31.10.1961
Neðri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forseti Þetta frv., sem hér liggur fyrir af hálfu hæstv. ríkisstj., er ótvírætt í sambandi við Þá gleðilegu frétt, að danska ríkisþingið hefur nú ákveðið, að við skulum fá handritin aftur. Ég verð að segja, að það, sem mér fannst fyrst og fremst reyna á, þegar sú frétt barst okkur, að allmargir menn í Danmörku hefðu sýnt það mikinn skilning á íslenzkri menningu og þá velvild í garð okkar þjóðar að vilja nú afhenda meginþorra handritanna, þá mundi fyrst og fremst reyna á, að við sýndum, að við værum menn til þess að taka á móti þeim, eins og okkar forfeður hefðu verið menn til þess að skrifa þau.

Ég verð að segja það um þetta frv., að mér finnst það að vísu fyrirgefanlegt af hæstv. ríkisstj., að hún skuli leggja frv. svona fyrir þingið, af því að mér finnst ekki háskólinn hafa farið neitt stórmannlega í þær kröfur, sem hann gerir í þessu tilefni. Ég held, að við þyrftum fyrst og fremst, þegar við búum okkur undir að taka við þessum handritum, þegar sú ákvörðun hefur verið tekin af hálfu Dana að afhenda okkur þau, að sýna það í verki, að við bærum tilhlýðilega virðingu og sýndum þá ást, sem þessi handrit verðskulda, og vildum vinna þannig að og búa þannig að þeim og þeim, sem ættu við þetta að vinna, að til sóma væri.

Nú er ákveðið að setja upp handritastofnun og verja til þess hálfri milljón króna á ári í viss laun. Ég held, að við hefðum átt að hafa meiri reisn á þessum hlutum. Það var rétt, sem hæstv. menntmrh. gat um, að það var tekin ákvörðun hér á Alþingi fyrir fimm árum um byggingu sameiginlegs safnhúss, bókasafnshúss fyrir Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið, og ég held, að það hefði átt fyrst og fremst að tengja ákvörðunina við að koma þeirri stofnun upp í safnhúsinu og að öðru leyti að ganga þannig frá Því, sem þar þyrfti að vinna, að okkur væri til sóma. Er nú komin hálf öld, síðan nokkurt bókasafnshús hefur verið reist hér í Reykjavík, og gamla Landsbókasafnið við Hverfisgötuna er a.m.k. að mínu áliti enn þá eitt fallegasta húsið, sem til er í bænum, og ber að öllu þeim stórhug vott, sem gagntekur þjóðina um aldamótin, svo fátæk sem hún þá er. Mér verður satt að segja stundum hugsað til þess um allt það, sem við höfum byggt hér síðan, að það sýnir fulllítinn áhuga okkar og rækt við það, sem dýrast er í okkar menningu. Við byggjum hér skrautleg kvikmyndahús. Ég heyri sagt, að meira að segja netakúlurnar í einu bíóinu séu gylltar með ekta gulli. En meira að segja stafirnir utan á Landsbókasafnshúsinu, sem einu sinni voru Þó gylltir, eru málaðir með svörtu letri núna.

Ég held, að við mættum alvarlega athuga okkar gang, til þess að við stæðum fyllilega sem menn við þær kröfur, sem til okkar verða gerðar í samræmi við þá virðingu, sem erlendar þjóðir sýna okkur í sambandi við okkar menningarafrek fyrrum.

Ég held, að sú ákvörðun, sem Alþingi ætti að taka nú í sambandi við handrit og handritastofnun, þurfi fyrst og fremst að vera tvennt, sem að vísu hvort tveggja er nokkuð hugsað um í þessu frv., en þó ekki nægilega.

