27.03.1962
Neðri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fram eftir öllum vetri voru að berast fregnir um það, að frv. um nýja tekjustofna sveitarfélaga væri rétt í Þann veginn að koma hér í þinginu. Svo fréttist það, að mþn. sú, sem hefði haft það verkefni með höndum að semja slíkt frv., væri búin að ljúka störfum og hefði skilað frv. um þetta efni til hæstv. ríkisstj. En samt liðu vikur, margar vikur, og mun þá ríkisstj. hafa verið að athuga frv. En Það varð talsverð bið á því, að frv. kæmi. Má af því ráða, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki öll verið á eitt sátt um það, hvort hægt væri að leggja það fram sem stjórnarfrv., án Þess að á því væru gerðar einhverjar meira eða minna veigamiklar breytingar. Svo mikið er vist, að Þegar frv. loks kom, Þá var það á Ýmsan hátt öðruvísi en fréttir höfðu borizt af Því. T.d. hafði verið sagt, að bönkunum yrði í þessu væntanlega frv. ætlað að bera um 16 millj. kr. af landsútsvari því, sem lagt yrði til í frv. að upp yrði tekið. En þegar frv. kom fyrir Alþ., var ekki orð eða bókstafur um það, að bankarnir ættu að bera landsútsvör, hvorki 16 millj. kr. né neina aðra lægri upphæð. Af þessu virðist mega ráða, að að þessu leyti hefur hæstv. ríkisstj. a.m.k. látið fella úr frv. allveigamikið atriði og þannig dregið úr einum af Þeim tekjustofnum, sem hv. mþn. hafði lagt til að sveitarfélögin fengju. Frv. er þess vegna nokkuð afturmjórra og smærra í sniðum en menn höfðu búizt við, að því er það efnisatriði snertir að sjá sveitarfélögunum í landinu fyrir nýjum tekjustofnum. Það er að vísu ákvæði í frv. um landsútsvör, en það er ekki mjög gildur tekjustofn, Þegar allt kemur til alls, og miklu rýrari en sveitarstjórnarmenn munu yfirleitt hafa gert sér vonir um, einkanlega eftir að fregnir fóru að berast af frv. Ég hygg því, að af þessu megi ráða, að frv. hafi heldur verið breytt til hins verra í meðförum hæstv. ríkisstj. frá því, sem frv. var, Þegar mþn. skilaði því í hendur henni. A.m.k. fer það ekki á milli mála, að þegar um er að ræða frv. til l. um nýja tekjustofna handa tekjuknöppum sveitarfélögum, þá er það til hins verra, að niður sé felldur 16 millj. kr. póstur, þótt ekki væri um annað að ræða en þessa breyt. að hafa fellt niður landsútsvar á bönkum, sem þeirri upphæð næmi.

Það var fyrst um miðjan marzmánuð, sem frv. um tekjustofna sveitarfélaga var útbýtt hér á Alþ. og nú er 27. marz, svo að það er rétt um hálfur mánuður, síðan þetta mikla mál var lagt fyrir þingið. Nokkrum dögum seinna kom það svo til 1. umr. og var allmikið rætt og að því búnu vísað til nefndar. Það var þegar ljóst í heilbr.- og félmn., að stjórnarflokkarnir legðu mikla áherzlu á, að málið fengi skjóta afgreiðslu. Þó var ekki með öllu fyrir það synjað, að eitthvert tóm gæfist til athugunar á málinu, enda hefði annað verið ósvinna, og tóku nm. því allir mjög vel að hraða störfum og sátu á fundum nálega daglega til athugunar á frv. En eins og menn sjá af Þessu, fer því víðs fjarri, að nokkurt eðlilegt tóm eða nauðsynlegt tóm hafi gefizt til þess að kanna svo víðtækan og yfirgripsmikinn lagabálk sem hér er um að ræða. Afgreiðsla á einum hálfum mánuði á slíku máli sem þessu er flaustursafgreiðsla. Það verður ekki hægt annað að segja. Það hefði verið eðlilegt, að slíkt stórmál, sem sveitarfélögin í landinu eiga um lengri eða skemmri tíma í framtíðinni við að búa, hefði fengið miklu meira rúm til vandlegrar athugunar. Það er vani hér á hv. Alþingi, nálega ófrávíkjanlegur vani, jafnvel þó að um smámál sé að ræða, að Þau séu send víða vegu í ýmsar áttir hinum og þessum aðilum, sem taldir eru hafa sérstaka aðstöðu til að þekkja til viðkomandi máls í einstökum atriðum, jafnvel smáatriðum, og leita umsagnar þessara aðila um málið, og alltaf siðvenja að veita tóm til þess, að slíkar umsagnir berist. Það þætti mjög óþinglegt, ef einhver risi gegn því, jafnvel þótt um tiltölulega smávægilegt mál væri að ræða, að mál væri sent til umsagnar og viðkomendum, sem að því væru spurðir, gefið hæfilegt tóm til þess að senda þinginu umsögn sina og álitsgerð.

