28.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Frsm minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það leikur ekki á tveim tungum, að landbúnaðurinn er einn af aðalatvinnuvegum þjóðarinnar, enn fremur elzti atvinnuvegur hennar, og líf þjóðarinnar og lífskjör hafa á liðnum öldum verið tengdari landbúnaðinum en nokkurri annarri atvinnugrein. Á síðustu áratugum hafa orðið mjög örar framkvæmdir í landbúnaðinum eins og á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Þessar framkvæmdir eru gerðar með einkaframtaki bændanna sjálfra og fyrir áhrif félagssamtaka þeirra. Það eru bændurnir og félagssamtök þeirra, sem leggja fram stærstan skerfinn til þeirra framfara, sem orðið hafa og eru að gerast í landbúnaðinum. En því er ekki að neita, að við þessa starfsemi nýtur bændastéttin allmikils stuðnings af hálfu þjóðfélagsins, sem er bæði nauðsynlegur og virðingarvert að látinn er í té.

Byggingarsjóður sveitabæja og ræktunarsjóður Íslands, hafa starfað um 30 ára skeið og haft áhrif á það, ásamt ýmsu öðru, að lyfta umdir auknar framkvæmdir í sveitum landsins og létta bændum fjárhagsbyrðar vegna bygginga og ræktunar og fleiri framkvæmda. Þessir sjóðir hafa því gegnt mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu fyrir þennan atvinnuveg nú um þriggja áratuga skeið. Þegar líta á til þess, hve mikill sá stuðningur er, sem ríkisvaldið veitir landbúnaðinum sem atvinnugrein, er sjálfsagt að hafa í huga og taka tillit til aðstöðu þjóðfélagsins í heild og hafa til samanburðar ýmislegt, sem gert er á öðrum sviðum. Og þegar á þetta er litið, er alveg augljóst, að ef bera á saman tölur, sem nú er fengizt við, annars vegar og hins vegar það, sem var fyrir áratug eða lengri tíma, þá er Það í raun og veru ósambærilegt tölulega séð vegna þeirra verðlagsbreytinga, sem orðið hafa á undanförnum árum. Ég ætla ekki að fara langt út í slíkan samanburð og alls ekki að gera hann tæmandi, en ég vil aðeins þessum orðum til stuðnings drepa á fáein dæmi, sem segja má að tekin séu að handahófi.

Það liggur nú fyrir, að bankakerfið í þjóðfélaginu veltir miklu hærri fjárhæðum nú en það gerði fyrir einum til tveim áratugum. Það er talað um það nú að undirbúa að koma á stóriðju hér á landi, þar sem aðallega yrði um iðnrekstur að ræða, og í því sambandi er í alvöru talað um tölur, sem ekki skipta milljónatugum, heldur milljörðum. Á síðari árum hefur komið til ásamt innlendu fjármagni, sem safnast fyrir í bankakerfinu, mótvirðisfé, sem alls ekki var til að dreifa fyrir tiltölulega skömmum tíma. Allt þetta, þótt ekki sé fleira nefnt, sýnir það, að viðhorfið nú er ólíkt því, sem það var fyrir einum til tveim áratugum, að þessu leyti og tölur allar miklu hærri. Þess má t.d. geta í þessu sambandi, að einn einasti liður í fjárlögunum nú, niðurgreiðslur, nemur hærri fjárhæð en heildarupphæð fjárlaga nam 1947, þegar lögin voru sett um ræktunarsjóð, en lögin um byggingarsjóð voru sett árið áður, að mig minnir. Og ef við lítum á það, að einir tveir liðir í fjárlögunum nú, niðurgreiðslur, sem ég nefndi, og framlög til almannatrygginga, nema eins hárri fjárhæð og heildarupphæð fjárlaganna nam fyrir 6–7 árum, þá sjáum við, hve myndin, sem við höfum fyrir augum að þessu leyti, breytist ört.

