12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er augljóst, að aðalefni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er um það að veita togaraútgerð landsmanna fjárhagslegan stuðning. En þrátt fyrir það, þó að Þetta frv. sé fyrst og fremst hér flutt af þessum ástæðum, eins og greinilega kom í rauninni fram í ræðu hæstv. sjútvmrh., er þessu efni um fjárhagslegan stuðning við togaraútgerðina blandað hér saman við í rauninni alls óskylt mál, sem er hlutatryggingasjóður bátaútvegsins.

Frá því hefur verið skýrt hér, að starfandi hafi verið á vegum ríkisstj. nefnd, sem skilað hafi áliti nokkru fyrir áramót um hag togaraútgerðarinnar. En þegar slíkt stórmál sem þetta er nú lagt fyrir þingið, hefði vissulega verið eðlilegt, að skýrt hefði verið frá niðurstöðum þessarar rannsóknarnefndar. En ekkert kemur fram í þessu frv., sem hér liggur fyrir, um þær niðurstöður, sem n. hefur komizt að við athugun á rekstrarafkomu togaranna, en þó er að sjálfsögðu einmitt þessi rannsóknarskýrsla grundvöllurinn að því, að hafizt er handa um að flytja þetta frv. um fjárhagslegan stuðning við togaraútgerðina í landinu. Þetta er auðvitað mikill galli á því, hvernig málið er lagt hér fyrir. Og ég vil vænta þess, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að leggja fram undir afgreiðslu þessa máls hér í þinginu niðurstöður nefndarinnar, svo að mönnum megi vera ljóst, hvernig sá vandi í raun og veru er, sem hér er við að glíma.

Það er ekkert um það að villast, að togaraútgerð okkar á í fjárhagslegum erfiðleikum, og ég held, að það sé ekki heldur mikill vafi á því, hvaða orsakir eru til þessara erfiðleika. Aflinn hefur gengið saman hjá togurunum á undanförnum árum. Hann hefur farið mjög minnkandi, og alveg sérstaklega hefur aflinn hér á heimamiðum farið minnkandi, þegar litið er á nokkuð mörg ár. Að vísu segja þær tölur, sem hæstv. sjútvmrh. nefndi í þessum efnum um afla togaranna á undanförnum árum, ekki alla sögu, og þær gætu verið mjög villandi fyrir Þá, sem eru ókunnugir í þessum efnum. Þegar nefndar eru aflatölur fyrir togarana, t.d. árin 1958 og 1959, og talað um, að heildarafli togaraflotans þau ár hafi verið árið 1958 199 þús. lestir og árið 1959 156 þús. lestir, en svo aftur tekin árin 1960 og 1961 og þá sagt, að aflinn hafi verið árið 1960 í kringum 113 þús. lestir og nú s.l. ár í kringum 70 þús. lestir, þá má vitanlega ekki bera þessar tölur svona beint saman, og ástæðurnar eru þær, að togararnir hafa verið gerðir út á alveg ólíkan hátt á þessum tveimur áratímabilum. Árin 1958 og 1959 voru togararnir fyrst og fremst gerðir út miðað við heimalöndun á aflanum, en það gefur þeim allajafna miklum mun meiri afla, þar sem þá sparast allur sá langi tími, sem fer í það að sigla með aflann á erlenda markaði. En síðari árin hafa togararnir einmitt verið gerðir út á hinn veginn, að þeir hafa siglt með mikinn hluta af aflanum á erlenda markaði, og aflinn hlaut eðlilega í tonnum talið að minnka. Hins vegar hafa togararnir fengið miklum mun meira fyrir hvert tonn af veiddum afla síðari árin heldur en Þeir fengu fyrri árin. Þetta ber vitanlega að hafa í huga. En eigi að síður hefur aflamagn farið minnkandi.

Einnig verður að hafa annað í huga, þegar maður nefnir heildaraflamagn togaranna á þessu tímabili, að nú síðari árin, sérstaklega 1960 og 1961, hefur svo háttað til, að allverulegur hluti togaraflotans í landinu hefur ekki verið rekinn tímunum saman. Þannig hafa liðið margir mánuðir, að 10–12 skip hafa legið af um 47-48 skipum, sem landsmenn hafa átt hafa legið aðgerðalaus með öllu. En árið 1958 var allur flotinn rekinn svo að segja hvern einasta dag ársins. Auðvitað leiðir það af því, þegar togaraflotinn liggur, að þá dregur eitthvað úr útgerðarkostnaði, launagreiðslum og öðrum rekstrarkostnaði, svo að hér vitanlega er ólíku saman að jafna.

