28.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Gunnar Guðbjartsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður sagðist álita, að þetta mál, sem hér væri til umr., væri eitt stærsta mál landbúnaðarins í dag, stærsta hagsmunamál landbúnaðarins í dag. Ég álít, að stærsta hagsmunamál landbúnaðarins í dag séu verðlagsmálin, því að því aðeins getur landbúnaðurinn tekið lán til stofnframkvæmda, að honum sé tryggt rétt verðlag fyrir búvörurnar. En að því frágengnu, þá get ég samþykkt, að þetta sé næststærsta hagsmunamál landbúnaðarins í dag.

Það var sagt hér við framsögu meiri hl. landbn., að með þeim tillögum, sem liggja hér fyrir í frv. ríkisstj. um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, væri myndarlega tekið á máli. Og var þá átt við það, að með þessu frv. væri landbúnaðinum tryggt mikið fé til stofnframkvæmda á næstu árum umfram það, sem tryggt hefur verið hingað til. Það er því rétt að íhuga þessi atriði nokkru nánar.

Í þessu frv. er lagt til, að stofnlánasjóðurinn fái stofnframlag með ýmsu móti frá ríkissjóði, sem nemur um 60.5 millj. kr. Nú er rétt að geta þess, að á 5 árum, 1953–1957, fengu stofnlánasjóðir Búnaðarbankans á svipaðan hátt framlög frá ríkissjóði eða fyrir tilstilli ríkisstj. samtals 65.4 millj., en þá var allt annað verðlag í landinu og hver króna um tvöfalt meira virði en nú er, svo að þetta er nú allur myndarskapurinn á þessu sviði, að veitt er tæplega sama krónutala í stofnfé nú og var gert á árunum 1953–1957 úr ríkissjóði eða að tilstuðlan ríkisins. Auk þess er samkv. þessu frv. tryggt árlegt framlag frá ríkinu, sem nú fyrst um sinn er áætlað 17.6 millj. kr. á ári. En gengistap það, sem er af erlendum lánum bankans, er áætlað að meðaltali um næstu 15 ár um 101/2 millj. kr. á ári, svo að eftir eru þá 6.1 millj., eða aðeins 2 millj. kr. meira en framlag ríkissjóðs til bankans hefur verið nú á undanförnum árum. Þetta er þá allur myndarskapurinn í hinum árlegu framlögum ríkissjóðs til bankans, að þau eru aðeins 2 millj. kr. meira áætluð á næstunni en þau hafa verið hingað til, og vita þó allir, að hver króna er miklu verðminni nú en verið hefur til þessa. En auk þessa framlags er lagt til í þessu frv., að bændastéttin leggi fram sem svarar 2% af kaupi sínu í stofnlánasjóðinn og auk þess verði lagður söluskattur á útsöluverð landbúnaðarvara, sem áætlað er að nemi 51/2–6 millj. kr. árlega fyrst um sinn. Myndarskapurinn í þessu frv. er þá fólginn í því að leggja launaskatt á bændastéttina og söluskatt á neytendur landbúnaðarafurða til þess að reyna að bæta upp það tjón, sem landbúnaðurinn hefur orðið fyrir á undanförnum 2 árum, sérstaklega í sambandi við efnahagsráðstafanir ríkisstj. og þær margháttuðu skatta- og tollaálögur, sem fallið hafa á landbúnaðinn og gert honum erfitt fyrir um Það að halda áfram þeirri uppbyggingu og þeirri þróun, sem nauðsynleg er, til þess að áfram verði lífvænlegt í sveitunum. Og ég verð að segja það, að ég harma, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar skuli ekki sjá annað ráð líklegra til þess að byggja upp lífvænlega framtíð í sveitunum í þessu efni en þá að leggja á þessa skatta, bæði á bændur og neytendur, til þess að afla fjár í stofnlánasjóðinn. Það hefði mátt vænta Þess, að eftir að búið er að smala saman fé í ríkissjóð með margháttuðum skattaálögum, eins og söluskattinum, sem hefur hækkað verð á öllum tækjum og vélum til landbúnaðarins stórkostlega undanfarin tvö ár, og smala saman fé í ríkissjóðinn í stórum stíl með Þessum hætti, þá væri kannske einhver möguleiki til þess, að hægt væri að leggja meira fé úr ríkisjóðnum sjálfum til þess að efla þessa sjóði heldur en verið hefur á undanförnum árum. Og það hefur verið auglýst mikið núna í vetur, að efnahagsráðstafanir, hin svokallaða viðreisn ríkisstj., hafi heppnazt og safnazt fyrir hundruð milljóna af sparifé í bönkunum, og Það var hægt að hugsa sér að hafa þó eitthvað af því fé til þess að efla stofnlánasjóði landbúnaðarins fram yfir það, sem hægt hefur verið á undanförnum árum, þegar oft hefur verið talað um, að það væru erfiðleikar með að fá sparifé í þessu skyni. Og hvaða trygging er í þessu frv. fyrir því, að þessi framlög, sem þó eru ætluð hér, bæði frá ríkissjóði og bændunum, rýrni ekki og verði lítilfjörleg í reyndinni vegna nýrra verðhækkana í landinu? Og hvaða trygging er fyrir því, að gengistapið á erlendu lánunum verði ekki enn þá meira en nú lítur þó út fyrir vegna nýrra gengisbreytinga? Ef svo færi t.d., að yrði kauphækkun á þessu ári, eins og varð á hinu árinu, mundi þá ekki ríkisstj. grípa til þess ráðs að lækka gengið að nýju? Og mundi ekki þessi ráðstöfun þá renna út í sandinn vegna nýrra verðhækkana? Mér sýnist, að það sé engin trygging fyrir því í þessu frv., að landbúnaðurinn hafi raunverulega tryggingu fyrir því, að þessi lán fullnægi þörfum hans í framtiðinni frekar en hingað til. Væri þá ekki nær að fara þá leið, sem við í minni hl. höfum bent á, að færa gengishallann á sérstakan reikning, sem ríkissjóður bæri ábyrgð á, og um leið tæki hann á sig ábyrgð á frekari gengisbreytingum í þessu efni? Það væri þó a.m.k. nokkurt aðhald fyrir ríkisstj. og Seðlabankann að vera ekki að ráðast í ótímabærar gengisbreytingar hér eftir, ef slíkt væri gert.