Nú skyldu menn ætla, að þetta mál hefði sætt þessari venjulegu, þinglegu meðferð, að vera sent til umsagnar, — og þá hverjum? Fyrst og fremst auðvitað sveitarstjórnum um allt land. Hér er um að ræða grundvallarmál fyrir alla tekjuöflun sveitarfélaganna, og mér finnst, að það sé lágmarkskrafa, sem gera beri, að ekki sé lögfest víðtæk ný löggjöf um tekjustofna sveitarfélaganna, án þess að sveitarfélögin séu þar að spurð. Og ég fæ ekki séð, að neitt reki svo harkalega á eftir þessu máli, að Það hefði ekki verið hægt að koma slíkum vinnubrögðum við, að senda frv. til sveitarstjórnanna til umsagnar. En Það var ekki sent, ekki einni einustu sveitarstjórn. Engin sveitarstjórn mér vitanlega hefur fengið málið til umsagnar. Ef svo er, þá hefur það gerzt, meðan frv. var í smíðum hjá milliþn., en síðan það kom til meðferðar á Alþ. hefur það ekki verið sent til umsagnar neinni sveitarstjórn, að ég viti.

Þetta álit ég vera miður farið, því að það má ætla, að sveitarstjórnarmenn hefðu látið sig málið skipta og brugðizt fljótt við að senda sínar umsagnir og vafalaust getað þá út frá sinni reynslu gert ýmiss konar gagnlegar athugasemdir og veitt nytsamar leiðbeiningar um einstök efnisatriði málsins. Það var enn sjálfsagðara að beita þessum vinnubrögðum sökum þess, að málið er svo seint á ferðinni, að sveitarfélögin eru nú á þessu gjaldári búin, flest stærstu bæjarfélögin a.m.k., að ganga frá fjárhagsáætlun sinni fyrir árið 1962. Þau eru búin að ákveða heildarupphæð útsvaranna og leggja þannig málið í hendur sínum niðurjöfnunarnefndum til framkvæmda. En hér eru tillögur á ferðinni um, að nýr tekjustofn skuli koma til, sem hefur ekki verið úr að spila áður hjá sveitarfélögunum, á ég þar við landsútsvörin, og gæti það auðvitað og hlyti, ef ekki á að vera um aukna skattlagningu að ræða á gjaldþegnum sveitarfélaganna, að lækka eitthvað heildarupphæð útsvaranna. Frv. kemur því of seint til þess, að það sé vandkvæðalaust að taka það allt saman til framkvæmda á þessu gjaldári. Það er og viðurkennt af hv. meiri hl., að frv. kemur svo seint, að það verður ekki hægt með nokkru móti að framkvæma það að öllu leyti á þessu ári.

Og hvað er það, sem stendur í veginum með það? Hér er ekki af meiri hl. hugsað til þeirra vandkvæða, sem ég drap á áðan. Nei, það er viðurkennt, að það verði ekki búið á fyrri hluta ársins 1962 að koma upp þeim embættum, sem frv. gerir ráð fyrir. Það verður ekki búið að koma á laggir hinum nýju skattstjóraembættum, sem eiga að framkvæma að verulegu leyti í samstarfi við svonefndar framtalsnefndir í sveitarfélögunum álagningu útsvaranna og aðstöðugjalds. Og þetta er vitanlega alveg rétt. Þó að það mál kunni að sjálfsögðu að vera vel undirbúið hjá hæstv. ríkisstj., að stofna til þessara skattstjóraembætta, og vafalaust sé búið að hugsa sér hina lukkulegu, væntanlegu skattstjóra, þá er ýmislegt fleira í sambandi við það. Það þarf að útvega þeim embættisaðstöðu og ráða þeim starfsfólk, áður en þeir geta innt af hendi sitt mikilvæga hlutverk, og má ætla, að það verði ekki á fyrra helmingi ársins 1962, sem þetta verði allt saman komið í kring. Skattstjóraembættin níu verða vafalaust ekki tekin til starfa svo snemma á árinu 1962, að þau geti innt af hendi það hlutverk, sem ráð er fyrir gert í þessu frv. Þetta er ein veigamikil ástæða til þess, úr því að ekki er hægt að framkvæma þessa væntanlegu löggjöf nema að nokkru leyti á árinu 1962, að sá háttur hefði Þá verið upp tekinn hreinlega að leggja málið núna fyrir síðari hluta þessa þings, vísa því síðan til umsagnar sveitarstjórnum og vinna úr umsögnum þeirra í byrjun næsta þings og koma þá frv. í gegn á síðari hluta þessa árs eða í ársbyrjun 1963. Þá hefði verið hægt að koma við skynsamlegum og mennilegum vinnubrögðum við þessa breyt. á lögunum um tekjuöflun sveitarfélaganna.