Það þarf í fyrsta lagi að búa okkar handritum, bæði þeim, sem við eigum, og Þeim, sem við fáum, þau heimkynni, sem við eiga. En í sambandi við Það verður að efla þann hluta okkar háskóla, sem á að sjá um allar vísindalegar rannsóknir í sambandi við þessi efni. Það dugir ekki fyrir okkur að ætla að aðskilja sjálfa handritarannsóknina, sjálfa útgáfu handritanna og annað slíkt, svo gífurlegt verk sem það er og útheimtir margs konar kunnáttumenn og margs konar aðstöðu og tækni, það dugir ekki að aðskilja það frá áframhaldandi rannsóknum á okkar fornu sögu, á uppruna okkar þjóðar og uppruna okkar kynstofns og Þar með á Þeim gömlu norrænu og germönsku fræðum. Þetta tvennt verður ekki aðskilið, og Háskóli Íslands eða hans norræna deild verður ekki með þeim starfskröftum, sem hún nú hefur á að skipa, fær um að inna þetta af hendi, svo að vel sé, nema með stóraukningu á starfskröftum. Ég hef talað um það hér áður, að það þyrfti að bæta við ekki minna en fimm prófessorum þar til þess að sjá um rannsóknir í þessum efnum. Svo mikið er órannsakað þarna, og svo mikið virðist áhuginn hafa minnkað, því miður, á ýmsum þeim stöðum erlendis, ekki sízt t.d. í Þýzkalandi, þar sem þessi áhugi var hvað mestur áður, að bað veitir ekki af, að við Íslendingar sýnum, að við viljum og getum lagt þá rækt við þessi fræði, sem þau verðskulda. Við eigum að setja okkur það núna að gera í senn þá handritastofnun, sem við komum upp, og okkar háskóla, hans norrænu deild, að miðstöð fyrir þau norrænu og samgermönsku fræði í Norðurálfu, — við eigum að setja okkur það, vinna að því og gera það.

Í öðru lagi þurfum við að reisa, ekki bara fyrir handritin, heldur allar aðrar bækur, það hús hér í Reykjavík, sem beri af öðrum húsum, það hús, sem sé eins konar musteri bókarinnar, eins konar hof Þess ritaða orðs, þar sem saman sé safnað þeim bókum, sem við höfum nú í Landsbókasafni og Háskólabókasafni, og þeim bókum, sem við ætlum að afla okkur þar til viðbótar. Við vitum, að ástandið er þannig með Háskólabókasafnið nú, að það er fyrir löngu búið að sprengja utan af sér það þrönga pláss, sem því var ætlað, þannig að það er orðið mjög miklum erfiðleikum bundið að nota það. Svo vitum við þar að auki, að það er svo illa búið að bókakosti bæði Háskólabókasafnsins og Landsbókasafnsins, meira að segja í norrænum og samgermönskum fræðum, að mörg höfuðrit í sambandi við þessi fræði eru ekki til á Íslandi. Grundvallarbækurnar — bæði í sambandi við sögu Gotanna og annað slíkt — er ekki einu sinni að finna hér á Íslandi, þannig að það þarf til þess að gera bókasafn okkar háskóla að sæmilegri vísindalegri miðstöð í þessum efnum að fara í gegnum þetta og útvega slíkar bækur í viðbót. Það er hörmulegur skortur í þessum efnum. Það kann að vera, að einstaklingar á Íslandi eigi nokkuð af slíkum bókum, en í hvert skipti, sem menn ætla að brjótast í þessum hlutum og rannsaka þá, vantar bókstaflega bækurnar.

Sú samþykkt, sem gerð var fyrir 5 árum um byggingu slíks bókasafns, er sannarlega orðin tímabær, og það væri rétt af okkur og eðlilegt og stórmannlegt að öllu leyti að tengja ákvörðunina um að reisa slíkt hús ekki aðeins við þessa handritastofnun, heldur við Þá ákvörðun, að við fáum handritin heim. Við verðum að athuga það í sambandi við handritin, að það er allstór stofnun fyrir utan sjálfa rannsóknina á þeim, sem þar hlýtur að koma. Öll sú ljósmyndatækni, sem er í sambandi við útgáfuna á þeim, og öll sú útgáfustarfsemi, sem er í sambandi við þau, útheimtir undirbúning nú þegar. Við höfum ekki einu sinni kunnáttumenn í Þessum hlutum og þurfum nú þegar að gera ráðstafanir til Þess annaðhvort að afla okkur slíkra manna eða senda nú þegar út menn til þess að læra þessa hluti, Þannig að sá þáttur úr þessu - sá hreint tæknilegi þáttur — kostar, eins og líka hæstv. ráðherra kom inn á, mjög mikinn undirbúning.