Hv. síðasti ræðumaður ræddi hér nokkuð um samþykkt búnaðarþings í sambandi við Þetta mál og afstöðu Stéttarsambands bænda, og þykir mér því rétt að fara um Það atriði nokkrum orðum.

Á síðasta stéttarsambandsfundi var mikið rætt um erfiðleika landbúnaðarins og lánamál hans, og það var gerð ýtarleg ályktun um þau efni, sem ég vildi — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér.

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1961 lítur svo á, að Þær stórstígu breytingar í verðlagsmálum í landbúnaði, sem átt hafa sér stað að undanförnu, einkum þó á síðasta ári, hafi svo neikvæð áhrif á þróun landbúnaðarins meðal þjóðarinnar, sér í lagi að því er snertir byrjendur í búskap, að ekki sé unandi við það ástand, er ríkir í þessum málum nú.

Sem tilraun til að draga nokkuð úr þeim erfiðleikum, sem þarna er við að stríða, telur fundurinn nauðsynlegt, að Stéttarsamband bænda beiti sér fyrir eftirfarandi: 1) Veðdeild Búnaðarbankans verði efld, svo að hún verði fær um að veita frumbýlingum nægileg lán með hagstæðum kjörum til kaupa á jörð, búi og landbúnaðarvélum. 2) Að tryggt verði fjármagn til stofnlánasjóða landbúnaðarins. 3) Að lausaskuldir bænda fáist yfirfærðar í bankana og verði lánaðar til langs tíma með lágum vöxtum. 4) Að ríkissjóður taki að sér greiðslu hinna erlendu lána, sem sjóðir Búnaðarbankans hafa fengið. 5) Að vextir stofnlána verði lækkaðir og lánstíminn lengdur í það, sem áður var.“

