13.03.1962
Efri deild: 63. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Mig langar til, áður en ég vík að því máli sjálfu, sem fyrir liggur, að minnast á eitt atriði, sem hv. 1. þm. Vesturl. hóf ræðu sína með og lauk enda einnig ræðu sinni með að vísa til upphafsins, og má í rauninni segja, að það hafi farið vel á því. því að það, sem þar var á milli, var í svipuðum dúr. Hann vitnaði til þess, að það hefði verið mikill samdráttur í framkvæmdum í landinu, og m.a. og sérstaklega gat hann um upptýsingar um það efni, sem munu sennilega hafa átt að hitta hæstv. landbrh. sérstaklega, hversu mikill samdráttur hefði orðið í nýrækt og vélgröfnum skurðum í Rangárvallasýslu á árinu 1960, miðað við árið 1959, og bætti því við, að síðan hefði þetta enn þá meira hallazt á ógæfuhlið. Það vill svo til, að fyrir stuttu hefur verið birt í blaðinu Suðurlandi viðtal við jarðræktarráðunaut Búnaðarsambands Suðurlands, og ég geri ráð fyrir, að þær upplýsingar, sem hann gefur, séu réttar. Það eru að vísu nokkrar sveiflur í þessu til og frá, þannig að það er rétt, að á einstökum liðum hafa minnkað framkvæmdir, en á öðrum aftur mjög verulega hækkað. Um þá liði, sem hann sérstaklega minntist á, skal ég aðeins lesa þær tölur upp varðandi Rangárvallasýslu, og um nýræktina er það að segja, að á árinu 1961 eru það 565 hektarar á móti 381 á árinu 1960 og vélgrafnir skurðir eru 700 þús. kúbikmetrar 1961 á móti 317 þús. 1960. Ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. þm. tortryggi þessar tölur, enda getur hann borið þær saman. En þetta er eins og svo margt annað staðreyndir, sem rekast heldur illilega á fullyrðingar hv. framsóknarmanna um móðuharðindi og samdrátt á öllum sviðum í þjóðfélaginu.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, varðar langstærsta vandamál landbúnaðarins í dag, og það hefði því mátt ætla með hliðsjón af mikilvægi málsins, að það væri rætt hér á þann hátt, að menn reyndu í alvöru að gera sér grein fyrir eðli vandans og kryfja til mergjar þær hugsanlegu leiðir, sem kæmu þar til úrbóta, og létu hjá liða að gera málið fyrst og fremst að uppistöðu í pólitískum áróðri til þess á ódýran hátt að reyna að notfæra sér óánægju, sem alltaf er til staðar, þegar kvaðir á að leggja á, og reyna þannig að fiska í gruggugu vatni, ef svo mætti segja. Mín skoðun er sú, að þetta mál sé miklu þýðingarmeira en svo, að leyfilegt sé að ræða málið á þann hátt, sem hv. 1. Þm. Vesturl. gerði, og sannast sagna furðaði mig mjög á því, að jafnmætur maður og hann er skyldi flytja þá endemisræðu, sem hann flutti hér áðan, þar sem úði og grúði svo af rangfærslum, að það er í rauninni leitun að öðru eins. Mér kom þetta sannast sagna mjög á óvart úr þeirri átt, og ég efast um, að sú ræða, sem hann hér flutti, muni af ábyrgum aðilum í forustusveitum landbúnaðarins vera talin heppileg leið til þess að ræða þetta mál út frá. Mér er vel kunnugt um það, ég hef rætt um þetta vandamál við marga og það einnig flokksbræður hv. þm., m.a. um þær úrbætur, sem um er rætt í þessu frv., og það kveður þar mjög við annan tón. Það er auðvitað svo, að Það er enginn út af fyrir sig glaður að þurfa að fara að leggja á þær kvaðir, sem hér er gert ráð fyrir, en þeir menn, sem ég hef rætt um þetta mál við, og Það eru ýmsir mjög mætir framámenn í bændasamtökunum og flokksbræður hv. þm., þeir hafa sannarlega hugsað þar út frá ábyrgari afstöðu en kom fram í þeirri ræðu, sem hv. þm. hér flutti. Auðvitað væri hægt að svara fullum hálsi margvíslegum staðhæfingum þessa hv. þm., þar sem hann fór vítt og breitt til þess að reyna að finna sem flest atriði til árása á hæstv. ríkisstj. og það svo mjög, að margt af því. sem hann sagði, kom í rauninni lítið sem ekkert þessu máli við, en allt þjónaði Það því hlutverki að reyna að gera hæstv. landbrh. tortryggilegan, ráðast á hann með fullyrðingum, sem áttu sér ekki nokkra stoð í veruleikanum, eins og t.d. þegar hv. þm. lætur sér það um munn fara, að allt, sem gert hafi verið af Þessum hæstv. landbrh., hafi verið til bölvunar fyrir landbúnaðinn. (ÁB: Það er ekki mitt orðalag) Ekki nákvæmlega þetta, en það var meiningin, og því býst ég við að hv. þm. muni eftir, Þeir hv. þm., sem hér voru inni og hlýddu á hans ræðu, að hann tók það hvað eftir annað fram, að allt hefði hallazt á ógæfuhlið nú síðustu árin, eftir að hæstv. núv. landbrh. hefði farið að fást við þessi mál, og ekkert af hans málum eða þeim úrræðum, sem hann hefur verið með fyrir landbúnaðinn, hefði miðað í jákvæða átt. Þetta var tónninn í ræðu hv. þm. Veit ég, að hann er það sanngjarn og réttsýnn maður, þó að hann tali hér í æsingu í ræðustól til þess að gefa Tímanum dálkafyllingu, þá veit hann mætavel, áð hér er að sjálfsögðu verið að fara með fullyrðingar, sem eiga sér ekki neina stoð í veruleika og áreiðanlega eru ekki til þess fallnar að auka hróður hv. þm. né Þess flokks, sem hann telur sig vera að þjóna með þessum málflutningi.

