15.03.1962
Neðri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Á borð okkar Þm. hafa á undanförnum dögum hrúgazt mörg plögg, Þykkir doðrantar, mikil skjöl. Að mestu leyti hafa Þetta verið uppprentanir á gildandi lagabálkum, en sá háttur verið hafður á að endurprenta allt pródúktið, Þótt ekki væri um að ræða nema eina eða tvær smábreytingar á viðkomandi lögum. Þetta eru auðvitað vinnubrögð út af fyrir sig og skapar góðan markað fyrir pappír. En hér er eitt af þessum stóru frv. komið á okkar borð á seinustu dögum, og því fylgdu ein sex eða sjö önnur frv. vegna þeirra breyt., sem hér eru gerðar á tekjustofnum sveitarfélaga. Ég vil þó segja eins og sá hv. þm., sem hér lauk nú máli sínu (HS), hv. 3. þm. Vesturl., að hér er þó ekki, eins og í mörgum Þeim tilfellum, sem ég nú hef vikið að, um aðeins smábreytingar eða kákbreytingar að ræða á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Hér hefur verið að unnið um lengri tíma og af mönnum, sem gott skyn bera á sveitarstjórnarmál, og er því ýmislegt af breyt. og nýmælum Þessa frv. til bóta frá Því, sem áður hefur verið. Á Það skal ekki draga neina dul.

Ég mun nú víkja að efni Þessa lagabálks og fara Þar nokkrum orðum um.

Í I. kafla þessa frv. er gerð grein fyrir Því, hvaða tekjustofna sveitarfélögin eigi nú að búa við. Hæstv. fjmrh., sem fylgdi þessu frv. úr hlaði, sagði réttilega, að fram að Þessu hafa útsvörin verið nálega einasti tekjustofn sveitarfélaganna, eða um 90% af heildartekjum Þeirra. Þetta mun rétt vera. En hann gerði allnokkuð úr því, að á þessu yrði nú veruleg breyting. Ég sé ekki, að breytingin sé svo ákaflega mikil eða að hinir nýju tekjustofnar, sem hér koma til, séu svo gildir, að mikið orð sé á hafandi.

Það er fyrst með fasteignaskattinn. Fasteignaskattur hefur verið heimilaður, ekki lögskipaður, og hafa ýmis sveitarfélög notfært sér hann og haft heimild til að leggja á hann 200–300 — ég held upp í 400% álag, eða svo var það upphaflega, þegar hann var heimilaður. Og þannig hafa allmörg sveitarfélög notfært sér þessa heimild og haft fasteignaskatt sem tekjustofn ásamt útsvörunum. Hitt er rétt, að hjá þeim sveitarfélögum, sem hafa ekki notfært sér þá heimild, sem í l. hefur verið um fasteignaskatt, fá þarna nú lögbundinn tekjustofn, sem þau verða að notfæra sér.

Þá er annar liðurinn, sem hér er gerð grein fyrir í upphafsorðum frv. sem tekjustofni. Það er hið svokallaða aðstöðugjald. En það er enginn nýr tekjustofn í raun og veru, því að bað á að koma í staðinn fyrir heimild sveitarfélaganna til að leggja á veltuútsvör, og kemur þannig eitt í annars stað.

Þriðji tekjuliðurinn, sem hér er svo nefndur, eru framlög til sveitarfélaganna úr jöfnunarsjóði, og er þar um enga eða mjög smávægilegar breyt. að ræða að Því er snertir jöfnunarsjóðinn. Um hann hafa verið lög fram að þessu, og kem ég þó að því síðar, sem Þar er nýtt á ferðinni. En aðstöðugjaldið er í raun og veru í staðinn fyrir veltuútsvörin og þannig ekki nýr tekjustofn, heldur nýtt nafn á tekjustofni.

Útsvörin eru og verða meginstofn Þeirra tekna, sem sveitarfélögin koma til með að hafa, eins og verið hefur, og má þó vera, að Þau verði eitthvað minni hundraðshluti af heildartekjunum en þau hafa verið fram til þessa.