Finnst ekki hv. alþm., að tillögur okkar í minni hl. séu nokkuð í sama dúr og þessar tillögur aðalfundar Stéttarsambands bænda? Að lausaskuldum, — Það er ekki tilheyrandi þessu máli, því að það er búið að afgreiða Það áður, — undanskildum, eru allir Þessir liðir innifaldir í þessum tillögum okkar hér, að ríkissjóður taki að sér greiðslu hinna erlendu lána, að stofnlánasjóðurinn verði efldur, og þá er að sjálfsögðu átt við það, að hann sé efldur með því sparifé, sem þjóðfélagið á, að veðdeild Búnaðarbankans verði sérstaklega efld til að sinna sínu hlutverki og að vextir verði lækkaðir í það, sem þeir áður voru.

Bændurnir gera sér áreiðanlega ljóst, að landbúnaðurinn er þess eðlis, að hann þolir ekki háa vexti. Þess vegna er alveg sérstök ástæða til að leggja áherzlu á það, að hann njóti hagstæðra vaxtakjara, og þetta hefur verið viðurkennt á undanförnum árum og um langt árabil, þessi sérstaða hans. Af Þeim sökum var það í upphafi, að þetta sérstaka ríkisframlag, sem stofnlánasjóðir Búnaðarbankans hafa fengið, var veitt. Það var veitt til þess að standa undir þeim vaxtamismun, sem orðið hefur hjá bankanum vegna lægri útlánsvaxta en hann hefur þurft að greiða af því fé, sem hann hefur fengið að láni. Og þessi framlög dugðu lengi vel til þess að standa undir vaxtamismuninum. Það er aðeins nú allra síðustu árin, síðan vextir hækkuðu stórkostlega, að þetta fé hefur ekki dugað til. Og það er einmitt sök þeirrar ríkisstj., sem nú situr, að hún hækkaði vextina svo mikið, að þetta fé dugði ekki til. Að því leyti ber henni að sjálfsögðu sérstök skylda til þess að leggja stofnlánasjóðunum til aukið fé til þess að standa einmitt undir þessum aukna vaxtamismun.

Það kom fram hjá síðasta ræðumanni, að hann teldi, að það hefði verið illa séð fyrir lánsfjárþörf sjóðanna, meðan Framsfl. gat ráðið hér í landinu. En ég verð að segja Það, að hafi verið illa séð fyrir þeim þá, þá er illa séð fyrir þeim nú tvö síðustu árin, því að hlutfallslega, miðað við verðgildi fjár í landinu, voru þau framlög, sem stofnlánasjóðirnir fengu á þeim árum, miklu, miklu hærri en þau framlög, sem þeir hafa fengið nú tvö síðustu árin. — Það var alltaf höfð gát á því, að sjóðirnir gætu lánað nauðsynleg lán til ræktunar og bygginga á hverju einasta ári, og ríkisvaldið hljóp alltaf undir bagga til þess að tryggja, að slíkt gæti átt sér stað. Og þessir erfiðleikar, sem hv. stjórnarstuðningsmenn tala svo mikið um í sambandi við lánasjóðina, komu fyrst til sögunnar eftir gengisbreytinguna, þegar bankinn þurfti að borga miklu meira fé fyrir erlendu lánin í vexti og afborganir en áður hafði verið, og það var vegna sjálfrar gengisbreytingarinnar. Af þeim sökum ber líka hv. stjórnarstuðningsmönnum að leysa þessa þörf með sérstökum fjárframlögum af hálfu ríkisins.

