05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Ágúst Þorvaldsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. hefur nú mælt fyrir þessu frv., sem hér er til umr. Ég held, að það sé dálítið óvenjulegt, að ráðh., sem mælir fyrir frv., sem hann er að leggja hér fram, sé svo æstur og órólegur eins og þessi ráðh. var hér áðan og skammi andstæðinga sína, um leið og hann leggur málið fyrir þingið. Ég hélt, að hitt væri miklu fremur venjulegra, og ég hef tekið eftir því. að það er venja ráðh, hér að deila ekki á andstæðinga sína, um leið og þeir leggja mál fyrir þingið. Þeir reyna frekar að laða menn til fylgis við málefnið heldur en fá þá til andstöðu. En auðvitað er þessi hæstv. ráðh. sjáifráður um sínar aðferðir. Og hann á ekki að skilja Þetta svo, að ég ætli að fara að kenna honum neitt í þessu efni, hann ræður sínum aðferðum um þetta.

Ráðherrann sagði m.a., að framsóknarmenn ættu eftir að iðrast afstöðu sinnar til þessa máls! Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvað þýða þessi orð? Er þetta hótun? Ber að skilja þetta sem einhverja hótun til okkar framsóknarmannanna fyrir Það, Þó að við séum ekki á nákvæmlega sama máli og hann í þessu efni? Hvað eiga svona orð að þýða hér á hv. Alþingi við andstæðinga? Ætlar ráðh. að beita einhverju valdi til þess að pína okkur eða gera okkur eitthvert tjón? Ég spyr og heimta svar.

Ég held, að Það verði varla um Það deilt, að þær miklu framfarir, sem á undanförnum áratugum hafa orðið í sveitum landsins, hefðu ekki getað átt sér stað, ef ekki hefði við notið þeirra lánasjóða, sem Framsfl. beitti sér fyrir að stofnaðir voru fyrir um það bil þremur áratugum til stuðnings landbúnaðinum, en það eru ræktunarsjóður og byggingarsjóður sveitabæja. Þessir sjóðir hafa með hagkvæmum lánum gert bændum kleift að ráðast í byggingar og ræktun. Þetta hefur svo leitt af sér gífurlega aukningu í framleiðslu landbúnaðarvara, þrátt fyrir það þó að fólki hafi á þessu tímabili fækkað í sveitunum a.m.k. um helming. (Örastar og mestar hafa þessar framkvæmdir verið síðasta áratuginn, og jukust á því tímabili útlán þessara sjóða mjög. Það má t.d. minna á því til sönnunar, hversu mikið fé þessir sjóðir þurftu til þess að geta sinnt eftirspurn, að á árunum 1955–58 lánuðu sjóðirnir árlega 40–50 millj. kr. Eigið fé þessara sjóða nægði vitanlega hvergi nærri til þess að lána svona mikið. Á því tímabili varð oft verulegur tekjuafgangur hjá ríkissjóði. Lánasjóðirnir fengu af því fé með sérstökum lögum á þessu tímabili 52 millj. kr. Ræktunarsjóðnum var auk Þess fengið allmikið fé árlega úr mótvirðissjóðnum. Og Þá var, til þess að sjóðirnir gætu lánað eins og framkvæmdir bænda gerðu nauðsynlegt, gripið til þess ráðs að taka útlent lán, og byggingarsjóður og ræktunarsjóður fengu það til láns, til Þess að Þeir þyrftu ekki að neita bændum um lán til ræktunar og bygginga. Ég lít nú svo á, og ég hygg, að það geri flestir bændur og raunar flestir menn aðrir, að lánasjóðir landbúnaðarins séu ríkisstofnanir og hafi verið settir á stofn og reknir til þess og í þeim tilgangi að styðja ræktun landsins og byggingar í sveitunum. Að þessar ríkisstofnanir voru settar á fót, það stafar einfaldlega af því, að löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar viðurkenndi það sem Þjóðfélagslega skyldu, að því bæri að leggja fram hjálp til þess að bæta landið og lífsskilyrðin fyrir þjóðina, bæði á líðandi stund og fyrir komandi kynslóðir. Og er Það sama sjónarmið og sams konar viðfangsefni og allar menningarþjóðir hafa tileinkað sér, enda sú eina raunhæfa leið til þess, að fólki geti fjölgað og lífskjör batnað, og tryggir þá um leið sjálfstæði og alhliða framfarir á öðrum sviðum þjóðlífsins. Þetta viðfangsefni er að minni hyggju alls staðar talið þjóðmál, en ekki sérstakt stéttarmálefni bændanna út af fyrir sig, ekki fremur þeirra mál en barnafræðsla nú á tímum er talin sérmál foreldra. Þjóðfélögin hafa tekið Þau mál í sínar hendur og talið nægilegt verkefni fyrir foreldrana að bera hitann og þungann af uppeldinu að öðru leyti, þó að ræktun andans sé látin í hendur þjóðfélagsins og það látið sjá um það viðfangsefni. Ræktun lýðs og lands er og á að vera sameiginlegt verkefni fyrir þjóðina, og þannig mun það víðast vera. Þeir menn, sem hafa það starf að yrkja jörðina, vinna mikið verk og óeigingjarnt. Það hafa fáir orðið auðugir menn hér á landi af því starfi, þótt sumum hafi tekizt á langri búskapartíð vegna sparsemi og iðjusemi að verða að lokum allvel bjargálna menn. Framsfl. hefur haft um það forgöngu að koma á fót lánasjóðum landbúnaðarins og veita þeim þá fyrirgreiðslu á hverjum tíma, sem þeir hafa Þurft, til þess að geta sinnt hlutverki sínu. 1953, þegar framsóknarmenn höfðu Þessi mál með höndum, beittu þeir sér fyrir Því. að sjóðirnir fengju, að ég ætla, 29 millj. kr. framlag, og aftur 1957 beittu þeir sér fyrir því. að þeir fengju þá 36.7 millj. kr. framlag. Þessi aðstoð við lánasjóðina var á sínum tíma mikið átak, og ef miðað er við gengi peninga nú, þyrfti marga milljónatugi í viðbót við þetta fé til þess að jafngilda því.