Ég skal láta alveg liggja á milli hluta að fara að ræða hér almennt um þróun landbúnaðarmála á síðustu árum, en í þeim orðum, sem ég segi, takmarka við þetta mikla viðfangsefni, sem hér liggur fyrir, og ræða örlítið um þær tillögur, sem hér eru fram bornar, því að það er rétt, sem hæstv. landbrh. sagði og ég er á engan hátt að mælast undan, að ég ber allmikla ábyrgð á þeim tillögum, sem hér eru fluttar, og blygðast mín ekkert fyrir það.

Það er rétt, áður en vikið er að tillögunum, að fara aðeins örfáum orðum um þann vanda, sem hér er við að glíma, og skal ég þó aðeins stikta á stóru, Því að hæstv. landbrh. vék glögglega að Því máli í sinni ræðu.

Því miður hefur frá fyrstu tíð verið búið illa að sjóðum landbúnaðarins, þ.e.a.s. Þannig, að það hefur ekki verið unnið kerfisbundið að því að byggja þá upp, eins og hefði átt að gera, og það er sú sorgarsaga í dag, að ef strax í upphafi hefði verið lagður nægilega traustur grundvöllur að fjáröflun til sjóðanna, þannig að þeir hefðu getað byggzt upp meira af eigin fé, þá hefðum við staðið andspænis allt öðru vandamáli í dag. Ég geri ráð fyrir, að hv. framsóknarmenn muni segja sem svo, að hér sé ég að vega að þeim, sem upphaflega hafi lagt þessi frumvörp fram. Ég skal láta það alveg liggja á milli hluta, að hverjum er verið að vega í þessu efni. Löggjöf þessi var upphaflega merkileg löggjöf, og hugmyndin, sem að baki henni fólst, um það að tryggja fé til framkvæmda í landbúnaði, er að sjálfsögðu mál, sem allir, sem landbúnaðinum unna, hafa sameinazt um og talið gott, svo langt sem það nær. En stofnlánasjóðunum var aldrei séð fyrir nægilegu eigin fé, og þess vegna varð að byggja þá upp annars vegar með lántökum og hins vegar reyna svo að létta þeim baggann með því á ýmsum tímum annaðhvort að afhenda þeim hluta af greiðsluafgangi ríkissjóðs eða gefa eftir lán, sem sjóðunum hafa verið veitt. Þetta var að sjálfsögðu allt lofsvert, en voru í rauninni þó hrossalækningar að því leyti, að það var ekki séð fyrir því að leggja hinn trausta grundvöll, sem þurfti.

Hv. 1. þm. Vesturl. vék hér að einu atriði, sem var alveg rétt, að það var frá upphafi sjáanlegt, að það mundi verða mjög verulegur vaxtahalli á þessum sjóðum, vegna þess að þeir urðu að taka lán með miklu óhagstæðari lánskjörum en þeir lánuðu út, vegna þess að útlánskjör sjóðanna, einkum vextirnir, voru miklu lægri en fé fékkst fyrir á hinum almenna lánamarkaði. Framlög ríkissjóðs, hin föstu árlegu framlög, nægðu engan veginn, eftir því sem árin liðu, til þess að mæta þessum halla, og hann óx þannig ár frá ári og át meira og meira af stofnfé sjóðanna. Það má auðvitað segja, að það hafi verið galli í uppbyggingu sjóðanna frá upphafi að sjá ekki nægilega fyrir þessu, en ef menn á annað borð vilja fara að leggja Það á eftir pólitískum línum, þá má að sjálfsögðu einnig á Það benda, að þeir aðilar, sem síðan hafa ráðið Þessum málum, þ. á m. þeir menn, sem hafa verið landbrh., sem lengst af hafa verið framsóknarmenn, þeir hafa sennilega ekki megnað að fá því framgengt, að framlögin í fjárlögum væru hækkuð til þess að mæta vaxtahallanum. Þótt litið sé fram hjá áhrifum gengisbreytinganna, var því vaxtahallinn einn orðinn svo hár, að það hlaut að leiða af sér hina alvarlegustu Þróun fyrir sjóðina, ef það mál út af fyrir sig væri ekki tekið til alvarlegrar athugunar og fundin úrræði til lagfæringar á Þeim vanda.

Það var minnzt á það hér áðan af einum ræðumanni í sambandi við yfirlit, sem er með frv. um vaxtahalla af mótvirðissjóðslánum, að sá vaxtahalli hefði komið til nú á síðustu árum, þannig að hinar nýju vaxtareglur, sem ríkisstj. hefði átt hlut að, hefðu valdið þessum mikla vaxtamismunun á mótvirðissjóðslánum. Þetta er alger misskilningur, vegna þess að hallinn á mótvirðissjóðslánum var meiri áður. Þá voru útlán úr sjóðunum 4%, en vextir af mótvirðissjóðslánum voru 61/2%. Það skiptir ekki miklu máli sá mismunur, hvort hann er minni eða meiri. En það er svo kjarni málsins, að það er sannarlega ekki nýtt fyrirbæri, að sjóðirnir hafi þannig verið látnir bera vaxtahalla af mótvirðissjóðslánum, og mér er ekki kunnugt um, að það hafi komið fram tillögur um það frá hv. framsóknarmönnum, meðan þeir réðu þessum málum, að afnema þennan vaxtahalla, og hefði það þó væntanlega verið þeim innan handar, þannig að þó að megi segja, að hér sé mál, sem sé einfalt viðureignar fyrir hæstv. ríkisstj., þá er það þó engu að siður svo, að það hefur ekki öðrum áður dottið í hug að létta þessu af sjóðunum á þennan hátt, þannig að það er vissulega eitt atriði út af fyrir sig, sem er lofsvert, enda þótt það beri að taka fram, að þetta muni ekki auka ráðstöfunarfé sjóðanna. hvort vextirnir eru meiri eða minni, því að þannig er háttað. að mótvirðisféð. þ.e.a.s. afborganir og vextir, sem eru greiddir frá sjóðunum til mótvirðissjóðs á hverju ári, er endurlánað aftur. En það gefur auga leið, að þessi tilhögun. þessi vaxtahalli, hann gerir hag sjóðanna stöðugt verri og verri, eftir því sem tímar líða.

