30.03.1962
Neðri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég tel engan vafa leika á, að meginástæðurnar til þess, að þetta frv. hefur verið flutt hér, eru þeir erfiðleikar, sem togaraútgerðin hefur átt í að undanförnu og hæstv. ríkisstj. hefur viðurkennt að séu þess eðlis, að ekki verði undan vikizt að gera nokkrar ráðstafanir út af beinni fjárhagsaðstoð við togaraútgerðina í landinu.

Aðrar breytingar, sem er að finna í þessu frv., heldur en þær, sem snerta þetta meginatriði að veita togaraútgerðinni sérstakan stuðning, eru minni háttar og skipta hér hverfandi litlu máli. En hvaða till. eru svo raunverulega gerðar samkv. þessu frv. til þess að styðja togaraútgerð landsmanna? Jú, hér er fyrst og fremst um tvær aðaltill. að ræða í þessum efnum. Hin fyrri er sú, að ætlazt er til, að togaraútgerðin fái sérstakan fjárhagsstuðning, sem nemur 30 millj. kr., vegna rekstrarins á árinu 1960. Þessi stuðningur á að vera með þeim hætti, að hinn nýi aflatryggingasjóður á að gefa út skuldabréfalán, sem nemur 30 millj. kr. til fimm ára, og togaraútgerðin á að fá þessi skuldabréf, en þó með þeim skilyrðum, að þeir, sem togaraútgerðin skuldar, taki þessi bréf sem fullnaðargreiðslu á skuldum útgerðarinnar. En aflatryggingasjóður hefur með þessu ráðstafað að verulegu leyti tekjum sínum á næstu fimm árum. Að þessu leyti til er því verið að ráðstafa tekjum sjóðsins fyrir sig fram.

Í öðru lagi er svo um þann stuðning við togaraútgerðina að ræða að veita sérstakan fiárhagsstuðning vegna rekstrarins á árinu 1961, og það er einnig áætlað, að sá stuðningur muni nema í kringum 30 millj. kr. En það ár er ætlazt til þess, að tekjur og eignir hlutatryggingasjóðs, sem nú eru fyrir hendi, komi til til þess að standa undir þessari fjárgreiðslu til togaraútgerðarinnar.

Þetta eru aðaltill., sem frv. felur í sér. Það er líka alveg augljóst, að þegar hæstv. ríkisstj., sem stendur að flutningi þessa frv., hefur tekið ákvörðun um að reyna að útvega togaraútgerðinni í landinu 60 millj. kr. í fjárhagslegan stuðning fyrir þessi tvö ár, 1960 og 1961, þá hefur hún fundið það ráð helzt að grípa þær 30 millj. kr., sem hún vissi að hlutatryggingasjóður bátaútvegsins átti nú um áramótin í sjóðum sínum, og svo að ákveða að tvöfalda skattgjaldið á bátaútgerðinni í landinu til bessa sjóðs og afla sér á þann hátt tekna til að standa undir hinum hlutanum, sem greiða átti togaraútgerðinni, en átti að greiðast henni með sérstökum skuldabréfum, sem síðan áttu að greiðast af sjóðnum á næstu fimm árum. Það er því ekkert um það að villast, að þá peninga, sem hæstv. ríkisstj. er með þessu frv. að reyna að færa yfir til togaraútgerðarinnar, á að taka ýmist af beinum eignum hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins, sem nú eru fyrir hendi, og svo af væntanlegum tekjum þessa sjóðs, en undir beim tekjum á fyrst og fremst bátaútgerðin í landinu að standa á næstu árum.

Ég hef sagt það áður í umr. um þetta mál, að ég er algerlega andvígur þessari leið, sem farin er til að styðja togaraútgerðina í landinu, og bað af mörgum ástæðum. Ég tel hér vera farið inn á mjög hættulega braut, og miklu hefði verið réttara að velja hér aðrar leiðir. Og hvaða leiðir hefði verið réttara að mínum dómi að fara til stuðnings togaraútgerðinni, eins og nú standa sakir? Ég skal minnast á nokkur atriði.

