13.04.1962
Efri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Það hefur ekki orðið mikill ágreiningur hér á Alþingi um meginmál þessa frv. Hins vegar hefur gætt nokkurs skoðanamunar, a.m.k. hér í hv. Ed., á vali nafns þeirrar stofnunar, sem frv. fjallar um. Er það í raun og veru ekki neitt undarlegt, að skoðanir kunni að vera skiptar í því efni hér á Alþingi, þar sem vitað er um, að utan Alþingis eru skoðanir manna mjög skiptar um það, hvert heiti þessarar stofnunar eigi að vera.

Þetta frv. mun í höfuðdráttum vera undirbúið af heimspekideild háskólans. Síðan mun það hafa farið um hendur háskólaráðs og til hæstv. ríkisstj., sem leggur frv. fram. En heimspekideild háskólans, sem frv. hefur undirbúið, hefur mjög ákveðið látið þá ósk í ljós, að stofnuninni yrði valið nafnið Stofnun Jóns Sigurðssonar. Hv. menntmn. Nd. bar þetta atriði undir heimspekideildina, og hún samþykkti innan sinna vébanda með fimm atkvæðum gegn einu að láta í ljós þá ósk, að stofnuninni yrði valið þetta nafn: Stofnun Jóns Sigurðssonar. Svipað hefur farið óskum stjórnar Félags íslenzkra fræða. Það félag hefur beint þeirri ákveðnu tillögu til Alþingis, að heitið Stofnun Jóns Sigurðssonar yrði valið. Hins vegar hefur háskólaráð aðspurt endurtekið ósk sína um, að því nafni yrði haldið, sem í frv. er: Handritastofnun Íslands. Þetta gerði háskólaráð nýlega og Þó að því er virðist mjög með hangandi hendi. Aðeins þrír menn í háskólaráði af sjö stóðu sem sé að þeirri samþykkt, en aðrir háskólaráðsmenn sátu hjá, þegar atkvæðagreiðslan um þetta efni fór fram, og þessir þrír háskólaráðsmenn taka það fram, að raunar telji þeir ekki heiti stofnunarinnar neitt aðalatriði, en héldu þó að því er virðist fast við sína tillögu af einhverjum ótilgreindum ástæðum, að því er þeir sjálfir segja.

Auk heimspekideildar háskólans og stjórnar Félags íslenzkra fræða hafa ýmsir einstaklingar, sem sérstakan áhuga hafa á þessari væntanlegu stofnun, látíð sinar skoðanir í ljós og þar á meðal Nestor íslenzkra fræða, Sigurður Nordal prófessor. Hann skrifaði grein um þetta mál í Morgunblaðið 25, marz s.l. undir yfirskriftinni; Stofnun Jóns Sigurðssonar. Þar talar hann mjög eindregið því máli, að stofnuninni verði valið þetta nafn, og gerir grein fyrir, hvers vegna hann leggur þetta svo eindregið til. Ég mun ekki bera fram rök með eða móti heitinu Stofnun Jóns Sigurðssonar, en ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa örstuttan kafla úr grein próf. Sigurðar Nordals. Ég aðhyllist skoðanir þessa mæta manns í þessu efni, og það yrði þá um leið mín grg. fyrir þeirri skoðun, sem ég fer ekki dult með, að ég teldi heppitegast, að stofnuninni yrði nú þegar valið nafnið Stofnun Jóns Sigurðssonar. En próf. Sigurður Nordal segir svo í þessari grein m.a.:

„Eins og kunnugt er af þingfréttum, hefur stofnun þessi í frv. ríkisstjórnarinnar verið nefnd Handritastofnun Íslands, og var Það nafn upphaflega ein af uppástungum heimspekideildar til bráðabirgða. Síðan hafa bæði Stjórn Félags ísl. fræða og heimspekideild mælt eindregið með öðru því nafni, sem þegar áður hafði komið til greina: Stofnun Jóns Sigurðssonar. Óhætt er að fullyrða, að þetta nafn hefur eignazt því meiri ítök í yfirgnæfandi meiri hluta þeirra, er íslenzk fræði stunda, sem þeir hafa rætt það og hugsað betur, — og ekki sízt hinum yngri mönnum.

Í bréfi því, sem stjórn Félags ísl. fræða hefur sent menntmn. Nd. og síðan öllum þingmönnum, eru færð fleiri rök fyrir þessu nafni en hér er rúm eða ástæða til að telja upp, en lauslega skal minnt á Þessi atriði:

1) Þessari stofnun er ætlað miklu víðtækara starfssvið en nafnið handritastofnun mundi gefa til kynna. Þetta sést m.a. á því, að þjóðminjavörður er einn þeirra manna, sem sjálfkjörnir eru í stjórn hennar. Það mun líka auðsætt, að svo mikil þörf sem er á nýjum útgáfum og rannsóknum handrita, þá eru ýmsar aðrar rannsóknir íslenzkrar sögu, menningar og tungu ekki síður aðkallandi.

