26.03.1962
Efri deild: 70. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var þar samþ. með shlj. atkv. eins og það hafði verið lagt fyrir hv. Alþingi í haust, eftir að hv. menntmn. Nd. hafði einum rómi mælt með samþykkt þess.

Efni frv. er, að komið skuli á fót stofnun til þess að vinna að aukinni þekkingu á máli, bókmenntum og sögu íslenzku þjóðarinnar fyrr og síðar með því að afla og varðveita gögn um þessi efni, sinna rannsóknum á heimildum um þau, hafa með höndum útgáfu handrita og fræðirita o.s.frv., og er gert ráð fyrir, að stofnunin heiti Handritastofnun Íslands.

Í yfirstjórn stofnunarinnar er gert ráð fyrir að séu þrír prófessorar við Háskóla Íslands, sem kosnir séu af háskólaráði til fjögurra ára í senn, landsbókavörður, þjóðskjalavörður, þjóðminjavörður og forstöðumaður stofnunarinnar, en menntmrh. skipi formann stjórnarnefndar, og séu nefndarstörfin ólaunuð.

Starfsmenn stofnunarinnar skulu vera forstöðumaður, sem jafnframt sé prófessor í heimspekideild háskólans, og tveir aðstoðarmenn, er starfi að fullu við handritastofnunina. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að við hana starfi þrír styrkþegar, sem njóti árlega hver um sig allt að 50 þús. kr. rannsóknarstyrks. Þá er enn fremur gert ráð fyrir, að heimilt sé að ráða nauðsynlegt starfslið að stofnuninni til vélritunar, ljósmyndunar og annarra skrifstofustarfa.

Í fjárlögum fyrir gildandi ár hefur verið samþ. rúmlega hálfrar millj. kr., eða 510 þús. kr. fjárveiting til þessarar stofnunar, sem að sjálfsögðu yrði komið á fót, strax og frv. þetta yrði samþ. Ég tók það fram við 1. umr. málsins í Nd. og vil einnig gera það hér, að þeirri fjárveitingu, sem er í gildandi fjárlögum til stofnunarinnar að upphæð 510 þús. kr., er aðeins ætlað að greiða laun þess fasta starfsliðs, sem ég gat um áðan, og kostnað við almennan rekstur stofnunarinnar, þ.e. kostnað við vélritun, ljósmyndun og önnur skrifstofustörf. Ríkisstj. hefur hins vegar gert ráð fyrir því, að þegar eftir að stofnuninni hefur verið komið á fót, geri stjórn hennar og starfsmenn áætlanir um útgáfustarfsemi stofnunarinnar og þau rannsóknarstörf, sem hún á að hafa með höndum, og áætli kostnað við þau störf og þær rannsóknir, sem stjórn og starfsmenn telja nauðsynlegt að hafizt sé handa um, og lýsi ég þeirri skoðun ríkisstj., að nauðsynlegt sé að veita ríflegt fé á fjárlögum í framtíðinni, til þess að þessi stofnun geti gegnt hinu mikilvæga hlutverki sínu með sóma.

Í frv. er ekki tilgreint, hvar stofnunin skuli starfa, en gert hefur verið ráð fyrir, að hún fái fyrst um sinn aðsetur í safnahúsinu við Hverfisgötu, en undanfarna mánuði hefur verið unnið að nýrri innréttingu á þeim salarkynnum í safnahúsinu, sem Náttúrugripasafn hafði áður til umráða. Er þeim framkvæmdum nú um það bil að verða lokið, og eru nýjar endurbætur á húsakosti Landsbókasafns í athugun í framhaldi af þeim endurbótum, sem unnið hefur verið að undanfarið. Það er eðlilegt, að handritastofnuninni sé fyrst um sinn komið fyrir í Landsbókasafnshúsi eða sömu byggingu og Landsbókasafn hefur nú aðsetur í, Þar sem telja má, að henni sé nauðsynlegt að vera í sem nánustum tengslum við handritasöfn þau, sem nú eru í vörzlu Landsbókasafns.