Í fyrsta lagi tel ég, að með milligöngu ríkisstj, hefði átt að semja um þegar orðnar skuldir togaraútgerðarinnar við banka landsins á öðrum grundvelli en hér hefur verið lagt til, að fara að greiða þær upp með fimm ára skuldabréfaláni. Ég álít. að það hefði átt að semja um þessar skuldir, sem þegar hefur verið stofnað til af togaraútgerðinni, til miklu lengri tíma, breyta þeim í 10–15 ára lán með lágum vöxtum. Slíkt hefði komið togaraútgerðinni miklum mun betur en þær till. um þetta sama efni, sem liggja fyrir í þessu frv. Þetta hefði líka verið réttlátt og eðlilegt, því að Það hefði verið á hliðstæðum grundvelli eins og búið var áður að gera fyrir aðra þætti útgerðarinnar í landinu. Þar var óumsömdum skuldum, jafnt frystihúsa og annarra fiskverkunarstöðva í landinu sem bátaútgerðarinnar, — þar var óumsömdum skuldum við bankana breytt í löng lán, yfirleitt í 10–15 ára lán með hagstæðari vöxtum en almennt gerist. Og ég tel, að það hefði átt að fara svipað að í sambandi við þær skuldir, sem togaraútgerðin hefur Þegar stofnað til í bönkum landsins, og það hefði átt að semja um þetta til miklu lengri tíma en hér er gert ráð fyrir og með öðrum hætti. Það hefði komið togaraútgerðinni betur.

Í öðru lagi tel ég, að sérstakur fjárhagsstuðningur fyrir 1961 hefði átt að veitast togaraútgerðinni á þann hátt, sem minni hl. hv. sjútvn. leggur til, en það er að afhenda togaraútgerðinni í landinu 50 millj. kr. eða 1/3 af þeim gengishagnaði, sem til féll með gengisbreytingunni nú á s.l. sumri af þeim afurðabirgðum, sem þá lágu í landinu. En það má einmitt ætla. að togaraútgerð landsmanna, miðað við það hlutfall, sem hún er raunverulega í útgerðinni, hafi beinlínis átt af þessari upphæð. Með því að afhenda togaraútgerðinni á þennan hátt 50 millj. kr. var í rauninni aðeins verið að afhenda togaraútgerðinni það, sem hún átti af þessum gengishagnaði. En hæstv. ríkisstj. hefur valið hina leiðina, að taka af þrautpíndri togaraútgerð landsmanna 50 millj. kr., eða um það bil, í gengishagnaði af því, sem togaraútgerðin raunverulega átti, en afhenda henni svo í staðinn þá tryggingasjóði, sem bátaútvegurinn í landinu hafði byggt upp hjá sér.

Þessi önnur till., sem ég hef hér minnzt á. að ég hefði talið eðlilegri, hefði verið réttlátari og komið togaraútgerðinni að meira gagni en tilsvarandi till., sem er að finna í þessu frv. varðandi fjárstuðning við rekstur ársins 1961.

Í þriðja lagi hefði ég álitið eðlilegt að veita togaraútgerðinni þann stuðning að mynda á hliðstæðan hátt fyrir hana sérstakan aflatryggingasjóð, eins og verið hefur fyrir bátaútgerðina í landinu, byggðan upp á þeim grundvelli. að togaraútgerðin greiði í sjóðinn ákveðið gjald á hverju ári miðað við afla sinn, eins og bátarnir gera í sínar deildir, og ríkissjóður leggi þar jafnhátt framlag á móti, eins og ríkissjóður hefur gert fram til þessa í deildir bátaútvegsins. Og auk Þess hefði svo ríkissjóður lagt fram svipað stofnframlag til þessarar aflatryggingadeildar togaraftotans og gert er ráð fyrir í þessu frv. að ríkissjóður geri.

