02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Mig langar til að segja fyrst nokkur orð út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan. Hann vildi, að mér fannst, harma Það, að horfið hefði verið frá hinni gömlu og góðu styrkjaleið og farið yfir á allt aðra leið með tilkomu núv. ríkisstj. Ég held, að hvað sem öðru liður, Þá muni togaraeigendur ekki harma, að það hafi verið horfið frá þessari leið, vegna þess að einmitt þá var togaraeigendum ákveðið verð fyrir sínar afurðir, sem var miklu lægra en Það, sem bátarnir fengu, og að Þeirri verðákvörðun búa togaraeigendur enn. Það er þessi rangláta styrkjaleið, sem hefur orðið mestur þyrnir í þeirra holdi og skapað þeim langmestu erfiðleikana. Hefði ekki verðið til togaraeigenda verið ákveðið fyrir þeirra fisk, alveg nákvæmlega sama fiskinn og bátarnir komu með, miklu lægra en það, sem bátarnir fengu, Þá hefðu þeir vissulega staðið öðruvísi að vígi að mæta Þeim erfiðleikum, sem nú eru á veginum. Og það að breyta til frá þessu styrkjakerfi yfir í það núverandi, þar sem allir standa jafnt að vigi og fá jafnt fyrir sinn fisk, er áreiðanlega til góðs, hvað sem annars kann að verða sagt um muninn á styrkjaleið og þeirri leið, sem nú hefur verið farin.

En það er ekki eins og þetta hafi verið það eina, sem togaraeigendunum hefur verið rétt í höndina á undanförnum árum. Nei, það var vissulega fleira. Það var tekinn af þeim allur möguleiki til að selja fisk í Bretlandi, að vísu ekki fyrir ákvörðun íslenzkra valdhafa beinlínis, heldur sem afleiðing af þeirra ákvörðun. Það fékkst ekki eftir breytinguna á fiskveiðilögsögunni 1952 seldur uggi af fiski á einum okkar bezta markaði, í Englandi, fram til 1956. og allir vita um það, sem síðar hefur gerzt. M.ö.o.: bæði var verðmismunur hafður uppi á togarafiski og öðrum fiski og bezti markaðurinn af togurunum tekinn, og í þriðja lagi beztu aflasvæðin af togurunum tekin með stækkun landhelginnar. Ég held að vísu, að þó að allir séu sammála um, að það hafi verið nauðsynlegt að vernda þessi fiskveiðasvæði fyrir togurum, og þá alveg sérstaklega erlendum togurum, Þá verði ekki fram hjá því gengið, að einmitt með Þessari ráðstöfun hafi togaraútgerðin á Íslandi beðið þann hnekki, sem hún er ekki enn þá búin að jafna sig eftir, og vafasamt, að hún geri Það nokkurn tíma.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki um neina allsherjarlækningu á rekstri togaranna, alls ekki. Þetta frv. fer einungis fram á Það, að togaraeigendunum sé bættur nokkur hluti af þeirri aflarýrnun, sem orðið hefur hjá þeim vegna ráðstafana, sem gerðar hafa verið af íslenzkum stjórnvöldum. Og Þessar bætur eru veittar með því að taka togarana upp í það, sem einu sinni hét hlutatryggingasjóður, en hefur nú verið breytt nafni á og kallað aflatryggingasjóður, til þess að þeir geti þar fengið nokkra bót fyrir þá aflarýrnun, sem þeim hefur verið búin.

Hv. 3. þm. Reykv. vildi láta líta svo út, að hér væri verið að fara inn á styrkjaleiðina á ný, gömlu styrkjaleiðina, sem framkvæmd var hér á síðasta áratugnum. En ég held, að Það sé algert rangnefni að kalla þá úrbót, sem hér er veitt, styrkjaleið, a.m.k. með sama skilningi á því orði og var þá, vegna þess að hér er um það að ræða fyrst og fremst að stofna til tryggingakerfis, sem togararnir njóti góðs af, alveg á nákvæmlega sama hátt og íslenzkir fiskibátar hafa notið þar stuðnings, ekki sem styrks, heldur sem tjónabóta á svipaðan hátt og tryggingafélag greiðir. Iðgjaldagreiðslur til þessa tryggingakerfis eru að nokkru leyti frá togaraútvegsmönnum sjálfum og að nokkru leyti frá ríkissjóði, og ég tel það sannarlega ekki óeðlilegt, að ríkissjóður taki þarna nokkurn Þátt í greiðslunni, vegna þess að hið opinbera hefur búið að þeim svo á undanförnum árum, að aflabrestur hefur orðið hjá togurum miklu meiri en ætla má að hefði orðið, ef þessar ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar.

