02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls ræddi ég allýtarlega um þetta mál almennt fyrir hönd minni hl. sjútvn. Og ætla ég ekki að bæta við það, sem ég sagði þá almennt um málið, nema sérstakt tilefni gefist til. En ég hef leyft mér að flytja eina brtt. við frv., eins og það liggur nú fyrir. í bráðabirgðaákvæði frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins er heimilt, að fengnu samþykki sjútvmrn., að gefa út skuldabréf allt að 30 millj. kr., og skulu þau notuð til aðstoðar togurunum vegna aflabrests á árinu 1960 samkv. nánari ákvörðun sjóðsstjórnar og ráðuneytisins.“

Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 565 brtt. þess efnis, að aftan við þessa mgr. komi, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er að veita togbátum aðstoð samkv. þessu ákvæði vegna aflabrests á árinu 1960.“ Ég vil taka það fram, að í prentun hefur fallið niður eitt orð í brtt., þ.e.a.s. orðið „aðstoð“, og ég vil mælast til, að það verði leiðrétt, en till. er í endurprentun. Efni till. er sem sé það, að sett verði heimildarákvæði til þess að láta þessa aðstoð einnig ná til togbáta að því er varðar árið 1960. Þessi togbátafloti hér við land er nú ekki mjög stór, en Það er nokkuð langt síðan nokkrir stórir bátar, aðallega á Norðurlandi, tóku upp togveiðar, sérstaklega við Eyjafjörð. Þessar togveiðar þóttu bátum Þessum allvel gefast, þangað til nú síðustu árin, að veiði þeirra hefur farið mjög minnkandi. Ég hef nú ekki í höndum upplýsingar um aflabrögð þessara báta almennt, en t.d. um þetta skal ég skýra hér frá upplýsingum, sem ég hef fengið um aflabrögð eins togbáts við Eyjafjörð, sem hefur stundað þessar veiðar alllengi og yfirleitt aflað í hærra lagi, eftir því sem gerist, ár hvert. Ég hef fengið upplýsingar um aflabrögð þessa báts á togveiðum um fimm ára skeið. Þar eru bæði tölur um fjölda úthaldsdaga og um aflamagn í heild og svo aflamagn pr. togdag, og það er í raun og veru það, sem máli skiptir í þessu sambandi.

Árið 1957 aflaði þessi bátur 7.07 tonn pr. dag, árið 1958 6.11 tonn pr. dag, árið 1959 4.81 tonn pr. dag, 1960 3.27 tonn pr. dag og 1961 2.85 tonn pr. dag.

Af þessum upplýsingum geta hv. þm. gert sér grein fyrir því, að mjög mikil breyting hefur orðið á afla þessa skips, og ég hygg, að þessar tölur séu mjög táknrænar fyrir þá breytingu, sem orðið hefur yfirleitt á aflabrögðum þessara litlu togskipa á Norðurlandi.

Nú finnst mér það sanngjarnt, að í lögunum sé a.m.k. heimild til þess að athuga mál þessarar útgerðar með tilliti til þess, að hún nyti einhvers af þessari aðstoð, sem sjálfsagt yrði ekki mjög mikill hluti, því að þetta eru ekki mörg skip. Það felst ekki í brtt. nein skylda til að láta þessa báta fá aðstoð, heldur aðeins heimild til þess að taka Þá með, og Það virðist mér vera sanngjarnt eftir eðli málsins.

Ég hreyfði þessu máli á fundum sjútvn., a.m.k. einu sinni eða tvisvar fyrir nokkru, en það varð ekki úr því, að n. sinnti þessu máli, enda margt annað, sem athuga þurfti í sambandi við frv., og ég hef dregið það til 3. umr. að flytja þessa brtt., til þess að hv. þm. geti haft tækifæri til þess að athuga hana út af fyrir sig út frá þeim upplýsingum, sem fyrir liggja.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vænti þess, að hv. þm. geti á það fallizt að veita þessa heimild.