Þá vil ég víkja að ályktun búnaðarþings í sambandi við þetta mál. Hv. síðasti ræðumaður vildi halda, að hún hefði verið samin á einhverri flokksskrifstofu, — þeir þekkja sína og vita, hvar ályktanirnar eru samdar. En það verð ég að segja um búnaðarþing, að enn þá geta búnaðarþingsmenn samið sínar ályktanir sjálfir, og vonandi verður það alltaf svo.

Fyrsta atriði í þessari ályktun fjallar um þá kröfu, að ríkið greiði gengishallann af erlendu lánunum. Þetta er sú meginkrafa, sem bændastéttin hefur alltaf og mun alltaf gera, að ríkissjóður taki á sig þennan halta. Og ég hef þegar fært rök að því, að það er réttmætt að gera þá kröfu, og ég held, að það sé líka fullkomlega í samræmi við það, sem gert var í sambandi við önnur mál, Þegar efnahagslögin voru sett, að gera Þessa kröfu. En ég harma það hins vegar, að hv. síðasti ræðumaður skyldi þó ekki lesa rétt það, sem búnaðarþing samþykkti um þetta. Það hefði verið það minnsta, að hann hefði lesið það rétt.

Önnur krafan er um það, að landbúnaðurinn eigi fullan rétt á sem einn af aðalatvinnuvegum þjóðarinnar að fá fjármagn til stofnlána landbúnaðarins af sameiginlegu fjármagni þjóðarinnar. Þetta á einfaldlega við það, að sparifé þjóðarinnar verði notað jöfnum höndum í þágu landbúnaðarins eins og annarra atvinnuvega, og það mætti ætla, að svo mikið sem safnazt hefur fyrir af sparifé að sögn bæði ríkisstj. og stuðningsflokka hennar og stjórnar Seðlabankans nú undanfarandi ár, þá væri til eitthvað af sparifé, sem mætti og gæti farið í landbúnaðinn í þessu skyni. Búnaðarþing leit svo á, að landbúnaðurinn ætti fulla kröfu á sínum hluta í þessu efni. Og í framhaldi af þessu gerir þingið kröfu til þess, að auk árlegra fjárframlaga úr ríkissjóði fái stofnlánadeildin lán frá Seðlabankanum hliðstætt því, sem ákveðið er í lögum um stofnlánadeild sjávarútvegsins frá 29. apríl 1946. Þetta var hugsað sem einn þáttur í því að efla stofnlánasjóðinn, alveg sérstaklega nú í bili að fá sérstakt framlag úr Seðlabankanum í þessu skyni og þá alveg sérstaklega til veðdeildarinnar. Það var eðlilegt að gera þessa kröfu, þar sem svipuð ákvæði höfðu verið sett varðandi sjávarútveginn fyrir nokkuð mörgum árum, og enn virðist vera nokkuð af því eða helmingurinn af því fé í umferð. Samkv. plöggum, sem liggja á borðinu mínu, sá ég, að það væru nær 50 millj. kr. enn í umferð af þessu fé, sem þá var veitt til stofnlánadeildar sjávarútvegsins. Og það var ekki óeðlilegt, að núna, þegar Seðlabankinn er búinn að draga til sín mörg hundruð milljónir af sparifé þjóðarinnar víðs vegar af landinu, líka úr sveitunum, gæti hann lagt fram a.m.k. í þetta skipti eitthvert verulegt fjármagn til að efla lánasjóði landbúnaðarins. Ég sé ekki, að það sé nema full sanngirniskrafa og réttlætiskrafa af hálfu þeirra, sem vilja landbúnaðinum vel. En hv. síðasti ræðumaður sagði: Hvers vegna eru framsóknarmenn ekki búnir að gera þessa kröfu miklu fyrr? Í fyrsta lagi er því til að svara, að sjóðirnir hafa aldrei verið eins illa stæðir og nú. Í öðru lagi er því til að svara, að framsóknarmenn hafa aldrei ráðið yfir Seðlabankanum, en hins vegar hafa núverandi stjórnarflokkar tryggt sér full umráð yfir Seðlabankanum, og að því leyti hafa þeir miklu betri aðstöðu til þess að koma þessu fram.

