10.04.1962
Neðri deild: 88. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Frsm. 1. minni hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Frsm. meiri hl. landbn. hefur nú gert grein fyrir áliti meiri hl. Eitt af því, sem hann kom hér inn á og talaði um, var það, að afstaða búnaðarþings hefði verið sú sama og framsóknarmanna hér á Alþingi. Ég vil taka það fram, að búnaðarþing er samkoma bændanna. Þar eiga sæti 25 fulltrúar, kjörnir af bændum einum, og allir þessir 25 fulltrúar eru starfandi bændur. Það mætti því ætla, að þeir væru manna færastir um það að gera ályktanir um málefni þeirrar stéttar, sem þeir tilheyra og eru fulltrúar fyrir. Það hefur verið oftast nær, að ég hygg, þannig, að Framsfl. hefur talið sér skylt að taka tillit til þess, sem bændur hafa samþykkt um sín sérmálefni, og talið sér skylt að reyna að vinna að framgangi þeirra samþykkta, sem þannig hafa verið gerðar af bændum. Og svo er í þessu máli, að framsóknarmenn hafa í þessu máli þá afstöðu, sem þessi merkasta stofnun bændanna, búnaðarþingið sjálft, hefur tekið í þessu máli, og þær tillögur, sem við berum fram hér, framsóknarmenn, hafa verið mótaðar í samræmi við þá afstöðu, sem búnaðarþing hafði til þessa máls.

Eins og kunnugt er og margsinnis er búið að taka fram, er megintilgangurinn með þessu frv., sem hér er nú til 2. umr. í þessari hv. deild, að vinna upp aftur það, sem tapazt hefur við gengisfellingarnar, og efla lánasjóði landbúnaðarins að nýju. Þessum tilgangi gerir frv. ráð fyrir að verði náð bæði með framlagi úr ríkissjóði og með skattlagningu á söluvörur bænda, og er gert ráð fyrir, að þessi skattur muni gera um það bil 1700 kr. á ári af söluvörum meðalbús, eins og það er nú á þessu ári. Þá er einnig samkvæmt frv. ákveðið að innheimta álag á útsöluverð landbúnaðarvara, og er gert ráð fyrir því, að það álag á útsöluverð landbúnaðarafurða muni gera alls á þeim tíma, sem um er rætt að byggja sjóðina upp á, á 14 árum, um 86 millj. kr. samtals, en þetta gjald á að vera 0.75% verðsins. Síðan er einn meginþátturinn í þessu máli að steypa sjóðum landbúnaðarins, ræktunarsjóði og byggingarsjóði, saman í einn sjóð, sem á að bera nafnið stofnlánadeild landbúnaðarins.

Ég vildi, eins og ég hef áður gert, taka fram, að ég álít, hvað snertir þann halla, sem stofnlánasjóðir landbúnaðarins hafa orðið fyrir vegna aðgerða ríkisvaldsins í efnahagsmálum, að þá sé það hin eina sanngjarna lausn á því máli, að ríkið taki á sig þennan halla, enda er það svo, að ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum þessara sjóða. Ég álít, að slík framlög frá ríkissjóði séu nauðsynleg hlutdeild þjóðarinnar allrar í því grundvallarstarfi bændastéttarinnar að byggja og nema og rækta landið, svo að þjóðin megi hafa hér trygga framtíð fyrir sig og komandi kynslóðir. Ég ræddi þetta mál allýtarlega frá mínu sjónarmiði við 1. umr. hér í deildinni og mun nú ekki endurtaka það, sem ég sagði þá, en mun snúa mér að því að mæla nokkur orð fyrir þeim brtt., sem ég er hér flm. að ásamt hv. 6. þm. Sunnl. og eru prentaðar á þingskjali 665:

1. brtt. er um það, að sú hækkun, sem orðið hefur á erlendum lánum byggingarsjóðs sveitabæja og ræktunarsjóðs vegna breyttrar skráningar íslenzkrar krónu eftir 1. jan. 1960, verði færð á sérstakan vaxtalausan reikning í Seðlabankanum og að Seðlabankanum og fjmrn. heimilist að semja um það sín á milli, að inn á þann reikning greiðist óráðstafaðar innstæður ríkissjóðs í Seðlabankanum af mótvirðisfé. Finnst okkur þetta eðlileg ráðstöfun til að bæta þessum lánasjóðum gengistöpin, þar sem sjóðirnir eru ríkisstofnanir og ríkisvaldið tók sjálft þá ákvörðun, sem þannig olli hinum miklu töpum sjóðanna.

