02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Megintilgangur þessa frv. er að tryggja rekstur togaraútgerðarinnar, sem hefur staðið mjög höllum fæti að undanförnu. Að sjálfsögðu eru allir sammála um, að slíkar ráðstafanir séu gerðar og hefðu reyndar átt að gerast fyrr, eins og sést bezt á því, að á seinasta ári mun allt að þriðjungur togaraftotans hafa legið til jafnaðar og af því að sjálfsögðu hlotizt stórfellt tap fyrir þjóðarbúið. Þess vegna er það ekki vonum fyrr, að hafizt sé handa um slíka ráðstöfun eins og þessa. Hitt er svo spurningin, hvort þær aðgerðir til stuðnings togaraútgerðinni, sem felast í þessu frv., séu fullnægjandi. Nú er hv. þm. kunnugt, að um þriggja vikna skeið er búin að standa yfir deila á togurunum um kaup og kjör, með þeim afleiðingum, að flestir togaranna eru nú bundnir og hafa ekki verið á veiðum margir hverjir um allmargra daga skeið. Þær fréttir hafa menn helzt af þessari deilu, að það miði lítið í samkomulagsáttina og útgerðarmenn láti þá skoðun uppi, að þeir telji sér ekki fært að veita sjómönnum þær tiltölulega litlu lagfæringar, sem þeir hafa farið fram á á sínum kjörum, nema því aðeins að rekstrargrundvöllurinn verði bættur verulega frá því, sem nú er, og að því er manni skilst, heldur meira en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Mér finnst, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. þd. að hafa upplýsingar um það, áður en frv. fer frá deildinni, hvort það er mat hæstv. ríkisstj., að þær ráðstafanir, sem í þessu frv. felast, séu nægilegar til að tryggja útgerðinni þann rekstrargrundvöll, að hægt verði að leysa þá kjaradeilu, sem nú stendur yfir á togurunum, en það er að sjálfsögðu mesta nauðsynjamál, ekki aðeins þeim, sem að þessum atvinnuvegi starfa, heldur þjóðinni allri, að togararnir verði ekki bundnir í höfn til langframa. Ég vildi þess vegna beina þeirri fyrirspurn til hæstv. sjútvmrh., hvort það er hans mat á þessu frv., að ef það nái fram að ganga, þá sé búið að leysa mál togaranna á þann veg, að líklegt sé, að sú deila geti leysist, sem nú stendur yfir á milli sjómanna og útgerðarmanna á togurunum.

Ég vildi enn fremur beina þeirri fyrirspurn til hæstv. sjútvmrh., ef hann teldi ekki felast næga tryggingu í þessu frv. fyrir því, að togaradeilan leystist, hvaða ráðstafanir aðrar ríkisstj. hefði þá í huga til að skapa togurunum viðunandi rekstrargrundvöll. Að sjálfsögðu eru til ýmsar fleiri leiðir en sú, sem einkum er bent á í þessu frv., og ég vil minna á það í þessu sambandi, að þegar hér var til 1. umr. á s.l. hausti frv. um ráðstafanir vegna gengislækkunar, þá benti hv. 1. þm. Vestf. á nokkrar ráðstafanir, sem hann taldi unnt að gera til þess að bæta rekstrarafkomu togaranna. Ég hygg, að sumar af þessum till. hv. þm. hafi verið þannig fallnar, að þær komi mjög til athugunar, eins og þær, að létta ýmsum gjöldum, eins og útflutningsgjöldum, af togaraútgerðinni, meðan hún býr við versta afkomu, eða þá að lækka tolla á innflutningsvörum, sem hún þarf að nota. Aðrar ábendingar hv. 1. þm. Vestf. hygg ég að hafi verið fjarstæðukenndar, eins og þær, að það væri hægt að stytta hvíldartímann á togurunum og fækka sjómönnum, sem þar starfa. En ég álít hins vegar, að aðrar till. hans hafi verið þess eðlis, að það væri eðlilegt, að þær væru teknar til athugunar, ef hæstv. ríkisstj. lítur svo á, að það felist ekki nægileg trygging í þessu frv. fyrir því, að togaraútgerðin fái viðunandi rekstrargrundvöll.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að sinni. En það, sem ég vildi spyrja hæstv. sjútvmrh. um, er í fyrsta lagi, hvort það sé hans mat, að í þessu frv. felist nægileg trygging fyrir því, að unnt verði að leysa togaradeiluna, að togaraútgerðinni verði skapaður sá rekstrargrundvöllur, sem til þess Þarf. Og í öðru lagi, ef það er mat hans og hæstv. ríkisstj., að svo sé ekki, hvaða ráðstafanir aðrar hyggst þá ríkisstj. gera til að leysa togaradeiluna og tryggja rekstur togaraútgerðarinnar?