Þriðja atriði í ályktun búnaðarþings, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar svo: „Búnaðarþing mótmælir eindregið þeirri sérstöku skattlagningu á bændastéttina og gjaldi á útsöluverð landbúnaðarvara, sem kveðið er á um í 4. gr. frv. um stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl., sem nú liggur fyrir Alþingi.“

Það er þessi sérstaka skattlagning, og það er alveg sérstök ástæða til að taka það fram, að enginn búnaðarþingsmaður greiddi þessu atkv. Það fór fram nafnakall um þennan lið tillögunnar og hann var samþykktur með 17 shlj. atkv., en fjórir menn sátu hjá. Sumir þeirra lýstu yfir, að þeir væru andstæðir þessu, en vildu ekki spilla fyrir málinu að öðru leyti og vildu því sitja hjá. Á sama hátt hefur stjórn Stéttarsambandsins mótmælt þessum skatti. Og mig furðar nú það, að menn, sem eru velviljaðir landbúnaðinum, skuli sjá sér fært að leggja til, að tekjulægsta stétt þjóðfélagsins skuli leggja fram sérstakt framlag í sína lánasjóði, þegar á sama tíma er verið að fjalla um lánamál annarra stétta á hv. Alþingi og þykir ekki fært að leggja til, að þær leggi á sig launaskatt í þessu skyni.

Ég verð að taka undir með síðasta ræðumanni um það, að þetta efni hefði horft nokkuð öðruvísi við, ef þetta hefði átt að verða lífeyrissjóður. Og ég einmitt hreyfði þeirri tillögu á búnaðarþingi, að það kæmi mjög til álita, ef á annað borð þætti nauðsynlegt að leggja á slíkum skatt sem þennan, að fara fram á það, að þessu væri breytt í það form, að það yrði myndaður lífeyrissjóður fyrir bændastéttina, sem yrði þá í senn til þess að veita þeim bændum lífeyri, sem eru hættir að geta stundað búskap, og yrði lánasjóður um leið. En þá yrði líka að gera þá kröfu, að sá lífeyrissjóður yrði undir stjórn bændasamtakanna, alveg skilyrðislaust, eins og aðrir lífeyrissjóðir. Og af þeim sökum sá ég mér ekki fært að forma slíka brtt. við þetta frv., því að þá hefði orðið að taka þann þátt alveg út úr og mynda sérstaka deild í Búnaðarbankanum, sem yrði þá undir stjórn stéttarsamtaka bændanna. En þessi hugmynd er þess verð, að hún sé skoðuð vel og athuguð.

En þá er það næst söluskatturinn á útsöluverð landbúnaðarvara. Það má segja, að bændastéttin þurfi ekki endilega út af fyrir sig að vera að mótmæla þessu, frekar en Þá almennt sölusköttum. En Þó hefur þessi skattur þá sérstöðu, að hann mundi auka andstöðu neytendafulltrúa, sem bændur verða að semja við um sín verðlagsmál, — auka andstöðu þeirra gegn því, að það fengjust eðlilegar verðhækkanir á landbúnaðarvörum, og að því leyti kynni hann að skaða stéttina og koma niður á bændunum sjálfum. Þess vegna og í því ljósi var það, að búnaðarþing mótmælti þessari skattlagningu sérstaklega.

Í sambandi við þetta má minna á það líka, sem er stórt atriði í sambandi við þessi mál, að bændastéttin er eina stétt þjóðfélagsins, sem hefur um langt árabil unað því að hafa gerðardóm í sínum kaupgjaldsmálum, og það sýnir sig, að í reyndinni hefur það orðið til þess, að bændastéttin hefur lægst laun allra stétta þjóðfélagsins. Þó að það sé reynt að miða við aðrar stéttir, hefur útkoman alltaf orðið sú, að tekjur bændanna verða almennt minni.