Þetta er annar þátturinn í vandamálunum í uppbyggingu sjóðanna. Hinn þátturinn er svo sá, eða við getum samt, að það séu í rauninni þrír þættir, sem hér skipti máli, það eru vextirnir. það er stofnfjáröflun og það er í þriðja lagi gengishalli. Stofnfjáröflun hefur verið töluvert mikil á þessu tímabili, en þó þannig, að það hefur ekki verið um fasta tekjustofna að ræða, heldur hefur, eftir því, hversu á hefur staðið fyrir ríkissjóði, verið lagt fé til sjóðanna á hinum ýmsu tímum. Þar er um allverulegar fjárhæðir að vísu að ræða, þó að það sé ekki mjög mikið á hverju ári, ef Því er deilt á starfstíma sjóðanna. Hefur byggingarsjóðurinn fengið í óafturkræft framlag um 65 millj. og ræktunarsjóðurinn rúmar 67 millj. kr. Þetta eru hin óafturkræfu framlög frá ríkissjóði á því tímabili. En fasta tekjustofna hafa sjóðirnir ekki haft, ef undan eru skilin framlögin í fjárlögum, sem hafa ekki einu sinni nægt til að mæta vaxtahallanum. Það, sem svo skapar að sjálfsögðu höfuðvandann í dag, er gengishallinn, sem stafar fyrst og fremst af yfirfærslugjaldinu, 55% gjaldinu, og síðar af tveimur gengisbreytingum.

Því hefur af hv. framsóknarmönnum verið mjög haldið á loft, að raunverulega sé þetta núv. hæstv. ríkisstj. að kenna og þess vegna beri henni í rauninni að leysa þetta, helzt á þann veg, að það komi við engan, þetta sé hennar mál. Nú skal ég ekki fara langt út í þá sálma, það vita auðvitað allir hv. þm., að gengisbreytingarnar og ekki heldúr yfirfærslugjaldið á sínum tíma, sem vinstri stjórnin lagði á, er í rauninni sök þeirra ríkisstj., sem þar hafa verið að verki, heldur eru það afleiðingar þróunar, sem stefnt hefur í mjög óheillavænlega átt í þjóðfélaginu. Og þetta, bæði yfirfærslugjaldið á sínum tíma og gengisbreytingarnar, eru ráðstafanir, sem gerðar hafa verið af hálfu stjórnarvaldanna á hverjum tíma til þess að mæta þessum vanda. Þetta gat auðvitað hver maður sagt sér, að gæti hent, þegar hin erlendu lán voru tekin fyrir sjóðina, og ef nokkurn á að saka í þessu efni, þá má saka þann hæstv. ráðh. þáv., sem tók þessi lán á þann hátt að láta sjóðina taka lánin og vera ábyrga fyrir þeim, í stað Þess að ríkissjóður tæki lánin og endurlánaði sjóðunum, því að þá hefði sjóðunum verið forðað frá þessum vanda, sem hér var við að fást. Það var horfið að því ráði að láta sjóðina endurlána þetta fé, án þess að nokkur gengisáhætta væri tekin, og mun ég víkja að því atriði út af fyrir sig síðar varðandi gengistrygginguna á lánum almennt í landbúnaði. Og það var eða mátti vera augljóst mál hverjum sæmilega skynbærum manni, að það var þannig ástatt í efnahagslífi þjóðarinnar, að við því mátti búast, hvenær sem var, að gerðar yrðu gengisbreytingar, og það var enda vitanlegt og er ómótmælt, að á tímum vinstri stjórnarinnar voru uppi mjög háværar raddir um og raunverulega var það till. Framsfl., að gengisbreyting yrði framkvæmd, þannig að ekki gat þetta komið þeim ágætu mönnum á óvart, sem þá stjórnuðu þessum málum. Ég get jafnframt upplýst það hér, að það var ákveðið varað við því af bankastjóra Búnaðarbankans, hvaða afleiðingar þetta gæti haft, og enn þá frekar varaði hann við þróuninni, sem fram undan væri, eftir að yfirfærslugjaldið var lagt á, sem eitt út af fyrir sig olli sjóðunum tugmilljóna tjóni, þó að vissir aðilar kæri sig ekki mikið um að minnast á það tjón nú. En það var látið sem vindur um eyru þjóta, og hefði þó óneitanlega vandamálið verið léttara í dag, ef strax hefði verið snúizt gegn vandanum og reynt að mæta honum þá þegar. En það var ekki gert. Það voru engar tillögur gerðar í sambandi við yfirfærslugjaldið um það að létta þeim byrðum af sjóðunum. Það var talið, að slíkt gæti allt beðið. Og Það er einnig vert að vekja athygli á því, af því að hv. þm. Framsfl. telja það nú geysilegt hneyksli, að ekki skuli hafa verið létt gengishallanum af sjóðum landbúnaðarins, að ég hygg, að það sé rétt með farið hjá mér, að í sambandi við gengisbreytingalögin hafi ekki komið fram ein einasta till. frá þeirra hendi um það að taka þennan gengishalla með, þegar var verið að gera upp gengisjöfnunarreikninginn. Það er svo aðeins eins og annað í málflutningi þeirra hv. framsóknarmanna, þegar þeir bera þá firru á borð, að gengishalla hafi verið létt af bönkunum, þegar staðreynd málsins er sú, að gengishagnaðurinn var tekinn af þeim, en engum gengishalla af þeim létt, og sá bankinn, sem bjó við gengishalla, Seðlabankinn, var látinn bera sinn gengishalla sjálfur.