En um hitt verður þó ekki deilt, að afli togaranna hefur farið minnkandi nú síðari árin frá því, sem áður var, og okkar togarar eru ekki þar einir um þá sögu, Þetta hefur gengið yfir hjá öðrum togurum, sem sótt hafa veiðar hér á Íslandsmið. Og mönnum er líka ljóst, að þetta stendur ekki nema þá að sáralitlu leyti í sambandi við útfærslu landhelginnar, vegna þess að Þessi aflarýrnun á íslandsmiðum var komin til, áður en til útfærslu landhelginnar kom. En menn eru auðvitað ekki á eitt sáttir um Það, hvaða orsakir liggi til þessa, og það á sama tíma sem afli bátanna hefur á margan hátt verið eins góður eða jafnvel betri síðari árin en áður var. En staðreyndin er sem sagt þessi, aflinn hefur farið minnkandi.

En þá vaknar eðlilega sú spurning, hvort ekki hafi verið til einhver önnur úrræði fyrir skipin, hvort t.d. afli hafi ekki verið eitthvað betri á öðrum miðum en hér við Ísland og þá tiltækilegt að beita togurunum meira þangað en gert hefur verið. Og Það er heldur enginn vafi á Því, að í fyrsta skipti nú um margra ára skeið höfum við íslendingar orðið eftirbátar annarra togaraútgerðarmanna í sambandi við útgerð á okkar togurum, því að við höfum haldið okkur mjög einhliða með skipin á aflaleysissvæðunum hér við Ísland nú síðustu tvö árin, en ekki í jafnríkum mæli og aðrar togaraútgerðarþjóðir sent skip okkar til annarra fiskislóða. Það er líka alveg augljóst, hvað það er, sem hefur háð okkur í þessum efnum. Það, sem sérstaklega hefur háð okkur, er það, að við gátum ekki gert þessa stóru togara okkar út á Grænlandsmið eða Nýfundnalandsmið eða önnur fjarlæg mið nema efna til allverulegra breytinga á skipunum frá því, sem verið hefur, vegna Þess að þessi mið hafa ekki gefið nú svo mikinn afla, að hægt væri að reka þessi stóru og dýru skip á þau með það fyrir augum, að þau skiluðu aflanum hingað heim svo að segja vikulega. Við hefðum þurft að geta breytt okkar skipum þannig, eins og ýmsir hafa gert, að við hefðum getið sent þau til Grænlands- og Nýfundnalandsmiða og fryst fiskinn a.m.k. fyrri hluta veiðitúrsins eða þannig, að skipin gætu með góðu móti verið í veiðitúr um mánaðartíma í staðinn fyrir að leggja til grundvallar 10–12 daga, eins og við höfum gert áður. Þetta hafa ýmsir gert og með allgóðum árangri.

Ég er á þeirri skoðun, að það hefði átt að taka á vandamálum togaranna nú á allmikið annan hátt en gert er í þessu frv. Ég held, að við hefðum þurft að leggja okkur fram um Það að koma fram með tillögur, sem gætu hjálpað til þess að koma rekstri togaranna á þann grundvöll, að þeir gætu sjálfir staðið undir sér á næstu árum. En til þess þarf að framkvæma talsvert verulegar breytingar í rekstri skipanna. Það er rétt, að það þarf sennilega nokkurn stofnkostnað til þess að ráðast í þetta. En það átti einmitt að aðstoða útgerðina í þessum efnum. Einnig var svo hitt, að það var vitanlega sjálfsagt að aðstoða þessa útgerð til þess að fá réttlátara verð fyrir fiskinn, sem landað var hér innanlands, heldur en hún hefur fengið. Og það var hægt og er hægt að koma fiskverðinu hér innanlands upp. Við getum borgað hér sambærilegt fiskverð við það, sem t.d. Norðmenn borga, en það skortir stórkostlega á, að svo sé nú. En til þess þarf m.a. að létta af vinnslustöðvunum hér innanlands og útgerðinni sem heild ýmsum þeim útgjöldum, sem þessir aðilar verða að standa undir nú hér hjá okkur, en sambærilegir aðilar, t.d. í Noregi, þurfa ekki að standa undir. Við vitum, að við leggjum nú á okkar sjávarútveg miklu hærri útflutningsgjöld en þekkist t.d. hjá Norðmönnum eða yfirleitt nokkurri annarri þjóð, og við látum okkar útgerð standa undir miklu hærri vaxtagreiðslum en annarri útgerð er boðið upp á. Þessu átti að breyta, og þannig átti að reyna að lagfæra reksturinn til frambúðar. Margt fleira gat þarna einnig komið til, sem ég skal nú ekki fara út í að ræða hér í sambandi við þetta frv.