Fjórða atriði í ályktun búnaðarþings er, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing lýsir yfir því. að landbúnaðinum er það mjög nauðsynlegt, að vextir af stofnlánum séu lágir, vegna þess að stofnfé til bygginga í sveitum og ræktunar skilar arði seinna en stofnfé annarra atvinnuvega.“

Þetta held ég að sé viðurkennt af öllum, að landbúnaðurinn getur ekki velt fjármagni sínu eins fljótt og aðrir atvinnuvegir. Og ég sé ekki annað en þetta sé réttmætt, eins og það hefur alltaf verið á undanförnum árum, að gera þá kröfu, að landbúnaðurinn hafi búið og búi við lága vexti. Og það hafa aldrei komið fram þau rök hér í þessum umr. um þetta mál né önnur mál varðandi landbúnaðinn, að þau réttlæti það að hafa háa vexti af lánum til landbúnaðarins. Eins og ég gat um áðan, var framlag ríkissjóðs til Búnaðarbankans eða stofnlánasjóðanna í upphafi ætlað til þess að standa undir vaxtamuninum í þessu efni.

Fimmta atriði í ályktun búnaðarþings, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing telur, að tryggja þurfi veðdeild Búnaðarbankans sérstakt fjárframlag, sbr. ályktun búnaðarþings 1961.“

Það er í þessu frv., sem hér er til umr., ákvæði um það, að heimilt er stofnlánasjóðnum að lána veðdeild Búnaðarbankans allt að 10 millj. kr. á ári. En það er engin trygging fyrir því, að slíkt fé verði til. Það er aðeins, ef afgangur er frá öðrum þörfum stofnlánasjóðsins, að þetta yrði notað. En eins og ég hef getið hér um áður, getur alveg eins farið svo innan lítils tíma, að þessi breyting, sem fyrirhuguð er á stofnlánasjóðnum, verði eyðilögð af nýjum verðhækkunum, þannig að það eru ekki neinar líkur til þess, að það verði fé afgangs í stofnlánasjóðnum til þess að veita í veðdeildina í þessu skyni. Það er því eðlilegt, að veðdeildinni verði tryggt sérstakt fjárframlag í þessu skyni, og það er því í fullu samræmi við þennan vilja búnaðarþings og Stéttarsambands bænda, að við minnihlutamenn í landbn. leggjum til, að veðdeildinni verði einmitt tryggt slíkt framlag. Það er að sjálfsögðu eitt mesta vandamál landbúnaðarins í dag, einmitt það að geta fengið fé. til þess að hægt sé að færa jarðeignir á milli kynslóða eða milli manna, og á undanförnum árum hefur Búnaðarbankinn því miður ekki getað sinnt þessari þörf sem skyldi, og alltaf verður þessi fjárþörf meiri vegna þeirra stórfelldu verðhækkana, sem orðið hafa. Þetta er því alveg sérstaklega brýnt nú, eins og margbent hefur verið á.

Ég hef nú gert grein fyrir öllum meginatriðum ályktunar búnaðarþings. En svo er lokaatriðið varðandi þetta mál. Það var það að mæla með samþykkt frv., sem hér um ræðir, ef þær breytingar, sem búnaðarþing óskaði eftir, yrðu teknar til greina. Og ef tillögur okkar minnihlutamanna, sem fara í öllum meginatriðum eftir tillögum búnaðarþings og Stéttarsambands bænda, verða samþykktar, þá getum við stutt málið. En við teljum, að með þessari sérstöku skattlagningu, sem fyrirhuguð er, sé stigið svo stórt spor til þess að skerða kjör bændanna og rétt þeirra, að það sé ekki verjandi að samþykkja slíkt ákvæði eins og það er formað hér. Mér finnst, að það sé álíka og að gefa kúnum mjólkina úr sér í harðindum, það sé álíka gáfulegt að taka fé frá fjárvana atvinnuvegi og rétta honum það aftur og að mjólka kúna og gefa henni mjólkina aftur.