Í II. kafla frv. er fjallað um fasteignaskattinn, og þar segir strax, að árlega skuli leggja skatt til sveitarfélaganna á fasteignir. Þar er fyrst talið, að skatt beri að leggja á virðingarverð byggingarlóða. Viðvíkjandi þessum skattstofni vil ég segja það, að ég tel að vísu sjáifsagt að leggja skatt á fasteignamat eða virðingaverð byggingarlóða, en ég hefði talið mjög koma til álita að fá heimild til þess í þessu frv. að leggja verðhækkunarskatt á ónotaðar lóðir í kaupstöðum. Það er vitað, að margur spekúlantinn kemst yfir lóðir í lögsagnarumdæmi kaupstaða, heldur Þeim svo ónotuðum í þeim tilgangi, að þær hækki í verði fyrir almennar aðgerðir bæjarfélagsins eða þjóðfélagsins, og væru þó miklu betur komnar undir yfirráðum bæjarfélagsins sjálfs til þess að geta með sem greiðlegustum hætti framkvæmt hyggilegt og hagkvæmt skipulag bygginga á bæjarlandinu. Það ætti því í raun og veru að vera til Þess heimild að leggja verðhækkunarskatt á slíkar lóðir og lendur, til þess að menn hefðu ekki áhuga á því að halda slíkum eignum eingöngu í gróðaskyni. Þessi skattlagning ætti að rýra gróðamöguleikann í sambandi við þetta og koma í veg fyrir, að menn sitji með slíkar lóðir og lendur ónotaðar. Þetta er mín persónulega skoðun, að þarna mætti í raun og veru koma ákvæði um verðhækkunarskatt á óbyggðum lóðum í kaupstöðum.

Annað atriðið um fasteignaskattinn er Það, að 1% af virðingarverði húsa og annarra mannvirkja komi sem skattstofn. Það mun hafa verið svo í gildandi lögum, að það var heimilt að hafa skattinn af húsum mismunandi eftir því, til hvers eignirnar hafa verið notaðar, og mismunandi eftir verðmæti þeirra og hagnýtingu. Þetta tel ég réttmætt og hyggilegt, og ég held, að það sé ekki rétt að hafa fasteignaskattinn af húseignum 1% af öllum húseignum. Húseignir geta verið mismunandi arðberandi, og eftir því má hafa breytilegan skatt á þeim, og húseignir geta verið mismunandi nauðsynlegar, og hinar nauðsynlegustu húseignir ætti að mínu áliti að skattleggja minnst. Þess vegna tel ég stighækkandi eða breytilegan skatt á húseignum vera eðlilegri skattstofn heldur en húsaeða fasteignaskatt, sem sé eins yfir öll slík mannvirki. Að sjálfsögðu er svo rétt, eins og hér er lagt til í Þessu frv., að lægra gjald komi á tún og garða og reiti, erfðafestulönd og slíkar lendur í kaupstöðum heldur en á hina flokka eignanna, sem hér hefur verið rætt um, og er ég því samþykkur. E.t.v. mætti sá skattur vera öllu lægri en þarna er lagt til, því að þarna er um nýtingu lands að ræða, sem oft er nauðsynleg fyrir bæjarfélagið, en oft og tíðum ekki til mikillar arðsemdar fyrir þá, sem nytja.

Um fasteignaskattana get ég því sagt það, að ég er því samþykkur, að fasteignirnar séu teknar sem skattstofn, er skylt sé að leggja á og hafa sem tekjustofn fyrir sveitarfélögin. Aðeins hef ég Þarna gert grein fyrir hugmyndum mínum um það, hvernig hugsa mætti sér að haga þessu á hagkvæmari eða skynsamlegri hátt út frá mínum sjónarmiðum. Það er gert ráð fyrir því, að af fasteignaskattinum komi heildartekjur um 30 millj. kr., og er það Þannig allverulegur tekjustofn, sem hér er gert ráð fyrir að nýta.

