30.03.1962
Neðri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Hæstv. forseti. Sjútvn. hélt 6 fundi um þetta mál og aflaði sér upplýsinga og umsagna, eins og frá er greint í nál. á þskj. 529. Herra Már Elísson skrifstofustjóri var n. til aðstoðar og útvegaði henni greiðlega ýmsar upplýsingar.

Eins og nál. á þskj. 529 ber með sér, mælir meiri hl. n. með frv. óbreyttu, en minni hl., þeir Gísli Guðmundsson og Geir Gunnarsson, skilar séráliti.

Með frv. þessu er lagt til, að breytt verði núgildandi skipulagi hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins, og vegna hins breytta verksviðs sjóðsins er lagt til, að hann heiti framvegis aflatryggingasjóður sjávarútvegsins. Þetta nýja heiti hefur sætt nokkurri gagnrýni, að mig minnir, við 1. umr. og a.m.k. í einni umsögn. Ég tel ekki, að hið nýja heiti brjóti í bága við málvenjur, sbr. það t.d., að talað er um líftryggingu, hlutatryggingu, heimilistryggingu og vélbátatryggingu. Þarna er það hið tryggða, sem ræður í samsetningunni. Hins vegar má einnig nefna dæmi þess, að tjónið, sem tryggt er fyrir, er látið ráða, eins og í brunatrygging, sjóvátrygging, slysatrygging, örorkutrygging o.s.frv. Hvort tveggja mun þetta vera jafnrétthátt í málinu. Hálærður málvísindamaður, sem ég hef spurt álits þessu viðvíkjandi, hefur tjáð mér, að sér finnist ekkert við hið nýja nafn sjóðsins að athuga.

Sjóðurinn starfar nú í tveim deildum, almennri deild vélbátanna og síldveiðideild. Samkvæmt því breytta skipulagi, sem frv. ráðgerir, verður bætt við almennri deild togaraflotans og jöfnunardeild. Á hlutverk jöfnunardeildar að vera Það að veita hinum deildunum lán eða styrki, ef svo stendur á, og má segja, að hún taki við því hlutverki, sem hin almenna deild bátaflotans hefur áður annazt. Sú deild hefur oft lánað síldveiðideildinni á liðnum árum og hefur þá í hvert skipti verið útveguð ríkisábyrgð fyrir slíkum lánum. Mun almenna deildin nú eiga um 10 millj. kr. hjá síldveiðideildinni. Með þeim tekjum, sem deildunum eru áætlaðar, ætti ekki lengur að þurfa ríkisábyrgð fyrir lánum þeirra í milli, en verði ástandið einhvern tíma svo slæmt, að einhver deildin komist alveg í þrot, þá mun Það verða athugað hverju sinni, eins og tíðkazt hefur, hvernig sá vandi verður bezt leystur, og Þá m.a. með ríkisábyrgð, ef á þarf að halda.

Framlag ríkisins til sjóðsins er á Þessu ári ákveðið í fjárlögum 81/2 millj. kr., en árið 1963 er áætlað, að framlagið verði 18.6 millj. kr., eða 9.1 millj. kr. hærra en Það er nú. í 9. gr. frv. eru ákvæði um tekjur sjóðsins og skiptingu þeirra á milli deilda. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Árlegar tekjur sjóðsins eru: 11/4% af fobverði útfluttra sjávarafurða, öðrum en Þeim, sem koma frá hvalveiðum og selveiðum. Skal gjald þetta reiknað á sama hátt og annað útflutningsgjald af sömu vöru.

2) Framlag ríkissjóðs er helmingur á móti 1. lið. Á árinu 1962 skal framlagið nema 81/2 millj. kr.

3) Vextir og aðrar tekjur af eignum sjóðsins. Ríkissjóður sér um innheimtu tekna samkv. 1. og 2. tölulið þessarar gr.