2. brtt. er um það, að 1% álagið á söluvörur landbúnaðarins, sem gert er ráð fyrir í 4. gr., verði fellt niður og mótframlag ríkissjóðs, sem greinin gerir ráð fyrir í 3. lið, falli einnig burt. 4. liður, um gjald á útsöluverð landbúnaðarafurða, falli sömuleiðis niður, en greinin orðist svo: „Tekjur deildarinnar eru: 1) Árlegt framlag ríkissjóðs, 25 millj. kr. 2) Vaxtatekjur.“

Hv. 3. þm. Austf. (JP), frsm. meiri hl. landbn., taldi þetta fjarstæðukennda tillögu og samþykkt búnaðarþings um þessi efni hjákátlega samþykkt. Mig furðar nokkuð á þessum ummælum hv. þm., því að í raun og sannleika, þrátt fyrir það þó að bændastéttin og búnaðarþing hafi gert slíka tillögu, þá gengur hún miklu skemmra í kröfuátt á hendur ríkisvaldinu en fjöldi annarra tillagna, sem aðrar stéttir eru sí og æ að bera fram.

3. brtt. er við 7. gr. Í 7. gr. er 1. málsl. þannig: „Upphæð lána má vera allt að 60% kostnaðarverðs, eins og það er áætlað að meðaltali árlega.“ Við leggjum til, að í stað 1. málsl. komi tveir málsl., svo hljóðandi: „Lán til íbúðarhúsa í sveitum mega nema allt að 75% kostnaðarverðs, upphæð annarra lána stofnlánadeildar má vera allt að 60% kostnaðarverðs, eins og það er áætlað að meðaltali árlega.“ Við teljum, að þetta megi ekki lægra vera, svo að þeir, sem íbúðarhús þurfa að reisa í sveitum, geti ráðið við kostnaðinn, og mun reynast nógu örðugt samt, þó að brtt. okkar yrði samþykkt.

4. brtt. okkar er við 10. gr. frv., en þar leggjum við til, að vextir verði ákveðnir í lögum af lánum stofnlánadeildarinnar, í stað þess að greinin gerir ráð fyrir, að ríkisstj. ákveði vextina, að fengnu áliti Seðlabankans og Búnaðarbankans. Till. okkar er um, að greinin orðist svo: Vextir af lánum til íbúðarhúsa í sveitum skulu vera 31/2% og af öðrum lánum stofnlánadeildar 4%. — Með því að samþykkja þessa brtt. okkar væru vextir af stofnlánum til landbúnaðarins færðir aftur í sama horf og þeir voru, áður en efnahagsmálaráðstafanir ríkisstj. 1960 voru gerðar.

5. brtt. er um það, að 2. mgr. 12. gr. falli burt. Með því viljum við koma í veg fyrir, að lán, sem bændum yrðu veitt af útlendu lánsfé, sem stofnlánadeildin væri látin taka, yrðu veitt með gengisákvæði, þótt þau færu til vinnslustöðva bændanna eða til vélakaupa. Teljum við, að íslenzkur landbúnaður sé ekki svo traustur fjárhagslega, að hann þyldi töp, sem leitt gæti af slíkum ákvæðum. En reynslan hefur sýnt það, að þeir, sem nú stjórna málefnum þjóðarinnar, eru haldnir þeirri skoðun eða ég vil segja trú, að gengisfellingar séu flestra meina bót í efnahagslífinu. En bændur hafa af þeirri framkvæmd stjórnarvaldanna þá sögu að segja, að fátt eða ekkert hefur orðið afkomu þeirra skaðlegra en hinar miklu gengisfellingar.