Það er þess vegna fyrst og fremst, vil ég segja, með þessu frv. verið að bæta Það aflatjón, sem orðið hefur á árunum 1960 og 1961, og það er verið að gera togarana þátttakendur í sama tryggingakerfinu og bátarnir hafa búið við að undanförnu. Hvort þetta verður sá Kínalífselixír, sem dugir togurunum, á hverju sem gengur, það skal ég ekki fullyrða um enn.

Hér hefur verið blandað inn í þeirri vinnudeilu, sem nú er uppi milli togaraeigenda og sjómannasamtakanna. En ég sé ekki, að hún komi nokkurn skapaðan hlut þessu máli við. Það, sem hér er um að ræða, er, á hvern hátt verði bætt togaraeigendunum aflatjónið 1960 og 1961 og hvernig bætt verði það aflatjón, sem kann að verða á næstu árum. Svo kann að vera ýmislegt annað í rekstri togaranna, sem þarf sinnar athugunar við og kannske sinnar aðstoðar, ég skal ekki um það segja á þessu stigi málsins. Og ég skal ekki heldur segja um það á þessu stigi málsins, hvernig takast má að leysa þá vinnudeilu, sem nú er uppi. Það hafa oft verið vinnudeilur í þessu landi, og venjan hefur verið sú að láta þær ganga sér til húðar og láta aðila semja sjálfa um lausn deilunnar, án Þess að Alþingi eða ríkissjóður komi þar til.

Hv. 3. þm. Reykv. kunni ráð til að leysa vinnudeiluna. Hann vildi taka upp ríkisrekstur á togurunum, og má sjálfsagt út af fyrir sig um það tala. En það bara vantar botninn í þá hugsun, því að það er enginn, að ég veit, þingmeirihluti fyrir því að gera þessa ráðstöfun. Ég heyrði það a.m.k. á þeim hv. þm. Framsfl., sem talaði hér síðast, hv. 7. Þm. Reykv. (ÞÞ), að hann var ekki tilbúinn að játast undir þá aðferð f.h. síns flokks, svo að það er, þó að Það út af fyrir sig kynni að vera góð leið í sjálfu sér, sem ég skal ekki fara út í að ræða hér, bara ekki til sem nothæf leið, vegna þess að það vantar í hana botninn.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. kom hér í sinni ræðu inn á bréf Landssambands ísl. útvegsmanna og vildi telja, sem er rétt að nokkru leyti, að stjórn Landssambandsins væri óánægð með þessa lausn, sem hér er fengin. Sú óánægja kemur sjálfsagt, að mínu viti, fyrst og fremst vegna þess, að Það er stofnað til jöfnunarsjóðs með þessu frv., sem á að reyna — eins og stóð í frv. um ráðstafanir í sambandi við gengisbreytinguna — að mæta tímabundnum erfiðleikum sjávarútvegsins. Við vonum það allir, að þeir erfiðleikar, sem togaraútgerðin á nú við að stríða, séu tímabundnir, þannig að úr rakni síðar, og þá er það ætlað jöfnunardeild aflatryggingasjóðs að aðstoða við að bæta úr þeim erfiðleikum, sem af aflaleysi stafa. Þó að það séu togararnir nú, þá geta það vissulega orðið bátarnir næst. Og ég tel ekkert því til fyrirstöðu, að það sé hafður þarna einhver sjóður, sem hægt sé að gripa til, þegar neyð knýr að dyrum, hvort sem er hjá togurum eða bátum. Landssambandið telur, að eins og nú standa sakir, þá séu það togararnir, sem hagnist kannske mest á Þessum sjóði, og það kann að vera rétt. En ég vil þó segja, að í sambandi við bæturnar fyrir 1960, þá eru þær greiddar að öllu leyti úr ríkissjóði, en bæturnar 1961 verða sjálfsagt að verulegu leyti greiddar af því framlagi, sem í jöfnunarsjóðinn á að renna.