Það, sem er því útkoman úr þessu dæmi öllu nú og við stöndum andspænis, hvort sem við viljum eða vitjum ekki, og það breytir engu, hvort við hendum á milli okkar hnútum og kennum einum um þetta og öðrum um hitt, þær staðreyndir blasa við, að sjóðir þessir eru gersamlega gjaldþrota. Byggingarsjóður á að vísu enn um 19 millj. kr. umfram skuldir. en þá hefur hann eytt öllu sínu stofnfé og öllum þeim óafturkræfu framlögum, sem hann hefur fengið, og býr raunverulega hvað greiðslujöfnuð snertir svo illa, að það er milljónagreiðsluhalli á honum á hverju ári. Og þessar 19 millj. mundu étast upp á næstu tveimur árum í hallarekstur. Ræktunarsjóðurinn stendur svo illa að vígi, að þrátt fyrir óafturkræf framlög á undanförnum árum yfir 67 millj. kr. skuldar hann umfram eignir um síðustu áramót 52.5 millj. Eins og ég áðan sagði, getum við náttúrlega gert okkur það til dundurs að elta hér ólar hver við annan um það, hverjum allt þetta sé að kenna á undanförnum árum. En hvernig sem við deilum fram og aftur um það, komumst við aldrei fram hjá því að horfast í augu við þessar staðreyndir. Og þessar staðreyndir leiða af sér aðra alvarlega staðreynd, og hún er sú, að eins og háttað er hag þessara sjóða, þá fæst ekkert lánsfé til þeirra úr nokkurri átt, því að sjóðirnir eru raunverulega gjaldþrota, eru ekki færir um að taka neitt fé að láni og enginn vilt lána þeim, hvorki innanlands né utan. Það fé. sem fékkst á s.l. hausti til að leysa sárustu vandræði varðandi stofnlánaveitingar, fékkst frá Seðlabanka Íslands með því skilyrði, að það væri ríkissjóður, sem tæki lánið, en ekki stofnlánasjóðir landbúnaðarins, og það var vitanlegt, að þó að menn hefðu látið sér detta í hug að taka erlent lán, þá var gersamlega útilokað að taka nokkurt slíkt lán, eins og ástatt var um þessa sjóði. Hvaða skoðanir sem við annars höfum á baráttu flokka fyrir hagsmunamálum bænda á ýmsum tímum, verðum við að horfast í augu við þetta, og ég efast um — og er í rauninni fullviss um, að í dag er ekkert mál til, sem skiptir meira máli fyrir bændastétt landsins en að takist að leysa þennan Gordfonshnút, sem hér er um að ræða. Og það þjónar sannarlega ekki málstað eða hagsmunum bænda að vera að reyna að æsa til illinda út af þeim tillögum, sem hér eru fram lagðar. Það er auðvitað ekki hægt að krefjast þess, að menn hafi allir sömu skoðun um þær og standi allir upp og lýsi hrifningu sinni, — ég ætlast ekki til þess. En það verður að krefjast þess, að þeir menn, sem gagnrýna þær, bendi þá á önnur úrræði, sem líklegri séu til að leysa vandann, en vísi ekki til þess, eins og hv. 1. þm. Vesturl. gerði hér áðan, að krefjast þess, að þeir, sem undirbúið hefðu þessar tillögur, fyndu aðrar leiðir til þess að leysa þennan vanda. Þeir finna ekki aðrar leiðir. (ÓB: Þeir hafa völdin.) Það gæti nú skeð, þó að menn hafi ekki völdin, að þá hefðu þeir einhverjar skoðanir, og ég held, að það væri ekkert á móti Því. að þær skoðanir kæmu fram og þær birtust á annan hátt en þann einan að varpa hnútum og fjúkyrðum að öðrum fyrir þær tillögur, sem þeir flytja, og láta þar við sitja. Það leysir engan vanda.

Hv. 1. þm. Vesturl. spurði áðan í sinni ræðu, hvaðan hefði verið leitað tillagna um þetta mál, hvort það hefði verið leitað til Stéttarsambandsins eða annarra samtaka bænda til þess að benda á úrræði til að leysa vandann. Það hefur ekki verið gert. Það hafa verið settir menn til þess að reyna að benda á úrræði, sem hugsanleg væru. Hv. þm. sagði: Hvaða hliðsjón var höfð af ábendingum og samþykktum Stéttarsambandsins um þetta mál á sínum tíma? Ég held, að þær tillögur séu ákaflega lítill leiðarvísir, því að það eru einhliða kröfur þeirra, eins og svo oft hendir samtök, hvers eðlis sem þau eru, í okkar landi. Þau gera kröfur um að fá þetta og fá hitt, og það eiga aðrir að útvega hlutina. Það er ekkert einstakt um þessi samtök fremur en önnur. Ég hygg, að hv. 1, þm. Vesturl. sé það stjórnvanur, búinn að vera það lengi ábyrgur aðili að ríkisstj., að hann viti mætavel, að það mundi vera erfitt að stjórna þessu landi, ef ætti bara að spyrja hin ýmsu samtök um það, hvað þau vildu gera, og síðan ætti að tengja allar þær lausnir saman og reyna að fá eitthvað viturlegt út úr því. Ég er ekki með þessu að varpa neinum hnjóðsyrðum að þeim ágætu mönnum, sem sátu Þetta stéttarsambandsþing. Þeir benda á Þau vandamál, sem þeirra samtök eiga við að glíma, að það vanti alls staðar fé. Og vissulega vantar fé. Það er þess vegna hið alvarlega vandamál í dag, hvernig eigi að útvega það fé. Þeir hins vegar láta liggja á milli hluta, hvernig eigi að útvega féð. Og Það vill verða svo með æðimargar af þessum ályktunum, sem beint er til þings og stjórnar frá öllum samtökum, að það er látið liggja á milli hluta og öðrum ætlað að leysa þann vanda, þannig að þegar kröfur eru gerðar, eins og var gert af hálfu Stéttarsambandsins um aukið fé í sjóðina, aukið fé í veðdeildina og lægri vexti, þá láðist að gera sér grein fyrir þessu atriði, og þá verða aðrir að reyna að höggva á þann hnút, til þess að mæta þeim óskum, sem þarna voru settar fram frá Stéttarsambandinu, sem vissulega eru réttar, svo langt sem þær ná.

Hv. þm. sagði, að það væri fáheyrt úrræðaleysi að benda ekki á önnur ráð til lausnar vandanum en fælust í þessu frv. Það er þó a.m.k. sá munurinn á þessu fáheyrða úrræðaleysi og aðgerðum hv. framsóknarmanna í þessum málum fyrr og síðar, að hvað sem menn kann að greina á um einstök atriði málsins, þá verður ekki um það deilt, að með því frv., sem hér liggur fyrir, er leyst til frambúðar lánsfjárvandamál landbúnaðarins til stofnlána og lagður grundvöllur að því, að hægt sé að bæta úr því mikla vandamáli, sem hv. þm. réttilega benti á að væri við að stríða í dag, að fá aukið fjármagn til lánveitinga í sveitum. Þetta er fyrsta frv. um þetta efni, sem gengur það langt að leysa þennan vanda. Og þegar sagt er, eins og hér var áðan gert, að það væri óvíst, að þetta mundi leysa vandann, vegna þess að Það gætu orðið gengisbreytingar og ný verðbólga og þar fram eftir götunum, þá er að vísu að verulegu leyti séð fyrir því einnig í þessu frv., vegna þess að slík þróun mundi auðvitað hækka Þann grundvöll, sem tekjustofnar frv. eru byggðir á eða meginhluti þeirra, þannig að það ætti ekki að vera ástæða til að óttast það.