Á þennan hátt hefði togaraútgerðin getað búið við það á yfirstandandi ári 1962 og í framtíðinni að eiga nokkurn aflatryggingasjóð, eins og bátaútvegurinn á, byggðan upp á sama grundvelli og sjóður bátanna hefur verið, og auðvitað mundi þá styrkleiki þessa sjóðs fara eftir því, hvað togararnir greiddu mikið í hann, og framlag ríkissjóðs fara eftir því. En fram til þessa hefur þetta líka verið haft á valdi bátaútgerðarinnar í landinu og verulegu leyti að ákveða, hvað hún vildi greiða mikið í sinn sjóð.

Í fjórða lagi mundi ég hafa lagt til, að ríkissjóður hefði gengizt fyrir því að útvega togaraútgerð landsmanna nokkurt nýtt lán til nýrra stofnkostnaðarbreytinga, sem þarf að gera á togaraflotanum til þess að gera hann betur hæfan til að sinna sínum rekstri en nú er. Það er enginn vafi á því, að það þarf að framkvæma allfjárfrekar breytingar á togaraflotanum, ef reksturinn á að geta staðið undir sér, og fé í þessu skyni á ríkisstj. að útvega togaraútgerðinni og koma þannig fótunum undir útgerðina til frambúðar.

Í fimmta lagi átti síðan auðvitað að gera ráðstafanir til að reyna að draga úr almennum rekstrarútgjöldum togaraútgerðarinnar. Það var hægt m.a. með því að lækka vexti, sem eru alveg óheyrilega háir og eru auðvitað að sliga togaraútgerðina eins og aðra útgerð landsmanna. Og þar var sjálfsagt einnig að fella niður Það gjald, sem togaraútgerðin verður nú að greiða og hefur þurft að greiða um nokkurra ára bil til fiskveiðasjóðs og ég mun nú koma hér að nánar síðar. Það hefur aldrei verið réttmætt eða eðlilegt, að togaraútgerðin greiddi það gjald, og hefur það alltaf verið mín afstaða. Og einnig hefði verið hægt að lækka útgjöld togaranna í landinu með því að gerbreyta vátryggingu skipanna frá því, sem verið hefur, og hefði ríkissjóður auðvitað þurft þar til að koma.

Og svo hefði í sjötta lagi auðvitað þurft að gera ráðstafanir til að hækka fiskverðið í landinu. En ég hef gert grein fyrir því hér áður, að ég tel, að það sé tiltölulega auðvelt að hækka fiskverðið frá því, sem það er nú, um 70–80 aura á kg. en það mundi raunverulega, ef togari legði upp afla sinn hér innanlands, jafngilda 2.1–2.4 millj. í auknar tekjur. Það er að vísu rétt, að á meðan vátryggingariðgjöld skipanna eru greidd á þann hátt, sem þau eru greidd nú, þá yrði tekjuaukinn ekki svona mikill, því að það væri ekki hægt að koma fram þessari fiskverðshækkun, á meðan hið háa útflutningsgjald er í gildi, til þess að borga vátryggingu skipanna. Meðan þau ákvæði eru í gildi, yrði fiskverðshækkunin nokkru minni.

Þessar ráðstafanir álít ég að hefði þurft að gera. Þær hefðu komið, hver um sig, togaraútgerðinni að miklu meira gagni en þær ráðstafanir, sem felast í þessu frv., verið sanngjarnari og eðlilegri. Og þær hefðu miðað miklu meira að því að koma fótunum undir togaraútgerðina að nýju, gera hana rekstrarhæfa á nýjan leik.