Nú hafa málin skipazt svo, eins og kunnugt er, að gengið hefur verið fellt, og þar með hafa allar þær stofnanir og einstaklingar, er tekið höfðu útlent fé til láns, orðið fyrir svokölluðu gengistapi. Ríkisvaldið tók ákvarðanir um gengisbreytingar þær, er þessum gengistöpum hafa valdið. Lánasjóðir landbúnaðarins, sem voru með útlent fé í veltunni, fengu auðvitað sinn skell af þessu. En þar tel ég, að ríkinu hafi borið skylda til að bæta úr. En það var ekki því að heilsa. í ofanálag á allan þann skaða, sem bændur hafa haft af gengisfellingum hæstv. ríkisstj., var lánstími í ræktunarsjóði styttur um 1/4 og vextirnir hækkaðir um 1/3. Og nú á samkv. þessu frv., sem hér er til umr., að gripa til þess ráðs að leggja sérstakan framleiðsluskatt á bændurna og nýjan neyzluskatt á almenning til þess að bæta sjóðum landbúnaðarins það upp, að þeir voru með gengislækkunarpennastrikum hæstv. ríkisstj. gerðir að engu. Þetta finnst mér hin fráleitasta aðferð, og ég skil ekkert í, að þetta skyldi ná nægilegu fylgi í Sjálfstfl., því að vissulega eru þar ýmsir menn, sem skilja afstöðu bænda og hafa Þekkingu á þeirra högum og vitanlega kunna að meta þýðingu landbúnaðarins fyrir þjóðfélagið.

Í vetur voru hér afgreidd fjárlög upp á tæpa tvo milljarða króna. Vissulega má deila um nauðsyn ýmissa af þeim útgjöldum, sem þar eru. En ekki held ég, að hefði munað mikið um að veita þeim ríkisstofnunum, sem eiga að lána bændum fé til framkvæmda, nokkra hjálp og leysa vandræði þeirra, eins og framsóknarmenn hafa alltaf gert, Þegar þeir hafa einhverju ráðið.