Ég vil ákveðið halda því fram, að með þessu frv. hafi verið efnt Það fyrirheit að tryggja öryggi stofnlánasjóðanna, — fullkomlega efnt. Það er gengið lengra í fjáröflun til þeirra en nokkurn tíma áður hafa verið lagðar fram tillögur um á Alþingi. Tillögur þær, sem hv. framsóknarmenn hafa borið hér fram, eru aðeins um brot af því fé, sem hér er um að ræða. Það væri vissulega spor í áttina að létta af sjóðunum gengishalla, en það er ekki lausn á vandanum, sem hér er við að glíma, og mundi ekki tryggja það fé, sem nauðsynlegt er að fá til lánveitinga fyrir landbúnaðinn. Grundvallardeiluefnið skilst mér vera 1% gjald, sem hér er lagt til að leggja á framleiðsluvörur landbúnaðarins og greiðist þannig af bændum. Að vísu voru ýmis önnur atriði, sem hv. 1. þm. Vesturl. ræddi um að einkennilegt væri, að ekki væri breytt. Og ég er nú satt að segja hissa á því, að hann skuli ekki á sínum tíma, þegar hans landbrh. lagði fram þetta mál á Alþingi, hafa flutt Þær tillögur og látið breyta þeim ákvæðum, — þetta eru ekki ýkjagömul lög. Og það voru hans flokksbræður, sem þá réðu landbúnaðarmálunum, þegar þau lög voru sett. Að öðru leyti skal ég láta það liggja á milli hluta, Það voru allt smávægileg atriði.

Það er auðvitað ljóst, og því hafa auðvitað allir gert sér grein fyrir, sem að þessum málum stóðu, að Það væri ekki líklegt til vinsælda að leggja á þetta gjald. En að halda því fram, að hér sé einhver ofsókn á bændastéttina og sýni illan hug til hennar að reyna að leysa vandann með þessu gjaldi, sem um leið lagði grundvöll að kröfunni um það, að ríkissjóður legði jafnt á móti, það hygg ég að muni ekki fá hljómgrunn hjá neinum þeim bónda, sem af alvöru hugsar um þetta vandamál. Það hefur verið upplýst, enda öllum kunnugt, að stofnlánasjóður sjávarútvegsins hefur verið byggður upp svo að segja eingöngu af gjaldi sem þessu. Ríkissjóður hefur aðeins lagt 2 millj. á ári til þess sjóðs, en á s.l. ári lagði sjávarútvegurinn til fiskveiðasjóðs 41 millj. Og ég er ákaflega hræddur um, að það mundi sumum úr öðrum áttum, — Það eru sumir með önnur sjónarmið, — geta látið sér detta í hug að taka upp Þau rök, sem hér er mjög haldið á loft í sambandi við annað mál, þ.e.a.s. lausaskuldalán til bænda, hvort Það væri ekki rétt, að það væri þá jöfnuður hér á líka, því að hér er vissulega ekki um neinn jöfnuð að ræða á milli atvinnugreina, miðað við framlög ríkisins til þessara tveggja sjóða. Iðnlánasjóður, sem er aðalstofnlánasjóður iðnaðarins, fær 2 millj. kr. frá ríkissjóði. Að vísu er ekki lagt gjald á framleiðsluvörur iðnaðarins til þess sjóðs, en ég lýsi því hiklaust yfir sem minni skoðun, að að því hlýtur að koma og öðruvísi er ekki hægt að byggja þann sjóð upp.

Þó að vafalaust sé hægt að blása upp óánægju ýmissa út af þessu gjaldi, er ég sannfærður um, að við nánari athugun og með skoðun málsins í heild, — en það er það, sem hv. framsóknarmenn mjög forðast, enda er málið flutt á svo furðulegan hátt í aðalblaði flokksins, að það er dæmalaust að bera slíkt á borð fyrir menn, og sýnilega flutt á Þann hátt vegna Þess, að menn óttast, að öðruvísi verði á málið litið, ef öll sagan er sögð, — þá má Þó, auk þess sem má benda á, hvernig sjóður sjávarútvegsins hefur verið byggður upp á mjög farsællegan hátt, Þá má einnig á Það benda, að þegar við stöndum andspænis þeim geysilega vanda, sem þarna er við að glíma, og um Það er að ræða, hvort hægt verði að komast út úr feninu eða sökkva svo, að það stöðvist að verulegu leyti fjárfestingarlán til landbúnaðarins, þá muni fáir, þegar Þeir standa andspænis þessum tveimur möguleikum, horfa í það að leggja á sig þessa kvöð. Og á það má líka benda, að Þeir, sem hafa mesta framleiðslu í landbúnaðinum í dag. eru að sjálfsögðu Þeir, sem eru búnir að fá lán með miklu hagstæðari kjörum en bændur fá í dag, á liðnum árum, og er því í rauninni ekki nema sanngjarnt, að þeir gengju þarna nokkuð til móts við starfsbræður sína til þess að tryggja áframhaldandi uppbyggingu í landbúnaðinum.

Við vitum það einnig varðandi sjávarútveginn, að það er ekki öll sagan sögð með gjaldinu til fiskveiðasjóðs. Það eru einnig mörg önnur gjöld, sem greidd eru af sjávarafurðum, bæði til fiskimálasjóðs, til Landssambands ísl. útvegsmanna, sem er nokkuð hliðstætt því 1/2%, sem lagt er á landbúnaðarvörur til samtaka landbúnaðarins, til rannsóknarstofnunar sjávarútvegsins, til rannsóknarskips og til ferskfiskmats, og síðan, sem er nokkuð sérstaks eðlis og í rauninni kannske ekki eðlilegt að telja mér með, til greiðslu tryggingariðgjalda, sem ganga þó beint til útvegsins aftur, þannig að það má segja, að það sé nokkuð annars eðlis.

