28.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál, en aðeins segja nokkur orð.

Það virðist sem stjórnarandstæðingar séu öllu hógværari í umr. um þetta mál en var við 1. umr. málsins. Eins og við minnumst, var þetta frv. þá talið árás á bændastéttina. Það er ekki óeðlilegt, að það sé Þá lítillega athugað, hvað það er í þessu frv., sem sérstaklega gæti heyrt undir það að vera kallað árás á bændastéttina.

3. gr. frv. kveður á um Það, hver á að vera stofn þessa stofnlánasjóðs. Það eru eignir ræktunarsjóðs Íslands og byggingarsjóðs sveitabæja, eins og þær verða, lán, sem ríkissjóður veitti ræktunarsjóði og byggingarsjóði 1960 ásamt áföllnum vöxtum, samtals 34.9 millj., skuldabréf, sem ríkissjóður afhendir deildinni til eignar, samtals 9 millj. 142 þús., sem síðan er sundurliðað, 16.5 millj., sem ríkissjóður eða ríkisábyrgðasjóður greiðir af erlendum lánum til ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs fyrir árin 1961, 1962 og 1963. Ekkert af þessu ætla ég, að gæti verið fært undir það, að Þetta væri árás á landbúnaðinn eða bændastétt landsins.

Í 4. gr. frv. er síðan vikið að Því, hverjar tekjur þessi stofnlánasjóður landbúnaðarins á að hafa. Þar er, eins og hér hefur verið margrætt um, 1% gjald af búvöruverði bænda, sem áætlað er að muni nema 8 millj. 240 þús. kr., á móti því er gert ráð fyrir að sama upphæð komi frá ríkissjóði, 0.75% af útsöluverði mjólkur, rjóma og af heildsöluverði annarrar búvöru, það er áætlað að verði 5.5–6 millj. kr., og veitt úr ríkissjóði á fjárlögum 4 millj. Þessar tekjur sjóðsins verða 17–18 millj. umfram 1%, sem gert er ráð fyrir, eins og ég áðan gat um, að verði 8 millj. 240 þús. kr., auk Þess, sem raunverulega er innifalið í stofnframlagi ríkissjóðs til sjóðsins. Það hefur ekki verið ágreiningur um það, að eins og hag landbúnaðarsjóðanna var komið, voru þeir algerlega ómegnugir að gegna sínu hlutverki. Það var svo á hverju hausti, að það varð að leggja mikla vinnu í að útvega fé, til þess að sjóðirnir gætu starfað. Með þeim grundvelli, sem hér er lagður að stofnlánadeild landbúnaðarins, er unnið markvisst að því að byggja sjóðina upp til frambúðar, en það er einmitt Það, sem þurfti að gera.

Það hefur verið vikið að samanburði við sjávarútveginn og talið, að það sé ekki sambærilegt. Það má segja, að það sé vissulega rétt, að það sé ekki sambærilegt að því leyti til, að það, sem tekið er af framleiðsluverði sjávarútvegsins, er miklu hærri upphæð og prósenta af heildarframleiðslunni en hér á sér stað. Ég vil lítillega að því gefna tilefni rifja hér upp, hvernig þessu er háttað með sjávarútveginn. Það hefur aðeins verið talað um 1.8%, sem hefur runnið til fiskveiðasjóðs, en það eru til viðbótar talsverðar upphæðir þar umfram, sem teknar eru af framleiðsluverði sjávarútvegsins. Þessi 1.8%, sem tekin eru af útflutningsvöru sjávarútvegsins, er áætlað að muni nema um 41 millj. kr. Auk þess rennur til fiskimálasjóðs 0.3%, sem er áætlað að verði 6.7 millj. kr. Þá rennur til L.Í.Ú. 0.042%, sem gerir tæpa milljón, til rannsókna í þágu sjávarútvegsins 0.06%, sem gerir 1.2 millj., til þess að koma upp hafrannsóknarskipi í þágu sjávarútvegsins er varið 0.078%, sem gerir 1.6 millj., í ferskfiskmat 0.15%, sem gerir 3.7 millj., og eins og nú er ákveðið 3.72%, sem varið er til tryggingakerfisins. Það má segja, að sá þáttur af Þessu útflutningsgjaldi, sem rennur til vátryggingakerfisins, sé upphæð, sem kemur beint strax til góða í sambandi við rekstur sjávarútvegsins. En alls er áætlað, að þetta muni nema um 92 millj. kr., en það, sem rennur til tryggingakerfisins, hins vegar um 36.7 millj. Nettó er sú upphæð, sem hér er um að ræða og tekin er af útflutningsandvirði sjávarafurða, um 55.3 millj. kr. Að því leyti má segja, að það sé ekki sambærilegt við þá upphæð, sem hér er verið að ræða um til þess að byggja upp sjóði landbúnaðarins.