Þá vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um III. kafla frv. Eins og menn hafa tekið eftir, hefur verið upphafinn mikill og hávær áróður í blöðum stjórnarinnar út af því, að nú hafi mikil gleðitíðindi gerzt í sambandi við framlagt frv. um tekjustofna sveitarfélaga, því að nú ætti að leggja hin illræmdu veltuútsvör niður, þau ættu að hverfa, sá ófögnuður. Sannleikurinn er sá, að það hafa ýmsir farið hörðum og illum orðum um veltuútsvörin og talið þau ranglátan tekjustofn og viljað fá þau lögð niður. Og nú er þetta boðað, að hin illræmdu veltuútsvör verði ekki lengur á lögð, þau skuli nú hverfa og það sé hinn mikli fagnaðarboðskapur við þetta nýja frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Rétt er Það, að það á ekki að leggja á veltuútsvör, ef þetta frv. verður að lögum. En III. kafli frv. heitir: Um aðstöðugjald. Og það er ekkert farið í grafgötur með það í þeim grg., sem þessu frv. fylgja, að um leið og veltuútsvörin hverfa, þá verður upp tekinn skattur, sem heita skal aðstöðugjald. Breytingin er því frá mínu sjónarmiði heldur meiri í orði en á borði. Mér dettur í hug, þegar kaþólskir mega ekki éta kjöt á föstunni, þá segja þeir, þegar þeir eru að gæða sér á góðu kjöti: Við erum að borða klauflax, — en ekki kjöt. Og hér er ekki um að ræða veltuútsvar, heldur bara aðstöðugjald og Það afskaplega sanngjarnt, af því að það er svo margvísleg aðstaða, sem bæjarfélögin veita ýmiss konar atvinnurekstri, og víst er það rétt.

Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því, að það væri svolítill munur á aðstöðugjaldi og veltuútsvari, og má sjálfsagt finna þar á blæbrigðamun. En aðstöðugjaldið á að leggja á samanlögð útgjöld vegna atvinnurekstrarins næstliðið almanaksár, þar með talin efnis- og vörukaup, svo og fyrningarafskriftir samkv. ákvæðum skattalaganna. Þannig á að leggja aðstöðugjaldið á. Það, sem mönnum hefur þótt þyngst undir að búa í sambandi við veltuútsvarið, hygg ég að hafi verið það, þegar fyrirtæki hefur tapað og fær samt á sig veltuútsvar. En ég sé ekki annað en þessi meginókostur veltuútsvarsins fylgi aðstöðugjaldinu eða hinu nýja nafni, sem kemur í staðinn, því að það á að leggja þetta á samanlögð útgjöld vegna atvinnurekstrarins án tillits til þess, hvort fyrirtækið hefur skilað gróða eða tapi. Hygg ég því, að meginókostur veltuútsvaranna og það, sem maður hefur með sjálfum sér talið vera harkalegast við þau, það haldi sér við álagningu aðstöðugjaldsins. Ég veit því ekki, þegar frá liður, hvort fögnuðurinn verður svo afskaplega mikill yfir þessari breyt., að veltuútsvör verða ekki á lögð lengur, en aðstöðugjaldið komi í staðinn. En vonandi verður reynslan sú samt, að mönnum finnist þetta vera réttiátara en veltuútsvörin, því að að öðrum kosti verða stjórnarblöðin og hv. stjórnarflokkar sjálfsagt fyrir vonbrigðum, og á þeirra vonbrigði í ýmsum málum er ekki bætandi.

Aðstöðugjaldið verður samkv. frv. nokkuð mismunandi eftir ýmsum tegundum rekstrar og fyrirtækja, lægst af rekstri fiskiskipa og flugvéla, helmingi hærra, Þ.e.a.s. miðað við hámarkið, á verzlunarskipum, nokkru hærra á ýmiss konar iðnrekstri og hæst á því, sem þarna er kallað: annar atvinnurekstur. Er mér ekki alveg ljóst, hvaða greinar atvinnurekstrar mundu koma undir það gjald, sem er að hámarki til 2%.