Á meðan framsóknarmenn höfðu vald á Þessum málum, var lánstími ræktunarsjóðslána 20–25 ár og vextir 3–4%. Bændur fengu þá lán í ræktunarsjóði eins og þeir þurftu með til framkvæmda, og lán til íbúðarhúsa voru þá hlutfallslega miklu hærri en þau eru nú. Eins og ég drap á hér áðan, voru lánasjóðir landbúnaðarins studdir fyrir atbeina og forustu framsóknarmanna. Þeim var lagt til fé af greiðsluafgangi ríkissjóðs, sem oft var mikill, þegar Eysteinn Jónsson fór með fjármálin. Þeir fengu útlent lánsfé, þegar þess þurfti, eins og fleiri opinberar stofnanir. Þannig var þessum þörfu stofnunum haldið í horfi og gert mögulegt að styðja bændur í uppbyggingu jarða sinna og eflingu hins forna atvinnuvegar, landbúnaðarins. En svo voru þessar þörfu stofnanir allt í einu eyðilagðar, eins og ég sagði áðan, með gengisfellingum þeim, sem meiri hl. sá, sem núv. ríkisstj. styðst við, hefur staðið að og hrósar sér af að hafa framkvæmt. Nú, þegar búið er með þessum ráðstöfunum að rífa þessar stofnanir niður, er farið að tala um að byggja Þær upp að nýju. Og þá á að gera það á þann hátt, að þeir, sem enga sök eiga á þessu niðurrifi, eiga að leggja til að miklu leyti það fjármagn, sem til uppbyggingarinnar þarf, þ.e.a.s. bændurnir sjálfir. Uppbyggingin á í stuttu máli að vera sú, að í stað þess, að vextir voru 3–4%, þá eru þeir nú 6—61/2 % og gert ráð fyrir, að svo verði. Í stað þess að lánstími var 20–25 ár, er hann nú 15 ár, og ekki verður annað séð af þeim töflum, sem fylgja frv., en ráð sé gert fyrir því áfram, að svo verði. Síðan eru bændur skattlagðir í stórum stíl til sjóðanna, þannig að þeir verði að láta af sínum launatekjum nálægt 2%. Svo á að lána þeim skattpeninginn, sem dreginn er úr vösum þeirra á þennan hátt, aftur með háum vöxtum. Þetta framkvæmir sú stjórn, sem notar hvert tækifæri til að auglýsa það, að allar peningastofnanir séu nú að fyllast af sparifé. Hún sér engin ráð til þess, að landbúnaðurinn geti fengið eitthvað af þessu sparifé að láni. Nei, hún vill heldur loka það inni í geymsluhólfum bankanna en lána það til bændanna. Ekki hygg ég þó, að bændur séu staðnir að neinum svikum við peningastofnanir þjóðarinnar.

Það er auðséð á þessu frv., að núverandi valdhafa vantar trú á landbúnaðinn. Ef þeir bæru traust til bændastéttarinnar og hefðu trú á starfi hennar og þeim gæðum, sem gróðurmoldin íslenzka býr yfir, mundu þeir hafa gert þetta frv. öðruvísi úr garði. Þá mundu þeir hafa trúað bændastéttinni fyrir dálitlum hluta af sparifé Þjóðarinnar, sem lánsfé í framkvæmdir við ræktun og byggingar í sveitum.

Hæstv. fjmrh. hefur nýlega skýrt frá því í dagblaðinu Vísi, að sparifé í bönkum og sparisjóðum sé nú einum milljarð meira í febrúarlok en það hafi verið í lok febrúar 1960. Skattlagningartillögur hæstv. ríkisstj. á bændastétt landsins eru því sjáanlega ekki lánsfjárskorti að kenna, heldur þeirri tregðu, sem stjórnin er haldin til þess að greiða á eðlilegan og réttmætan hátt fyrir málum bændastéttarinnar.

Ég hef verið að líta í þær töflur og áætlanir, sem fylgja þessu frv., og mér virðist, að áætlun um efnahags- og rekstrarreikning stofnlánadeildarinnar, sem frv. gerir ráð fyrir að komið verði á fót, sé fróðleg og sýni, hvernig ætlazt er til, að þessi stofnlánadeild verði byggð upp. Þessi áætlun nær yfir tímabilið 1962–1975 eða 14 ár. Á þessum 14 árum sýnist mér á þessari áætlun, að sé ætlazt til þess, að tekjurnar verði þessar: Það eru í fyrsta lagi vextir af lánum til bænda 4851/2 millj. kr. Í öðru lagi framlag ríkissjóðs á fjárlögum, 56 millj. kr. í þriðja lagi 1% skatturinn á landbúnaðarvörur og mótframlag ríkissjóðs, sem er til samans 265 millj. kr. rúmlega, af þessu leggja bændur fram helminginn eða 133 millj. kr. í fjórða lagi er svo neytendaskatturinn, en það er áætlað, að hann gefi um 86 millj. á þessum 14 árum. Og í fimmta og síðasta lagi er svo mótvirðissjóðsframlagið, sem mér sýnist að eigi að verða 570 millj. kr. Af þessu sést, að frá bændunum eiga að koma beint í framlagi og vöxtum nálægt því 618 millj. kr. Það er augljóst, að í þessari áætlun um uppbyggingu stofnlánadeildarinnar er ráð gert fyrir því að halda 61/2 % vöxtum á útlánum deildarinnar.