Það er rétt, að landbúnaðurinn hefur að undanförnu notið nokkurra framlaga í fjárlögum, sem runnið hafa bæði til stofnlánasjóðanna og einnig beint til bændanna samkvæmt jarðræktarlögum. Allt er þetta mikils virði og virðingarvert að láta þessum atvinnuvegi þetta í té. En þegar á að skoða heildarmyndina og líta á aðstöðu landbúnaðarins að þessu leyti í samanburði við það, sem öðrum atvinnugreinum er veitt, þá verður að líta á fleiri liði en þessa, sem eru fastir liðir í fjárlögunum. T.d. liggja fyrir hv. alþm. öruggar upplýsingar um það, að ríkið hefur orðið á undanförnum árum að taka á sig veruleg útgjöld vegna ríkisábyrgða. Þau útgjöld munu hafa numið á s.l. ári um 68 millj. kr., eftir því sem mig minnir að hafi komið fram í umr. í Sþ. Ég held, að það hafi einnig komið fram þar, að mjög lítið af þeirri fjárhæð hafi runnið til landbúnaðarins. Meginhlutinn af þessum greiðslum ríkissjóðs hefur farið til stuðnings öðrum atvinnuvegum, einkum sjávarútveginum, og er ég ekki með þessu neitt að telja það eftir, heldur bendi aðeins á þetta sem staðreynd, sem við verðum að hafa í huga. Þess vil ég einnig geta, að samkvæmt grg. í stjórnarfrv., sem við höfum nú til meðferðar hér í hv. deild, hefur á undanförnum árum verið varið rúmlega 100 millj. kr. samtals í atvinnuaukningarfé. Þetta fjármagn hefur dreifzt út um byggðarlög landsins, en ég hygg, að það sé rétt, að mjög lítið af þessu fjármagni hafi runnið í landbúnaðinn, heldur hafi meginhluti þess farið til þess að byggja upp aðstöðu við sjávarsíðuna og komið þá sjávarútveginum og því fólki, sem þar býr, til góða. Þetta tel ég starfsemi, sem þarf að efla, en ekki leggja niður. Ég drep á þetta einungis til samanburðar við það, sem gert er fyrir landbúnaðinn, og til samanburðar við þær till., sem hér liggja fyrir og snerta þetta frv.

Ég skal nú þessu næst víkja að brtt., sem við í minni hl. berum fram við þetta frv. Eins og fyrir liggur í nál. og frsm. meiri hl. gat um, gat n. ekki orðið sammála um afgreiðslu frv.

Það hefur mjög verið um það rætt í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, að þeir fjárhagserfiðleikar, sem stofnlánasjóðir landbúnaðarins eigi nú við að stríða, stafi að verulegu leyti af breytingum á skráningu krónunnar, sem gerðar hafa verið að undanförnu. Við teljum réttmætt, að ríkið taki á sig þann halla sjóðanna, sem þannig hefur myndazt. Þegar efnahagslögin voru sett í febrúar 1960, þá var skv. 5. gr. þeirra stofnaður í Seðlabankanum vaxtalaus reikningur á nafni ríkissjóðs og á þann reikning færður gengismunur, sem fram kom hjá bönkum og vegna greiðsluviðskipta við Greiðslubandalag Evrópu, og e.t.v. fleiri liðir. Sami háttur var hafður á í sambandi við brbl., sem sett voru s.l. sumar og hafa verið hér til umr., að taka inn á sérstakan reikning í Seðlabankanum þann gengismun, sem þá kom fram, og gera hann upp á Þann hátt. Við leggjum til í 1. brtt. okkar á þskj. 502, að við gildistöku laga þessara skuli færa á vaxtalausan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum þá hækkun í krónum, sem orðið hefur vegna breyttrar skráningar íslenzkrar krónu eftir 1. jan. 1960 á þeim erlendum lánum, sem hvíla á byggingarsjóði sveitabæja og ræktunarsjóði Íslands. Ákvæði þessarar till. taka einungis til þess gengismunar, sem fram hefur komið við gengisfellingu 1960 og 1961, og við viljum, að fjmrn. hafi lagaheimild til þess að semja um það við Seðlabankann, að heimilt sé að greiða óráðstafaða innstæðu ríkissjóðs í Seðlabankanum af mótvirðisfé sem framlag í þessu skyni. En það hefur komið í ljós, að reikningur sá, sem ég gat um að stofnaður var skv. efnahagslögunum 1960, var jafnaður á þann hátt, að mótvirðisfé, sem var geymslufé ríkisins í Seðlabankanum, var notað til greiðslu á skuldum skv. þeim reikningi. Nú kemur það fram í hinni nýju skýrslu Seðlabankans, þar sem ræðir um mótvirðisfé, að nú er að myndast nýr mótvirðissjóður í Seðlabankanum, en í skýrslunni segir orðrétt svo um þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Mótvirðisfé nam í árslok 1961 132.3 millj. kr. Eins og áður getur, var innstæðum á reikningum mótvirðissjóðs og taldagreiðslureikningi varið til að lækka skuld á gengisreikningi ríkissjóðs, sem áður var kallaður. Nýr mótvirðisliður, mótvirðissjóður 1961, er kominn inn í reikningana, og stóðu þar í árslok 75.3 millj. kr. Þarna er um að ræða 90% af mótvirði 6 millj. dollara óafturkræfs framlags Bandaríkjastjórnar. Í árslok höfðu verið notaðar tæplega 2 millj. dollara af þessari fjárhæð.“ Þegar öll kurl verða komin til grafar í þessu sambandi, þá mun þessi nýi mótvirðissjóður verða á þriðja hundrað millj. kr. samkv. því, sem hér er upplýst í skýrslu Landsbankans.