Ef það lægju fyrir upplýsingar um það, að aðstöðugjaldið ætti að skila miklu minna fé til sveitarfélaganna en veltuútsvörin hafa gert, þá mætti segja, að það hillti undir eitthvert fagnaðarefni af þessari breytingu. En það liggur ekki hér fyrir svart á hvítu. Það er talið, að veltuútsvörin hafi verið um 18% af heildartekjum sveitarfélaganna, og þegar nm., sem unnu að þessu frv., ljúka sínum skýringum á kaflanum um aðstöðugjaldið, þá segja þeir, að það sé ekki suðveit að gera sér nákvæmlega grein fyrir því, hve miklar tekjur sveitarfélaganna geti orðið af gjaldinu, en gera verður ráð fyrir því, segja þeir, að tekjur af gjaldinu verði tæplega eins miklar og tekjurnar hafa verið af veltuútsvörunum. Ég get ekki betur séð en með þessu sé nokkurn veginn gefið í skyn, að þetta verði ámóta skattlagning, ámóta há og tekjuútsvörin hafa verið, og þá er það aðallega, sem eftir stendur, breytingin á nafninu, það er klauflax í staðinn fyrir kjöt. Verði það svo í reyndinni, að tekjuupphæðin af aðstöðugjaldinu verði í heild svipuð og af veltuútsvörunum, þá er breyt. meiri í orði en á borði. En ef þarna verður um meginmismun að ræða, þannig að tekjurnar, sem sveitarfélögin fá af aðstöðugjaldi, verði miklum mun minni en af veltuútsvörunum fram að þessu, þá er greinilegt, að þarna verður um einhverja meira eða minna verulega tilfærslu að ræða á byrðum skattþegnanna, og gæti þá svo farið, að það væri verið með þessari breyt. að íþyngja hinum almenna skattþegni og létta á rekstrinum, og það yrði þá nokkuð í sömu átt og þær breytingar, sem fyrir þinginu liggja um breyt. á tekjuskattslögunum. Og færi svo, þá er a.m.k. plús og mínus þarna um að ræða. Móti fögnuðinum yfir því að losna við veltuútsvar er þá aftur sá skuggi fallinn yfir, að það verði vegna þess að hækka á hinum almenna gjaldanda, einstaklingunum.

IV. kaflinn er um jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sá kafli er að langmestu leyti uppprentun úr lögunum frá 1960 og fátt nýtt í honum annað en ákvæðin um landsútsvör, en það er nýmæli í útsvarslögum. Það er rétt viðvíkjandi landsútsvörunum, sem hæstv. fjmrh. sagði, að nokkur undanfarin ár hefur mjög verið um það rætt, að réttlátt væri að taka upp landsútsvör. T.d. hafa þrír þm. Alþb. nú tvö ár í röð flutt frv. um landsútsvör. Þetta frv. hefur nú verið til meðferðar hjá heilbr: og félmn., og hef ég þar verið beðinn þess hvað eftir annað að bíða með afgreiðslu þess út úr nefndinni, þangað til milliþn. um tekjustofna sveitarfélaga hefði skilað áliti og ljóst yrði þannig, hvaða tillögur hún bæri fram viðvíkjandi landsútsvörum, en það þóttust menn í stjórnarherbúðunum vita, að í hinu nýja frv. um tekjustofna sveitarfélaganna yrðu ákvæði nokkur um landsútsvör. Þeir aðilar eða þau fyrirtæki, sem eiga að bera landsútsvör samkv. þessu frv., eru Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins og sölunefnd setuliðseigna, þ.e.a.s. sölunefnd varnarliðseigna heitir hún hér í 17. gr. frv., en sölunefnd setuliðseigna í grg., og þannig er hún nú oftast nær kölluð. Þá koma síldarverksmiðjur ríkisins og áburðarverksmiðjan og sementsverksmiðja ríkisins, viðtækjaverzlun ríkisins, landssmiðjan og ríkisprentsmiðjan Gutenberg og svo olíufélögin, sem flytja inn olíur og annast sölu þeirra og dreifingu innanlands. Þetta eru aðilarnir, sem nú á að leggja á landsútsvör samkvæmt þessu frv.

Ég vona, að hæstv. forseti leyfi mér að minna hins vegar á þær till. um landsútsvör, sem felast í frv. okkar þm. Alþb., en þau fyrirtæki, sem við ætluðumst til, að landsútsvörin næðu til, eru þau, sem nú skal greina: Fyrirtæki og stofnanir, sem reka starfsemi, er nær til landsins alls, svo sem skipafélög, heildsölufyrirtæki, útflutningssamtök, tryggingarfélög, verzlunarstofnanir ríkisins og þau fyrirtæki önnur, sem ráðuneytið úrskurðar að samkv. eðli málsins falli undir þessi ákvæði, skulu skyld að greiða landsútsvar, er renni í jöfnunarsjóð sveitarfélaga, og skiptist heildarupphæð landsútsvaranna síðan milli sveitarfélaganna í réttu hlutfalli við íbúatölu þeirra.