Tekjur samkvæmt 1. og 2. tölulið skiptast þannig milli deilda: í síldveiðideild 50% af tekjum af útfluttum síldarafurðum. í almennu deild bátaflotans 50% af tekjum af útfluttum þorskafurðum bátaflotans. í almennu deild togaraflotans 50% af tekjum af útfluttum þorskafurðum togaraflotans. í jöfnunardeild 50% af tekjum af útfluttum síldarafurðum og 50% af tekjum af útfluttum þorskafurðum báta- og togaraflotans.“

Ég vil geta þess, að alls staðar, þar sem talað er um þorskafurðir, er einnig átt við t.d. karfa. Áætlað er, að prósentugjaldið samkvæmt 1. lið muni á næsta ári gefa sjóðnum samtals 37.2 millj. kr. í tekjur, og ætti þá framlag ríkisins þar á móti að verða 18.6 millj. kr., eða tekjur sjóðsins alls 1963 55.8 millj, kr. Þessi áætlun er við það miðuð, að útflutningur gjaldskyldra afurða ársins 1962 nemi 2800 millj. kr. og aukist um 6% á ári. Út frá sömu tölum eru heildartekjurnar áætlaðar 59.1 millj. kr. árið 1964.

Það hefur sætt gagnrýni, að ríkissjóður skuli ekki greiða til sjóðsins jafnt á móti þeim tekjum, sem hann fær samkvæmt 1. lið 9. gr. frv. Hér verða menn þó að hafa það hugfast, að erfitt er að gera sér grein fyrir því langt fram í tímann, hversu mikla aðstoð þær greinar sjávarútvegsins, sem réttindi eiga í sjóðnum, kunna að þurfa. En fullyrða má, að þessi atvinnuvegur er svo mikilvægur fyrir þjóðarbúið í heild, að ríkisstj. og Alþ. hljóta á hverjum tíma að veita þá viðbótaraðstoð, sem nauðsynleg kann að reynast, ef sjóðurinn getur ekki leyst allan vandann. Það má ekki heldur gleyma því, sem ég hef reyndar þegar tekið fram, að framlag ríkissjóðs til aflatryggingasjóðs tvöfaldast og meira en það, auk þess sem framlög hinna tryggðu sjálfra hækka samkvæmt 9. gr. Er í þessu sambandi rétt að minna á það, að á uppbótatímabilinu var sjóðurinn snuðaður um stórfelldar tekjur, þar eð ríkissjóðsframlagið var aðeins reiknað af fob-verði, en sjóðurinn fékk þá engar tekjur af yfirfærslugjaldinu. Minnir mig, að á þessu tímabili hafi hv. 4. þm. Austf. haft eitthvað með sjávarútvegsmál að gera.

Eftir 12 ára starf hefur hlutatryggingasjóður greitt 33450849 kr. í bætur úr almennu deildinni og 36525222 kr. úr síldveiðideildinni. Síldveiðideildin skuldar enn 10 millj. kr., en almenna deildin mun eiga allt að 40 millj. kr. Ég gat þess áðan, að tekjur sjóðsins eru áætlaðar 55.8 millj. kr. árið 1963 og 59.1 millj. árið 1964, og séu þessar tölur allar bornar saman, þá geta menn gert sér nokkra hugmynd um þá miklu eflingu sjóðsins, sem frv. gerir ráð fyrir, þótt þar komi hins vegar á móti bótaskyldan gagnvart togurunum, sem vissulega verður talsverð, eins og nú er ástatt. En það ástand getur breytzt og jafnvel snúizt við, og að mínum dómi er ekkert sjálfsagðara en að hver framleiðslugreinin styðji aðra til skiptis í slíkri samtryggingu, sem hér er um að ræða. í dag eru það togararnir, sem þurfa hjálp, að ári eða næsta ár getur það orðið síldveiðiflotinn eða þorskanetaútgerðin.

Í sambandi við þessar hugleiðingar vil ég skjóta því hér inn, sem ég veit ekki, hvort allir hv. dm. hafa gert sér ljóst, að togaraútgerðin hefur árum saman greitt útflutningsgjald, bæði til Fiskveiðasjóðs Íslands og til fiskimálasjóðs, án þess að eiga þar nokkur réttindi eða aðgang að stofnlánum. Þetta gildir enn þá hvað fiskveiðasjóði viðvíkur, en breyting mun nýlega hafa verið gerð á þessu hjá fiskimálasjóði. Það er ekki, að því er ég bezt veit, unnt að fá framlög togaraútgerðarinnar til þessara sjóða uppgefin sérstaklega, en ég hef reynt að gera mér nokkra grein fyrir þessu varðandi fiskveiðasjóð. Ég fékk uppgefnar hjá Fiskifélaginu eftirgreindar prósentutölur um hlutdeild togaranna í heildarframleiðsluverðmæti sjávarútvegsins. Arið 1957 36%, árið 1958 38%, árið 1959 32%, árið 1960 241/2%. Þessi sömu ár hafa tekjur fiskveiðasjóðs af útflutningsgjaldi orðið:

