins, án þess að það sé nokkur blóðtaka fyrir bændastéttina sjálfa, jafnframt því sem Þeir betrumbæti sínar gerðir og lengi lánstímann verulega frá því, sem þeir hafa sjálfir stungið upp á, og lækki vextina til muna frá Því, sem nú er. Ef það tækist að koma þessu í kring með þessu frv. og gera það að lögum að veita verulegu nýju fjármagni til landbúnaðarins, Þá gæti orðið þar blómaskeið enn á ný, eins og var frá 1950–1960, en ekki áframhaldandi gífurlegur samdráttur, eins og hefur verið hin síðari ár. síðan núv. stjórn kom að völdum, eins og ég færði rök að í upphafi míns máls. Ég vænti þess, að þessir aðilar, sem völdin hafa, skilji hlutverk landbúnaðarins í þjóðarbúinu og skilji bændastétt landsins Það vel, að þeir geri sitt ýtrasta til þess að betrumbæta á þessum sviðum. Og ég vil benda á, að þessar aðgerðir allar stangast algerlega á við allt, sem félagasamtök bændanna í landinu hafa farið fram á. Hvert einasta atriði, sem hér er gert, stangast á við það, sem Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands hafa farið fram á við valdhafa landsins. Það er fráleitt, þegar mann vantar fjármagn, að segja við hann: Láttu mig hafa svo og svo margar krónur sjálfur, þá skal ég láta þig hafa kannske eitthvað meira. — Þetta er fráleit hugsun. Þess vegna vænti ég þess, að þessir aðilar, þegar þetta mál er nú til 1. umr. í fyrri deildinni, endurskoði sína afstöðu, áður en málið er afgreitt frá Alþingi, og að það verði til bóta fyrir bændastétt landsins, en ekki álögur ofan á álögur, eins og átt hefur sér stað í tíð hæstv. núv. ríkisstjórnar.