Þetta, sem ég nú hef sagt, er játað í bráðabirgðaákvæði með frv., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Skattanefndir (skattstjórar, þar sem þeir eru) skulu leggja á aðstöðugjald á árinu 1962, og skal gjaldið miðað við útgjöld, efnis- og vörukaup svo og fyrningarafskriftir á árinu 1961. Tilkynning sú, er um ræðir í 13. gr., skal send til skattanefnda (skattstjóra) eigi síðar en 1. júli 1962. Gjalddagi aðstöðugjalds á árinu 1962 skal vera 1. september.“

Í c-lið þessa bráðabirgðaákvæðis segir enn fremur:

„Á árinu 1962 leggja niðurjöfnunarnefndir og hreppsnefndir á útsvör samkv. V. kafla laga þessara, og fer um kærur og fresti eftir l. nr. 66 frá 1945 á því ári.“

Og að lokum er í bráðabirgðaákvæðinu e-liður, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árunum 1962–1967 er heimilt að víkja frá ákvæðum skattalaga um frádrátt, samkv. l. um tekjuskatt og eignarskatt“ o.s.frv.

Þessi bráðabirgðaákvæði sum eru beint sett með frv. vegna Þess, að mönnum er ljóst, að hversu hratt sem afgreiðsla þessa máls gengur í gegnum þingið, þá verða hin nýju skattstjóraembætti ekki orðin starfhæf svo snemma á árinu 1962, að þau geti innt af hendi sitt hlutverk samkv. hinni nýju löggjöf. Og það segi ég að gefi vísbendingu um, að öllu eðlilegra hefði verið að fresta allri afgreiðslu málsins til næsta þings, en láta sveitarstjórnirnar fá tækifæri til Þess í millitíðinni að segja álit sitt um frv. og miðla hv. þm., sem síðar eiga að afgreiða það, af sínum ríka reynslusjóði.

Nú kynnu menn að segja, að það, sem reki á eftir um setningu þessara laga, sé, að það sé verið að veita sveitarfélögunum nýja tekjustofna og þeim veiti ekki af að verða þeirra aðnjótandi þegar á þessu ári. Það er að vísu satt, að landsútsvarið er þarna nýr tekjustofn, og vafalaust langar sveitarstjórnirnar til þess að fá það sem fyrst ásamt útsvarstekjum og öðrum tekjum sínum á árinu 1962. En ekki finnst mér það skipta svo gífurlega miklu máli, hvort það er að einhverju leyti á þessu ári eða strax á því næsta, sem sá tekjustofn berst sveitarfélögunum í hendur. Það er ekki um það stóra tekjustofna að ræða nýja í þessu frv., að það skipti verulegu máli fyrir sveitarfélögin, hvort sú breyting verður á tekjumöguleikum þeirra á árinu 1962 eða árinu 1963. Mér finnst því, að þrátt fyrir það hefði verið tilvinnandi, að þetta stóra mál hefði fengið rýmri tíma til afgreiðslu og þannig betri undirbúning, þó að af því hefði leitt, að það hlyti ekki lögfestingu fyrr en í lok þessa árs, í upphafi næsta þings, eða í byrjun ársins 1963. En um það þýðir sjálfsagt ekki að tala. Ég játa, að það var ekki borin fram bein brtt. um þetta í heilbr.- og félmn., en mér fannst á öllu, að slíkur tillöguflutningur væri þýðingarlaus, því að það væri slíkt kapp lagt á að afgreiða málið án tafar, að Það mundi vera tilgangslaust. En ég taldi fyllilega ástæðu til að vekja athygli á því, hver hefðu verið eðlilegri og æskilegri vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu málsins.