1957

18 797.938,50

1958

24 343 471,31

1959

27 599 470,52

1960

37 321 615,72

Samtals 108 062 496,05

Sé reiknað með sama hlutfalli í tekjum fiskveiðasjóðs frá togurum og í heildarframleiðslunni þessi ár, þá má áætla framlag togaranna til sjóðsins þannig: 1957 6767000 kr., 1958 9251000 kr., 1959 8 832 000 kr., 1960 9144 000 kr., eða samtals á þessum fjórum árum 33 994 000 kr. Á þessu tímabili hafa þá rúmlega 31% af tekjum fiskveiðasjóðs komið frá togurunum, sem engan aðgang hafa haft að sjóðnum, og miðað við heildartekjur sjóðsins af útflutningsgjaldi frá byrjun, sem munu vera um 315 millj. kr., má áætla, að togararnir hafi lagt fram í þennan stofnlánasjóð vélbátanna um 97 eða 98 millj. kr. Þetta finnst mér vera vert að þeir menn hugleiði, sem nú tala um það, að ekki megi rugla saman reytum einsta,kra greina sjávarútvegsins í aflatryggingasjóði samkvæmt frv, því, sem hér liggur fyrir.

Skal ég þá aftur víkja að ákvæðum frv. og þeirri fyrirgreiðslu við togarana, sem ráðgert er að veita á vegum sjóðsins. En fyrst vil ég geta þess, að í frv. eru nokkrar breyt. og nýmæli frá gildandi I. um hlutatryggingasjóð, sem sett hafa verið inn samkv. þeim sjónarmiðum, sem fram hafa komið í ályktunum fiskiþings að undanförnu. Stofnfé hinnar almennu deildar togaraflotans á samkv. frv. að vera 371/2 millj. kr., sem ríkissjóður leggur fram með jöfnum árlegum greiðslum á 15 árum. Verður þetta fé, eða 30 millj. kr. af því, notað til þess að veita togurunum aðstoð fyrir árið 1960 með því að afhenda skuldabréf, er verði gjaldgeng til greiðslu á skuldum við viðskiptabankana, og talið er, að fyrir árið 1961 muni sjóðurinn þurfa að greiða álíka mikið, eða samtals 60 millj. kr. fyrir bæði árin.

Að því er fundið, að þessi aðstoð muni hrökkva skammt, og talað um, að allt skipulag togaraútgerðarinnar þurfi að breytast. Það er rétt, að togaraútgerðin þarf að laga sig eftir breyttum aðstæðum, þar sem minnkandi aflabrögð og ný veiðitækni hafa skapað gerbreytt viðhorf. Þar er um að ræða stórátak, sem gera þarf með aðstoð og fyrirgreiðslu hins opinbera. En tímabundin fyrirgreiðsla getur ekki beðið, þar til lausn er fundin á þeim stóru og erfiðu vandamálum. Þetta frv. er aðeins einn þáttur í þeirri aðstoð, sem togurunum verður veitt vegna líðandi stundar. Að auki hafa verið gerðar ráðstafanir til að greiða fyrir þá vátryggingagjöld, sem munu nema um 35 millj. kr. fyrir árið 1960 og sennilega svipaðri upphæð fyrir árið 1961. Enn fremur hefur ríkissjóður greitt af stofnlánum togaranna miklar upphæðir, bæði s.l. ár og áður, eins og hæstv. fjmrh. upplýsti nýlega í skýrslu til Alþingis um greiddar ríkisábyrgðir. Þegar allt þetta kemur saman, er þess að vænta, að hægt verði að koma togaraútgerðinni yfir örðugasta hjallann, en hún er um þessar mundir stödd í öldudal aflaleysisins.