2. brtt. okkar er við 4, gr. frv. í þeirri gr. er ákvæði í frv. um hinn sérstaka skatt á landbúnaðarafurðir og enn fremur um gjald á útsöluverð landbúnaðarafurða. Það hefur nú komið í ljós af umsögnum, sem borizt hafa til landbn., að forustumenn í samtökum bændastéttarinnar geta ekki fellt sig við þessa skattlagningu. Við leggjum til, að 4. gr. frv. verði breytt í það form, að þessir liðir um sérstakan skatt verði felldir niður. Hugsun okkar er sú, að stofnlánadeild landbúnaðarins eigi rétt á og verði að fá til umráða hluta af því fé, sem í veitu er í þjóðarbúinu hverju sinni, og fá það með þeim kjörum, að ríkið greiði vaxtamun. Við leggjum því til, að gr. verði orðuð svo sem segir í 2. brtt. okkar.

Hv. frsm. meiri hl. vék að því. að þetta framlag, sem ákveða á skv. 4. gr. frv., sé hliðstætt framlagi sjávarútvegsins til fiskveiðasjóðs. Ég hef látið þá skoðun í ljós áður í umr. um þetta mál, að hér sé ekki um alls kostar sambærilegt framlag að ræða, vegna þess að útflutningsgjald sjávarafurða er ekki tekið beint af kaupi þeirra, sem við þann atvinnuveg vinna, og færist sem kostnaðarliður, þegar verðlagsgrundvöllur sjávarafurða er lagður. En mér finnst miklu nærtækara, þegar við viljum beita samanburði í þessum einum, að taka annað dæmi til samanburðar, og það er byggingarsjóður ríkisins, sem veitir lán til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hann hefur of lítið eigið fé til umráða til að byggja lánastarfsemi sína upp á þeim grundvelli, en samt sem áður eru Þeir aðilar, sem slíkra lána njóta, ekki skattlagðir sérstaklega til fjáröflunar fyrir þann sjóð.

3. brtt. okkar er um, að haldið verði framvegis í lögum því ákvæði, sem nú er í gildandi lögum, að lán til íbúðarhúsa í sveitum megi nema allt að 75%. Önnur breyting felst ekki í þessari brtt. en að hækka þetta hámark úr 60% í 75%, þegar um er að ræða íbúðarhús í sveitum. Það a.m.k. virðist vera óeðlilegt, að þegar á sama tíma er fjallað um frv. um verkamannabústaði og frv. um byggingar í sveitum og hvort tveggja eru stjórnarfrv., þá er haldið ákvæði í frv. um verkamannabústaði, að lánin megi nema allt að 90% kostnaðar, en markið á að færast niður í 60% skv. þessu frv. Okkur finnst eðlilegra að halda þeirri tölu, sem nú er í gildandi lögum, hvort sem það hefur mikla raunverulega þýðingu eða ekki, það skal ég ekki fullyrða á þessu stigi málsins.

4. brtt. er um vaxtakjör á lánum, er stofnlánadeildin veitir. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að við Framsfl.- menn erum andvígir þeirri vaxtapólitík, sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, almennt skoðað, og þeir háu vextir, sem nú eru innheimtir, hvíla of þungt á atvinnuvegum landsmanna. Það hefur m.a. komið mjög glögglega fram álit forustumanna í sjávarútvegi um þetta atriði og nú síðast á aukafundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem gerði mjög skeleggar ályktanir í þessu efni. Nú er það einnig kunnara en frá þurfi að segja og hefur verið drepið á það áður í umr. hér í d., að tandbúnaðurinn ávaxtar sitt stofnfé ekki svo ört, að hann geti þolað háa vexti. Til viðbótar þessu er það gefið í skyn af sumum hæstv. ráðh., að jafnvel verði horfið fyrr en seinna frá þeirri stefnu í vaxtamálum, sem fylgt hefur verið um skeið. Allt þetta styður það, að vextir af lánum, sem stofnlánadeildin veitir, verði ekki hærri en þeir voru, áður en efnahagslögin voru sett, og verði lögbundnir.