Nú vil ég líka í því sambandi geta þess, að þegar brbl. um ráðstafanir í sambandi við gengisbreytinguna í fyrrasumar voru sett, þá var í þeim það ákvæði, að þó að framlagið til hlutatryggingasjóðs hækkaði upp í 11/4% úr 1/2 og 3/4 af hundraði, þá var ákveðið í þeim, að hlutur ríkissjóðs skyldi vera óbreyttur í krónum talið frá því sem var, eða 811/2 millj. kr. á ári. Nú hefur þessi upphæð ríkissjóðs verið hækkuð um 9 millj. kr. á ári, hvorki meira né minna, og náttúrlega gefur að skilja, að það munar aflatryggingasjóðinn mikið um. Að vísu hafa komið hér fram raddir um það, að vissulega bæri ríkissjóði að leggja fram meira eða allt að því jafnmikið og kæmi frá fiskiskipaeigendunum, en það er þó mikið í áttina, verð ég að segja, að meira en tvöfalda framlagið úr ríkissjóði, og það dugir til þess að standa undir verulegum hluta af þörfum jöfnunardeildar.

Þá skildist mér á þessum sama Þm., hv. 5. þm. Norðurl. v., að hann væri óánægður með það kerfi, sem farið væri eftir við úthlutun bótanna, þ.e.a.s., eins og hann sagði, að verðlauna skussana. En ég vil benda á í því sambandi, að þetta er það kerfi, sem hefur verið í notkun alla tíð síðan hlutatryggingasjóðurinn var stofnaður. Og kerfið hefur mikið til síns ágætis, Þó að vissulega megi nokkuð að því finna. Hv. þm. vildi nú segja, að það gæti verið hagnaður fyrir fiskimanninn að taka lífinu með ró og bíða bara eftir því að geta hirt arðinn úr hlutatryggingasjóði, en ég held, að það sé ranglega dróttað að íslenzkum fiskimönnum, að þeir hafi tekið lífinu með ró með sína sjósókn og beðið bara eftir framlagi úr hlutatrygginga- eða aflatryggingasjóði. Þeir gera sjálfsagt allir það, sem þeir geta, og leggja sig fram til þess að ná aflanum sem mestum.

Ég veit raunar, að með togaraeigendum er út af fyrir sig ekki fullkomin ánægja með þetta fyrirkomulag. Þeir hafa frekar kosið þann háttinn, að höfð yrði ákveðin og jöfn greiðsla til hvers togara, á meðan þessi eymd gengi yfir. En ríkisstj. taldi sér ekki fært að breyta frá því grundvallar-prinsipi, sem hlutatryggingasjóðurinn var byggður upp á og hefur verið yfirfært til hins nýja aflatryggingasjóðs. Til þess að mæta þessu þó að nokkru leyti, þá er látið opið, hvernig úthlutað verði bótunum fyrir árið 1960, og kemur þá til greina að reyna að ná samkomulagi um það, að það verði þá að einhverju leyti farið inn á þá leið þar, sem togaraútvegsmenn óska eftir. Þess má geta í þessu sambandi, að t.d. hafa Bretar með þeim bótum, sem Þeir hafa látið sínum togaraeigendum í té, farið inn á þá leið að veita ákveðna upphæð á úthaldsdag, og mætti hugsa sér að fara þá leiðina fyrir árið 1960, ef samkomulag næðist um það. Það hefur vissa kosti í för með sér að fara þá leið líka, þó að við höfum ekki treyst okkur til að breyta grundvallarhugsun aflatryggingasjóðsins í þá átt.

Ég held, að það sé alveg rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan, að stundum vegnar bátaútveginum betur og stundum miður, stundum eru það togararnir, og þess vegna beri að haga starfsemi aflatryggingasjóðsins Þannig, að hönd styðji hendi, bátarnir styðji togarana, þegar þess þarf með, og togararnir styðji svo bátana, þegar bátarnir þurfa á aðstoð að halda. En ég vil leggja á það áherzlu, að þetta er ekki styrkveiting á sama hátt og var hér áður fyrrum, heldur nálgast þetta a.m.k. það mjög mikið að vera tryggingastarfsemi, sem kemur til framkvæmda með tjónabótum, þegar aflinn fer niður fyrir visst mark.

Hér var minnzt á togbátana, og hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur flutt brtt. um þá við bráðabirgðaákvæði frv., þannig að þeir yrðu teknir með í bótagreiðslurnar. Út af þessu vil ég aðeins segja, að það liggja ekki fyrir neinar skýrslur um þessa togbáta, og þegar unnið var að samningu þessa frv., voru hafðir í huga hinir venjulegu stærri togarar, en togbátarnir ekki, þannig að ef þeir yrðu teknir með að einhverju eða öllu leyti, væri með því raskað þeim grundvelli, sem frv. þetta er byggt á, enda mun hafa komið til greina, eins og lýst var hér af frsm. meiri hl. sjútvn., að þeirra hlutur verði á annan hátt bættur.