En sérstaklega vildi ég þó leggja áherzlu á, að allri rannsókn sögunnar, allri rannsókn á Því Þjóðfélagi, sem skóp okkar fornu bókmenntir, er þrátt fyrir allt, sem um þetta hefur verið skrifað, enn þá mjög skammt á veg komið. Og við skulum muna það, þegar við hugsum til þessara verka, sem Þarna voru unnin, þessara andlegu dýrgripa, að mannkynið hefur ekki enn þá, þó að Það sé nú að búa sig undir Það með sinni miklu tækni að ferðast bæði til tunglsins og marz og ég veit ekki hvað og hvað, þá hefur Það enn Þá ekki í fegurð og list bókmennta risið hærra en gert var í þeim fræðum og þeim sögum og Þeirri persónusköpun, sem fór fram á Þessum tímum. Og það eru enn Þá óleyst viðfangsefni í sögunni, hvernig á því stendur, að hjá okkur fyrir 1000 árum og hjá Grikkjum fyrir 3000 árum skuli hafa verið skapaðir þeir dýrgripir í bókmenntum, að ekki hafa verið skapaðir aðrir meiri síðan í allri sögu menningarinnar. Það er enn þá órannsakað, hvernig á Þessu stendur, og skýringu vantar á því, hvernig stendur á því, að það mannkyn, sem fleygt hefur svona fram í tækni og valdi, skuli ekki hafa tekið meiri framförum í því, sem snertir það andlega líf á vissum sviðum og sérstaklega hvað snertir fegurð bókmenntanna. Og ég verð að segja, að það hvílir fyrst og fremst á okkur íslendingum, Því að við höfum allra þjóða mest lifandi tengsl enn þá við það þjóðfélag, sem skóp þessar bókmenntir. Þó að Það Þjóðfélag sé nú óðum að hverfa, því miður, þá hvílir það fyrst og fremst á okkur að leysa úr Þessari gátu. Og við ættum, þegar máske þarf ekki meira til þess en geta látið allmarga menn helga sig þessu verki, að geta leyst úr Þessum verkefnum. Við höfum hrúgað upp hverri stofnuninni hér á fætur annarri, þar sem við í krafti skriffinnskunnar sitjum við tiltölulega lítils nýt störf, en oft valdamikil. En við það, sem þýðingarmest er fyrir okkur, okkar bókmenntir, okkar sögu, okkar rannsóknir á Þessu, látum við örfáa menn vinna að þessu sem lífsverki. Enginn þarf að segja, að við höfum ekki haft efni á að setja miklu fleiri menn til þess að vinna að þeim hlutum. En þetta litla, sem ég minntist á áðan, þó að við hefðum haft t.d. 5 prófessorum fleiri í okkar sögu og okkar bókmenntum, það hefði ekki kostað Ísland neitt í samanburði við það, sem við köstum í alls konar hégiljur.