En sem sagt, mín skoðun er sú, að Það Þurfti virkilega að taka því taki nú, hvað tiltækilegt var að gera til þess að gera rekstur togaraflotans íslenzka hagstæðari en hann er nú, þó að einnig yrði gripið til þess að greiða útgerðinni nú í fjárhagsörðugleikum hennar nokkra beina fjárfúlgu. En það þýðir ekki að skjóta sér undan þessu verkefni, því að fjárfúlgur þær, sem greiddar verða nú, étast fljótlega upp, og þá stendur maður aftur í sama vanda, ef ekki er reynt að bregðast við vandanum á réttan hátt.

Hvernig er svo ætlað með þessu frv. að leysa vanda togaraflotans? Jú, það er ætlazt til þess, að hægt verði að greiða togaraflotanum í kringum 60 millj. kr., 30 millj, með þeim hætti, að hinn nýi sjóður, sem nú á að setja á fót og í rauninni er gamli hlutatryggingasjóðurinn með breyttu nafni, sá sjóður á raunverulega að taka að láni 30 millj. kr., skuldabréfalán til fimm ára, og Það á að sjá um það, að togurunum verði þessi skuldabréf til gagns, með því, að bankar taki skuldabréfin upp í þegar orðnar skuldir togaranna. Það kann að vera, að þetta verði togurunum að nokkru gagni. En hlutatryggingasjóður, sem ég nefni nú áfram, er á þennan hátt látinn taka á sig, eftir því sem mér sýnist, 30 millj. kr. bagga, sem hann á að standa undir á næstu fimm árum. Þessi greiðsla er því í mjög vafasömu formi. Það á að éta fram fyrir sig fyrir næstu fimm ár 30 millj. kr. á þennan hátt og láta togarana, hafa þessa greiðslu á þennan hátt. í öðru lagi er svo gert ráð fyrir því, að togaraflotinn fái sérstakar bætur úr hinum breytta hlutatryggingasjóði fyrir árið 1961, líka í kringum 30 millj. kr. Og hvernig á Þessi breytti hlutatryggingasjóður að greiða Þessa upphæð til togaraflotans vegna aflaleysisins á árinu 1961? Jú, það er augljóst, að það eru fyrst og fremst þeir, sem greitt hafa í sjóðinn, í gamla hlutatryggingasjóðinn, bátarnir, bátafloti landsmanna, sem á að standa undir þessari greiðslu. Togararnir eiga að vísu að borga í sjóðinn hluta af árinu 1961, en þar sem afli þeirra er tiltölulega litill, er vitanlega greiðsla þeirra í sjóðinn samsvarandi því tiltölulega lítil, borið saman við þá greiðslu, sem bátaflotinn greiðir, og það á að taka meira en allar tekjur sjóðsins á einu ári raunverulega í þessu skyni. Áður en kom til hækkunar á greiðslum í þennan sjóð, í hlutatryggingasjóð, munu tekjur sjóðsins hafa verið á ári, t.d. árið 1960, eitthvað í kringum 15–16 millj. kr. En auðvitað áttu þær að hækka nokkuð á árinu 1961, eitthvað lítillega miðað við óbreytt gjöld til sjóðsins, en með gengisfellingunni í ágústbyrjun áttu auðvitað tekjur sjóðsins að hækka nokkuð, og sérstaklega svo með þeim ákvæðum í brbl. ríkisstj. frá því í ágúst í sumar, þar sem ákveðið var, að bátafloti landsmanna ætti að borga helmingi hærra gjald til sjóðsins en hann hafði gert áður.