Það hefur komið fram við uppgjör á 10 ára áætlun, sem Stéttarsamband bænda gerði fyrir tímabilið 1950–1960, að fé það, sem fest hefur verið í landbúnaði á því tímabili, hafi verið nærri þrír milljarðar, og 69% af því fé hafa komið frá bændunum sjálfum, 19.1% sem lánsfé frá Búnaðarbankanum og hitt sem styrkir eða framlög frá ríkinu. Það sést af þessu, að bændur eru ekki að fara með fé sitt í annað en í landbúnað. Þeir leggja allt, sem þeir geta við sig losað, alla þá vinnu, sem þeir geta lagt fram auk bústarfanna, í umbætur á sínum jörðum, og allt laust fé, sem þeir hafa ráð á, leggja þeir í umbætur á sínum jörðum. Og hvers vegna að vantreysta þeim þá til þess, ef þeir hefðu afgang af sínum litlu launum í framtíðinni, að leggja það sjálfir í sínar umbætur? Er meiri ástæða til þess að fela Búnaðarbankanum að fara með það fé, ef það kynni að verða eitthvað afgangs hjá þeim, heldur en bændunum sjálfum? Ég held, að það sé vafasöm leið. Kannske er það hugsað eins og þegar er verið að tyggja matinn í litlu börnin, blanda bakteríum þess, sem tyggur, í fæðuna, til þess að rétta hana svo litla barninu aftur. Ég veit það ekki, en mér dettur það helzt í hug. Mér sýnist, að þessi myndarlega aðferð, eins og hv. frsm. meiri hl. nefndi, til þess að efla stofnlánasjóð landbúnaðarins sé svo óraunveruleg og eigi svo lítinn rétt á sér, að ekki sé sæmandi að mæla með slíku.

Það hefur verið í sambandi við þetta mál rætt nokkuð um atvinnuaukningarfé og ríkisábyrgðir, og það er rétt að koma að því, því að það er nú svo, að það er nálega ekkert fyrirtæki stofnað varðandi sjávarútveg, án Þess að það fái lán eða styrk af atvinnuaukningarfé, og ungir menn, sem ráðast í það stórræði að kaupa báta eða stofna til fyrirtækja á því sviði, hafa nokkurn veginn tryggingu fyrir því að fá eitthvert fé þannig sem stofnfé. Það er ekki nema gott um það að segja, að slíkt skuli vera gert, og ég tel, að það ætti að gera meira að því en venja hefur verið hingað til. En það er nákvæmlega sama, sem við erum að leggja til hér með því að gera kröfu til þess, að ríkið leggi fram framlag til stofnlána í landbúnaði. Það er nákvæmlega hliðstætt þessu, að við teljum eðlilegt, að ríkið leggi fram fjármagn til þess að hjálpa ungu fólki, sem vill setjast að í sveit, til þess að koma af stað sínum búskap og stofna heimili. Það er því ekki nema til jafnvægis við þetta, að farið er fram á það, að ríkisframlagið í þessu skyni sé hækkað. Þá má líka minna á það, að t.d. stofnlán sjávarútvegsins, bæði úr stofnlánadeild og fiskveiðasjóði, eru öll veitt með ríkisábyrgð, og þetta skapar þessum atvinnuvegi vissa tryggingu fyrir því að fá meira fjármagn í útlánin, og það er að sjálfsögðu ekki nema gott um það að segja. En þetta verður líka til þess, að ríkið leggur fram í gegnum þetta með greiðslu á áföllnum skuldbindingum vegna ríkisábyrgða allverulegt fé til þessa atvinnuvegar, sem landbúnaðurinn nýtur ekki. Og það er líka eðlilegt að gera kröfu til þess, að á móti því fái hann eitthvert aukið fjármagn í sín stofnlán.