5. brtt. er um það, að 2. málsgr. 12 gr. frv. falli niður, en í þeirri málsgr. er kveðið svo á, að stofnlánadeild sé ekki heimilt að endurlána erlent lánsfé nema með gengisákvæði, enda gangi slík lán fyrst og fremst til vinnslustöðva og vélakaupa.

Í 13. gr. frv. eru ákvæði um framlag til veðdeildar Búnaðarbankans. Við teljum, að með þessu ákvæði sé of skammt gengið til þess að efla veðdeild Búnaðarbankans, en eins og kunnugt er, hefur hana um alllangt skeið skort mjög tilfinnanlega fé til útlána. Þegar lög um ræktunarsjóð voru sett 1947, var tekið inn í þau lagaákvæði, sem ávallt síðan hafa verið í gildi í lögunum um ræktunarsjóð Íslands. Þau lagaákvæði eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Seðladeild Landsbanka Íslands er skylt, ef ríkisstjórn óskar þess, að lána ræktunarsjóði nauðsynlega fjárupphæð vegna starfsemi hans, þó eigi yfir 10 millj. kr., gegn 11/2% vöxtum. Ræktunarsjóðurinn skal endurgreiða seðladeild Landsbankans lán þetta með jöfnum afborgunum á 20 árum. Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar ræktunarsjóðs gagnvart seðladeildinni.“

Með brtt. okkar, 6. brtt. á þskj. 502, tökum við upp Þetta lagaákvæði, sem verið hefur í gildi síðan 1947, og gerum þá einu breytingu á því. að í stað Þess, að það gildi um ræktunarsjóð, þá gildi það framvegis um veðdeild Búnaðarbankans, og í stað 10 millj., sem ákveðnar voru 1947, komi nú 50 millj., með hliðsjón af gerbreyttu verðlagi og gildi krónunnar frá þeim tíma. 1947 var ákveðið, að lán, sem seðladeildin veitti með þessum hætti, bæri aðeins 11/2% vexti. En við höfum í till. okkar breytt þessu þannig að ganga þar til móts við þá stefnu í vaxtamálum, sem nú er almennt fylgt, og leggja til, að þessi lán yrðu veitt með 5% vöxtum.