6. brtt. okkar er um það, að á eftir 13. gr. komi ný grein, svo hljóðandi: „Seðlabanka Íslands er skylt, ef ríkisstj. óskar þess, að lána veðdeild Búnaðarbankans nauðsynlega fjárupphæð vegna starfsemi hennar, þó eigi yfir 50 millj. kr., gegn 5% vöxtum. Veðdeildin skal endurgreiða Seðlabankanum lán þetta með jöfnum afborgunum á 20 árum. Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar veðdeildarinnar gagnvart Seðlabankanum.“

Á búnaðarþingi árið 1960 lagði stjórn Búnaðarfélagsins fraan till. til þál. um eflingu veðdeildar Búnaðarbanka Íslands. Sú till. var um Það, að búnaðarþingið skoraði á ríkisstj. og Alþingi að stuðla að því, að tekið verði á þessu ári, þ.e. á árinu 1960, allt að 50 millj. kr. erlent lán handa veðdeild Búnaðarbankans og verði ríkisábyrgð veitt fyrir láninu og lánstíminn ákveðinn eigi skemmri en 30 ár. Þá verði og ákveðið í sambandi við lántöku þessa, að ef gengisbreyting yrði á lánstímanum, þá skyldi sá halli, sem af því kynni að leiða fyrir veðdeildina, jafnaður með fjárframlagi úr ríkissjóði. Brtt. okkar hv. 6. þm. Sunnl. er þannig í samræmi við óskir búnaðarþings árið 1960.

Ég hygg, að fátt sé nú nauðsynlegra en að efla hag og getu veðdeildarinnar, svo að hún verði fær um að gegna því hlutverki, sem henni er ætlað, en það er fyrst og fremst að lána fé til jarðakaupa. Fáir ungir menn geta nú fest kaup á jörðum vegna fjárskorts, og hætt við, að þær jarðir, sem losna úr ábúð nú á næstu tímum, kunni að fara í eyði, enda þegar tekið að brydda nokkuð á slíku. Er nauðsynlegt að efla veðdeildina, svo að hún geti fullnægt þörf bændanna fyrir lán til jarðakaupa.

7. brtt. er um það, að á eftir 23. gr. komi nýr kafli með 10 nýjum gr., undir fyrirsögninni: „Um bústofnslánadeild“, svo hljóðandi:

„a. (24. gr.) Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist bústofnslánasjóður. Hann skal vera í vörzlum Búnaðarbanka Íslands. Bústofnslánasjóður veitir frumbýlingum og efnalitlum bændum lán eða styrk til bústofnsaukningar, vélakaupa og til greiðslu bráðabirgðalána og lausaskulda, eftir því sem nánar segir í lögum þessum.“

Eins og kunnugt er, hafa bændur aldrei haft aðgang að neinu rekstrarfé að láni. Það eina, sem þeir á þann hátt hafa getað fengið, er það, ef sparisjóðir eða bankar hafa veitt víxillán til skamms tíma. Slík lán eru vissulega góðra gjalda verð til hjálpar í bili, þótt dýr séu. En eins og allir vita, eru þau engin lausn í þessu efni, engin frambúðarlausn. Hér þarf að koma sjóður, sem veitir frumbýlingum og efnalitlum hændum lán eða jafnvel styrk til bústofnskaupa eða bústofnsaukningar, ef þeir hafa of lítinn bústofn. Þá er slíkum bændum einnig mikil þörf á aðgengilegu lánsfé til búvélakaupa og til þess að geta greitt lausaskuldir og þannig komið traustari grunni undir fjárhagsafkomu sína. Væri mjög mikið unnið fyrir frumbýlinga, ef þeir á þennan hátt gætu átt von á lánum út á fasteign, vélar eða búfé. Eins og þetta er nú, verða efnalitlu bændurnir, en þeir eru mjög margir því miður, að sjá sér út ábyrgðarmenn og síðan að biðja bankana um víxla. Er slíkt ógeðfellt mjög og alls ekki áhættulaust fyrir þá, sem af greiðasemi gerast ábyrgðarmenn.