Í þessum efnum er rétt að rifja hér upp með nokkrum orðum starfsemi hlutatryggingasjóðs og hvernig hann hefur verið upp byggður. Hlutatryggingasjóður, sem hefur hingað til verið eingöngu fyrir bátaflotann, hefur fengið tekjur á þann hátt, að bátaflotinn hefur greitt til sjóðsins helminginn af þeim árlegu tekjum, sem sjóðurinn hefur fengið, og ríkissjóður hefur lagt hinn helminginn til á móti. Tvær deildir hafa verið starfandi í sjóðnum. Önnur hefur verið hin almenna deild, en hin hefur verið síldveiðideildin, og þar hafa verið greinileg skil á milli, og þeir bátar einir, sem stundað hafa síldveiðar og orðið þar fyrir aflaleysi, hafa getað fengið bætur úr síldveiðideildinni, og hinir einir, sem stundað hafa almennar þorskveiðar eða aðrar fiskveiðar en síldveiðar, hafa getað fengið bætur úr almennu deildinni. Hins vegar hefur verið hægt að haga því þannig til, að þegar svo hefur staðið á, að aðra deildina hefur vantað fé, þá hefur hin deildin gjarnan lánað þeirri deildinni, sem hallaðist á, til bráðabirgða nokkurt fé með beinni ríkisábyrgð. Ríkissjóður var ábyrgur fyrir því að skila fénu aftur. Þannig hefur síldveiðideildin nokkrum sinnum fengið fé að láni úr almennu deildinni. En í öllum aðalatriðum hefur þó hlutatryggingasjóður bátaflotans staðið sig sæmilega, hann mun hafa átt nú um síðustu áramót um 13 millj. kr. í sjóði í almennu deildinni, og svo mun almenna deildin hafa átt um 10 millj. kr. hjá síldveiðideildinni, sem miklar líkur voru til að síldveiðideildin gæti borgað sjálf, þegar aflatekjur á s.l. ári voru komnar inn fyrir útfluttar síldarafurðir, en þær voru óvenjumiklar á s.l. ári. Þannig átti hlutatryggingasjóður um 23 millj. kr. Og svo komu tekjur á árinu 1961 að öðru leyti einnig vegna hækkunar, þannig að þær voru taldar um áramót vera í kringum 20 millj. kr. Hlutatryggingasjóður hefur því sennilega átt um s.l. áramót í kringum 40 millj. kr., sem bátaflotinn fyrst og fremst hefur lagt til sjóðsins.

Fram að þessu hefur verið lögð áherzla á að reka hlutatryggingasjóð þannig, að ekki væri verið að skylda einn þátt útgerðarinnar til þess að standa undir öðrum þætti eða styrkja hann á beinan eða óbeinan hátt. Þannig hefur síldarúthaldið orðið að standa undir sér sjálft, og það mátti ekki greiða meiri bætur vegna þeirra áfalla, sem urðu á síldveiðum, heldur en sem samsvaraði því, sem síldveiðideildin gat staðið undir eða gat leyft sér að stofna til skuldar út af, vegna þess að menn óttuðust, að þetta gæti dregið til þess, að farið yrði að skattleggja þann þátt útgerðarinnar, sem raunverulega væri hagkvæmari og betri, til þess jafnvel að halda uppi einhverjum þætti, sem vafasamt væri kannske að leggja jafnmikla áherzlu á. Og allir voru sammála um það nú fram að miðju s.l. ári að halda þessu grundvaliaratriði og víkja ekki frá því og blanda hér ekki saman meira og minna óskyldum efnum. En svo kemur hæstv. ríkisstj. skyndilega á s.l. ári og ákveður með brbl. að stórhækka gjöld bátaflotans til hlutatryggingasjóðs, eða í rauninni hækka gjöldin um helming, og skáka togaraflotanum inn í þennan hlutatryggingasjóð bátaflotans og ákveða það einnig að taka allan tekjuaukann, sem sjóðurinn átti að fá, þ.e.a.s. frá bæði síldveiðiúthaldi landsmanna og öðrum rekstri bátaflotans, taka allar hinar auknu tekjur, sem áttu að koma frá þessum aðilum, og nota þær raunverulega til að leysa vanda togaraflota landsmanna, eins og hann var þá.

Þeim, sem kunnugastir voru rekstri og uppbyggingu hlutatryggingasjóðs, leizt, held ég, svo að segja öllum mjög illa á þetta fyrirkomulag, enda var það alveg samhljóða skoðun allra bátaútvegsmanna á síðasta aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna að mæla gegn þessu fyrirkomulagi og óska eftir því, að hver deild yrði þar með sinn algerlega sjálfstæða fjárhag. Ef sköpuð yrði deild fyrir togarana, þá ættu togararnir einir ásamt með ríkissjóði að standa undir þeirri deild, og Þeir gætu aðeins fengið sinn stuðning úr þeirri deild án Þess að fara að blanda sér á nokkurn hátt inn í afkomu eða rekstur annarra deilda, sem innan sjóðsins kynnu að vera, eins og deilda bátaútvegsins.