Ég verð nú að segja það, að ég hefði haldið, að hæstv. landbrh þætti nóg að gert með hækkun vaxtanna á landbúnaðarlánunum um 1/3 og styttingu lánstímans um 1/4, þá að ekki kæmi einnig til stórfelld skattlagning á bændurna. Nú á síðustu árum hefur jarðarbótamönnum fækkað. Þeir voru 1958 3954, en 1960, sem er síðasta árið, sem ég hef tölur um, hafði þeim fækkað frá því 1958 um 434. Ég er viss um það, að hér er ekki um tilviljun eina að ræða, heldur er þessi ískyggilega þróun afleiðing af hinni svokölluðu viðreisnarstefnu, aukinni dýrtíð, hækkuðum vöxtum, og styttingu lánstíma. Og svo á nú að bætast við nýr skattur.

Það er í þessu sambandi fróðlegt að athuga, hvað bændastéttinni sem heild stóð mest fyrir þrifum á liðnum öldum og allt fram á þeirra daga, sem nú lifa. Það var hin háa jarða- og kúgildaleiga, sem meginþorri bænda varð að búa við. Jarðirnar voru að mestu í eign kirkjunnar og fárra auðmanna, sem leigðu þær með nokkurri áhöfn fyrir slíka okurleigu, að leiguliðarnir komust sjaldan úr kútnum og voru í rauninni ánauðugir menn. En það var ekki nóg með það, að þeir væru píndir með hárri leigu, heldur fylgdi oft eins konar skattlagning í ofanálag. Kvaðirnar, sem menn hljóta að kannast við að fylgdu flestum kirkjujörðum hér í fyrri daga, flestum jörðum kirkjunnar, kvaðirnar um hestlán eða mannslán eða útróðraskyldu á vertíðarskipi jarðareigandans, allt var þetta eins konar skattgreiðsla í ofanálag á jarðarleigu Þá, sem ábúandinn greiddi og var okurleiga í flestum tilfellum.

Nú hafa tímarnir breytzt þannig, eins og allir vita, að bændur hafa flestir eignazt jarðir sínar sjálfir, og hinir, sem eru leiguliðar, búa við hófleg kjör, en fé til framkvæmda og umbóta á jörðunum, svo að hægt sé að búa á þeim nútímabúskap, hafa bændur orðið og hljóta að verða að taka að láni. Lánakjörin á Þessu fé koma því hjá flestum, þótt þeir séu sjálfir jarðeigendur, í staðinn fyrir leigur og landskuld fyrri tíma bænda. Pólitík Framsfl. hefur verið og er sú, eins og ég hef áður tekið fram, að efla bændurna til frelsis og framfara, m.a. og ekki sízt á Þann hátt að útvega þeim nægilegt lánsfé til framkvæmda með hóflegri og viðráðanlegri leigu og skilafresti, sem þeir geti staðið við. Þetta hefur tekizt sæmilega, og skal ég ekki vanmeta þann hlut, sem aðrir flokkar á hverjum tíma hafa átt í því máli.

Nú er viðreisnin að snúa þessu við, eins og flestu öðru í efnahagslífi þjóðarinnar. Það er hart, finnst mér, á tímum hinnar miklu tækni og afkastagetu, að þá skuli þeir, sem starfa við þann atvinnuveg, sem er frumskilyrði fyrir búsetu þjóðarinnar í landinu, vera settir út í horn.

Ein höfuðröksemd hæstv. landbrh. og annarra stjórnarliða í skrifum og ræðum um þetta mál er sú um skattlagninguna á landbúnaðarvörurnar, að þar sé um hliðstæða aðferð að ræða og þá, sem notuð hafi verið til þess að efla lánasjóði sjávarútvegsins.

