14.04.1962
Efri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

219. mál, Háskóli Íslands

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég hafði búizt við því, að þetta frv. yrði útskýrt hér við 1. umr., en það hefur einhverra hluta vegna ekki þótt ástæða til þess. Hér er um það að ræða að bæta við tveimur prófessorsembættum í læknadeild háskólans, og þeir nýju prófessorar eiga að vera prófessorar í tannlæknisfræði. Þar á að bæta við tveimur prófessorum við þann eina prófessor, sem þar hefur starfað fram að þessu. Ég hef ekki annað en gott að segja um þetta og er því algerlega fylgjandi. Hér á landi ríkir tannlæknaskortur mikill, eins og kunnugt er, og hljótast af því árlega mikil vandræði í heilbrigðislegu tilliti. Um leið og þessir tveir nýju prófessorar taka til starfa við tannlæknadeild, er þess að vænta, að húsrými tannlæknadeildar, sem hingað til hefur verið allt of lítið, muni aukast. Þar með ættu að skapast bætt skilyrði til að útskrifa nýja tannlækna.

Það er ekki til að útskýra þetta, að ég stend hér upp, heldur langar mig til að koma á framfæri hugmynd, sem að vísu var hreyft í hv. Nd. í sambandi við þetta mál. Það er mjög algengt um prófessora í læknadeild, að þeim eru samhliða kennslustarfi sínu falin einhver ákveðin störf, svo sem forstaða sérstakra deilda í sambandi við heilbrigðismál og læknadeildina. Ég vil stinga upp á því, að hv. menntmn. þessarar deildar taki til athugunar, hvort ekki sé rétt að fela öðrum prófessornum, sem hér er fyrirhugað að bæta við, yfirumsjón með tannlæknaþjónustu í skólum landsins. Engin tannlæknaþjónusta er jafnmikilsverð og tannvernd barna. Þessi tannvernd er í mesta ólestri hjá okkur hér á íslandi, og veitti ekki af að hefja undirbúning að því að rækja þessa þjónustu í framtiðinni. Ég teldi það mjög vel til fallið, að það yrði fram tekið í lögum, að öðrum þeirra prófessora, sem hér um ræðir, skyldi falið að hafa yfirumsjón með tannlæknaþjónustunni í skótum landsins. Ég hef orð á þessari uppástungu nú þegar í þeirri von, að hv. menntmn. athugi þetta mál og ráðfæri sig við aðila varðandi þessa uppástungu.