15.03.1962
Neðri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, fyrir góðar undirtektir undir þetta frv. Ég mun ekki á þessu stigi gera að umtalsefni þær athugasemdir eða ábendingar, sem þeir fluttu hér fram, enda mörgu af því beint til hv. heilbr.- og félmn. og verður að sjálfsögðu tekið til athugunar af henni eftir 1. umr.

Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi minnast hér á, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. (HS), vegna þess að mér virtist kenna þar nokkurs misskilnings á ákvæðum þessa frv. og skattafrv. Hann minntist á það, að ég hefði áður skýrt frá því, að nú yrðu lagðar niður undirskattanefndir í landinu og mundi af því leiða mikinn sparnað, og er þetta rétt. Hins vegar taldi hann, að nú væri með öllu horfið frá þessu, því að nú ætti að koma upp framtalsnefndum í staðinn og auk þess að setja upp skattstofur víðs vegar. Þarna kennir nokkurs misskilnings hjá hv. þm.till., sem ég hef skýrt frá áður, að leggja niður allar undir og yfirskattanefndir í landinu, er alve,g óbreytt og kemur greinilega fram í frv. um tekju- og eignarskatt, sem liggur nú fyrir þessari hv. deild. Á þessu hefur engin breyting orðið. Varðandi framtalsnefndirnar, þá er þar ekki um nýjar nefndir að ræða. Í 37. gr. frv. um tekjustofna sveitarfélaga segir, að bæjarstjórn skuli kjósa framtalsnefnd til 4 ára, 3–5 manna. Þessar n. eru til samkv. lögum og hafa verið í hverju einasta bæjarfélagi. Það eru niðurjöfnunarnefndir, sem eftir þessu frv. eru kallaðar framtalsnefndir. Hér er ekki varðandi kaupstaðina fjölgað um eina einustu nefnd. Framtalsnefndin kemur í stað niðurjöfnunarnefndar. Varðandi niðurjöfnun í hreppunum segir í 38. gr.: „í hreppum annast hreppsnefnd störf framtalsnefndar“. M.ö.o.: hreppsnefndin jafnar niður, eins og er og verið hefur. Þar er engin ný nefnd í hreppunum. Til hægðarauka fyrir hreppsnefndirnar, ef þær kynnu að óska þess, að ekki þyrftu allir hreppsnefndarmenn að taka þátt í niðurjöfnuninni, þá er henni heimilað að fela 1–3 mönnum úr sínum hópi að vinna að Þessu starfi. M.ö.o.: að því er Þessi mál snertir, þá stendur það alveg óbreytt, sem ég hef áður sagt: undirskattanefndir og yfirskattanefndir lagðar niður, og framtalsnefndirnar koma í stað niðurjöfnunarnefnda, engar nýjar nefndir hér um að ræða.

Varðandi skattstofurnar er látið liggja að því, að hér sé verið að stofna mörg ný embætti og skattstofubákn með mörgum starfsmönnum, og kom það einnig fram í ræðu hv. 4. landsk. þm. Hér er líka um misskilning að ræða. Það er gert ráð fyrir í frv., að 9 skattstjórar og 9 skattstofur verði í landinu, þ.e. ein fyrir hvert kjördæmi og sú níunda í Vestmannaeyjum, og var því bætt inn í hv. Ed. vegna sérstöðu Vestmannaeyja. Hvað eru skattstjórarnir í landinu margir nú? Og hvað voru þeir margir, þegar hin ágæta vinstri stjórn lét af völdum? Þeir voru ekki 9, þeir voru 10. M.ö.o.: með þessu frv. er Þó heldur fækkað en hitt. Þessir skattstjórar, sem nú eru í landinu, eru í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík, Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Akureyri, Siglufirði, Ísafirði, Akranesi, 10 að tölu. Ég á því bágt með að skilja Þá túlkun á frv., sem gerir ráð fyrir fækkun skattstjóra, að með því sé verið að fjölga. Ég tek þetta aðeins fram hér til að leiðrétta þennan misskilning, sem ég efa ekki að hefur verið algerlega óviljandi hjá þessum hv. þingmönnum.