Þetta er okkar till., og hefur þarna verið fallizt á það, að tekjurnar af landsútsvörum þeirra fyrirtækja, sem nefnd eru nú í þessu frv., skuli, eins og við lögðum til, renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaga. En ég tel, að það vanti allmarga aðila í þá upptalningu, sem er í 17. gr. frv. Ég hefði talið réttmætt og sjálfsagt, að þarna hefðu þau takmörk verið dregin, sem ég og meðflm. mínir að nefndu frv. drógum, að landsútsvar skyldu greiða allar þær stofnanir og þau fyrirtæki, sem starfsemi reka, er nær til landsins alls. Og þá ættu undir þetta að falla skipafélög, bankar, heildsölufyrirtæki og tryggingafélög, auk þeirra fyrirtækja og stofnana, sem frv. nefnir. Og ég fæ ekki séð, að það sé nokkur munur á þeim stofnunum og fyrirtækjum, sem ég nú hef nefnt og ekki eru talin upp í frv., og hinum, sem þarna eiga að bera landsútsvör, sem svo eiga að skiptast niður á sveitarfélögin.

Við, sem að frv. um landsútsvör stóðum, létum það í ljós í grg., að við teldum það vera mismunun á útsvarsskyldu þjóðfélagsþegnanna, að fyrirtæki, sem verzla við fólkið í landinu almennt, skuli vera látin greiða útsvör af allri veltu sinni aðeins til eins sveitarfélags, en það hafa Þau gert hingað til. Og ég hygg, að flestir menn verði að segja, að þetta sé rétt sjónarmið, — þegar við svo athugum það, að það er nálega alltaf stærsta sveitarfélag landsins og eitt af þeim náttúrlega bezt stæðu vegna allrar aðstöðu, sem þannig fær aðstöðu til að ná útsvari af verzlun langt út fyrir sin eigin takmörk. Það er oft og tíðum í Reykjavik jafnað niður útsvörum á viðskipti, sem fara fram langt utan við endimörk borgarinnar og við fólk íbúum hennar óviðkomandi að öllu leyti nema útsvarsskyldunni. Reykjavík leggur þannig útsvör á alla veltu sölusamtaka eins og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, og kemur þó minnst af Þeim fiski, sem þar er tekinn til sölumeðferðar, nokkurn tíma til Reykjavíkur. Það er bara greitt af honum útsvar þar.

Reykjavík hefur einnig haft allar útsvarstekjur af allri tóbakssölu í landinu, og eru þó tóbaksneytendur Því miður ekki einungis bundnir við lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, heldur eyða Þessum vörum úti um allt land. En hins vegar hefur Reykjavík ekki haft allar tekjur af útsvari áfengisverzlunarinnar. Þar hefur nokkur útsvarsgreiðsla farið fram í þeim sveitarfélögum, þar sem áfengisverzlun ríkisins hefur haft útibú. En tölur liggja fyrir um það, að af áfengisverzluninni og tóbakseinkasölunni hafði Reykjavík 1960 um 13 millj. kr. í útsvarstekjur.

Með frv., sem hér liggur fyrir, er greinilega komið til móts við Það sjónarmið, að rétt sé að leggja landsútsvör á vissan rekstur og fyrirtæki, og ég fagna því. Hins vegar er Það sjálfgefið, að ég og mínir flokksmenn munum flytja brtt. við frv. að því er þetta snertir, m.a. í þá átt að taka fleiri stofnanir og fyrirtæki með, sem hafa viðskipti við landslýðinn allan, og mætti það þá vera til nokkurrar tekjuaukningar fyrir sveitarfélögin.

