02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. lýsti áðan brtt., sem hann flytur við frv. um aflatryggingasjóð nú við 3. umr. og er á þá leið, að heimilt skuli að veita togbátum aðstoð samkv. bráðabirgðaákvæði frv. Hann minntist á það, að hann hefði hreyft þessu í sjútvn., en n. ekki tekið afstöðu til þess. Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að benda á það, sem fram er tekið í nál. meiri hl. sjútvn., að togbátar og minni togskip eiga eftir frv., eins og nú mun vera í lögunum, rétt til bóta úr almennu deild bátaflotans. Og ég held, að ég muni það rétt, að hr. Már Elísson gæfi sjútvn. þær upplýsingar, að komið hefði fyrir, að slíkar bætur hefðu verið greiddar. Það liggur í augum uppi, að sömu skip geta ekki átt aðgang að öllum deildum sjóðsins. Einhvers staðar verður markalínan að vera. Flest togskipin fyrir Norðurlandi ráða mannskap samkv. bátakjarasamningum, og í samræmi við það hafa þau verið flokkuð í sama flokk og vélbátarnir hjá hlutatryggingasjóði.

Þetta vildi ég taka fram í tilefni af framkominni till. og því, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði áðan, og samkv. þessu get ég ekki fyrir mitt leyti mælt með tillögunni.