09.04.1962
Efri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

223. mál, lántaka vegna Landspítalans

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég mun ekki tefja þetta mál með langri ræðu, enda sýnist mér sjálfsagt að styðja að framgangi þess og það sem fyrst. Ég vil aðeins segja það í tilefni af því, að þetta frv. er flutt, að ég harma það, að ekki varð betur ágengt með frv., sem þrír framsóknarmenn fluttu í hv. Nd. fyrir alllöngu um þetta sama efni. Þeir lögðu til, að ríkisstj. yrði heimilað að taka allt að 30 millj. kr. lán til Landsspítalans, og skv. þeim upplýsingum, sem ég hygg að liggi fyrir, þá er víst ekki vanþörf á því að greiða sem bezt fyrir lántökum í þessu skyni, þó að allt gott sé að segja um ákvæði þessa frv., það langt sem þau ná. Frv., sem flutt var í Nd., var sent landlækni til umsagnar. Landlæknir hefur sent d. umsögn sína um það frv., og segir þar, í niðurlagi hennar: „Er hér um mikla hækkun framlaga að ræða, ef miðað er við fyrri ár. En Þar sem brýn þörf er á því, að byggingin komist sem fyrst upp, mæli ég eindregið með því, að frv. þetta verði samþ.“ Þannig farast landlækni orð um það frv., sem flutt var í hv. Nd.

Ég aðeins endurtek það, að ég harma, að ekki var hægt að taka þetta spor stærra, því að þörfin er svo gífurleg að hraða Landsspítalabyggingunni, að það er sýnt, að það veitir ekki af miklu hærri upphæð en greinir í stjfrv., en þó endurtek ég það, að það er allt gott um það að segja, svo langt sem það nær.