Hv. 1. þm. Vesturl. (GGuðbj) var að tala um, að það þyrfti að leggja ríka áherzlu á Það, að vextirnir yrðu mjög lágir. Vitanlega vilja allir atvinnurekendur, hvort sem er til sjós eða lands, reyna að fá sem hagstæðasta og lægsta vexti. En það gefur aftur auga leið, að uppbygging sjóða, hvort sem eru sjóðir landbúnaðarins eða sjávarútvegsins, verða þess frekar megnugir að veita hagstæða vexti, eftir því sem þeir eru byggðir upp meira af eigin fé, því að ef þann hátt á að hafa á lánastarfseminni að taka stórlán, sem síðan eru endurlánuð til atvinnuveganna, þá segir það sig sjálft, að þá verður að miða við þá prósentu eða þann vaxtafót, sem lánið er tekið á. Að öðrum kosti verður halli á rekstrinum, og það er það, sem hefur átt sér stað hjá sjóðum landbúnaðarins og hefur étið upp allt það, sem var búið að byggja upp, áður en verðbólgan átti sér stað. Og það er einmitt það, sem þetta frv. um stofnlánadeild landbúnaðarins tryggir í framtíðinni, að stofninn verður ekki étinn upp. Hann fær auknar tekjur, eftir því sem krónan verður lægri í verði og afurðaverðið hækkar.

Í sambandi við fiskveiðasjóðinn og starfsemi hans var það allt fram á siðasta ár, að hann veitti öll lán án gjaldeyrisklásúlu. En í lögum, sem samþykkt voru hér í þinginu á s.l. ári, segir svo í 2. gr., með leyfi forseta:

„Þegar fiskveiðasjóður endurlánar erlent lánsfé, er heimilt að áskilja, að ný lán úr sjóðnum endurgreiðist með breytilegri fjárhæð, sem nemi gengisbreytingu íslenzkrar krónu á lánstímanum.“

Áður en þetta lagaákvæði kom hjá sjávarútveginum eða fiskveiðasjóðnum, fram að þeim tíma, hafði sjóðurinn tapað um 28 millj. kr., eins og um getur í aths. við það lagafrv.

Það var, að ég ætla, hv. 5. þm. Austf., sem vék að því, að í þessu frv. væri ákvæði, sem jafnvel útilokuðu einstaka aðila frá Því að geta fengið lán úr sjóðnum. Vitnaði hann þar sérstaklega til 7. gr. laganna. En ég vil benda á, að í 7. gr. er sérstakt ákvæði, sem ætti að skapa aðstöðu, þegar sérstaklega stendur á í þeim efnum, því að þar segir, með leyfi forseta:

„Um lánveitingar, sem stjórn deildarinnar telur leika vafa á, hvort veita skuli, skal hún leita álits Búnaðarfélags Íslands eða nýbýlastjórnar ríkisins.“

Þarna er varnagli, sem skapar stjórn sjóðsins möguleika til þess að teygja sig lengra en önnur ákvæði greinarinnar marka.

Það eru orðnar nokkuð langar umr. um þetta mál við þessa umr., og ég sé ekki ástæðu til að bæta miklu við Það, sem ég þegar hef sagt. En ég vil endurtaka það, að eins og hagur sjóðanna var og eins og honum er komið, þá voru þeir öldungis ómegnugir að gegna sínu hlutverki. En ég vænti þess, að ef þetta frv. verður að lögum, þá muni skapast aðstaða fyrir stofnlánasjóð landbúnaðarins til þess að veita lán og efla landbúnaðinn yfirleitt á allan hátt. Það þarf að skapa aðstöðu, eins og hv. 1. þm. Vesturl. sagði, til þess að geta veitt svo mikil lán, að það verði hægt að færa jarðirnar á milli kynslóðanna. En það verður aðeins gert með þeim hætti, að sjóðirnir verði þannig byggðir upp, að þeir vaxi ár frá ári, en gangi ekki í þá átt, eins og hefur verið að undanförnu, að þeir hafa sífellt minnkað.