En með þessu frv., sem hér liggur fyrir, virðist ríkisstj. enn vera inni á þessari samblöndunarleið sinni. Nú setur hún upp það form að breyta hlutatryggingasjóði bátaútvegsins þannig, að taka skal helminginn af árlegum tekjum síldveiðideildarinnar, sem síldveiðifloti landsmanna hefur innt af höndum til sjóðsins, taka heiminginn af þeim tekjum og helminginn af öllum þeim tekjum, sem bátarnir almennt borga í almennu deildina, og einnig helminginn af þeim tekjum, sem sjóðurinn á að fá frá togaraflotanum, og leggja þetta í sérstaka nýja deild, svonefnda jöfnunardeild, og sú deild á að geta, eins og segir í frv., veitt hinum deildunum lán eða styrk, eftir því sem stendur á. Og þar með er búið að opna leiðina fyrir því, sem er megintilgangurinn með þessu frv., að ná út úr hinum gamla hlutatryggingasjóði bátaútvegsins stórri fjárfúlgu til að standa undir tímabundnum fjárhagserfiðleikum togaraflotans. Þetta er afleit aðferð, og ég trúi því ekki, að hæstv. sjútvmrh. sjái ekki við nánari athugun, að fyrirkomulag eins og þetta er ekki framkvæmanlegt. Að ætla sér að innheimta árlega talsverðan skatt jafnt af trillubátaútgerð landsmanna sem öðrum bátaútvegi til þess að standa undir fjárhagsstyrk, sem sveiflast upp á marga tugi milljóna króna, til togaraflotans, það er alveg fráleit aðferð.

Ég álít því, að það eigi að breyta til í Þessum efnum. Við því er auðvitað ekkert að segja, Þó að mynduð sé sérstök deild innan hlutatryggingasjóðs fyrir togaraflotann og togararnir séu látnir greiða í þá deild og ríkissjóður veiti þeirri sérstöku deild árlegan styrk og útvegi henni sérstakt lán, og síðan yrði hún þá fær um að styrkja togarana, — við því er ekkert að segja. En það á ekki að blanda Þessu máli saman við einstakar deildir bátaútvegsins í landinu. Ég held líka, að það blessist aldrei til lengdar, þetta verði rifið í sundur aftur af þeim, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta.

Ég vil taka undir það, sem ég hef raunar sagt hér nokkrum sinnum áður, að ég er því algerlega samþykkur, að togaraútgerðinni sé veittur nokkur fjárhagslegur stuðningur, eins og nú standa sakir. Ég legg þó áherzlu á, að Það þurfi meira til en aðeins fjárhagslegan stuðning nú í bili, það þurfi einnig að taka á Þeim vandamálum, sem fyrir liggja í rekstri togaranna í landinu. En ég álít, að það eigi ekki að veita togurunum fjárhagsstuðning í því formi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, slíkt sé ósanngjarnt og það leysi í rauninni harla lítinn vanda.

Þá vil ég einnig minna á, að það hefur staðið yfir um alllangan tíma endurskoðun á l. um hlutatryggingasjóð. Sérstök nefnd, sem kosin var af fiskiþingi, hefur fjallað um þetta mál, og ég hygg, að sjútvmrn. hafi á sínum tíma valið menn til Þess að starfa með þessari endurskoðunarnefnd. Og Það er mikil þörf á því að breyta I. um hlutatryggingasjóð í ýmsum efnum eftir fengna reynslu. Það hefði líka nú, þegar lagt er fram hér frv., sem í rauninni umsteypir gömlu löggjöfinni um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, átt að birta hér þær niðurstöður, sem þessi endurskoðunarnefnd hefur komizt að í þessum efnum. Það hefði átt að liggja fyrir hv. þm., hvað þessi endurskoðunarnefnd hefur talið Þurfa að gera til breyt. á I. um hlutatryggingasjóð. Þetta vantar alveg, fyrst sú leið er valin að fara inn á að breyta þessari gömlu löggjöf.

Ég sé, að fundartími er búinn, og ég get í rauninni lokið máli mínu nú við Þessa umr. Ég vil ekki á neinn hátt tefja það, að málið geti komizt til nefndar. Ég skal því láta máli mínu lokið. En ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. taki tillit til þeirra ábendinga, sem hér hafa komið fram, og það verði einmitt sérstaklega athugað í nefnd við meðferð málsins, hvort ekki sé rétt að breyta hér til um form frá því, sem lagt er til í þessu frv.