04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Gísli Jónsson:

Hæstv. forseti. Frv. á þskj. 3. heimilar ríkisstj., ef að lögum verður óbreytt, að innheimta ýmis gjöld til ríkissjóðs með álagi og að fella niður tolla af einstökum vörutegundum, sem inn eru fluttar, svo sem verið hefur um alllangt skeið. Hefur sá háttur jafnan verið hafður á að framlengja árlega slíkar heimildir með sérstökum lögum í stað þess að breyta ákvæðum um gjaldahækkunina í hverjum lagaflokki fyrir sig. Má sjálfsagt deila um þetta form, sem hér hefur verið haft á, en meiri hl. Alþingis hefur jafnan fallizt á þessa meðferð og ekkert haft efnislega við hana að athuga, þegar framlenging laganna hefur farið fram, þ.e.a.s. hvað snertir tekjuákvæðin. Þessi mál hafa því jafnan verið samþykkt ágreiningslaust hér á Alþingi árum saman.

Ákvæði í fyrstu fjórum greinum frv. eru óbreytt frá því, sem þau áður hafa verið, og geta tæplega valdið nokkrum ágreiningi nú í þetta skipti. Hins vegar er það nýmæli í frv. að taka upp, svo sem gert er í 5. gr., ákvæði um það, að ákvæði laga nr. 10 frá 1960, um söluskatt, skuli gilda fyrir árið 1962, en ákvæði þetta fellur úr gildi 31. des. þ. á., ef það verður ekki framlengt, annaðhvort með sérstökum lögum eða sem breyting á fyrrnefndum lögum um söluskatt. Efni þessa ákvæðis er að framlengja 8% viðbótarsöluskatt og láta 1/5 þeirra upphæðar ganga til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ég vil taka það fram, af því að það gæti valdið nokkrum ágreiningi, eins og frv. er samið, hvort áfram héldist það ákvæði, að 1/5 hluti þessarar upphæðar gengi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna, að ég hef borið þetta undir hæstv. fjmrh., sem fullyrðir, að það sé meining ríkisstj., að þannig beri að skilja frv., að það haldist óbreytt ákvæði, eins og það var, þannig að einnig sá hluti þessarar upphæðar gangi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna. Með þessu ákvæði er ekki tekin upp nein ný regla um heimild til þess að framlengja gildandi ákvæði um tekjur ríkissjóðs, og mundi koma efnislega í sama stað niður, hvort heldur ákvæði væri tekið upp í þetta frv. eða borið fram og samþykkt breyting á lögum nr. 10 1960, um söluskatt, svo framarlega sem ákvæðinu yrði haldið þar óbreyttu, en í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því, að þessar tekjur séu allar óbreyttar.

Fjhn. þessarar hv. deildar hefur athugað þetta frv. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem settar eru fram í brtt. á þskj. 139, en breytingin er við 4. gr. Þykir breyting þessi nauðsynleg vegna laga um lækkun tolla, sem samþykkt var hér 20. þ. m.

Tveir nefndarmenn, hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Austf., vilja ekki leggja til, að frv. verði samþykkt og gera að sjálfsögðu grein fyrir afstöðu sinni við þessa umr.

Ég legg til fyrir hönd meiri hl. fjhn., að frv. verði samþ. með þeirri breyt. á 4. gr., sem borin er fram á þskj. 139.