Þær ráðstafanir, sem felast í þessu frv. og ég hef nú nokkuð minnzt á, eru líka þannig orðaðar í frv., að þær eru mjög óákveðnar. Það er mjög erfitt að vita, hvað raunverulega felst á bak við ákvæðin eða hvernig þau verða framkvæmd. Ég vil t.d. spyrja hæstv. sjútvmrh. um það, þegar rætt er í bráðabirgðaákvæði um að greiða togaraútgerðinni 30 millj. kr. fjárstyrk vegna rekstrarins 1960: Hvaða skip geta fengið þennan fjárstyrk? Geta þau skip einnig fengið þennan fjárstyrk, sem rekin voru árið 1960, en ekki eru í rekstri nú eða eru komin í hendur allt annarra aðila? Virðist eðlilegast, að styrkur vegna rekstrarins 1960 yrði greiddur þeim aðilum, sem ráku skipin þá. En vitanlega kemur sá styrkur í ýmsum tilfellum að litlu gagni til að bjarga vanda þeirra, sem nú geta ekki rekið skip sín.

Það er einnig sú spurning: Er ætlunin að greiða þennan fjárstyrk fyrir árið 1960 jafnt til skipanna? Það hefur helzt komið þannig fram í umr. hér, að skipta ætti þessari upphæð jafnt á milli skipanna, þannig að þau fengju jafnmikinn hluta af þessum styrk, þau sem aflað hafa mest og hin sem hafa lakastan afla.

Þá er einnig sú spurning: Hefur hæstv. ríkisstj, hugsað sér að halda þannig á þessum málum, að þessir fjárstyrkir verði greiddir togaraútgerðunum þrátt fyrir það, að þær hefji ekki rekstur skipanna að nýju? Á Þetta kannske að verða einnig til að leysa menn eingöngu út úr skuldunum, sem stofnað hefur verið til, án þess að það þurfi raunverulega að tryggja það, að rekstur skipanna hefjist að nýju?

Ég spyr aðeins um þetta vegna þess, að ákvæði í frv. sýnist mér að séu mjög óákveðin í þessum efnum og segi harla lítið um fyrirhugaða framkvæmd.

Í grg. frv. er sagt frá því, að hæstv. ríkisstj. hafi fyrir nokkru skipað sérstaka rannsóknarnefnd til að athuga um afkomu togaraútgerðarinnar í landinu, og það er beinlínis tilgreint, að till. þær, sem er að finna í þessu frv., séu byggðar á niðurstöðum þessarar rannsóknarnefndar. En svo er hér upplýst í umr., að hæstv. sjútvmrh. hefur neitað að leggja niðurstöður þessarar rannsóknarnefndar fyrir hv. sjútvn. Þetta þykja mér mjög furðuleg vinnubrögð og ekki á neinn hátt í samræmi við það, sem áður hefur gerzt í hliðstæðum tilfellum hér á Alþ. Ég vil minna á, að það hefur áður verið sett rannsóknarnefnd, m.a. á rekstur togaraútgerðarinnar í landinu. Það var starfandi sérstök mþn., sem vann að slíkri athugun á árinu 1954 og ég held fram á árið 1955, — gott ef við áttum ekki báðir sæti í þeirri nefnd, núv. hæstv. sjútvmrh. og ég. Ég minnist þess a.m.k., að ég átti sæti í nefndinni. Og sú n. skilaði allýtarlegu áliti, fékk mjög miklar upplýsingar um rekstrarafkomu togaranna þá. Og hún skilaði sínu áliti, og það liggur fyrir og hefur ekki verið neitt feluplagg á neinn hátt.

Ég skil ekki, að ekki hafi verið hægt að sýna sjútvn. þau gögn, sem þessi rannsóknarnefnd skilaði til hæstv. ríkisstj. Og það eru auðvitað alveg furðuleg vinnubrögð að halda þannig á málum, að það er verið að athuga um þörf á því að greiða sérstakan fjárstyrk til vissra aðila, það er sett nefnd í málið, menn komast að ákveðinni niðurstöðu, og svo Þegar búið er að komast að þeirri niðurstöðu, þá er sagt við hv. Alþ., sem síðan á að fjalla um málið: Þetta er leyniplagg, sem enginn fær að sjá, og þið verðið að trúa okkur, sem leggjum hér fram okkar till., og taka þær gildar, að þörfin sé þessi, sem við segjum. — Þetta eru alveg ósæmileg vinnubrögð, og þau hafa ekki verið viðhöfð hér áður. Ég hefði haldið, að hitt hefði verið miklu eðlilegra, að hæstv. ráðh. hefði lagt þessi gögn fyrir sjútvn. deildarinnar, sem þá hefði eðlilega átt miklu betur með það að skilja allar aðstæður málsins og gera þær till., sem réttast var að gera til lausnar á þessum vanda.