Eins og frsm. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. vék að í sinni framsöguræðu hér áðan, bárust n., meðan hún hafði málið til meðferðar, nokkur erindi viðvíkjandi frv., og Þau voru öll andmæli og athugasemdir og bárust á þessum skamma tíma, sem n. hafði málið til meðferðar. Þetta virtist strax benda til þess, að ýmsir aðilar væru í landinu, sem hefðu eitt og annað við frv. að athuga, eins og það væri úr garði gert. Það var í fyrsta lagi mikið erindi upp á margar vélritaðar síður frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Þar var alveg sérstaklega og af miklum alvöruþunga andmælt ákvæðum 9. gr. frv. um aðstöðugjaldið, sem koma skal, svo sem öllum er nú orðið kunnugt, í staðinn fyrir veltuútsvörin hjá sveitarfélögunum. Þeir forsvarsmenn L.Í.Ú., sem mættu á fundinum, einir 7 eða 8, og fylgdu þar með eftir sínu ýtarlega erindi, sinni skriflegu gagnrýni á vissum ákvæðum frv., þeir sögðu Það hiklaust við nefndina, að ef það hefði verið hugsað sem aðstoð við atvinnulífið í landinu, sjávarútveginn sérstaklega, að létta af þeim veltuútsvörunum, pá yrðu þeir að segja það skýrt og skorinort, að aðstöðugjaldið þætti þeim öllu verra. Látið okkur þá heldur fá að halda okkar veltuútsvari, sögðu þeir. Þeirra afstaða var þessi. Þeir báðu heldur um veltuútsvarið áfram en hið nýja aðstöðugjald, sem koma skyldi í þess stað. Hitt var svo varatillaga þeirra, að ef aðstöðugjaldið ekki fengist hreinlega fellt niður og veltuútsvarinu fremur haldið, þá yrðu a.m.k. gerðar breytingar, sem tryggðu, að það yrði takmarkaður grundvöllur sá, sem leggja mætti aðstöðugjaldið á, einkanlega hjá fyrirtækjum útgerðarmanna og fiskiðnaðarfyrirtækjum.

Hv. meiri hl. hefur að vísu synjað Landssambandi ísl. útvegsmanna algerlega um það að hverfa frá því að taka upp aðstöðugjaldið og láta þá hafa sitt veltuútsvar áfram, eins og þeir skýrt og skorinort báðu um. En hins vegar hefur meiri hl., — það skal játað, — komið dálítið til móts við þá með því að takmarka ákvæðin um aðstöðugjald þannig, að skýrt sé, að það leggist ekki á eigin fjárfestingu fyrirtækjanna, en eingöngu á samanlögð rekstrarútgjöld Þeirra, — áður stóð: samanlögð útgjöld, — en það þrengir nokkuð grundvöllinn, sem gjaldið leggst á, þegar tekið er fram, að það skuli einungis vera samanlögð rekstrarútgjöld fyrirtækjanna. Að þessu leyti hefur verið komið til móts við hina sterku gagnrýni L.Í.Ú., sem Landssambandið fylgdi svo mjög eftir, að það sendi fyrst langt og ýtarlegt erindi og lét síðan stóra sveit gervilegra útgerðarmanna koma á fund n. til þess að ræða við hana ýtarlega sín sjónarmið. Hvernig þeir una þessum hlut sínum, skal ég ekki um segja, en svo mikið er vist, að þeir létu svo sem þeim væri það mest í mun að fá heldur að halda veltuútsvarinu og mega vera lausir við þetta svonefnda aðstöðugjald.

Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi sendi heilbr.- og félmn. einnig erindi út af þessu frv. og gagnrýndi nokkur ákvæði Þess, nokkur þau sömu, sem L.Í.Ú. hafði gagnrýnt, og gerðu forsvarsmenn þeirra samtaka einnig grein fyrir sínu máli. Það, sem þeir vildu einkum fá lagfært, var það, að ekki gæti undir nokkrum kringumstæðum komið til mála, að eigin fjárfesting fyrirtækja yrði skattlögð með aðstöðugjaldinu. Eru brtt., sem gerðar hafa verið á 9. gr. samkv. till. meiri hl. heilbr.- og félmn., því að nokkru leyti svar við þeirra erindi.

Félag skattstjóra hafði einnig ritað n. og gert athugasemdir um eitt atriði frv., þ.e.a.s. um launagreiðslur til skattstjóra, og vildu fá Þar á breytingar nokkrar.

