02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Tilgangurinn með þessu frv. er augljós. Hann er að aðstoða togaraútgerðina á þann hátt að hækka hlutatryggingasjóðsgjaldið um það bil um helming, og 50% af framlaginu er tekið í þennan jöfnunarsjóð, sem á að vera til þess að hjálpa þeirri grein sjávarútvegsins, sem helzt þarf þess með, og við vitum, að bak við það liggur hugmyndin um að aðstoða togaraútgerðina, því að hún er álitin vera mest hjálparþurfi nú.

Ég er á engan hátt á móti því að aðstoða togarana og tel það eðlilegt, en ég er á móti því að hækka hlutatryggingasjóðsgjaldið. Ég vil ekki taka undir það, sem kom fram hjá 7. þm. Reykv. hér í ræðu, að það sé svo ákaflega áríðandi að hraða samningum við togarana. Ég held einmitt, að það sé hagkvæmt fyrir þjóðarheildina, að þeir hvíli sig a.m.k. fram yfir vertíðarlokin, því að þeir munu fyrst og fremst veiða þar, sem hrygningarfiskurinn er að ganga til landsins, en það mun draga úr bátaveiðinni, og ég efast um, að heildarveiðimagn landsmanna verði minna, þó að togararnir hvíli sig þennan mánuð, sem nú er byrja. Við vitum, að það eru bátarnir, sem skapa aðalvinnuna í landi. Ég gæti vel trúað, að ef tíðarfarið væri gott, þá yrði aflamagnið engu minna, þó að togararnir lægju, og landvinnan meiri, þannig að það mundi sparast rekstrarkostnaður togaranna og verða aukin landvinna einmitt fyrir það, að þeir hvíla sig þennan mánuð. Ég hygg, að ríkisstj. verði heppin með það eins og annað, að ekki verði samið fyrr en eftir vertíðarlokin. En það er nú aðeins tímaspursmál og kemur í raun og veru ekki þessu frv. við.

Maður skyldi ætla, að þessar ráðstafanir væru gerðar í samráði við útgerðarmennina sjálfa. Ég fór því ofan í Landssamband í morgun og átti tal bæði við framkvæmdastjóra Landssambandsins og eins skrifstofustjóra hjá togaraeigendum, og báðir sögðu mér, að þeir hefðu engu ráðið um þessa hluti. Ég fékk afrit af bréfi, sem Landssambandið sendi nefndinni, þegar spurzt var fyrir um þetta. í fyrsta lagi er þar birt till., sem samþ. var á aðaifundi L.Í.Ú. í vetur, þar sem lögð var áherzla á það, að deildunum væri haldið algerlega aðskildum, og lagt á móti jöfnunardeildinni, og svo segir áfram í bréfi frá L.Í.Ú.

„Á undanförnum árum hefur aðalfundur L.Í.Ú. þráfaldlega gert samþykktir um nauðsyn þess, að lögin um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, nr. 48 25. maí 1949, verði endurskoðuð með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur af starfsemi sjóðsins þau ár, sem hann hefur starfað. Telur stjórn L.Í.Ú., að framangreint frv. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins sé ekki viðhlítandi endurskoðun þeirra laga, sem nú eru í gildi um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins. Stjórn L.Í.Ú. telur rétt, að þeirri skipan verði haldið, sem felst í ofangreindri ályktun aðalfundarins, að deildir sjóðsins verði aðeins þrjár, þ.e. síldveiðideild, almenn bátadeild og almenn togaradeild. Um réttindi skipa í hverri deild fyrir sig fari eins og frv. gerir ráð fyrir. Tekjur deildanna, hverrar um sig, verði sem hér segir:

Síldveiðideild: ákveðinn hundraðshluti af fob-verði útfluttra síldarafurða og auk þess jafnhátt framlag frá ríkissjóði. Almenn bátadeild: ákveðinn hundraðshluti af fob-verði útfluttra þorskafurða bátaflotans og auk þess jafnhátt framlag frá ríkissjóði. Almenna togaradeildin: ákveðinn hundraðshluti af fob-verði útfluttra þorskafurða togaraftotans og auk þess jafnhátt framlag frá ríkissjóði.

Geti einhver hinna þriggja deilda eigi gegnt hlutverki sínu í samræmi við tilgang sjóðsins vegna fjárskorts, telur stjórn L.Í.Ú. eðlilegt, að hinar deildir sjóðsins hlaupi undir bagga með lánveitingum, séu Þær þess umkomnar, og verði slík lán frá einni deild til annarrar einungis veitt gegn ríkisábyrgð á láninu, svo sem verið hefur með deildir hlutatryggingasjóðs. Þá telur stjórn L.Í.Ú. eðlilegt, eins og áður var, að framlag ríkissjóðs nemi jafnhárri upphæð og tekjur sjóðsins nema af útflutningsgjöldum af afurðum togara og báta.

