13.04.1962
Neðri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

219. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. var hér til umr. í gær, og þá hafði nál. mínu sem minni hl. menntmn. ekki verið útbýtt, og ég tók þess vegna brtt., sem ég var með, til baka til 3. umr. Nú hefur þessu nál. verið útbýtt og er á þskj. 742, og brtt. sömuleiðis, sem er á þskj. 743. Brtt. fjallar um, að það sé bætt inn í 38. gr. háskólalaganna nýjum málslið, svo hljóðandi: „Einn af prófessorunum í tannlæknisfræði skal hafa yfirumsjón með tannlæknaþjónustu í barna- og unglingaskólum landsins.“

Í 38. gr. eru ýmsum prófessorum við læknadeildina lagðar ýmsar skyldur á herðar, þ. á m. hefur einn af prófessorunum við læknadeildina yfirlæknisstöðuna við landsspítalann, annar hefur allmikið með geðveikrahælið á Kleppi að gera, og einn prófessorinn annast eftirlit í heilbrigðismálum. Nú er það svo viðvíkjandi tannlækningum, að það virðist mjög mikil þörf á því, að hið opinbera láti þau mál til sín taka. Nýlega hefur verið birt opinberlega skýrsla frá stjórn Tannlæknafélags Íslands, sem ég hef birt sem fskj., og kemur þar ýmislegt fram um þeirra rannsóknir og þeirra álit, tannlæknanna, á heilsufarsástandi, sérstaklega í barna- o,g unglingaskólunum. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Athuganir, sem gerðar voru í einum af barnaskólum bæjarins“ — þ.e. Reykjavíkur –„fyrir þremur árum sýndu, að aðeins rúmlega 10% barnanna burstuðu tennurnar reglulega og tæpur helmingur átti sinn eigin tannbursta. Börnin voru látin koma með burstana sína í skólann, og var ótrúlega algengt, að fjölskyldan notaði öll sama burstann.“

Í þessari skýrslu Tannlæknafélagsins eru upplýsingar, sem ég býst við, ef hv. þm. hafa fyrir að lesa þær, að þeir margir hverjir muni verða næstum agndofa á því ástandi, sem ríkir í þessum málum. Enn fremur er þar sagt frá því, hvernig Norðurlandaþjóðirnar hagi sér í þessum efnum, t.d. eftirlitinu viðvíkjandi skólabörnum í Stokkhólmi. Þar er sagt frá því, með leyfi hæstv. forseta, svo hljóðandi:

„Öll skólabörn í Stokkhólmi fá t.d. tvisvar á ári gefins tannbursta frá yfirvöldum borgarinnar og eru um leið látin bursta tennur sínar úr sérstakri flúorupplausn. Annast þetta 8 stúlkur, sem fengið hafa lítils háttar tilsögn um rétta tannburstunaraðferð. Sjá 2 stúlkur um 15 þús. börn. Mundi því t.d. ein stúlka geta annazt þetta hér í bæ“, — það er átt við Reykjavík, — „og kostnaðurinn við tannburstagjafirnar minni en rekstur einnar tannlækningastofu í bænum. En árangurinn hjá þeim er undraverður, því að tannskemmdir minnka um 25%“

Það eru fleiri atriði í þessari skýrslu, sem eru mjög eftirtektarverð, og ég held, að það væri ákaflega heppilegt, — það þýðir engan aukakostnað eða neitt slíkt, — að einum af prófessorunum í tannlæknisfræði væri falið að hafa yfirumsjón með tannlæknaþjónustu í barna- og unglingaskólunum. Ég held, að það mundi þýða, að viðkomandi prófessor mundi tiltölulega fljótt gera tillögur til hæstv. menntmrh. eða heilbrmrh. um löggjöf í þessum málum á Íslandi, sem vantar. Hins vegar held ég, að ástandið sé þannig, að það sé ekki viðunandi fyrir okkur. Við erum orðnir langt á eftir öllum öðrum þjóðum í þessum efnum. Það kom t.d. fram í þeirri grg., sem hæstv. menntmrh. lét fylgja frv. frá háskólanum, hvernig ástandið á Íslandi væri mun lakara hvað snertir tannlækna heldur en í nokkru Norðurlandanna, helmingi lakara en í Svíþjóð. Þar er einn tannlæknir á hverja 1600 íbúa, hér er einn tannlæknir á 3120 íbúa, og umsjónin með tannlæknaþjónustunni eftir því. Ég held, að það ætti að geta orðið samkomulag um það. Þetta þýðir ekki fjárútgjöld, þetta þýðir aðeins ráðstöfun til þess að bæta ofur lítið heilbrigðisþjónustuna, alveg í sömu stefnu og öðrum prófessorum í læknadeildinni hefur verið falið að gera.

Ég skal um leið geta þess, fyrst hér er verið að ræða um háskólann, að ég hefði að vísu óskað frekar eða a.m.k. jafnhliða því, sem bætt væri við prófessorum í læknadeild, að bætt hefði verið við prófessorum annars staðar. Við erum nú á síðustu dögum þingsins að afgreiða frv. um breytingu á háskólalögunum til að bæta við tveim prófessorum í læknadeild. Ég held, að það hafi verið líka á síðasta þingi, sem við afgreiddum á síðustu dögum frv. um breyt. á háskólalögunum, — annaðhvort var það síðasta eða næstsíðasta dag, — um að bæta við tveim prófessorum í læknadeild. Fyrir 4 árum voru þarna 8 prófessorar, með þessu fara þeir upp í 12. Ég er ekkert að segja á móti því. En ég hefði kosið að fjölga a.m.k. eins mikið í norrænudeildinni viðvíkjandi okkar íslenzka máli, sögu og bókmenntum. En ég sé nú ekki til neins að koma með brtt. um það. Ég veit, að það verður sagt, að það kostar eitthvað að vinna að því að halda uppi hróðri íslenzkrar menningar og íslenzkra vísinda um okkar eigið mál, okkar eigin tungu. En þetta, sem ég hér legg til, þarf ekki að kosta neitt, en getur orðið til þess að hjálpa til að laga ófremdarástand, sem nú ríkir. Ég vil þess vegna vonast til þess, að hv. þdm. samþykki þessa brtt. mína á þskj. 743.