16.04.1962
Efri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

219. mál, Háskóli Íslands

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja hér fram skriflega brtt. sem er alveg samhljóða þeirri brtt., sem borin var fram í hv. Nd. í sambandi við þetta frv.

Brtt. er á þá leið, að á eftir 1. gr. bætist ný gr., svo hljóðandi:

„Á eftir 2. málsl. 1. málsgr. 38. gr. laganna komi nýr málsliður, svo hljóðandi: Einn af prófessorunum í tannlæknisfræði skal hafa yfirumsjón með tannlæknaþjónustu í barna- og unglingaskólum landsins.“

Eins og hv. frsm. menntmn. tók fram hér í ræðu áðan, þá er tannlæknaþjónustan í barnaskólum landsins í mestu óreiðu, og í Reykjavík varð fyrir nærri tveimur árum að leggja niður að mestu leyti tannlæknaþjónustuna í barnaskólunum. Ég skal viðurkenna, að það var fyrst og fremst vegna tannlæknaskorts, þó að fleira kæmi þar til greina, sem sé það þá helzt, að stjórnarvöld borgarinnar vildu ekki ganga að kröfum tannlækna um launahækkun. En hverju sem þetta er að kenna í Reykjavík, þá er það staðreynd, að tannlæknaþjónusta í skólunum var lögð niður, — þjónusta, sem talið var sjálfsagt að koma á fót fyrir áratugum og síðan verið haldið áfram. Þetta er vissulega eða ætti að vera öllum ábyrgum mönnum í þessu þjóðfélagi áminning í þessu efni. Hér verður að bæta úr og það hið allra bráðasta. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er myndarlegt spor í þá átt, það skal viðurkennt. En við gætum, um leið og samþ. eru lög um stofnun prófessorsembætta í tannlæknisfræði, gert betur. Og Það hygg ég, að sé með þeirri brtt., sem ég leyfi mér að bera hér fram, þess efnis, að einn af prófessorunum í tannlæknisfræði skuli hafa yfirumsjón með tannlæknaþjónustunni í barna- og unglingaskólum landsins. Þetta er spor, sem verður að stíga bráðlega, hvort sem hlutverkið verður falið einum af þessum prófessorum eða einhverjum öðrum. Ég tel það mjög í verkahring eins prófessoranna að hafa slíka yfirumsjón og yfireftirlit með þeirri tannlæknaþjónustu, sem er í barnaskólum landsins nú, þótt ófullkomin sé, og sérstaklega Þeirri þjónustu, sem þarf að byggja upp nauðsynlega á næstu árum.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja þessa till. fram og óska þess, að leitað verði afbrigða fyrir henni.