Á síðasta þingi fluttum við nokkrir framsóknarmenn, sem sæti eigum í þessari hv. d., frv. um bústofnslánasjóð. Fyrsti flm. þess er hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ). Þetta frv, fékkst ekki afgreitt á síðasta þingi. Það var síðan endurflutt snemma á þessu þingi og hefur legið í n. hér í þessari hv. d. síðan. Nú leyfum við okkur í brtt., sem við flytjum við Þetta frv., að taka upp meginákvæðin úr því frv. óbreytt frá því, sem þau eru í frv. Ég geri ráð fyrir því, að þeirri aths. verði hreyft út af þessu, að með þeirri nýju skipan, sem stefnt sé að því að koma á þessi mál samkv. þessu frv., sé óþarft og jafnvel ótímabært að taka þessar till. upp. Ég vil í því sambandi benda á, að í núgildandi lögum um ræktunarsjóð eru ákvæði um það að lána til bústofnskaupa og véla í landbúnaði, og þau ákvæði hafa staðið í lögunum mjög lengi, og þetta frv. breytir engu um þau ákvæði, þau eru bara tekin óbreytt úr gildandi lögum. En reynslan hefur orðið sú, að þessum ákvæðum hefur ekki verið fylgt í framkvæmd. Það stafar af því. að ræktunarsjóður hefur ekki haft svo mikið fjármagn til ráðstöfunar, að hann hafi talið sig geta lánað til allra Þeirra greina eða allrar þeirrar starfsemi, sem lögin heimila honum að veita lán til. Á lagaákvæðunum, sem að þessu lúta, verður því engin breyting samkv. þessu frv. Spurningin er þá aðeins um það, hvort stofnlánadeildin verði þeim mun öflugri en ræktunarsjóður hafi verið, að hún geti eftirleiðis sinnt þeim umsóknum, sem henni berast um lán til bústofnskaupa og véla til landbúnaðarins. Úr þessu verður reynslan að skera. Ég get ekki, og það mun enginn geta á þessari stundu fullyrt um, hvernig þetta reynist. Það hlýtur vitanlega að vera háð því, hve miklar framkvæmdir verða á öðrum sviðum, t.d. mikil ræktun, og hve háar fjárhæðir verður sótt um til stofnlánadeildarinnar til ræktunar og byggingar útihúsa, hvort hún sér sér fært að veita lán í allar greinar, sem lögin heimila henni. En í viðbót við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að í till. okkar um bústofnslánadeild er sérstaklega miðað við að rétta hjálparhönd frumbýlingum, þeim, sem sérstaklega erfiða aðstöðu eiga innan bændastéttarinnar, koma til móts við þá. Og í þessum till. eru einnig ákvæði um að létta byrðar lausaskulda af bændum. Nú er að sönnu verið að gera átak í því efni samkv. löggjöf, sem nýlega hefur verið afgreidd. En sú löggjöf snýr að fortiðinni, þeim skuldum, sem nú þegar hafa safnazt, og gengur þó að dómi margra þm., eins og hér hefur komið fram í umr., of skammt. Það þarf enginn að ætla, að með þeirri löggjöf verði gert hreint borð um alla framtíð. Það hljóta að skapast vandamál framvegis meðal einstakra manna innan bændastéttarinnar þrátt fyrir framkvæmd þeirra laga, sem ég hef nú gert að umtalsefni. Og þeirri deild, sem við leggjum til í okkar till. að verði sett á fót, er sérstaklega ætlað það hlutverk að sinna þessu verkefni. Á það vil ég enn fremur benda, að í frv. ríkisstj. er jafnvel gert ráð fyrir því, að einstakir menn innan bændastéttarinnar kunni að geta komizt í þá aðstöðu, að það sé hæpið, að þeir fái lán úr stofnlánadeild. Í 7. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Við ákvörðun lána skal bankastjórnin hafa hliðsjón af því, hve mikil önnur veðlán hvíla á eigninni, og skal eigi veita lán, ef ástæða er til að ætla, að búrekstur á jörðinni fái ekki staðið undir auknum lánum.“ Út af fyrir sig er þetta ekki óeðlilegt sjónarmið af hálfu bankans, og við gerum enga brtt. um að fella þetta niður. En það geta skapazt Þær ástæður hjá vissum mönnum, þeim, sem erfiðastan hag eiga innan bændastéttarinnar, að þörf sé á að bæta Þeirra hag eftir annarri leið. Og þá er það eitt í till. okkar um hina nýju deild, að í vissum tilvikum sé heimilt eftir mati fimm manna, sem um það fjalla, að veita styrk til þess að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum einstakra manna. (Forseti: Á ræðumaður mikið eftir?) Ég er rétt að ljúka máli mínu, herra forseti. Á örfá orð eftir.

Gengislækkunin, sem gerð var 1961, hafði vitanlega í för með sér aukinn kostnað við framkvæmdir í sveitum eins og á öðrum sviðum. Ákvæðin um framlög til nýbýla og til jarða, sem hafa minna en 10 hektara tún, voru endurskoðuð og að sumu leyti sett að nýju með lögunum frá 1957. Vegna þeirra verðlagsbreytinga, sem orðið hafa frá þeim tíma, voru þær tölur, sem þá voru settar í lög, ekki raunhæfar, miðað við þann kostnað, sem orðinn var. Þess vegna var á síðasta þingi gerð veruleg leiðrétting á þessu og þessi framlög færð til hækkunar, miðað við áhrif gengisbreytingarinnar 1960. En nú koma til aftur áhrif gengisbreytingarinnar frá 1961, og till. okkar, 8., 9. ag 10. till, á þskj., eru miðaðar við að hækka þessi lögákveðnu framlög til samræmis við þá verðlagshækkun, sem orðið hefur.

Síðasta brtt. á þskj. er tekin upp eftir ábendingu búnaðarþings og í samræmi við það, sem meðnefndarmaður minn hefur gert grein fyrir í sambandi við annað mál í Sþ., þ.e. að veita fast framlag, 350 þús. kr., til starfsemi bygginganefndar, sem kveðið er á um í núgildandi lögum og á að haldast skv. þessu frv.

Ég hef þá gert grein fyrir brtt., sem við flytjum, og skal nú láta máli mínu lokið, en vil að lokum taka það fram, eins og segir í nál. okkar, að afstaða okkar til þessa frv. fer eftir því, hvort brtt. okkar hljóta samþykki eða ekki.