Hæstv. ráðh. lét þess getið í sambandi við landsútsvörin áðan, að það væri ekki ætlunin að taka nokkurs staðar aðstöðugjald í neitt sveitarfélag af þeim fyrirtækjum og stofnunum, sem ættu að greiða landsútsvar. Ég gladdist af að heyra það. En ég þóttist hafa séð það í skýringum með frv., að fjórðungur landsútsvara, sem til falla í hverju sveitarfélagi, skuli koma í hlut þess sveitarfélags, en að 1/4 hlutum skuli landsútsvarið ásamt söluskatti samkv. 16. gr. a. skiptast á milli sveitarfélaganna í réttu hlutfalli við íbúatölu þeirra. Út frá þessu hafði ég skilið það svo, að t.d. landsútsvar af Afengis- og tóbaksverzlun ríkisins mundi, áður en það dreifðist út til sveitarfélaganna, lenda hér í Reykjavík að einum fjórða hluta. En ef þetta er misskilningur minn, þá fagna ég því og vil að svo komnu leggja meira upp úr því, að hæstv. ráðh. segir, að ekkert aðstöðugjald eigi að greiðast af þessum fyrirtækjum til neins sveitarfélags. En ég vona, að sé þarna um misskilning að ræða, þá verði það leiðrétt, svo að menn viti alveg nákvæmlega um það, hvor skilningurinn er réttur.

Ég skal taka það fram, að aðstöðugjaldið er allt saman í heimildarformi. Það er veitt heimild sveitarfélögunum til þess að innheimta aðstöðugjald af atvinnurekstri, en skylt er það ekki að hafa það sem tekjustofn. En ég kemst að þeirri niðurstöðu, að ef það er rétt, að fjórðungur af aðstöðugjaldi skuli renna til þess sveitarfélags, sem viðkomandi fyrirtæki er staðsett i, þótt Það heiti ekki aðstöðugjald, Þá finnst mér allar líkur til þess, að Reykjavik fái öllum öðrum sveitarfélögum fremur og meir meginhlutann af þessum tekjustofni, og tel ég ekki ástæðu til þess, því að Reykjavík hefur náttúrlega langsterkasta aðstöðu allra sveitarfélaga til þess að búa að sínu.

Þá er komið að V. kaflanum, sem er um útsvörin. Þar er sú meginbreyting á, að í staðinn fyrir þá þrjá útsvarsstiga, sem lögfestir voru 1960, er nú komið inn á þá braut að hafa útsvarsstigann einn, og það tel ég vera það ákvæði þessa frv., sem mest stefnir til bóta og ég hygg að verði sízt ágreiningsefni. Það var háifgerð viðurstyggð að hugsa sér það að lögbjóða þrjá útsvarsstiga í landinu, einn, sem gengi næst lágum tekjum manna í sveitunum, annan í kaupstöðunum og þann þriðja og hagstæðasta fyrir Reykjavíkurborg. En hér er lagt til, að útsvarsstiginn verði einn. Nú hef ég ekki á þessum stutta tíma, sem liðinn er síðan frv. var lagt fram, haft aðstöðu til Þess að taka dæmi af þessum skattstiga, en skattstiga geta menn ekki kannað, svo að vit sé í, nema með því að taka alls konar dæmi. Þó sýnist mér, að Það sé ástæða til að benda á, að það er ætlunin, að hann byrji, þessi skattstigi, á 15 þús. kr. nettótekjum. Ég held, að það væri fyllilega athugunarvert, hvort ekki væri ástæða til að sleppa öllum tekjuvonum í sambandi við útsvör af lægri tekjum en 30 þús. í staðinn fyrir 15, og vita þó allir, að enginn maður framfærir sig af 30 þús. kr. tekjum. Nær væri, ef mögulegt væri, að byrja ekki álagningu útsvars á lægri tekjur en 40–50 þús. kr. En að byrja að skattleggja tekjur, sem nema 15 þús. kr., þó að nettótekjur séu, það álít ég allnærri skattþegnunum gengið og verið að skattleggja freklega Þurftartekjurnar, nauðsynlegu tekjurnar til þess að lifa af. Það er þó hér eitt atriði í þessum kafla, sem mér sýnist vera til bóta og milda dálítið þetta ákvæði, hvað útsvarsstiginn byrjar neðarlega, og það er, að 800 kr. frádráttur má dragast frá útsvarinu. Hér stendur: „Auk frádráttar þess, sem hér um ræðir, er heimilt að draga frá útsvari samkv. 1. málsgr. allt að 800 kr., þannig að útsvör allra verði lækkuð um hér um bil sömu fjárhæð.“ Þetta er að því leyti til bóta, að 800 kr. frádrag af lágu útsvari lækkar það hlutfallslega meira en hið háa útsvar, og er þannig dálítið verndarákvæði fyrir hina lægstu gjaldendur, en að þeim tel ég vera allt of fast gengið með því, að útsvarsstiginn byrji á svo lágum tekjum eins og hér er ætlazt til.