Á hinn bóginn telur stjórn L.Í.Ú. það hæpna ráðstöfun að hækka gjöld af útfluttum sjávarafurðum til sjóðsins, þótt það gangi til uppbyggingar hans, vegna hinnar erfiðu afkomu sjávarútvegsins. Telur stjórn L.Í.Ú. slíka hækkun raunar óþarfa, þegar á það er litið, að hlutatryggingasjóður, almenna deildin og síldveiðideildin, á pr. 31. jan. 1962 samtals um 23 millj. kr. skuldlausa eign auk þess, sem sjóðurinn hefur þau 13 ár, sem hann hefur starfað, greitt í bætur til bátanna sem nemur tugmilljónum kr., og er ástæðulaust að ætla, að byrðar sjóðsins verði þyngri í framtíðinni en verið hefur undanfarin 13 ár, ef farið yrði að tillögum vorum. Þau einu rök geta verið fyrir hækkun gjaldsins, að hlutatryggingasjóður skuli í framtiðinni bera þyngri byrðar en hann hefur gert til þessa, og þá er spurningin: Hverjar eru þær byrðar?

Ef hugmyndin er sú, að vandræði þau, sem nú steðja að íslenzkri togaraútgerð, verði leyst með lögfestingu Þessa frv., vill stjórn L.Í.Ú. benda á, að miðað við þá reglu, sem gilt hefur um ákvörðun meðalveiðimagns skipanna undanfarin ár, verður naumast um mikla aðstoð til togaranna að ræða úr sjóðnum. Verði sú regla hins vegar brotin með því að lögfesta ákvæði 4. tölul. 4. gr. frv., þar sem segir: Meðalveiðimagn þetta skal fundið með hliðsjón af aflamöguleikum, er öllum grundvelli kippt undan starfsemi sjóðsins, því að naumast verður önnur regla látin gilda um báta en togara í þessu efni. Stjórn L.Í.Ú. mótmælir því harðlega, að framangreint ákvæði verði lögfest, og leggur eindregið til, að það verði tekið út úr frv.

Þá telur stjórn L.Í.Ú. nauðsynlegt, að upp í frv. verði tekið ákvæði um, að aldrei megi ganga á upphaflegt stofnfé sjóðsins, a.m.k. eins og það var ákveðið með l. nr. 48 frá 1949, um hlutatryggingasjóð. Stjórn L.Í.Ú. telur brýna nauðsyn til þess, að fundin verði eðlileg leið til þess að leysa vandamál Íslenzkrar togaraútgerðar, og telur, að það mál þoli nú enga bið lengur. Hins vegar telur stjórnin þetta frv. á engan hátt leysa vandamál þau, sem íslenzk togaraútgerð á við að etja, og telur raunar óeðlilegt, að blandað sé saman sérstökum, tímabundnum ráðstöfunum vegna vandræða togaraútgerðarinnar og endurskoðun laga um aflatryggingasjóð fyrir útveginn í heild.“

Framangreindar aths. eru umsögn bátadeildar stjórnar L.Í.Ú. En Félag ísl, botnvörpuskipaeigenda hefur í öðru bréfi gefið umsögn um frv. Þetta er því umsögn frá stjórn L.Í.Ú., bátadeildarinnar, og þetta eru þeir trúnaðarmenn, sem bátaútvegsmenn hafa falið að gæta hagsmuna sinna. Og í þessu bréfi koma fram ákveðin mótmæli gegn því, að Þetta frv. verði samþ. Það er lögð alveg sérstök áherzla á það ákvæði í l., að meðalveiðimagn skuli fundið með hliðsjón af aflamöguleikum, vegna þess að það er ekki hægt að finna meðalveiðimagn með hliðsjón af aflamöguleikum, af því að það veit enginn, það er gersamlega útilokað að segja rétt um það, hverjir aflamöguleikarnir hafi verið. Ég tel það dálítið hæpna ráðstöfun að hespa þetta frv. hér í gegn í algerri andstöðu við þá menn, sem það snertir aðallega.

Það er sagt í grg. frá meiri hl. n., sem um þetta fjallaði, að á það beri þó að líta, að fleira hafi verið gert þessum atvinnuvegi til hjálpar en það, sem felst í frv. þessu. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að greiða að fullu tryggingaiðgjöld fyrir árin 1960 og 1961, og er þar um að ræða 70 millj. kr. samtals. Þessar ráðstafanir voru gerðar þannig, að útvegurinn borgaði þetta sjálfur. Ríkisstj. þarf ekki að telja þessa upphæð eftir. Þetta fé er allt tekið af útveginum sjálfum, leifarnar af útflutningssjóðnum og svo nýtt gjald, sem útvegsmenn tóku á sig.

Viðvíkjandi því, að togararnir eigi hjá bátunum, að af aflaverðmæti togaranna hafi verið tekið til fiskveiðasjóðs, þá vil ég benda á, að í gengismismun s.l. ár var tekið um 150 millj. af útveginum í heild til þess að greiða ábyrgðir fyrir ríkissjóð, 13 millj. fóru reyndar í að ljúka við tryggingaiðgjöldin frá fyrra ári. Þetta er a.m.k. eins mikið, ef ekki meira fé en togararnir hafa greitt í fiskveiðasjóðinn. Og þetta fé er að mestu notað til þess að greiða ábyrgðir fyrir togarana. Eftir því sem hæstv. fjmrh. upplýsti hér í umr., þá er búið að greiða ábyrgðir fyrir togara um 130 millj. kr. alls eða nálægt því, þannig að ég sé ekki annað en bátarnir hafi á þann hátt endurgreitt þetta.