Hv. frsm. meiri hl. landbn. sagði hér áðan, að lögin um stofnlánasjóði landbúnaðarins hefðu verið ófullkomin allt siðan 1950. En þegar þessi lög voru sett, að ég ætla 1947 eða 1946, líklega 1946, þá var því haldið fram af þáv. stjórnarflokkum, en Sjálfstfl. réð mestu um löggjöf þá, að þau væru mjög fullkomin og þau mundu tryggja landbúnaðinum nægjanlegt lánsfé um næstu eða kannske alla framtið. En hafi þau reynzt ófullkomin, skyldi þá ekki geta farið svo, að líka þessi löggjöf, sem nú er formuð og hugsuð og sögð eiga að vera mjög fullkomin, yrði ófullkomin eftir fá ár, — kannske tvö, þrjú eða fjögur ár? Ég er hræddur um það. Mér sýnist nefnilega bragurinn á henni vera þannig, að það sé engin von til þess, að hún verði fullkomin eða leysi allar þarfir landbúnaðarins á næstu árum. Og einmitt með hliðsjón af því er það, að við minnihlutamenn í landbn. flytjum þær brtt., sem eru hér á þskj. 502. Og ég hefði kosið, að hv. stjórnarstuðningsmenn hefðu litið á Þær með meiri velvilja en komið hefur hér fram, og þá er ég sannfærður um, að hefði verið hægt að ná samstöðu um það að bæta aðstöðu stofnlánasjóðanna meira en þeir hafa hugsað sér að gera og kannske gera löggjöfina fullkomnari, þó að aldrei sé hægt að sjá neitt fram í tímann um það, hvernig málin snúast. En ég hefði kosið það, og ég er sannfærður um það, að ef sýnd hefði verið meiri framsýni og vilji til þess að tryggja þetta til frambúðar, þá hefði verið hægt að ná samstöðu um þessar tillögur okkar í minni hl.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fjölyrða öllu meira um þetta að þessu sinni. Það gefst kannske tækifæri til þess að tala um þetta meira seinna. En ég vildi þó undirstrika að lokum, að það er stórt mál fyrir landbúnaðinn, að lánaþörf hans verði leyst, en allra stærsta mál hans er þó að fá það verðlag að geta staðið undir lántökum. Ef maður hugsar sér það, að t.d. íbúðarhús kosti núna allt að hálfri milljón króna og bóndinn fengi lánað eins og þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, hámarkið, 60% af kostnaði, þá yrðu vextir samkvæmt frv. 18 þús. kr. á ári. Það er varla hægt að hugsa sér, að fátækur bóndi geti lagt 200 þús. kr. úr eigin vasa í þetta, þó að hann leggi verulega vinnu fram sjálfur, svo að það mætti gera ráð fyrir, að hann þyrfti að taka 100 þús. kr. til viðbótar þessu láni og þá með 9% vöxtum, og þá eru það önnur 9 þús. í vexti af því. Þá eru komin 27 þús. Skatturinn, sem hugsaður er á bændur í sambandi við þetta mál, nemur 1700 kr. á meðalbúum. Þetta gerir samtals 28 700 kr., skatturinn og vextirnir af lánum vegna slíkrar byggingar sem þessarar. Þar til viðbótar koma svo afborganir. Hugsið þið ykkur fátækan bónda að standa undir svona lánum. Væri ekki rétt að reyna að hugsa þetta til enda, reyna að létta átökin í þessu efni með því að lækka vextina og reyna að tryggja hlutfallslega hærri lán með lágum vöxtum, tryggja það betur en hér er gert ráð fyrir? Er nokkur von til þess, að ungt fólk byggi upp í sveitunum í framtiðinni, ef svona á að búa að því?

Ég held, að það þurfi áð taka á Þessu með meiri skilningi, sýna meiri víðsýni og skilning á þörfum þessa fólks, til þess að svo megi verða, og ég vonast til þess, að jafnvelviljaðir menn sveitunum og hv. síðasti ræðumaður er sýni það í verki í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að hann hafi skilning og velvilja á þessu og taki tillit til brtt. okkar í minni hlutanum.