Þá barst einnig erindi frá stjórn kaupstaðasamtakanna á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi, og fulltrúar frá stjórn þeirra samtaka mættu einnig hjá heilbr.- og félmn. á fundi og ræddu sínar brtt., sem þeir lögðu fram. Þeir lögðu fram þó nokkuð margar brtt. við frv. Hafa, að ég held, fæstar Þeirra verið teknar til greina, en þó ein eða tvær þeirra.

Og að síðustu var svo lagt fram á fundi í heilbr.- og félmn. bréf frá bæjarstjóranum á Siglufirði, þar sem bent var á þá staðreynd, að Siglufjarðarkaupstaður mundi verða fyrir tekjutjóni af frv., ef það yrði lögfest. Að því er það sveitarfélag snerti væri því ekki um nýja tekjustofna eða auknar tekjur að ræða, heldur yrði Siglufjarðarkaupstaður fyrir tekjuskerðingu sökum þess, að ríkisfyrirtæki þar, svo sem síldarverksmiðjurnar fyrst og fremst, hefðu goldið þar í bæjarsjóðinn opinber gjöld, og mundi sú skattgreiðsla nú að mjög miklu leyti hverfa og bærinn því verða fyrir tilfinnanlegum tekjumissi. Þessu verður ekki heldur mótmælt. Þetta er þannig. Nokkur sveitarfélög, Siglufjörður, Raufarhöfn, Seyðisfjörður, Njarðvíkurhreppur og sennilega nokkur fleiri verða fyrir tekjumissi við lögfestingu þessa frv., og er það því von, að þau mótmæli slíku, þegar um er að ræða lagafrv., sem á að bæta aðstöðu sveitarfélaganna, en ekki að spilla henni. Það skal hins vegar játað, og kem ég að því nánar síðar, að með 6. till. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. er nokkuð komið til móts við þau sveitarfélög, sem verða fyrir skell af völdum þessa frv., og munu þau e.t.v. una sínum hlut nokkru skár, ef sú till. verður samþ., svo sem búast má við.

Mig vantar nú nál. meiri hl. heilbr.- og félmn., en ég man það þó rétt, að í nál. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. er það alveg játað, að nokkur sveitarfélög verði fyrir barðinu á þessu frv. og verði fyrir tekjurýrnun, svo að það fer vitanlega ekki á milli mála. Það er og játað í nál. meiri hlutans, að í þessu frv. sé um minni háttar tekjuaukningu að ræða fyrir sveitarfélögin í heild heldur en í frv., sem var til bráðabirgða og afgr. hér á Alþ. á árinu 1960. Þá fengu sveitarfélögin 1/5 af innheimtum söluskatti til ríkissjóðs, og það var nokkur tekjubót fyrir sveitarfélögin, en svo segir í nál. meiri hl.: „Að þessu sinni er aðallega um það að ræða að lögfesta landsútsvör,“ — og það er rétt. Það er í raun og veru ekki um aðra nýja tekjustofna að ræða í þessu frv. en þennan litla visi að landsútsvörum, sem hér er lagt til að upp verði tekinn í 17. –19. gr. frv. Öll þau sveitarfélög, sem kærðu sig um, hafa í gildandi l. haft heimild til þess að leggja á fasteignaskatt, svo að hann er ekki nýr tekjustofn. Aðstöðugjaldið er, eins og ég hef margsinnis vikið að hér áður, eiginlega nýtt nafn fyrst og fremst á veltuútsvörunum. Ákvæðin um hluta sveitarfélaganna af söluskatti eru óbreytt frá því, sem verið hefur. Og þá ber að þessum brunni, að það eru landsútsvörin ein, sem eru hinn nýi tekjustofn, sem sveitarfélögin fá með lögfestingu þessa frv. Það er að vísu rétt, að nú er skylt samkv. frv. að leggja á fasteignaskatt, en áður hefur það verið heimilt. — Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um nál. meiri hl., en vil lítillega þessu næst víkja að brtt. þeim, sem hv. meiri hl. n. hefur lagt fram á þskj. 462.

