23.03.1962
Neðri deild: 72. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil láta í ljós þakkir til hv. menntmn. fyrir það, hversu vel og vandlega hún hefur unnið að því máli, sem hér er nú til 2. umr., og sérstaklega fyrir það, að náðst skuli hafa alger samstaða í nefndinni um að mæla með því, að það nái fram að ganga í því formi, sem það var lagt fyrir í upphafi þessa þings. Ég vil taka undir ummæli hv. frsm. um það efni, að ég tel mjög mikilsvert fyrir framgang málsins og þýðingu stofnunarinnar í framtíðinni, að Alþingi standi einhuga að afgreiðslu þess. Í þessu sambandi vildi ég ítreka þau ummæli, sem ég viðhafði, þegar frv. var lagt fram s.l. haust, að sú fjárveiting, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs til þeirrar stofnunar, sem hér er um að ræða, tekur einvörðungu til launa þeirra starfsmanna, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að verði tengdir Handritastofnun Íslands. En þegar stofnuninni hefur verið komið á fót, verður sjálfsagt eitt fyrsta verkefni stjórnar hennar að gera áætlanir um starfsemi hennar og þá fyrst og fremst útgáfustörf stofnunarinnar. Það hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir því, að stjórn stofnunarinnar mundi þá gera Alþingi og ríkisstj. grein fyrir óskum sínum og tillögum varðandi útgáfustarfið, og þori ég að fullyrða að undangengnum umr. um það mál í ríkisstj., að málaleitunum væntanlegrar stjórnar stofnunarinnar um fjárveitingar til útgáfustarfa og annarrar starfsemi, sem hún kann að vilja hafa með höndum, mun verða vel tekið og af skilningi, því að vissulega er nauðsynlegt, að þessi stofnun fái í framtíðinni sem stærst svigrúm til þess að vinna gagn á því sviði, sem henni er ætlað að helga sér.

Í sambandi við Það sem hv. menntmn. segir í nál. sínu, og í framhaldi af því, sem hv. frsm. gat um í ræðu sinni um byggingu húss fyrir Landsbókasafn og Háskólabókasafn, þar sem þessi handritastofnun gæti einnig fengið frambúðaraðsetur, vil ég láta þess getið, að ríkisstj. hefur nú undanfarið rætt það mál mjög gaumgæfilega. En eins og hv. dm. er eflaust kunnugt, ályktaði Alþingi á árinu 1957, að sameina bæri Landsbókasafn og Háskólabókasafn í eina bókhlöðu. Á sínum tíma sótti menntmrn. um lóð fyrir slíka safnbyggingu, en hún þarf að vera stór og á sem hentugustum stað, og er það mál ekki að fullu útkljáð enn þá. En í framhaldi af þeim umr., sem fram fóru í hv. menntmn. um þetta mál og í ríkisstj., vil ég skýra frá því, að ég mun nú innan skamms skipa byggingarnefnd til þess að reisa bókhlöðu fyrir Landsbókasafn og Háskólabókasafn, og verður þá að sjáifsögðu gert ráð fyrir því, að framtíðaraðsetur Handritastofnunar Íslands verði í þeirri byggingu. Í þessu sambandi er einnig rétt, að það komi fram, að undanfarna mánuði hefur verið unnið að mjög gagngerðum endurbótum á húsnæði Landsbókasafns í hinu gamla húsi þess við Hverfisgötu. Höfuðmarkmið þeirra endurbóta hefur verið að búa skjalasafni Landsbókasafns miklu betri skilyrði en það hefur átt við að búa undanfarið og sjá þeim fræðimönnum, sem sérstaklega helga sig rannsóknum á handritum Landsbókasafns, fyrir mun betri starfsaðstöðu en þeir hafa átt kost á undanfarið. Þeir fræðimenn, sem vilja vinna að rannsóknum á hinu stóra skjalasafni Landsbókasafns, hafa haft mjög erfiða starfsaðstöðu. Þessum endurbótum er nú að verða lokið, og mun hið nýja húsnæði verða tekið í notkun innan skamms. En í sambandi við þessar endurbætur hefur jafnframt verið haft í huga, að unnt yrði að veita hinum íslenzku handritum frá Danmörku viðtöku á sómasamlegan hátt, þegar þar að kemur: Í fyrsta lagi búa Þeim trygga geymslu til bráðabirgða í Landsbókasafnshúsinu og í öðru lagi að tryggja þeim fræðimönnum, sem sérstaklega mundu að þeim vinna, góða aðstöðu í hinni gömlu Landsbókasafnsbyggingu. Það, sem fyrirhugað er í því sambandi, er sérstaklega að geyma íslenzku handritin frá Danmörku og gera góða starfsaðstöðu þeirra manna, sem að þeim mundu sérstaklega vinna. því er að vísu ekki lokið enn, en þær breytingar, sem hefur verið unnið að undanfarna mánuði og nú er næstum lokið, hafa verið við það miðaðar, að unnt yrði að gera framhaldsbreytingar, þar sem handritunum frá Danmörku yrði tryggður góður samastaður og starfsaðstaða þeirra manna, sem með þeim mundu sérstaklega vinna, yrði eins góð og frekast er kostur á í Landsbókasafnsbyggingunni.

Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram í þessu sambandi, þó að ég hins vegar telji eðlilegt, að frambúðaraðsetur þessarar stofnunar, sem hér er um að ræða, verði í veglegri byggingu, sem verður reist fyrir Landsbókasafn og Háskólabókasafn og þá stofnun, sem þetta frv. fjallar um.