Það kom hér fram í ræðu frsm. meiri hl. sjútvn., að hann taldi, að hlutatryggingasjóður hafi á sínum tíma verið, eins og hann sagði, snuðaður um ákveðið framlag. Og hv. frsm. vitnaði til þess, að Þegar þetta snuð hafi átt að eiga sér stað, þá mundi ég hafa haft eitthvað með sjávarútvegsmálin í landinu að gera. Ég segi, að mér fannst hv. Þm. tala þannig um Þetta efni, að hann hefði ekki gert sér á nokkurn hátt grein fyrir Því, hvernig hlutatryggingasjóður bátaútvegsins hefur verið byggður upp allan tímann, á hvaða grundvelli sjóðurinn hefur starfað. Hlutatryggingasjóður bátaútvegsins hefur frá upphafi starfað þannig, að hér hefur verið um tryggingakerfi að ræða, þar sem bátaútvegurinn í landinu ákveður það fyrir sitt leyti að greiða tilskilið hundraðsgjald í sjóðinn gegn því, að ríkissjóður greiði jafnháa upphæð á móti. Hins vegar hefur það svo verið meira og minna á valdi útvegsmanna, hvort þeir vildu hafa gjaldið, sem þeir greiddu í sjóðinn, hærra eða lægra, og eftir því urðu vitanlega bæturnar að vera í framkvæmd Þessara mála, eftir því hvað sjóðurinn fékk miklar tekjur. Útvegsmönnum hefur verið ljóst, að þessi trygging hefur ekki verið nema mjög takmörkuð, og Þeir hafa verið á móti því að greiða mjög hátt gjald til trygginganna, jafnvel Þó að ríkissjóður greiddi sinn helming á móti.

Það er skoðun mín enn í dag. Ég er á móti því að hækka framlag bátaflotans í deildir hans frá því, sem verið hefur. Ég er algerlega á móti því. Ég veit, að með því að hækka framlögin væri að vísu hægt að breyta þessu tryggingakerfi og gera það enn þá víðtækara. En til þess að hægt sé að fara út í slíkt, þarf að vinna allmikið verk, sem hefur ekki verið unnið að, Þarf að gerbreyta bótakerfinu, því að það dugir ekki bara að safna fé í sjóðinn, ef það er ekki greitt út aftur, þegar áföll verða. þó að iðgjöld bátaflotans í almennu deildina, í þorskveiðideildina svonefndu, hafi ekki verið nema 0.5% af fob-verði afurðanna og framlag ríkissjóðs jafnmikið á móti, þá hefur útkoman eigi að síður orðið sú á 12 ára tímabili, sem sjóðurinn hefur starfað, að allar bætur úr sjóðnum hafa úr þessari deild, almennu deildinni, numið 32 millj. kr., en eignir sjóðsins nú í árslok voru nærri 40 millj. kr., og eignirnar voru fullar 30 millj, kr. miðað við gamla gjaldið, þó að maður sleppi þeirri hækkun, sem þessi deild fékk vegna setningar brbl. frá s.l. sumri. Á meðan ástandið var þannig, var engin ástæða til að fara að hækka álögurnar á bátaflotann í landinu til þessa sjóðs, nema þá að gerbreyta bótagreiðslunum. Það gat því vitanlega aldrei verið um það að ræða að snuða þennan sjóð neitt, nema þannig hefði verið að farið, að ríkissjóður hefði ekki greitt sinn hluta á móti því, sem útvegsmenn greiddu í sjóðinn. Og það er fyrst núna, Þegar Þessi hv. Þm. gerist talsmaður breytingarinnar, sem það gerist, að það á að fara að snuða sjóðinn. Það á að breyta því tryggingakerfi, sem hér hefur verið í gildi, það á að breyta grundvelli hlutatryggingasjóðs, það á að segja við útvegsmenn: Þið skuluð borga helmingi meira í sjóðinn en ríkið leggur á móti. — Nú er verið að byrja að snúða Þá, sem hafa byggt upp þennan sjóð, en þeir voru ekki snuðaðir, á meðan ríkið lagði jafnmikið fram og þeir kusu að leggja í sjóðinn sjálfir.