Það yrði langt mál að tala um hvern einstakan lið í þessum brtt. um bústofnslánadeildina. Ég held, að þær skýri sig að mestu leyti sjálfar, eins og þær eru orðaðar, en til glöggvunar fyrir hv. þm. ætla ég þó að fara yfir þessar greinar lið fyrir lið og skjóta þá inn aths., þar sem mér kynni að þykja þörf skýringa.

Það er þá næst b-liður, sem yrði 25. gr.: „Stofnfé bústofnslánasjóðs er: a) 20 millj. kr. óafturkræft framlag ríkissjóðs, er greiðast skal sjóðnum á næstu fjórum árum með 5 millj. kr. framlagi á ári; b) 30 millj. kr. lán, er stjórn bústofnslánasjóðs heimilast að taka, og ábyrgist fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs greiðslu lánsins.“

Næst er c-liður, sem yrði 26. gr.: „Bústofnslánasjóður veitir lán: a) frumbýlingum og efnalitlum bændum til bústofnskaupa, enda hafi þeir of lítinn bústofn að dómi sjóðsstjórnar; b) frumbýlingum og efnalitlum bændum til búvélakaupa; c) efnalitlum bændum til að greiða víxilskuldir og aðrar lausaskuldir, er búrekstur þeirra fær ekki undir risið, að mati sjóðsstjórnarinnar, enda séu slíkar skuldir eigi við nána venzlamenn lánsumsækjanda.“

Þá er það d-liður, sem yrði 27. gr.: „Skilyrði fyrir lánveitingu úr bústofnslánasjóði eru: a) að umsækjandi reki landbúnað sem aðalatvinnuveg; b) að umsækjandi hafi ekki þann bústofn, sem að áliti sjóðsstjórnarinnar er nægilegur til framfærslu fjölskyldu hans samhliða öðrum tekjuvonum, eða hafi eigi efni á að festa kaup á nauðsynlegum búvélum — eða lausaskuldir hans séu svo miklar, að sjóðsstjórnin telji honum að óbreyttum ástæðum ókleift að standa við skuldbindingar sínar og reka bú sitt á heilbrigðum grundvelli; c) að umsækjandi sé að dómi sjóðsstjórnar vel hæfur til að reka landbúnað, enda mæli hreppsnefnd með lánveitingunni; d) að umsækjandi setji þá tryggingu fyrir láninu, er sjóðsstjórnin tekur gilda; e) að umsækjandi geti, að dómi sjóðsstjórnar, staðið undir árlegum greiðslum af lánum sínum, er hann hefur fengið stuðning samkvæmt lögum þessum.“

Þá er e-liður, sem yrði 28. gr.: „Lán úr bústofnslánasjóði má veita gegn eftirtöldum tryggingum: 1) gegn veði í fasteign; 2) gegn veði í vélum og verkfærum. 3) gegn veði í tilteknum flokki eða flokkum búfjár, þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laga um veð, frá 4. nóv. 1887. 4) gegn hreppsábyrgð; 5) gegn sjálfskuldarábyrgð tveggja eða fleiri aðila. Sjóðsstjórnin metur, hverja tryggingu skuli taka gilda.“

F-liður, sem yrði 29. gr.: „Heimilt er stjórn bústofnslánasjóðs að veita lánsumsækjanda styrk úr sjóðnum allt að 30 þús. kr., enda verði búrekstri hans eigi að öðrum kosti komið á heilbrigðan grundvöll að dómi sjóðsstjórnarinnar.“

G-liður, sem yrði 30. gr.: „Fjárhæð láns hverju sinni fer eftir ákvæðum sjóðsstjórnar.“