Þegar þau lög, sem þjóðþing Dana samþ. á síðastliðnu vori um afhendingu íslenzkra handrita til Íslands, koma til framkvæmda, en samkvæmt þeim á að koma á fót stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, ætti sú stofnun að verða kjarni þessarar handritastofnunar. og íslenzk handrit, sem þá munu koma til Íslands samkvæmt lögum þjóðþings Dana, munu því verða varðveitt í þeirri stofnun, sem hér er um að ræða, og verða, eins og ég sagði, kjarni hennar.

Vorið 1957 samþ. Alþ. þál. um að sameina Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Í því sambandi hefur verið gert ráð fyrir. að reist verði bókasafnshús í Reykjavík fyrir bessi tvö söfn, Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Telur ríkisstj. eðlilegt, að þegar hafizt verður handa um framkvæmd þeirrar fyrirætlunar, verði einnig gert ráð fyrir, að sú stofnun, sem hér er um að ræða, verði til húsa í þeirri byggingu. Það kæmi einnig til greina, að Þjóðskjalasafn, sem nú er til húsa í byggingu Landsbókasafnshússins, verði einnig til húsa í slíkri nýrri allsherjar safnbyggingu, allsherjar bókhlöðu íslendinga. og yrði þá gamla safnahúsið tekið til annarra nota.

Þessi húsnæðismál safnanna íslenzku voru allmjög rædd í menntmn. Nd., og kom þar fram mikill áhugi á því að hraða framkvæmdum í því máli. Ríkisstj. ræddi þessi húsnæðismál einnig ýtarlega, meðan málið var til meðferðar í hv. Nd., og kom einnig af hálfu ríkisstj. fram mikill áhugi á að hraða þessum framkvæmdum sem mest. í framhaldi af þessu hef ég gert ráð fyrir að skipa nú á næstunni byggingarnefnd, sem skuli hafa með höndum framkvæmdir varðandi byggingu bókasafnshúss hér í Reykjavík fyrir þessi helztu söfn þjóðarinnar: Landsbókasafn, Háskólabókasafn og handritasafn og jafnvel einnig fyrir Þjóðskjalasafn. Það mundi að sjálfsögðu sú byggingarnefnd, sem verður skipuð, taka til nánari athugunar. Hefur þegar verið sótt um lóð fyrir slíka safnbyggingu, og er sú málaleitun til athugunar hjá borgar- og skipulagsyfirvöldum.

Í hv. menntmn. Nd. og hv. Nd. bar nokkuð á góma, hvort eðlilegt væri, að stofnun þessi hlyti það nafn, sem hér hefur verið gert ráð fyrir, en hugmyndir hafa verið uppi um, að hún hlyti annað nafn, Stofnun Jóns Siguróssonar. Afstaða menntmn. hv. Nd. og ég held mér sé óhætt að segja hv. Nd. yfirleitt var sú að gera ekki breyt. á þeim tillögum, sem um nafnið komu endanlega frá Háskóla Íslands, en það er samkvæmt tillögum hans, að stofnuninni var í frv. gefið þetta nafn. Málið var aftur borið undir háskólann af hálfu hv. Nd. Meiri hluti í heimspekideild háskólans lýsti sig fylgjandi nafnbreytingu, en háskólaráð vildi hins vegar ekki samþykkja, að nafninu yrði breytt, og var því ráði fylgt af hv. menntmn. Nd. og neðri deild, þar sem engin brtt. kom fram við frv.

Ég lýsti sérstakri ánægju yfir því í hv. Nd., að svo alger samstaða skyldi hafa náðst bæði innan menntmn. og í allri hv. Nd. um afgreiðslu þessa máls, þar sem frv. var afgr. við allar umr. í hv. Nd. með shlj. atkv. allra deildarmanna. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að sú verði einnig niðurstaðan hér t hv. Ed. Hér er um það að ræða að koma á fót stofnun, sem á sínum tíma á að veita viðtöku og varðveita þær þjóðargersemar, sem þau íslenzku handrit eru. sem nú um langan aldur hafa verið varðveitt í Danmörku. Á því er enginn vafi, að þessi stofnun, Þegar henni hefur verið komið á fót, verður ein af merkustu og ástsælustu menningarstofnunum íslenzku þjóðarinnar, og þá mun áreiðanlega verða gott til þess að hugsa, að hv. Alþ. hafi komið þessari merku stofnun á fót með shlj. atkv.

Að svo mæltu vil ég leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.