Það er rétt, að Þegar efnahagsráðstafanirnar voru gerðar í maímánuði 1958 og 55% yfirfærslugjaldið var samþykkt, þá kom auðvitað til álita, hvort ætti raunverulega að hækka álögurnar á bátaútveginn í landinu til þessa sjóðs frá því, sem áður var, og Þar með greiðslur ríkissjóðs til sjóðsins. En niðurstaðan varð sú, eftir að samráð hafði verið haft við útvegsmenn, að Það þótti ekki ástæða til þess að fara að hækka gjöldin á útveginum í þessum efnum.

Ég hef alltaf litið á hlutatryggingasjóð bátaútvegsins Þannig, að Þar er aðeins um að ræða ákveðið tryggingaform, sem hefur verið byggt upp á Þessum meginreglum, að Þeir, sem trygginganna eiga að njóta, leggja helming fram af tekjum sjóðsins, ríkissjóður leggur fram hinn helminginn, og svo er það þeirra, sem hér eiga hlut að máli, að ákveða, hversu stórt og viðamikið þeir vilja hafa þetta tryggingakerfi, hvað maður vill raunverulega tryggja sig mikið. Það má auðvitað öllum vera ljóst, að þegar það er ákveðið, eins og gert er í þessu frv., að hækka greiðslur bátaútvegsins í landinu til almennu deildar hlutatryggingasjóðs úr 0.5% upp í 1.25%, eða sem sagt meir en tvöfalda gjaldið til sjóðsins, án þess að gert sé ráð fyrir Því að auka bótagreiðslurnar nokkurn skapaðan hlut, og það á þeim tíma, þegar deildin stóð þannig, að hún átti um 40 millj. kr. í sjóði, en hafði ekki greitt bætur á 12 ára tímabili nema 32 millj. kr., þá leggur enginn þetta til nema sá, sem er að framkvæma ákveðna skattlagningu. Hann er að afla sér tekna í ákveðnu augnamiði, og það vita allir, til hvers hér er verið að leggja ákveðinn skatt á bátaútveginn í landinu. Það á að taka skattinn og færa hann yfir sem stuðning til togaraútgerðarinnar.

