06.11.1961
Neðri deild: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Forseti. Sumir tekjustofnar ríkissjóðs, gjöld og gjaldaviðaukar, hafa um langan aldur verið framlengdir frá ári til árs. Það er einnig efni þessa frv. að framlengja, þannig að gildi fyrir árið 1962, ýmis þau gjöld og gjaldaviðauka, sem hér eru talin. Sum þeirra hafa verið framlengd á þennan hátt í áratug eða meira. Tvö nýmæli eru hins vegar í þessu frv., annars vegar heimild til þess að fella niður aðflutningsgjöld af nokkrum vörum, en slík heimild hefur verið í öðrum lögum áður, og hins vegar, að inn í þetta frv. er nú tekin framlenging fyrir árið 1962 á 8% viðbótarsöluskatti á innfluttum vörum.

Ég vil taka það fram, að tollskráin er í endurskoðun, og hefur verið unnið að þeirri endurskoðun síðan skömmu eftir að núv. stjórn var mynduð. Ætlunin er með þeirri nýju tollskrá að sameina og samræma sem flest af aðflutningsgjöldum, sem ríkissjóður hefur nú, og m.a. ýmislegt, sem er talið í þessu frv. Það er ekki hægt að fullyrða um það enn, hvenær hin nýja tollskrá verður tilbúin. Það var stefnt að því, að reynt yrði að koma henni fyrir yfirstandandi þing, en það er hæpið, að það takist, en fyrir haustþingið 1962 ætti það frv. að vera tilbúið.

Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til 2 umr. og fjhn.