Hv. 1. þm. Vesturl. sagði það réttilega æ ofan í æ, að Það yrði að sjá fyrir miklu meira fé. Hann sagði, að það mætti ekki taka útlend lán til að lána með gengistryggingu. Hann segir, að ekki megi leggja skatt á landbúnaðarvörurnar, þetta eina prósent. Og hann segir, eða orð hans urðu ekki skilin öðruvísi en svo, að hann vildi einnig gera tortryggilegt þetta 0.75% gjald, sem gert er ráð fyrir að neytendur borgi, því að hann talaði mjög um, að það væri ekki líklegt, að það yrði vinsælt gjald. Ef þetta hvort tveggja er tekið út, færi held ég að fara nokkuð glansinn af fjáröfluninni, Þó að eftir standi að vísu hið fasta tillag ríkissjóðs, 8–4 millj., eða um 12 millj. kr., og stofnféð. Ef ætti því að fallast á þá skoðun að afgreiða frv. á þennan hátt, þá er á engan veg séð fyrir málum landbúnaðarins og stofnlánaþörf hans og málið í rauninni engin lausn á þeim vanda, sem þar er við að glíma.

Hv. þm. ræddi réttilega um hið mikla vandamál að geta ekki starfrækt veðdeildina, og ræddi um það heimildarákvæði í þessu frv., að heimilt væri að verja allt að 10 millj. kr. af fé stofnlánadeildarinnar til kaupa á bankavaxtabréfum veðdeildarinnar. En það eru þær 10 millj. á ári, sem búnaðarþing hefur gert ályktun um, að nauðsynlegt væri að tryggja veðdeildinni. Hann taldi ekki miklar líkur til þess, að á næstu árum væri hægt að kaupa þessi bréf, og vissulega er það rétt. En ég spyr: Er líklegra, að hægt verði að kaupa bréfin, ef á að taka burt stóra tekjustofna frá stofnlánadeildinni? Það þarf auðvitað ekki að segja mönnum það, hvorki hv. 1. þm. Vesturl. né öðrum, að það er auðvitað hruninn gersamlega grundvöllurinn undan þessari löggjöf, ef á að taka burt þessa tekjustofna, og það eru litlar líkur til þess, að það væri hægt að fá það fé, sem gert er ráð fyrir að ríkið leggi fram að sínu leyti, láta það eitt standa eftir, vegna þeirra krafna, sem óhjákvæmilega hlytu að koma úr öðrum áttum um það, að ríkið stóryki þá einnig framlag sitt til þeirra sjóða. Það kann vel að vera, að það sé skoðun þessara hv. þm. í dag, að ríkissjóðinn muni ekkert um það að borga nú milljónatugi í allar áttir til allra sjóða, og vissulega væri það gleðilegt, ef svo væri, og sýnir þá aðra afkomu hjá ríkissjóði en þessir þm. að öðru leyti í öðru orðinu vilja vera láta og sannarlega aðra afkomu en var á sínum tíma, þegar hv. formaður þess flokks var fjmrh. og þegar hann einmitt lýsti því yfir hér fyrir nokkru í Alþingi, að það hefðu ekki verið nein úrræði að afla fjár til búnaðarsjóðanna nema með því móti að taka þessi erlendu lán.

Ég held í alvöru talað, að ef við sleppum allri áróðurslöngun og reynum að ræða málið í alvöru, þá hljóti menn að komast að þeirri niðurstöðu að lokum, að eitthvað í þessa átt, sem hér er lagt til, hljóti að verða að fara til að leysa þennan vanda. Að gera ekkert, er ekki gerlegt, nema því aðeins að menn vilji horfa upp á það, að framkvæmdalán til landbúnaðar stöðvist. Að ætla að leysa málin áfram með nýjum lántökum er einnig útilokað, vegna þess að engin lán fást til þessara sjóða, eins og ástatt er, og jafnvel þó að þau fengjust, þá er það aðeins til að fresta gjaldþroti þeirra um skamma hríð. Það er því engin leið önnur en að horfast í augu við það alvarlega vandamál, sem hér blasir við. Og þegar menn eru að ræða um, að það sé nauðsynlegt að lána með hagstæðari vöxtum til landbúnaðar en er á hinum almenna lánamarkaði, — og Það er vissulega rétt, og á það er bent í þessu frv. eða grg. þess, — þá er undirstöðuatriðið, að slíkt sé hægt, að sjóðirnir, sem lána eiga, eigi nóg eigið fé, vegna þess að ef á að byggja þetta allt upp með lántökum, þá hlýtur það að enda í algeru öngþveiti. Einmitt með því að byggja stofnlánadeildina upp eins og hér er lagt til opnast nýir möguleikar til þess að ákveða vaxtakjör án þess að þurfa að óttast Það á hinn bóginn að kyrkja starfsemi stofnlánadeildarinnar vegna vaxtahalla og vandræða. Ég held því, að hvernig sem á málið er litið, verði ekki komizt fram hjá þeirri staðreynd, að með þeim tillögum, sem hér eru gerðar um fjáröflun til stofnlána í landbúnaði, sé lögð frambúðarlausn að þessu vandamáli og létt af því óþolandi ástandi, sem hefur stórkostlega hamlað starfsemi stofnlánasjóðanna, að vita aldrei, hvaða fé stofnlánasjóðirnir hafa til útlána. Ríkisstjórnir hafa um fjölda ára orðið að stríða í því síðari hluta árs að reyna með einhverjum ráðum að herja út lán í þessa sjóði. Og það hefur aldrei verið vitað fyrir fram, hversu fjáröflun gengi eða hvaða fé væri til ráðstöfunar í sjóðunum. Þetta hefur stórkostlega spillt allri aðstöðu Þeirra og hindrað möguleikana til þess að geta gengið kerfisbundið til verks í sambandi við lánveitingar, því að vissulega þarf í því efni að gera margvislegar breytingar, sem ég skal ekki hér fara inn á, en mundi verða auðið að gera til mikilla hagsbóta fyrir bændur á margan hátt, ef hægt væri að skapa þann fjárhagslega trausta grundvöll, sem hér er lagt til að tryggja.