Ég verð að segja það, að af öllum þeim rökum, sem ég hef heyrt færð fram skattlagningunni til stuðnings, finnst mér þessi þó fráteitust. Hér er um svo gerólíka atvinnuvegi að ræða, því að þótt sjávarútvegurinn sé áhættusamur atvinnuvegur, þá miðast þó allt í honum við skjótfenginn og mikinn gróða, enda er líka reynslan sú, að gróðinn hefur oft verið mjög mikill. Þann skatt, sem þannig er á hann lagður, er því af miklu að taka, og má með nokkrum rétti segja, að það fé sé eins konar tryggingarfé. Þess ber og að gæta, að fiskveiðarnar eru rányrkja. Þar er ekki lagt í neinn kostnað við að tryggja uppskeruna. Miðin eru frjáls vettvangur allra þeirra, er þangað vilja sækja. Þar er engin landleiga, enginn áburður, engar girðingar, engin sáning og engin plæging. En til þess að bóndinn nái feng í sitt bú, þarf hann að plægja og herfa og sá og bera á landið, girða það og verja, og áður en hann byrjar á þessu, verður hann annaðhvort að eignast landið eða ná á því leigurétti. Til þessa þarf hann mikið fé, og það starf, sem hann vinnur að ræktuninni, vinnur hann ekki einungis fyrir sjálfan sig, heldur skilar hann því til þeirra, sem á eftir honum koma. Hann er með starfi sínu að bæta landið og búa komandi kynslóðum betri skilyrði til þess að lifa í landinu.

Ég er alls ekki með þessum samanburði að gera lítið úr starfi þeirra, sem veiða fisk, heldur er ég að sýna þann eðlismun, sem á því er að stunda þessa tvo atvinnuvegi. Sjávarútvegurinn er rekinn með fljótfenginn gróða fyrir augum, og alltaf öðru hverju verður þeim, sem hann stunda, að von sinni í því efni, sem betur fer. Landbúnaðurinn er hins vegar ekki fljóttekin gróðalind. Bóndinn þarf að borga moldinni fyrir hvern mjólkurpott og hvert kjötkíló, sem hann framleiðir, og þótt uppskeran sé stundum góð, þá er aldrei um að ræða neina mokuppskeru. Í bændastétt hafa þess vegna fáir orðið ríkir og menn stundað búskap meira sem yndisarð en gróðaveg.

Ég veit vel, að það er ekki hægt að vera bóndi nema vinna og vinna vel, og þannig á það líka að vera. Vinnan verður að skapa hamingjuna og hið efnalega sjálfstæði manna, í hvaða stétt og stöðu sem þeir eru. En ég er eindregið þeirrar skoðunar, að íslenzka þjóðin og stjórnarvöld hennar á hverjum tíma eigi ekki að búa þannig að bændastétt landsins, að hún yfirgefi óðul feðra vorra, sem land þetta námu og byggt hafa sveitir þess frá upphafi. Ég er þeirrar skoðunar, að þá muni þjóðinni allri vegna bezt, ef í landinu er bændastétt, sem vill og getur haldið áfram að bæta jarðirnar og erja moldina til frjósemdar og lífsfyllingar fyrir sig og niðja sína, en um leið öllum, landsmönnum til öryggis og þroska.

Ég er sannfærður um það, að bændurnir vilja halda áfram að leggja af mörkum mikið starf, ef í móti kemur það af hálfu þjóðfélagsins, að það starf sé metið til verðieika og hagkvæmur stuðningur sé í té látinn. Það hafa margir bændur og framámenn í þeirra hópi látið í ljós kvíða yfir því, að meðalaldur bænda í þeirri og þeirri sveitinni, sem um hefur verið rætt, sé alltaf að hækka, ungu mennirnir geti ekki tekið jarðirnar, og þegar hinir eidri falla frá, þá sé ekki útlit fyrir, að nýir komi í staðinn. Það getur ekki heldur verið neitt vafamál, svo augljóst sem það er, að efnahagsráðstafanir þær, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur gert, hafa nú þegar eftir stuttan tíma orðið bændum svo þungar í skauti, að í góðu árferði, eins og verið hefur nú tvö síðustu árin, eru erfiðleikar í efnahagsmálum bænda mjög vaxandi. Hið stórhækkaða verðlag á rekstrarvörum svo og vélum og byggingarefni, hækkun vaxta og stytting lánstíma eru allt samverkandi orsakir til Þess að kippa fótum undan heilbrigðum búrekstri. Í ofanálag bætist svo það, að dómur sá um verðgrundvöllinn, sem felldur var af meiri hluta yfirnefndar á s.l. hausti, hefur áreiðanlega dregið kjark úr mörgum og gert þá vonlitla, og fer svo alltaf eða oftast nær, þegar menn sjá, að þeir eru órétti beittir, ef þeir geta ekki fengið að gert til þess að rétta hlut sinn.