H-liður, 31. gr.: „Vextir af lánum úr bústofnslánasjóði mega ekki vera hærri en 5%. Lánstími fer eftir ákvörðun sjóðsstjórnar. Þó skal hann aldrei vera lengri en 12 ár. Það skal og áskilið, að ef efnahagur lántakanda breytist svo, að honum verði auðvelt að greiða lán sitt á skemmri tíma að dómi sjóðsstjórnarinnar, geti hún gert honum að greiða hærri afborganir af láninu en annars er tilskilið. Enn fremur sé áskilið, að ef lántaki breyti um atvinnuveg, sé sjóðsstjórninni heimilt að ákveða, að lánið sé pegar gjaldfallið. Heimilt er sjóðsstjórn að ákveða, að lán skuli vera afborgunarlaust fyrstu þrjú árin. Gjalddagi lánanna skal vera 1. nóv. ár hvert.“

l-liður, sem yrði 32. gr.: „Umsóknir um lán og stuðning skv. 26. og 29. gr. skulu sendar sjóðsstjórninni eða þeim, sem hún vísar til. Umsóknum skulu fylgja þau gögn, er sjóðsstjórnin ákveður.

J-liður, sem yrði 33. gr.: „Stjórn bústofnslánasjóðs skal skipuð fimm mönnum. Skulu fjórir stjórnarmanna skipaðir samkvæmt tilnefningu þingflokkanna, einn frá hverjum flokki, en sá fimmti, sem er formaður stjórnarinnar, skal skipaður skv. tilnefningu Stéttarsambands bænda. Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða. Séu atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns.“

Með þessari síðustu grein er gert ráð fyrir að tengja bústofnslánasjóðinn stéttarsamtökum bændanna, með því að formaður þeirra samtaka verði formaður sjóðsins og hann ráði úrslitum máls, ef atkvæði yrðu jöfn. Á þann hátt, sem gert er ráð fyrir um stjórn þessarar stofnunar, að fjórir stjórnarmenn séu skipaðir eftir tilnefningu þingflokka, einn frá hverjum, er tryggt, að hin pólitísku öfl í landinu fái öll íhlutun og áhrifaaðstöðu í þessu máli.

Þá kem ég að 8. brtt. okkar, sem er við 27. gr. og er þannig, að í stað 61/2 millj. kr. komi 8 millj. kr. Þessi hækkunartill. er aðeins til samræmis við þær verðhækkanir, er orðið hafa á þeim framkvæmdum, sem greinin fjallar um, að styrktar séu.

Af sama toga er spunnin 9. brtt., við 48, gr., að í stað 40 þús. kr. þar í gr. komi 50 þús. kr. og í stað 2 millj. kr. komi 21/2 millj.

Þá er 10. brtt., við 60. gr., en hún er um það, að í stað 10 hektara túns í greininni komi 15 ha. tún. Það er skoðun okkar fim., að ekki sé lengur viðlit að lifa og standa undir framkvæmdum við búskap af minna búi en því, sem framfleytt verður á 15–20 hekturum ræktaðs lands, næsti áfangi í ræktunarmálunum verði því sá, að enginn bóndi hafi minna tún en 15 ha.

11. brtt. okkar, við 64. gr., er, að í stað 6 millj. kr., eins og þar stendur, komi 9 millj. kr. Hún er til þess, þessi brtt., að mæta í framlögum þeirri aukningu á lágmarkstúnstærðinni, sem 10. brtt. okkar er um.

Ég þykist þá, í svo stuttu máli sem frekast var auðið, til þess að eyða ekki tíma að óþörfu, hafa gert grein fyrir brtt. þeim, er við hv. 6. þm. Sunnl. flytjum við frv. Þegar mál Þetta kom til 1. umr. hér í þessari hv. d., gerði ég grein fyrir afstöðu minni til málsins í heild, eins og ég drap á hér áðan. En með þeim brtt., sem ég ásamt hv. 6. þm. Sunnl. flyt við frv. og ég hef nú gert nokkra grein fyrir, hef ég viljað gera tilraun til þess að færa þetta mál í það horf, sem bændastéttinni gæti orðið að sem beztum notum og þá einnig að mínum dómi mundi verða landi og þjóð hollast strax og þá ekki síður þegar litið er til framtíðarinnar og haft er í huga, að þjóðinni fjölgar ört og skilyrði fyrir búsetu í landinu og velliðan komandi kynslóða eru þau, að jarðvegur og frjómold séu og verði erjuð til frjósemdar. Ég mun svo ekki hafa um þetta mál fleiri orð á þessu stigi.