Hitt er svo auðvitað allt annað mál, ef menn vilja viðurkenna þessa staðreynd, sem er auðvitað alveg augljós, að ræða það, hvort það sé ástæða til þess eða hvort það sé sanngjarnt út af fyrir sig að leggja tiltekið gjald á bátaflotann í landinu til stuðnings togaraútgerðinni. Það reyndi einnig hv. frsm. meiri hl. sjútvn. að gera hér. Hann reyndi að hleypa rökum undir Það, að togaraútgerðin hefði stundum áður á beinan og óbeinan hátt veitt bátaútgerðinni fjárhagslegan stuðning og því ætti hún raunverulega inni hjá bátaútgerðinni og af því mætti raunverulega það til sanns vegar færa, að bátaútvegurinn yrði nú skattlagður vegna togaranna. Og hv. frsm, meiri hl. sjútvn. færði hér fram tvö atriði máli sínu til stuðnings. Annað var það, að togaraútgerðin hefði þurft að borga ákveðið gjald á ári hverju til Fiskveiðasjóðs Íslands, sem raunverulega væri lánasjóður bátaútvegsins í landinu. Það er allmikið til í þessu, þó að hann hafi ekki skýrt að mínum dómi fullkomlega rétt frá. Fiskveiðasjóður er ekki takmarkaður við það eingöngu að vera lánasjóður bátaútvegsins. Það er misskilningur. En það er rétt, að yfirgnæfandi meiri hl. af lánum sjóðsins hefur gengið til bátaútvegsins, og það er beinlínis tekið fram í lögum sjóðsins, að lán til fiskibátakaupa skuli ganga fyrir öðrum lánum, ef sjóðinn vantar fé. En sjóðurinn hefur á undanförnum árum veitt allmikil lán til annarra framkvæmda, sem togaraútgerðin í landinu hefur orðið aðnjótandi eins og aðrir. Þannig hefur t.d. fiskveiðasjóður á undanförnum árum lánað talsvert til byggingar fiskverkunarstöðva og í ýmsum tilfellum beinlínis togaraútgerðarfélögum í landinu, sem voru að byggja fiskverkunarstöðvar, hann hefur lánað þeim sín hæstu lán. Ég minnist þess t.d., að fiskveiðasjóður lánaði eitt hæsta lán, sem hann hafði þá veitt til annars en til báta, til bæjarútgerðarinnar í Reykjavík, stærsta togaraútgerðarfélagsins í landinu, sem þá var að byggja hér mjög myndarlega fiskverkunarstöð. Og svona má auðvitað nefna mörg fleiri dæmi. En eigi að síður, þá er ég á því, að togaraútgerðin hafi greitt miklu meira til fiskveiðasjóðs á undanförnum árum í þessu gjaldi, sem togararnir hafa greitt af sínum útflutningi til sjóðsins, heldur en togaraútgerðin hefur aftur fengið frá sjóðnum í lánum. Þar hefur hallað á togaraútgerðina. Þetta hef ég bent á hér á Alþ. nokkrum sinnum áður, og ég hef beinlínis flutt um það till. hér á Alþ. að fella þetta gjald af afurðum togaranna niður. Ég hef álitið, að það væri eðlilegt. Það hefur hins vegar ekki fengizt samþ. hér. Ég álít, að það væri eðlilegt, eins og á málunum hefur verið haldið, að fella þetta gjald af togaraafurðunum til fiskveiðasjóðs niður hreinlega. En hér er ekki um neinn stóran hlut að ræða, og ég tel vitanlega þetta form, sem þarna hefur verið á, ekki á nokkurn hátt réttlæta þær tillögur, sem felast í þessu frv. til skattlagningar á bátaútgerðina í landinu til stuðnings togaraútgerðinni.

Hitt atriðið, sem hv. frsm. meiri hl. sjútvn. nefndi hér um það, að togaraútgerðin hefði greitt í sjóði bátaútvegsins, var um fiskimálasjóð. Þar álít ég, að hv. þm. hafi farið gersamlega rangt með. Fiskimálasjóður hefur ekki starfað á undanförnum árum fremur sem sjóður bátaútvegsins en togaraútgerðarinnar. Fiskimálasjóður hefur veitt styrki jafnt í þágu togaraútgerðarinnar sem bátaútvegsins á undanförnum árum. Hann hefur t.d. veitt mjög verulega styrki til tilraunastarfsemi beinlínis á vegum togaraútgerðarinnar. Hann hefur lagt fram í nokkur ár allálitlega upphæð til auglýsingastarfsemi á erlendum vettvangi fyrir sjávarvöruframleiðslu, og það vitanlega gildir jafnt fyrir togarana sem bátana. Og hann hefur veitt sín viðbótarlán jöfnum höndum út á fiskvinnslustöðvar og verkunarstöðvar, ísframleiðslukerfi o.s.frv. á vegum togarafélaganna í landinu sem á vegum bátanna. En fiskimálasjóður hefur ekki veitt lán til bátakaupa fremur en til togarakaupa: Ég álít því um þetta litla gjald, sem fiskimálasjóður hefur fengið, sem er auðvitað sáralítið gjald, að þar hafi ekkert hallað á togarana, þar hafa þeir aðeins staðið undir sínum hluta til jafns við bátana og ekkert annað.