Sú nýja skattlagning á bændurna, sem hér er gert ráð fyrir f þessu frv., er harkaleg aðgerð í þeirra garð. Framleiðsluskatturinn samsvarar 2% af launum þeirra að meðaltall. Auk þess er 0.75% neyzluskatturinn, en hann kemur einnig að talsverðu leyti á bændur. Ég hef einhvers staðar séð tölur um það, að 2/3 bændanna selji mjólk til mjólkurbúa. Allir þessir bændur eru þess vegna kaupendur að smjöri, skyri og ostum til heimila sinna og munu þess vegna greiða í viðbót við framleiðsluskattinn einnig neyzluskatt af Þessum vörum. Ég býst við, að launþegum í landinu þætti ríkisvaldið leika sig allgrátt, ef lagður yrði á þá sérstakur launaskattur, t.d. 2%, sem húsnæðismálastofnun ríkisins eða einhver önnur stofnun fengi, til þess að efla, — ja, við skulum segja byggingar í bæjunum. Ætli verkamönnum, sjómönnum og embættismönnum þætti ekki muna um slíkan skatt? Slík skattlagning væri þó alveg hliðstæð þeirri, sem hér er verið að koma á fót, og margt hefur ótrúlegra skeð en að það fordæmi, sem með þessu frv. er verið að skapa, verði brátt notað og slík skattlagning hafin, að sérstakur launaskattur á almenning verði upp tekinn til þess að efla lánastarfsemi í bæjunum.

Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að ég veit ekki, hvar skattlagningaræði hæstv. ríkisstj. kann að enda. Það væri svo sem auðvelt að raka saman miklu fé í sjóði á þennan hátt, eins og nú stendur til samkvæmt þessu frv. að gera með launaskattinum á bændur og neyzluskattinum á allan almenning. Auðvitað er með þeirri skattlagningarherferð á bændurna, sem hér er verið að hefja, stefnt út f hreina ófæru, eins og ég hef þegar lýst.

Búnaðarþingið, sem nýlega hefur lokið störfum hér í borginni, fékk þetta frv. til athugunar og umsagnar, eins og eðlilegt var og sjálfsagt. Þar eiga ekki aðrir sæti en bændur. Ekki voru nema fjórir menn á búnaðarþingi, sem greiddu ekki atkvæði á móti skattlagningu. Hæstv. landbrh. sagði áðan, að þeir hefðu bjargað heiðri búnaðarþings, þessir fjórir, með því að sitja hjá. Það er orðið auðvelt að bjarga heiðri annarra, ef ekki þarf annað til en það, og það er auðvitað furðulegt, að það skyldi nokkur maður vera á búnaðarþingi, sem fékkst til þess að sitja hjá. Þeir munu ekki hafa talið bændurna aflögufæra af tekjum sínum til að byggja upp volduga sjóði og slíka sjóðamyndun ekki þeirra sérmál, ekki heldur þeir, sem sátu hjá.

Tillitsleysi hæstv. ríkisstj. til bændanna í sambandi við þetta mál er, að ég hygg, einstætt, þar sem ekki er einu sinni gert ráð fyrir því, að bændastéttin fái neinu að ráða um stjórn hinnar væntanlegu stofnlánadeildar. Það er stjórn Búnaðarbankans, sem á að hafa stjórn stofnlánadeildarinnar með höndum, eins og annarra deilda bankans, eins og segir í frv. Bændurnir mega borga skatt og stofna gilda sjóði handa ríkisvaldinu og fulltrúum þess til þess að ráðsmennskast með, en það er ekki gert ráð fyrir, að þeir megi þar neinu um ráða.