2) Eins og kunnugt er, verður það skilyrði af hálfu Þjóðþings Danmerkur, er handritunum verður skilað, að hér verði komið á. fót stofnun Árna Magnússonar á Íslandi (því að annar hluti þeirrar stofnunar verður áfram í Höfn). Það er líka óhjákvæmilegt, að handritin frá Danmörku verði látin hér í sérstakt safn og halda sínum gömlu númerum, sem áður hefur verið vitnað til, hvort sem þau eru úr Árnasafni eða Konungsbókhlöðu. Þessu skilyrði er ekki fullnægt með nafninu handritastofnun. Annaðhvort verður að kenna stofnunina alla við Árna Magnússon, sem flestum mundi Þykja ofrausn, eða hafa nöfnin tvö, og mundi þá ekki illa fara á því, að íslendingar notuðu tækifærið til þess að sýna nafni Jóns Sigurðssonar sömu ræktarsemi sem Danir nafni Árna Magnússonar. „Sýnist stjórn Félags ísl. fræða fara vel á þeirri verkaskiptingu, að þau útgáfu- og fræðistörf, er sérstaklega varða handrit Árnasafns, verði á vegum þeirrar deildar stofnunarinnar, er ber nafn Árna Magnússonar, en önnur útgáfustörf verði á vegum Stofnunar Jóns Sigurðssonar. Með því móti yrði á veglegan hátt minnzt þeirra tveggja manna, sem íslenzk fræði standa í hvað mestri þakkarskuld við.“

3) Það verður að telja ómetanlegan styrk fyrir þessa stofnun, bæði út á við og inn á við, að vera kennd við þann mann, sem var bæði ástsælasti leiðtogi þjóðarinnar og brautryðjandi um vísindaleg vinnubrögð í íslenzkum fræðum. Með því mundi íslenzka lýðveldið minnast 150 ára afmælis Jóns Sigurðssonar á þann hátt. sem því væri samboðið, eins og íslendingar undir heimastjórn minntust aldarafmælis hans með stofnun Háskóla Íslands.“

Þannig farast próf. Sigurði Nordal orð í þessari grein.

Eins og fram kemur í nál. hv. menntmn. þessarar deildar, áskildi ég mér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma varðandi heiti stofnunarinnar. Ég fór ekki þar dult með skoðun mína, að ég teldi heitið Stofnun Jóns Sigurðssonar æskilegast. Þótt nokkrir aðrir hv. nm. væru að vissu marki veikir fyrir þessari skoðun, varð þó ekki samkomulag um að flytja brtt. í þá átt. Ég hafði jafnvel hugsað mér, ef til kæmi, að flytja brtt. varðandi nafn stofnunarinnar, en hef horfið frá því aftur. Það var athugað hér meðal hv. þdm., hvort möguleiki væri á eins konar málamiðlun í þessu efni, og kom þá fram í þeim viðtölum lausleg tillaga um, að inn í frv. yrðu sett ákvæði um, að heiti stofnunarinnar skyldi endurskoðað, þegar stofnun Arna Magnússonar yrði komið á fót. Um þetta atriði mun heldur ekki hafa fengizt nægilegt samkomulag, og mun því þýðingarlaust að flytja brtt, um þessi efni yfirleitt á þessu þingi hér í hv. deild.

Tillögur um breyt. á nafninu mundu sennilega ekki ná fram að ganga, og þá er spurningin að ýmissa dómi, hvort ekki sé verr farið en heima setið. Mér er kunnugt um, að sumir þeir menn utan Alþingis, sem mestan áhuga hafa á nafnbreytingu, eru ekki alveg úrkula vonar um, að sú nafnbreyting geti orðið, þótt síðar verði.

A.m.k. er Það næstum því gefið mál, að breytingin getur ekki gengið fram á þessu þingi. og þá verða þeir, sem breytinga óska, að lifa í voninni.

Þegar handritin íslenzku koma heim frá Höfn, verður komið á fót sérstakri deild, væntanlega innan Handritastofnunar Íslands, sem ber nafnið Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Þá verður sennilega aftur tækifæri til þess að endurskoða nafngift stofnunarinnar í heild, og tel ég þá eins og fleiri betur farið að bíða og berjast, þangað til það tækifæri gefst.