30.03.1962
Neðri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvmrh (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Afstaðan til þessa frv. hjá meiri og minni hl. hv. sjútvn, liggur nú svo ljós fyrir, að ég tel ekki ástæðu til, að ég fari um það neinum fleiri orðum en frsm. meiri hl. gerði hér áðan. En það eru aðeins nokkur atriði, sem mig langaði til að minnast á, sem komu fram í ræðu hv. siðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Austf.

Í fyrsta lagi sagði hann, að ég hefði neitað að leggja fyrir niðurstöður þeirrar nefndar, sem athugaði ástand togaranna og starfaði s.l. sumar. Þetta er ekki nákvæmlega frá sagt og raunar rangt, því að það, sem ég neitaði að gera, það var að leggja fram skýrslu nefndarinnar. Niðurstöður n. liggja alveg ljósar fyrir, þær get ég afhent, hvenær sem er, þ.e.a.s. ekki í sjálfri skýrslunni þó, því að í skýrslunni er skýrt frá afkomu einstakra, nafngreindra togarafyrirtækja, en þær upplýsingar eru gefnar n. sem trúnaðarmál, og ég get ekki látið þær fara frá mér til annarra en upphaflega hafði verið ákveðið, þegar þessar upplýsingar voru gefnar. En sjálfar niðurstöðurnar get ég upplýst hvenær sem er og hef raunar gert. Þær voru þær, að togararnir þyrftu til þess að mæta sínum halla 1960 og 1961 að fá um það bil 3 millj. kr., til þess að standast þessi áföll, og þessar 3 millj. kr. eru hugsaðar veittar þannig, að samkv. þessu frv. fái hver togari í kringum hálfa aðra millj., en með vátryggingargreiðslunum fá togararnir aðra hálfa aðra milljón á skip.

Annað atriði, sem ég vildi minnast á, sem þessi sami hv. þm. sagði, var viðvíkjandi framlaginu fyrir árið 1960, þ.e.a.s. útgáfu skuldabréfanna, sem sjóðnum er ætlað að hafa með höndum og eiga að vera til 5 ára, en endurgreiðast af ríkissjóði á 15 árum. Hann taldi, að með þessari ráðstöfun væri fé sjóðsins bundið, þannig að hann yrði ekki starfshæfur, eins og gert er ráð fyrir að hann geti verið og eigi að vera. Það hefur ekki komið fram í þessum umr., sem ég skal upplýsa hér, að þetta er ekki svo, því að það hefur verið komizt að samkomulagi við Seðlabankann um það, að hann taki að sér að innleysa skuldabréfin og að ríkissjóður endurgreiði honum á 15 árum, þannig að það er ekkert fé frá aflatryggingasjóði tekið með þessari ráðstöfun, heldur hefur Seðlabankinn fallizt á það að innleysa bréfin, og ríkissjóður greiðir þau á 15 árum. Það er þess vegna alveg gefið, að sjóðurinn þarf ekki um þetta að hugsa og útvegsmenn missa einskis í við þetta, ef Seðlabankinn annast um fyrirgreiðsluna.

Þriðja atriðið, sem ég vildi minnast á og kom fram hjá þessum sama hv. þm., er spurningin, sem hann varpaði fram og var eitthvað á þessa leið: Geta þau skip fengið styrk, sem ráku útgerð 1960, en voru hætt að reka útgerð á árinu 1961? — Ég held, að spurningin hafi verið eitthvað á þessa leið. En þessu er raunverulega svarað í bráðabirgðaákvæði laganna, þar sem segir, að stjórn aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins skuli gefa út skuldabréfin og þau skuli veitt samkv. nánari ákvörðun sjóðsstjórnar og ráðuneytis, þannig að ég tel mig ekki hafa neitt umboð til þess að svara á þessu stigi málsins, hver háttur verður á þessu hafður, heldur verði það að vera verkefni væntanlegrar sjóðsstjórnar og ríkisstj., þegar þar að kemur. Hann spurði líka, hvort þessu yrði skipt jafnt á milli skipa. Því er ekki heldur hægt að svara af sömu ástæðum, en ég vil geta þess, að fulltrúar togaraeigenda hafa meir hallazt að því, að þessu yrði skipt jafnt á milli skipa, heldur en það fylgdi reglum aflatryggingasjóðsins um skiptinguna, og raunar hefur FÍB farið fram á það, að aðstoðinni fyrir 1961 yrði líka skipt á sama hátt, þó að það hafi ekki verið tekið til greina. En ég skal líka geta þess, að aðrar þjóðir, t.d. Englendingar, sem hafa farið út í að veita ákveðinn styrk til togaranna vegna þeirra tjóna, sem þeir hafa orðið fyrir við að missa sín fiskimið, sem náttúrlega eru að verulegu leyti þau sömu sem íslenzku togararnir hafa misst, sá styrkur er miðaður við ákveðna upphæð á úthaldsdag, hvort sem togarinn fiskar mikið eða lítið, þannig að fordæmalaust væri það ekki, þó að þessu væri skipt jafnt á milli togaranna.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fara út í að ræða málið nánar þrátt fyrir þessar löngu og ýtarlegu ræður, sem hér hafa verið haldnar, þar sem hvor aðilinn hefur gert grein fyrir sínu sjónarmiði. Og út af fyrir sig er ekkert nema gott um það að segja, að það komi fram. Það er meiningarmunur, sem hefur verið rökstuddur af báðum aðilum, og ég hef þar ekki við að bæta.