31.10.1961
Neðri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þær góðu undirtektir, sem frv. hlaut hjá hv. ræðumönnum, og þann skilning, sem sá málstaður, sem því er ætlað að efla, hafði hjá þeim báðum.

Það, sem gefur mér tilefni til að segja nokkur orð, eru ummæli hv. 3. þm. Reykv. um nauðsyn á því að stórefla rannsóknir í íslenzkum fræðum. Ég er honum algerlega sammála um það, að fá verkefni eru brýnni í íslenzku menntalífi en einmitt það að stórefla rannsóknir í íslenzkum fræðum. En ég vil taka það fram eða vekja athygli á því, að ef þetta frv. verður samþ., sem ég vona — og vona að verði einróma, er þetta stærsta spor, sem nokkurn tíma hefur verið stigið í einu til eflingar íslenzkra fræða á Íslandi, þar sem hér er gert ráð fyrir því, að í hóp þeirra manna, sem helga sig rannsóknum í íslenzkum fræðum, bætist þrír menn, sem helgi sig algerlega því starfi, og auk þess þrír styrkþegar, sem munu fá svo rífleg laun, að þeir geta helgað verulegan hluta af starfsdegi sínum í þágu þessa málefnis. Hér munu því bætast í hóp rannsóknarmanna á sviði íslenzkra fræða sex menn. Slík breyting hefur aldrei áður í einu orðið á þessu sviði.

Þar sem hv. þm. taldi, að á undanförnum árum hefði tæplega verið nóg að gert að bæta rannsóknaraðstöðu á þessu sviði, vildi ég þó minna hann á tvennt sérstaklega, sem gert hefur verið á allra síðustu árum og mjög hefur stuðlað að bættri rannsóknaraðstöðu, m.a. á sviði íslenzkra fræða. Það er í fyrsta lagi sú mikla efling menningarsjóðs, sem Alþingi tók ákvörðun um fyrir fjórum árum, þegar tekjur menningarsjóðs voru fjór- til fimmfaldaðar með sérstakri lagasetningu. Menningarsjóður hafði fram til þess tíma haft um hálfrar millj. kr. tekjur á ári, en með lagasetningunni, sem sett var árið 1958, voru árlegar tekjur menningarsjóðs auknar upp í 21/2–3 millj. kr. á ári. Þeirra tekna hefur menningarsjóður notið árlega síðan, og fara þær fremur vaxandi með ári hverju en minnkandi, svo sem eðlilegt er og fagna ber. Þessar stórauknu tekjur menningarsjóðs hafa gert menningarsjóði og menntamálaráði kleift að verja mun meira fé í þágu rannsókna í íslenzkum fræðum en áður var mögulegt. Þetta hefur t.d. gert menningarsjóði kleift að hefja útgáfu nýs tímarits um íslenzkt mál, sem menningarsjóður stendur algerlega undir kostnaðinum við, og í því riti hafa þegar birzt margar stórmerkilegar ritgerðir um íslenzkt mál og íslenzka málsögu. Margt annað hefur menningarsjóður einnig verið fær um að gera hin síðustu fjögur ár, sem honum var áður ókleift.

Þá vil ég enn fremur minna á það, að á allra síðustu árum hefur verið komið á fót sérstökum vísindasjóði, sem hefur það hlutverk að efla rannsóknir bæði í hugvísindum og raunvísindum. Vísindasjóður hefur nú árlega til umráða milli 3 og 4 millj. kr. Þetta er fjármagn, sem varið er til vísindarannsókna nú í efnum, þar sem ekkert fé var veitt áður. Vísindasjóði var fyrst komið á fót árið 1958, þá með 1 millj. kr. árlegu starfsfé, en með seðlabankalögunum, sem samþykkt voru á Þessu ári, er gert ráð fyrir því, að af tekjuafgangi Seðlabankans renni til vísindasjóðs 21/2–3 millj. kr. á ári hverju, þannig að hér er um að ræða stóraukið fjármagn til eflingar íslenzkum vísindarannsóknum. Samkvæmt þeim starfsreglum, sem nú gilda fyrir vísindasjóð, er gert ráð fyrir því, að 30% af tekjum hans renni til rannsókna í hugvísindum, þannig að gera má ráð fyrir því, að ekki minna en ein millj. kr. á ári hverju sé til ráðstöfunar fyrir íslenzka hugvísindamenn og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst fyrir rannsóknarmenn í íslenzkum fræðum.

Það er því óhætt að segja og segja það alveg kinnroðalaust, að á undanförnum árum hefur stórmikið átak verið gert einmitt í því efni að bæta rannsóknaraðstöðu íslenzkra vísindamanna, ekki hvað sízt í íslenzkum fræðum, og á Alþingi að sjálfsögðu miklar þakkir skildar fyrir þann skilning, sem það hefur sýnt í þessum efnum, þó að ég á hinn bóginn sé sammála hv. þm. um, að enn meira mætti að gera og enn meira beri að hafast að.