Þessi dæmi, sem hv. þm. nefndi hér, þau réttlæta ekki á neinn hátt að taka upp það kerfi, sem lagt er til í þessu frv., að blanda saman tryggingakerfi bátanna og togaranna í landinu á þann hátt, sem hér er gert. Ég tel einmitt, að höfuðgallar þessa frv., sem hér liggur fyrir, séu þeir, að það er verið að blanda saman aflatryggingu togaranna og bátaútvegsins í landinu. Þetta er röng aðferð og ósanngjörn. Það hefur þótt fram til þessa nauðsynlegt meira að segja að halda algerlega sundurgreindum hinum einstöku útgerðarþáttum bátaflotans, þannig að síldveiðideild bátaútgerðarinnar væri algerlega sér og fráskilin hinni almennu deild bátanna, þorskveiðideildinni, því að það eru ekki í öllum tilfellum sömu aðilarnir á hverju ári, sem skipti eiga við hvora deild fyrir sig. Þetta álít ég vera rétt. Ég álít, að það sé rétt, að öll þau skip, sem ganga á síldveiðar á hverju ári, greiði tiltekinn skatt til síldveiðideildarinnar og eigi þá tilkall til að fá bætur, ef illa tekst til, úr þessari síldveiðideild. Sömuleiðis álít ég það vera rétt kerfi, að bátafloti landsmanna standi að einni þorskveiðideild; þannig að allir bátarnir, sem gerðir eru út á þorskveiðar, verði að greiða ákveðið gjald í þorskveiðideildina, og ef aflabrestur verður, þá geti bátarnir, þeir sem hafa greitt í þessa deild, fengið sínar bætur þaðan. Nákvæmlega á sama hátt teldi ég eðlilegast, að sett hefði verið upp þriðja deildin fyrir togaraútgerðina í landinu og hún hefði sjálf greitt gjald í þá deild, auðvitað með mótframlagi ríkissjóðs, eins og ríkissjóður greiðir á móti bátaútgerðinni í deild bátaútgerðarinnar, og togararnir einir síðan vitanlega átt bótakröfu á þessa deild togaranna. En ef tekin er upp hin leiðin, að þessu er meira og minna ruglað saman með millifærslu á þann hátt, sem lagt er til í þessu frv., þá er maður fljótlega kominn út á þá braut, að vel getur svo farið, að einn þáttur útgerðarinnar sé raunverulega mikið til að staðaldri skattlagður til þjónustu við aðra grein útgerðarinnar. En það ber að forðast slíkt.

Ég er nú rétt að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Ég hef hér í umr. um þetta mál, bæði við 1. umr, og eins nú, gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og þarf ekki að ræða hér um það öllu meir, nema sérstakt tilefni gefist til. Ég er í öllum aðalatriðum samþykkur þeim till., sem hér hafa verið fluttar af minni hl. sjútvn., en ég tel illa farið, ef þannig verður farið með hlutatryggingasjóð bátanna, sem gert er ráð fyrir í till. meiri hl. og í frv. sjálfu. Og ég hygg líka, að hæstv. ríkisstj. verði að viðurkenna það, að till. þær, sem felast í frv., geti ekki leyst vandamál togaraútgerðarinnar til neinnar frambúðar. Það er meira að segja vafasamt, þó að togaraútgerðin fái þær 60 millj. kr., sem gert er ráð fyrir samkv. frv. vegna rekstrarins á árinu 1960 og 1961, að útgerð togaranna verði haldið áfram nú á þessu ári þrátt fyrir það. En vegna Þess álít ég, að ríkisstj. verði að hugleiða það betur að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem megi verða að gagni til frambúðar vegna togaranna, og svo einnig vitanlega að endurskoða þá afstöðu sína að ætla að eyðileggja að meira eða minna leyti það tryggingakerfi, sem byggt hefur verið upp fyrir bátaflotann í landinu og hefur komið bátaflotanum að verulegu gagni á undanförnum árum.