Þá er kaflinn um álagningu útsvaranna. Þar kemur að þessu breytta fyrirkomulagi, sem skattalöggjöfin gerir ráð fyrir, að landinu skuli skipt í níu umdæmi, þar sem skattstjóri sé yfir hverju núverandi kjördæmi landsins. Ég veit ekki, hversu ágæt þessi breyt. er. Þarna verða níu embættismenn settir á laggir, að vísu í staðinn fyrir nokkra skattstjóra, sem fyrir eru, og þeir eiga að hafa umboðsmann í hverju sveitarfélagi, og auðvitað eiga þeir hver um sig að hafa starfslið, og þeir eiga þó, að því er útsvarsálagninguna snertir, eingöngu að leggja blessun sina á þá útsvarsskrá, sem kemur frá hinum svokölluðu framtalsnefndum. Ég held. að álagning útsvaranna í höndum tveggja aðila, framtalsnefndar annars vegar og skattstjórans hins vegar, sé að því leyti viðsjárverð tilhögun, að ábyrgðin á útsvarsálagningunni skiptist á tvo aðila. Það held ég, að sé miður gott. Ef mistök verða svo, þá getur hvor aðilinn kennt hinum um, og þó væru mestar líkur til þess, að það yrði skattstjórinn að öllum jafnaði, sem kenndi framtalsnefndinni um, ef rangt reyndist eftir allt saman.

Ég held líka, að það að ætla skattstjórunum álagningu útsvara á landssvæði eins og t.d. öltum Vestfjarðakjálkanum, öllu Vestfjarðakjördæmi, — og þannig verða skattstjóraumdæmin, — það hljóti að verða til þess, að persónulegs kunnugleika við álagningu útsvaranna gæti miklu minna en áður. En við álagningu útsvara hefur það oft komið fyrir, að kunnugleiki niðurjöfnunarnefndarmanna veldur því, að hægt er að draga úr útsvarsbyrði manna og fyrirtækja, þegar árferði eða atburðir hafa verið viðkomandi öndverð og andstæð, þegar einstaklingur t.d. hefur orðið fyrir einhverjum áföllum, þannig að tekjur hans hafa runnið niður, og um þetta er vitað í hans nágrenni, þegar niðurjöfnun útsvaranna fer fram. En þegar skattstjórinn, sem situr einhvers staðar á einum stað á þessu stóra svæði, leggur á, þá verður það vélrænt, hann gerir það í vél, og hann getur engin slík mannleg tillit tekið, nema þá á blettinum í kringum sig. Að þessu leyti held ég, að þetta verði einnig til hins verra, auk þess sem ég efa stórlega, eins og ég áðan vék að, að þetta nýja skipulag verði til nokkurs sparnaðar. Ég held, að þarna komi stórar skattstjóraskrifstofur með allmiklu starfsliði og svo öllum umboðsmönnunum í hverju sveitarfélagi fyrir skattstjóra, auk framtalsnefndanna, sem er í raun og veru bara nýtt nafn á hreppsnefnd.

Ég skal ekki fara miklu fleiri orðum um þetta frv. við 1. umr. Ég á sæti í þeirri nefnd, sem það kemur til. Ég læt það í ljós, eins og ég hef þegar raunar gert, að Það er ýmislegt til bóta í þessu frv. Það er mikið verk, sem hefur verið hér unnið, það er mér alveg fyllilega ljóst, og af mönnum, sem hafa viljað gera vel. Sjálfsagt hefur stjórnarstefnan svo einhverju ráðið um það, hvernig frv. er í einstökum atriðum, og tel ég á því ýmsa meinbugi, sem ég geri mér vonir um að hv. meiri hl. hér á Alþ. verði svo víðsýnn að fallast á að laga og að frv. fái þannig breytingar til lagfæringar, áður en það verður gert að lögum.