Þá er og rétt að geta þess, að starfsaðstaða fræðimanna í Landsbókasafni hefur mjög verið bætt, og er einmitt núna verið að vinna að stórmiklum endurbótum á húsakosti Landsbókasafns, sem reynast munu til mikilla hagsbóta, einkum og sér í lagi fyrir þá, sem sinna þeim íslenzku handritum, sem í Landsbókasafni eru nú varðveitt. Þó er rétt í þessu sambandi að vekja athygli á, að ekki er alltaf einhlítt, að auknar fjárveitingar beri í raun og veru árangur í auknum rannsóknum eða auknum rannsóknarstörfum. Í því sambandi er rétt að geta þess, að sú mikla vísindalega útgáfa íslendingasagna, sem nú hefur verið unnið að um langan aldur, — um of langan aldur, vildi ég mega segja, — það, hversu hægt hún sækist, strandar ekki á fjárskorti til þeirrar útgáfu, heldur verður miklu fremur rakið til hins, að erfiðleikar reynast á að fá vísindamenn, sem til þess eru færir, til þess að sinna því verki í nægilega ríkum mæli. Þessi útgáfa íslendingasagna, sem sannarlega ætti að gera átak til þess að efla og hraða, hefur ekki dregizt svo sem raun hefur orðið á vegna þess, að fé hafi skort til útgáfunnar, heldur vegna skorts á starfskröftum.

Eitt af því, sem ég tel eiga að verða verkefni handritastofnunarinnar, eitt fyrsta verkefni hennar, er einmitt að gera tillögur til ríkisvaldsins og Alþingis um það, hvernig útgáfustarfsemi í íslenzkum fræðum skuli verða háttað hér á næstunni. Þegar tillögur þeirra sérfróðu manna,

sem að þessu munu vinna, liggja fyrir, er rétti tíminn til þess fyrir Alþingi að taka afstöðu til fjárveitinga í þessum efnum, því að ég vil undirstrika það og tel ástæðu til þess að gera það vegna villandi ummæla, sem um Það hafa birzt í dagblöðum, að þær fjárveitingar, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, eru eingöngu til þess að launa fasta starfsmenn við stofnunina, en ekki að neinu leyti í þágu útgáfustarfseminnar sjálfrar.

Þá vil ég láta þess getið einnig í tilefni af ummælum hv. 3. þm. Reykv. um byggingarmál Landsbókasafns og handritastofnunarinnar, að húsnæðismál Landsbókasafns og Háskólabókasafns hafa verið í athugun í menntmrn. allar götur síðan 1957, að nefnd sú, sem ég hafði skipað þá nokkrum mánuðum áður, skilaði áliti, og það var snemma á árinu 1957. Ástæða til þess, að ekki hefur verið meira aðhafzt í þeim efnum en raun ber vitni um, er sú, að engin lausn hefur getað fengizt á lóðamálum fyrir slíka byggingu, sem þar er um að ræða, en slík bygging hlýtur samkvæmt frumdrögum áætlunar, sem til eru, að verða mjög stór. Menntmrn. skrifaði þegar á árinu 1957 yfirvöldum Reykjavíkurbæjar með ósk um, að lóðamál væntanlegs safnahúss yrðu tekin til gaumgæfilegrar athugunar hjá skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurbæjar og ríkísins. Hér er um stórmál að ræða, sem mjög mikill vandi er að leysa úr á þann hátt, sem fullnægjandi þykir, og hefur lausn á því máli ekki fengizt enn, nema ef vera kynni, að sú veglega samþykkt bæjarstjórnar Reykjavíkur í sambandi við 50 ára afmæli háskólans nú nýverið megi teljast geta falið í sér lausn á þessu máli. Það er svo skammt um liðið, síðan sú samþykkt var gerð, að ekki hefur enn unnizt tími til þess að ræða það af hálfu menntmrn. eða ríkisstj, við háskólann og bæjaryfirvöld, hvort sú lóðaráðstöfun, sem bæjarstjórn Reykjavíkur á mjög myndarlegan hátt þá tók ákvörðun um, mætti einnig teljast skapa möguleika á því að leysa húsnæðismál Landsbókasafns og Háskólabókasafns, þannig að hægt væri að ætla slíkri byggingu stað á því svæði, sem háskólanum hefur verið gefið fyrirheit um, að hann muni fá til umráða. Það mál mun verða athugað mjög gaumgæfilega nú á næstunni. Hitt vil ég segja að síðustu, að ég tel óheppilegt að blanda byggingarmáli væntanlegs safnahúss saman við ákvörðun Alþingis um að koma á fót Handritastofnun Íslands. Það er hægt að koma handritastofnuninni á fót á þeim grundvelli, sem lagt er til í þessu frv., án þess að tekin sé endanleg ákvörðun um það, hvernig byggingarframkvæmdum í þágu íslenzkra safna skuli hagað. Það mál er enn miklu stærra og miklu flóknara en svo, að búast megi við því, að hægt verði að taka endanlegar ákvarðanir í þeim efnum nú á þessu þingi. Þess vegna vildi ég mjög mælast til þess við hv. menntmn., sem þetta mál fær til meðferðar, að blanda Þessum tveim málum ekki saman, þar eð jafnaugljóst og að unnt er að taka ákvörðun um stofnun rannsóknarstofnunar eins og þessarar, er það líka augljóst, að það væri miklum erfiðleikum bundið fyrir Alþingi að taka nú endanlegar ákvarðanir í slíku stórmáli sem bygging safnahúss fyrir íslenzk söfn væri, bygging húss, sem leysa ætti húsnæðisþörf íslenzkra bókasafna um tugi ára fram í tímann.