Nú má vel vera, að togararnir hafi verið órétti beittir, þegar bátagjaldeyrislögin voru í gildi. En þá er það þjóðfélagsins í heild að endurgreiða það, en ekki bátanna einna. Ég er því algerlega sammála því, sem kemur fram í bréfi frá L.Í.Ú., að mótmæla því, að hlutatryggingagjöldin séu hækkuð. En fyrir mitt leyti get ég vel fallizt á það, ef hlutatryggingagjaldið verður látið standa í stað, að einhver hluti af því væri notaður til að hjálpa togurunum, því að það skal ég játa, að togaraeigendur reyndust vel í landhelgismálinu. Þeir tóku þátt í þeirri baráttu, og þeir urðu fyrir tjóni af því, og ég vildi gjarnan bæta það. En ég álít, að það sé hægt að bæta það án þess að hækka hlutatryggingasjóðsgjaldið, og væri hægt fyrir bæði fiskideild bátaflotans og síldveiðarnar að gera það, vegna þess að ég er í miklum vafa, hvort það er skynsamleg leið, sem á að fara samkv. þessu frv., að styrkja þá, sem minnst veiða, eða m.ö.o. að verðlauna skussana, því að það er ekki verið annað að gera.

Það er sagt hér í frv., að ef aflamagnið er ekki nema 45%, þá geti þeir vænzt þess að fá 40% úr hlutatryggingasjóði. Og við höfum a.m.k. aldrei úthlutað til skipshafna því, sem greitt hefur verið úr hlutatryggingasjóði. Bátur, sem veiðir 45% á síldveiðum og fær svo 40% af því, sem á vantar meðalveiði, fær nokkurn veginn jafnmikið og hann hefði veitt meðalveiðimagn, því að það fara um 56% í kaupgjald af síldveiðiskipunum. Og á þennan hátt getur verið hreinn hagnaður að taka lífinu rólega og kosta litlu til, hafa ekki dýrar nætur og yfirleitt að stilla kostnaði í hóf, ef á annað borð er ekki að tala um meira en meðalveiði. Það er því með þessu verið að verðlauna skussana. Ég hef sjálfur orðið var við, að þetta hefur verið misnotað í stórum stíl á þann hátt, að bátarnir hafa verið skráðir, en ekki gerðir út allan tímann. Það er engin trygging fyrir, að það verði ekki gert gagnvart þorskveiðideildinni, þannig að þetta er ákaflega vafasöm leið að ætla að verðlauna þá, sem lítið veiða, eða réttara sagt að bæta þeim það upp, því að þeir, sem geta ekki rekið sinn útveg á skynsamlegan hátt og aflað vel, þeir eru ekki hæfir til að gera út, og þá þarf að koma skipunum í hendur þeirra manna, sem kunna betur með þau að fara og afla meira. Þar fyrir er ég ekki algerlega mótfallinn því, að hlutatryggingasjóður sé til, en það má ekki misnota hann í þeim tilgangi að verðlauna skussaháttinn.

Ég vildi skýra mína afstöðu. Ég vildi benda á það, að með þessu orðalagi, sem L.Í.Ú. bendir á, að meðalveiðimagn skipa í hverjum flokki fyrir sig eftir því, á hvaða svæði skipin veiða, hvaða tíma árs þau veiða og hvaða veiði þau stunda, að meðalveiðimagn þetta skal fundið með hliðsjón af aflamöguleikum, að þetta er alveg sama og að fá sjóðsstjórninni algert sjálfsvald, hve mikið og hvernig hún úthlutar af þessu fé, af því að þetta er ekki framkvæmanlegt og er þess vegna vitleysa. Ég hef bent á mína afstöðu í þessu máli. Ég er á móti hækkun hlutatryggingaiðgjaldanna, en gæti gjarnan fallizt á, ef þau væru eins og þau hafa verið, að einhver hluti af þeim gengi til aðstoðar togurunum í bili. Og ég játa, að það er rétt að hjálpa togurunum, en það er einnig rétt að vinna að því, að þeim sé fækkað, ef þeir reynast óhentugri atvinnutæki en bátarnir.

Ég hef bent á þetta atriði, sem L.Í.Ú. leggur höfuðáherzlu á að ekki er raunhæft, á hvern hátt eigi að úthluta þessu fé. Og ég hef einnig bent á, að það er ákaflega vafasamt að setja þessi lög í algerri andstöðu við þá menn, sem eiga við þau að búa, því að þetta snertir vitanlega svo að segja eingöngu bátaútvegsmenn. Ég held, að það sé óskynsamleg leið. En þetta er í samræmi við þá stjórnarstefnu, sem rekin er. Hæstv. ríkisstj. gerir hlutina án tillits til þess, hvað aðrir segja. Þetta getur gengið um tíma. Má vera, að það geti gengið lengi. En ég tel það þó dálítið vafasamt, hve lengi það tekst.