Ég get ekki stillt mig um, þótt ég ætli ekki að fara út í önnur einstök atriði í þessu máli, að minnast á það atriði, sem hryggði mig raunar mjög, að það skyldi henda jafnmætan mann og hv. 1. þm. Vesturl. að gefa hér beinlínis villandi mynd af því, sem sagt er í grg. frv. um gengistryggingu, þar sem hann leyfði sér að lesa síðari hluta af ummælum um þetta efni. (ÁB: Það var orðrétt) Það var lesið orðrétt, það sem lesið var, en það var bara ekki lesið allt. Það var sleppt að lesa það, sem er upphaf málsins. Hv. þm. las: „Þar sem engu að síður verður að teljast fráleitt að taka erlent lánsfé án þess að endurlána það með gengistryggingu, þykir rétt að takmarka slík endurlán við vinnslustöðvar og vélakaup“ o.s.frv. En hann sleppti að lesa næstu setningu á undan, þar sem stendur: „Að sjálfsögðu verður að leggja allt kapp á að fá innlent lánsfé, því að ekki verður talið fært að láta bændur taka á sig gengisáhættu á lánum til bygginga eða annarra framkvæmda á jörðum sínum.“ Þetta kalla ég ekki heiðarlegan lestur. (ÁB: Það var búið að upplýsa, að það væru 300 millj., erlenda lánsféð). Það stendur hvergi hér, að það séu 300 millj. af erlendu lánsfé, sem eigi að koma. (ÁB: Það var upplýst í ræðu minni.) Ég get ekki borið ábyrgð á því. hvað er upplýst í því efni. Það er frv. sjálft, sem talar sínu máli um það, og það veit hv. þm., að Það er venja að orða það svo, eins og hér er gert: jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, ef það þyrfti að taka að einhverju leyti erlent lánsfé. En það er vert að benda á Það, sem hv. þm. er vafalaust kunnugt, að hinn illi landbrh., sem er nú, hefur þó megnað það, sem fyrirrennari hans megnaði ekki, og það er að tryggja sjóðunum innlent lánsfé. Hann hafði þó úrræði til þess, þó að hann eigi allt illt að gera. Nú síðast í haust, þrátt fyrir allt þetta öngþveiti, sem er í málefnum þessara sjóða, þá tókst enn að tryggja innlent lánsfé til sjóðanna. Og ég held, að það bæti ekki neitt úr að vera með rangfærslur og útúrsnúninga í þessu máli, það þjónar engu góðu, og allra sízt, að það þjóni málstað bænda. Það skal hins vegar alveg fullkomlega sagt, að ef á annað borð verður tekið erlent lánsfé til sjóðanna, þá verður að lána út með gengistryggingu, Því að það er ekkert vit í öðru. Það er ekki hægt að horfa upp á það, að slíkir hlutir gerist aftur. Hins vegar tel ég æskilegt, ef slík lán þyrfti að taka, þá væri það ríkissjóður, sem tæki þau og endurlánaði þau sjóðunum sem innient fé. En þó að þyrfti að taka að einhverju broti til erlent lánsfé til vinnslustöðva, þá sé ég ekki, að það þurfi að vera neitt glæpsamlegt. Það er ekki annað en það, sem vinnslustöðvar sjávarútvegsins verða að gera, og jafnvel þeir, sem taka lán til skipakaupa, verða að taka það lán með gengisáhættu. Hitt er alveg rétt, og ég skal taka undir það með hv. 1. þm. Vesturl., að það hefði auðvitað verið hið alvarlegasta áfall og ég vil segja horft til fullkomins öngþveitis fyrir bændur, ef þeir hefðu verið látnir taka til almennra framkvæmda gengisáhættulán á sínum tíma. Þess vegna held ég, að það sé enginn í dag, a.m.k. enginn, sem stendur að þessu frv., sem lætur sér koma til hugar, að það sé hægt að láta bændur taka gengisáhættulán til sinna almennu framkvæmda, ræktunar og bygginga, þó að þær staðhæfingar nægi vafalaust ekki til þess, að því verði ekki slegið upp oft og mörgum sinnum í Tímanum, að þetta sé stefnan hjá ríkisstj. Það getur enginn gert við því.

Ég bið afsökunar á því, herra forseti, að ég hef orðið langorðari en ég hefði viljað um þetta mál. En ég verð að segja það, að mér kom það mjög á óvart, að sá ágæti bóndi, hv. 1. þm. Vesturl., skyldi ausa svo úr skálum reiði sinnar og láta skapsmunina, en ekki rólega yfirvegun, sem ég hafði búizt við af honum, ráða málflutningi sínum í sambandi við þetta stóra mát, sem hér liggur fyrir og ég vil segja að sé langstærsta mál bændastéttarinnar í dag.

Hv. 5. þm. Austf. talaði hér í nokkuð öðrum dúr og mun hógværara. Að vísu skal ég játa það, að ég heyrði ekki alla ræðu hans, en sá hluti hennar, sem ég heyrði, var í rauninni ekki efnislega mjög þýðingarmikill. Hann var að tína upp úr grg, misræmi, sem var í tilvitnun í einstök fskj. með frv., sem vissulega er slæmt að skuli hafa brenglazt, þessi fskj., en ég held, að flestir muni samt átta sig á því, vegna þess að fskj. eru öll með fyrirsögnum um það, hvert er efni þeirra, enda kom það líka í ljós, að hv. Þm., sem er glöggur maður, hafði ekki haft neitt erfiði við að finna hin raunverulegu fskj., sem við áttu. En það skiptir gróflega litlu í sambandi við Þetta mál efnislega. Hann vildi hins vegar gera töluvert mikið úr því, hvernig þessar áætlanir væru upp settar, og ræddi um það töluvert langt mál. Vitanlega geta ýmis atriði í áætlunum langt fram í tímann aldrei orðið nákvæm, vegna þess að þar er um tekjuliði að ræða og útgjaldaliði, sem er gersamlega ómögulegt að segja nákvæmlega fyrir um. Og ég geri raunar ekki ráð fyrir því. að neinn hv. þm. hafi hugsað sér, að þetta yfirlit væri þannig upp byggt, að aðstandendur þessa máls væru ábyrgir fyrir því, að þróunin hlyti að verða í þessa átt. Það verður að sjálfsögðu að miðast við Það ástand, sem er í dag, og það viðhorf, sem við þekkjum nú um, hvernig slík yfirlit fram í tímann eru byggð upp.