Bændur hafa ekki haft trú á hinum nýju efnahagsráðstöfunum hæstv. ríkisstj., heldur hið gagnstæða, ekki einu sinni þeir bændur, sem styðja Sjálfstfl. Hins vegar hafa bændur almennt reynt að berjast fyrir tilveru sinni og reynt að standa undir oki viðreisnarinnar á þann hátt að vinna enn meira, lengja vinnutíma sinn, sem var þó ærið langur fyrir. Þannig ætluðu þeir að halda jörðum og búum með því að auka framleiðsluna, og hefur það komið í ljós á s.l. ári, að þeim hafði þá tekizt með þessum hætti að auka framleiðsluna nokkuð. En nú hygg ég, að margir þeirra hafi séð, að þetta er vonlaust verk. Á Suðurlandi, þar sem ég er kunnugur og á mitt heimili, þá hygg ég, að þar hafi aldrei fleiri viljað losna frá jörðum sinum en nú. Ég vil sem athyglisverðasta dæmið af þessu tagi nefna það, sem er að gerast nú í þeirri fögru og frjósömu sveit, Fljótshlíðinni. Þar hefur það jafnan verið svo, að mér er sagt, að hafi jörð losnað þar úr ábúð, þá hafa tíu fyrir einn verið um það að ná henni til ábúðar. En nú er mér sagt, að í einu hverfi þar í Fljótshlíðinni séu fjórir af sex bændum þar í hverfinu að fara í burtu og ekki útlit fyrir, að neinn komi þar í þeirra stað. Í Grímsnesinu, sem er nágrannahreppur minn, eru nú 10 jarðir ýmist komnar í eyði eða eru að fara í eyði nú. Allt eru það góðar jarðir. Margar af þeim eru meira að segja veiðijarðir. Í Flóanum er sömu söguna að segja. Þar er hópur jarða nú, sem útlit er fyrir að fari í eyði í vor. Þeir, sem þar sitja nú, eru að fara í burtu, og það hefur ekki frétzt um, að neinn vilji koma og taka við. Þessi sorgarsaga á sér stað í þéttbýlustu byggðarlögum landsins, þar sem samgöngur eru beztar.

Rafmagnið er komið á ýmsa þessa bæi, sem hér er um að ræða, eða þá von á því á næstu árum.

Hvaða orsakir eru til slíkrar eyðingar byggðarinnar sem er að hefjast í sveitum Suðurlands og ég var að minnast á? Ég er ekki í neinum vafa um, að þar er orsökin fyrst og fremst hin svokallaða viðreisn. Dýrtíðin og verðhækkanirnar, sem henni fylgdu, gera fólki alveg ókleift að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir og umbætur á jörðunum. Í öðru lagi geta ungir menn ekki keypt jarðir, bústofn og vélar. Þeir taka þess vegna ekki við af þeim, sem vegna elli eða af öðrum eðlilegum ástæðum verða að hætta búskap.

Einu sinni var uppi maður í Noregi, sem hét Haraldur Hálfdanarson og fékk síðar viðurnefnið „hinn hárfagri“. Haraldur þessi var ofríkismaður mikill á valdastóli, og fór svo, að fjöldamargir bændur þar í landi þoldu ekki að búa við slíkt ofríki. Það voru þeir bændur, sem fóru yfir víðan og sollinn sæ á smáfleytum og tóku sér bólfestu hér á Íslandi: Nú eru niðjar hinna frjálshuga bænda, sem flúðu undan ofríki Haralds hins hárfagra, að hefja flótta frá óðulum þeim, er hinir fornu landnemar helguðu sér. Þannig sannast hið fornkveðna, að sagan endurtekur sig. Það er ofríki viðreisnarinnar, sem nú sverfur svo að íslenzkum bændum, að þeir láta óðul sín og flytja burt. Það er ömurlegt fyrir bændur að þurfa að flýja frá óðulum sínum. Hitt er þó frá sögulegu sjónarmiði ekki síður ömurlegt, að vera arftaki Haralds hins hárfagra á valdastóli á Íslandi.

Hæstv. forseti. Ég þykist sjá það á afgreiðslu þessa máls, eins og hún var í Ed., að ekki mun hugmynd stjórnarinnar og þeirra, sem hana styðja, að færa neitt í frv. þessu til annars og betri vegar. Ég geri samt ráð fyrir, að á það verði reynt hér í þessari hv. deild og að brtt. við frv. verði lagðar hér fram af hálfu Framsfl. við síðari umr. Ég mun því ekki orðlengja meira um málið við þessa umræðu, en taldi rétt að láta Þessi orð falla, sem ég hef hér sagt, nú strax við þessa 1. umr.