Ég held, að þegar við búum okkur undir að taka á móti Þessum handritum, þá reyni á mat okkar Þjóðar, annars vegar mat okkar á okkar menningu, okkar fortíð, kjarnanum í öllu okkar þjóðlífi, og hins vegar okkar mat á peningum. Og ég held, að okkur veitti ekki af einmitt í sambandi við handritaheimtina að leiðrétta það mat örlítið, eins og Það hefur komið fram í okkar Þjóðfélagsþróun á Þessum síðustu árum. Ég held, að Það hefði ekki verið of mikið, Þó að við hefðum tekið á Þessum merkilegu tímamótum, Þegar sú Þjóð, sem einu sinni stóð að því að kúga okkur og gera okkur lífið erfitt, sýnir nú slíka virðingu fyrir Því, sem við höfum lagt fram til heimsmenningarinnar, — Þá held ég, að Það hefði ekki verið of mikið, Þó að við hefðum tekið þá ákvörðun hér á Alþ., að við hefðum ákveðið, að t.d. 100 millj. kr. yrði á næstu tíu árum varið til þess að byggja slíkt bókasafnshús, skapa slíka aðstöðu fyrir handritin og efla Þá vísindalegu starfsemi, sem stendur í beinu sambandi við þau. Okkur kann að finnast 10 millj. á ári alimikið fé. Ég hefði ekki álitið það neitt ofverk íslenzku ríkisbankanna að leggja fram á ári a.m.k. 5 millj. kr. til þess verks. Seðlabanki Íslands ákvað síðasta sumar að kaupa lóð hér í miðbænum fyrir 10 millj. kr. Það gerðist rétt áður en háskólinn fór fram á og ríkisstj. tilkynnti, að hálfri milljón yrði varið á ári í sambandi við handritastofnun. Seðlabanka er hægt að hola niður hvar sem er, meðan Það er ekki nema seðlabanki einn, og Það þarf engar 10 millj. fyrir lóð handa honum. Það getum við hér á Alþ. fyllilega sagt Þeim mönnum, sem slíka ákvörðun hafa tekið, og látið breyta þeirri ráðstöfun. Það er hægt að verja slíkum 10 millj. betur í sambandi við Íslenzka menningu. Handritin og þær bækur, sem Ísland á dýrastar, eiga heimtingu af okkur á virðingaraðstöðu og vinnuaðstöðu, sem við getum fyllilega veitt Þeim. Það þarf ekki á næstu tíu árum að byggja fleiri banka, a.m.k. ekki hér í Reykjavík. Ég held Það þurfi ekki heldur að byggja fleiri kirkjur. Ég held, að það mætti spara á þeim sviðum og taka þar fé, sem þyrfti til þess að skapa Þá aðstöðu, sem okkar bóklegu menningu skortir. Og ég held, að ef Alþ. grípur ekki í taumana og gerir slíkt, þá haldi sú vitleysa áfram, sem mest ber á hér hringinn í kringum okkur. Ég hef séð tvö bíó rísa hér upp, byggð fyrir opinbert fé, annað hjá Dvalarheimili aldraðra sjómanna, hitt hjá háskólanum. En ég veit ekki, hvað þau kosta, 10, 20 millj. líklega hvort um sig. Við byggjum bíó eins og þetta ættu að vera hallir, en við látum bókasöfnin bíða. Ég held, að Alþ. verði fyllilega að fara að segja Þeim mönnum, sem svona fara með opinbert fé, að við álítum, að það sé hægt að fara betur með Það. Ég held, að þetta frv., sem hæstv. ríkisstj. hér hefur lagt fyrir, gefi Alþ. tilefni til þess að sýna, hvert mat Það hefur á handritunum og bókunum, og að Alþingi eigi nú að sýna, að það vill hlaupa undir bagga með háskólanum.

Það gladdi mig að sjá hér aftast í tillögum háskólaráðs, að það er vakin athygli á Þeirri brýnu nauðsyn, sem er á því að fara að hefja undirbúning að því að reisa Landsbókasafn, því að ég held, að Það eigi ekkert að bíða með það. Ég held, að við eigum að gera gangskör að því að leggja grundvöll að slíkri miðstöð norrænna og germanskra fræða hér og slíkri byggingu bókasafnshúss, — muna það, að vandi fylgir vegsemd hverri, þegar okkar handrit nú koma heim aftur.

Ég álít, að það væri mjög æskilegt, að hv. menntmn., sem þetta frv. fer til, athugaði það mjög vel og athugaði, hvort ekki væri í samráði við hæstv. ríkisstj. hægt að komast að samkomulagi um, að Alþ. afgreiddi þetta mál með þeirri reisn, sem þau tímamót, sem nú eru í sögu okkar handrita, sá gleðilegi viðburður, þegar við sjáum nú fram undan, að Þau eru að koma heim, eiga heimtingu á.