13.04.1962
Efri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hefja neinar umr. um þetta mál. Það vita allir, að það hafa verið töluverðar hugleiðingar í sambandi við nafn þessarar stofnunar, og sýnist sitt hverjum um það.

Ég vil hins vegar raunverulega taka undir það, sem hv. 9. þm. Reykv. (AGl) hér sagði og mér fannst mjög skynsamlega hugsað frá sjónarmiði þeirra, er kynnu að vilja velja stofnuninni það nafn, sem hann gat um. Þetta mát hefur verið rætt manna á meðal hér í sambandi við meðferð málsins og ýmissa atvika vegna, og má vitna m.a. í það, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði um að fara að taka það mál upp nú aftur á síðustu dögum þingsins. Eftir að fullt samkomulag hefur orðið um það í hv. Nd., þrátt fyrir það, þó að menn hefðu þar nokkuð mismunandi skoðanir á málinu, að stofna ekki til neinna deilna eða ágreinings um það og láta þá hugleiðingar um það efni bíða síðari tíma, þá vil ég taka mjög undir rök þessara manna um það efni, að það sé ekki hyggilegt að taka það mál upp nú, því að um það getur ekki orðið samkomulag. Af þeim sökum vil ég mjög beina því til hv. 4. þm. Vestf., að hann a.m.k. íhugi það, áður en hann kynni að leggja hér fram brtt. um það nafn, sem hann vék hér að, Stofnun Jóns Sigurðssonar, að það kynni síður en svo að greiða fyrir þeirri nafngift, ef farið yrði að ganga til atkv. um hana og það nafn yrði fellt, og það yrði á engan hátt til neinnar ánægju í sambandi við þetta mál. Ég vil beina því jafnframt til hans til íhugunar, af því að ég veit, að hann vill ekki flana að neinu í þessu efni. að það er auðvitað alveg vonlaust að fá þetta mál fram á þeim grundvelli að skírskota til þess, að menn muni ekki þora að greiða atkv. gegn þessu nafni, það er vist enginn feiminn við það út af fyrir sig. Ég vil hins vegar taka það fram, að ég hef ekki myndað mér neina fastmótaða skoðun um það, að endilega um alla framtíð skuli þessi stofnun heita Handritastofnun Íslands, og er búinn til athugunar á því síðar meir. En mér finnst það skipta meginmáli, að þetta mál verði nú afgreitt einróma héðan frá þinginu, eins og var gert í hv. Nd., þó að menn hefðu þar mismunandi skoðanir einmitt á þessu atriði. Það vinnst áreiðanlega tími til þess og gefst tækifæri til þess, eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði, að taka nafngiftina til athugunar á síðara stígi málsins. Ég held, að það væri fyrir alla aðila, einnig þá, sem hafa áhuga á þessari sérstöku nafngift stofnunarinnar, Stofnun Jóns Sigurðssonar, til góðs, að málið væri látið bíða þess tíma.