Varðandi það atriði, sem hann vildi gera mikið úr, hvaða vöxtum væri reiknað með í Þessu yfirliti, þá get ég glatt hann með því, ef það er einhver gleði, — það kynni að verða það, sennilega verður því slegið upp í Tímanum, — að það er miðað við vextina, sem eru í dag. En það er ekki endilega miðað við þá vegna þess, að það sé skoðun þeirra, sem semja þetta yfirlit, að þeir vextir eigi að gilda um alla framtíð. En hvernig í ósköpunum áttum við að vita, hvaða vextir yrðu á næstu árum? Auðvitað varð að miða við þann vaxtafót, sem við höfðum nú við að miða, og raunverulega skipti þetta ekki stóru máli varðandi þróun og fjárráð þessarar stofnlánadeildar. En hefðum við farið að búa til einhvern vaxtafót fyrir næstu ár, 5%, 4% eða 3%, Þá er það náttúrlega alveg gersamlega út í hött. Hins vegar, þegar menn fá gefinn þennan vaxtafót, þá geri ég ráð fyrir, að a.m.k. jafnglöggum manni og þessi hv. Þm. er muni ekki reynast erfitt að umreikna Þessar vaxtatekjur eftir þeim vaxtafæti, sem hann gefur sér Þá sjálfur, eftir því sem honum sýnist. Hækkunin á hinum áætluðu tekjustofnum, bæði af framleiðslugjaldinu, mótframlagi ríkissjóðs og 1/2% heildsölugjaldinu, er auðvitað líka áætluð, en stuðzt við vissa prósentutölu, sem hefur verið talið við athugun vera sennileg aukning framleiðslunnar. En þá er ekki gert ráð fyrir neinum verðhækkunum, þannig að ef verðhækkanir verða, sem gera má auðvitað ráð fyrir, þá mundi það vega upp á móti þeim tekjumissi, sem kynni að verða í lækkuðum vöxtum. Að sjálfsögðu er einnig, enda er það beinlínis tekið fram í greiðsluyfirlitinu á fskj. II, gengið út frá þeim útlánareglum, sem nú gilda, og hversu lán verði veitt til langs tíma. Það var ekki við annað hægt að miða, og ef breytingar verða vegna lengingar á lánstíma, verður auðvitað að taka tillit til þeirra, þegar þar að kemur. En ég býst við, að hv. þm., bæði hv. 5. þm. Austf, og aðrir, muni játa, að það hafi í rauninni ekki verið annar kostur fyrir hendi en að gera yfirlitin á þessum grundvelli, og yfirlitin hafa ekki heldur neina efnislega þýðingu aðra en Þá að gefa í stórum dráttum mynd af því, hver verður sennilega þróun þessara mála, annars vegar ef ekkert er aðhafzt til bjargar þessum sjóðum og hins vegar ef farið er eftir þeim tillögum sem fram eru settar í þessu frv. Og ég hygg, að þessar áætlanir séu þó mönnum til mikillar leiðbeiningar við alla meðferð málsins.

Varðandi þau atriði, sem hv. 1. þm. Vesturl. ræddi um og eru tæknilegs eðlis mest, varðandi lánveitingar og lánstíma, veð og annað þess konar, þá er það rétt, að það er litlu breytt um það efni frá því, sem er í núgildandi lögum. Hann virtist sakna þess mjög, að það væru ekki gerð einhver stór átök í því efni og bætt inn mörgum nýjungum. Sannleikurinn er sá, að yfirleitt eru heimildir til að lána til allra þeirra hluta, sem líklegt er að þurfi að lána til á næstu árum í landbúnaði, nema eitthvað alveg nýtt komi til. Þessar heimildir eru búnar að vera lengi, en þar hefur bara gallinn verið sá, að það hefur ekkert fé verið til þess að lána til þeirra hluta, þannig að það þurfti ekki að búast við neinum breytingum varðandi það atriði. Hin stóra breyting er hins vegar sú, að með þessu frv. er lagður grundvöllur að því, að þessar heimildir geti orðið að veruleika í náinni framtíð.

Ég skal ekki lengja Þessa umr. frekar, herra forseti. Ég vil aðeins að lokum láta í ljós þá von, að hvað sem liður tilhneigingum manna til þess að nota þetta mál til pólitísks ávinnings, ef menn telja það ávinning á annað borð að gera það tortryggilegt, þá muni menn þó setjast í alvöru niður við það að kryfja málið til mergjar og reyna að finna þá lausn á þessu vandamáli, sem geti orðið landbúnaðinum til farsældar og geti leyst þann alvarlega hnút, sem er á varðandi alla framtíðaruppbyggingu hans, ef ekki tekst að finna nauðsynlegan grundvöll til eflingar lánasjóða þessa atvinnuvegar. Það er áreiðanlega það, sem þjónar bezt málstað landbúnaðarins í dag og er í mestu samræmi við hagsmuni bændastéttarinnar, að á þetta mál verði horft af raunsæi og reynt að gera sér í alvöru grein fyrir því. hvort hér sé ekki stefnt í rétta átt eða hvort menn hafi sannfæringu fyrir því. að aðrar leiðir komi þar til álita, sem geti verið heppilegri. En ég fullyrði Það hiklaust, að Það má ekkert missa sig af tekjustofnum í þessu frv., nema síður sé. Það er full þörf á öllu þessu fé, og þrátt fyrir það, Þó að Þessa fjár sé aflað, mun á næstu árum þurfa á mjög miklu lánsfé til viðbótar að halda. Og Það, sem gefur okkur von um, að hægt sé að afla þess fjár, eins og hæstv. landbrh, sagði, er einmitt það, að með því að koma sjóðum þessum á þennan grundvöll, byggja þá upp á heilbrigðan hátt, þá er allt annað viðhorf að leita til aðila, bæði innanlands og utan, um að fá aðstoð til þess að brúa Það bil, sem hér verður, þangað til sjóðirnir verða þess megnugir sjálfir að standa undir nauðsynlegum lánveitingum til uppbyggingar í landinu.