Sjútvn. fékk hjá Fiskifélaginu þær tölur um útgerð og afla togara, sem hér fara á eftir: Árið 1955 voru gerð út 44 skip og öfluðu samtals, miðað við afla upp úr sjó, 203973 lestir. 1956 43 skip 188 845 lestir. 1957 42 skip 162118 lestir. 1958 44 skip 209037 lestir. 1959 45 skip, þar af 2 gerð út stopult, 166051 lest. 1960 48 skip, þar af 5 gerð út stopult, 119738 lestir. 1961 40 skip, þar af 6 gerð út stopult, 81444 lestir. Eins og ég sagði áðan, er árið 1955 gefið upp miðað við afla upp úr sjó, en öll hin árin miðað við landað magn, en á því er nokkur munur, þó ekki verulegur, þar sem t.d. allur karfi, sem kemur á land, er óslægður. Sé athugað meðalveiðimagnið í heild fyrir fimm ár, 1955–1959 að báðum árum meðtöldum, þá reynist það samkvæmt þessari skýrslu 186 004 lestir yfir árið, og hefur þá aflinn árið 1960 reynzt um 351/2% lægri en fimm ára meðaltalið og árið 1961 56% lægri en það. Er í þessum samanburði meira að marka fyrra árið, vegna þess að þá er skipafjöldinn, sem gerður er út að staðaldri, nálægt því að vera hinn sami og næstu fimm ár á undan. Síðara árið er skipafjöldinn aftur á móti minni, og verður þess vegna að taka prósentulækkunina með meiri varúð það ár. Samt ber að athuga það, að skipin, sem stöðvazt hafa, hafa helzt úr lestinni vegna þess, að útgerð þeirra hefur ekki risið undir afleiðingum aflaleysisins.

Hæstv. sjútvmrh. drap á það í framsöguræðu sinni fyrir frv. um aflatryggingasjóð, að gerð hefði verið á vegum ríkisstj. athugun á hag togaraútgerðarinnar, og gat hann að nokkru um niðurstöðurnar af þeirri rannsókn. Mér var falið fyrir hönd sjútvn. að fara þess á leit, að n. fengi umrædda skýrslu til athugunar, en niðurstaðan af viðræðum mínum og hæstv. ráðh. varð sú, að ráðh. taldi ekki fært að birta n. skýrsluna, þar eð hún væri þannig unnin, að í henni væru upplýsingar um einstök fyrirtæki. Ég er fyrir mitt leyti samþykkur þessari afstöðu hæstv. ráðh. og tel ekki þörf á því í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, að fá þessa skýrslu í hendur. Upplýsingarnar um aflabrögðin tala sinu máli, og sömuleiðis þekkja bæði ég og aðrir hv. þm. hrakfallasögu togaraútgerðarinnar síðustu árin úr heimahögum okkar. Einnig er það orðið svo, að mikill hluti togaranna er í eigu opinberra fyrirtækja, sem sjálfsagt birta sjálf reikninga sína fyrir s.l. ár innan skamms.

Það má vitanlega velta því fyrir sér á marga vegu, af hverju aflaleysi togaranna stafi. Sumir kenna útfærslu landhelginnar mest um og segja sem svo, að ef togurunum yrði hleypt inn í landhelgina, þá þyrftu þeir ekki á annarri aðstoð að halda. Þetta eru ýkjur að mínum dómi, Því að aflaleysið er ekki aðeins ríkjandi á miðunum hér við land, heldur einnig á fjarlægum miðum, þar sem togurunum hefur oft orðið gott til fanga, og ekki mundi afli þeirra á Þeim slóðum aukast við það, að þeir fengju landhelgina að einhverju leyti. Ég neita því þó ekki, að útfærsla landhelginnar eigi sinn þátt í erfiðleikum togaranna, en ég álít, að þegar frá líður muni þeir, eins og önnur útgerð, hagnast á aukinni friðun fiskimiðanna, því að hún mun forða útgerð okkar sem heild frá Því, sem verra er, þ.e.a.s. frá algerri ördeyðu.

Að svo mæltu legg ég til fyrir hönd meiri hl. sjútvn., að frv. á þskj. 365 verði samþ. óbreytt.