N. var nefnilega klofin að mér fjarstöddum. Ég var sjúkur einn dag og tilkynnti auðvitað skrifstofu þingsins það, og hafði þannig lögleg sjúkdómsforföll. En á þeim degi var lokið meðferð heilbr.- og félmn. á þessu frv, og nefndin klofin. Mér gafst því ekki kostur á að segja til um, hverjum af brtt. hv. meiri hl. ég gæti fylgt og hverjum ekki, né heldur gat ég gert hv. meiri hl. neina grein fyrir brtt. mínum. N. klofnaði því án þess, að gengið væri úr skugga um, að hve miklu leyti hugsanlegt hefði verið að fá heildarsamkomulag um brtt. við frv. Þetta sýnir, að hv. meiri hl. n. taldi sig vera mjög bundinn í báða skó um það að hraða sem allra mest afgreiðslu frv., því að vissulega eru það æskilegust vinnubrögð, að úr því fáist skorið í nefndarstarfinu, að hve miklu leyti samkomulag er um mál og að hve miklu leyti menn geta orðið sammála um brtt. frá stjórnmálaflokkunum á þingi. En í þessu tilfelli gafst ekki tóm til þess sökum eins dags veikindaforfalla. Ég verð því að verja nokkrum mínútum í það að gera grein fyrir afstöðu minni til þeirra brtt., sem hv. meiri hl. n. ber fram á þskj. 462. Ég skal fara þar mjög fljótt yfir sögu, því að eiginlega hefði þetta átt að gerast upp í nefndinni.

Ég tel 1. brtt., við 9. gr., um að takmarka nokkuð þann grundvöll, sem aðstöðugjaldið leggst á, vera til nokkurra bóta. En þó er ég henni ekki að öllu leyti samþykkur. Ég tel alveg ástæðulaust að breyta gr. frá því, sem er í frv., að því er snertir hvers konar verzlunar- og þjónustufyrirtæki. Ég tel, að gr. hefði mátt að ósekju gagnvart Þeim vera sem næst óbreytt. En hins vegar er full ástæða til þess að breyta greininni og Þrengja grundvöll hennar að því er snertir útgerðarfyrirtæki og fiskvinnslufyrirtæki, því að þau eru þannig stödd, að þessi gjöld leggjast af öllum þunga sínum á þau og þeirra rekstur, og slík fyrirtæki eiga þess engan kost að veita þeim af sér yfir á aðra, og skiptir því mjög miklu máli, að þau séu sanngjarnlega lögð á slík atvinnufyrirtæki. Ég flyt því einnig brtt. við þessa grein og nokkuð í sömu átt og hv. meiri hl. gerir, en þó að verulegu leyti á annan veg, og mun ég gera grein fyrir því nánar, þegar ég ræði um minar eigin tillögur. Þó verð ég að játa það, að gr. er til bóta svo orðuð sem meirihlutamennirnir í heilbr.- og félmn. gera ráð fyrir, samanborið við það, sem er í sjálfu frv. Að minni till. fallinni mundi ég því sennilega greiða henni atkv.

Þá er 2. till. Hún er eingöngu um það að færa fram gjalddaga á aðstöðugjaldinu, og tel ég það til bóta.

3. till. er um það, að sveitarfélögum, sem megi leggja sin útsvör á sjálf og ein án þess að þurfa að fara með það í kokkhúsið til skattstjórans. þeim er fjölgað með brtt. meiri hl., þannig að þessa sjálfsákvörðunarréttar njóta nú ekki aðeins hin allra smæstu sveitarfélög, upp að 300 íbúum, heldur nokkru fleiri, þ.e.a.s. sínum sjálfsákvörðunarrétti eiga að mega halda um álagningu útsvaranna Þrátt fyrir öll skattstjóraembættin sveitarfélög, sem hafa 500 íbúa. Þetta sýnir, að sú skerðing á sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna, sem felst í þessu frv., þykir svo mikil og tilfinnanleg, og sveitarfélög með 500 íbúa og færri hafa andmælt þessari réttindaskerðingu svo kröftuglega, að meiri hl. hefur hrokkið við og fellst á að láta sveitarfélög með allt upp að 500 íbúum halda þessum rétti, að ráða að öllu skattlagningu sinni að því er snertir útsvarsálagninguna. En hin stærstu, hvers sem þau eiga nú að gjalda, fá ekki að halda þessum rétti. Þau verða fyrir þeirri réttindaskerðingu um sjálfsákvörðunarvald yfir útsvarsálagningunni, sem hin vilja ekki sætta sig við, hin smærri, og látið er eftir þeim, að þau skuli vera laus við. Ég hef ekki heyrt nein rök færð fyrir því, hvers vegna sé nauðsynlegt að koma þarna til móts við eindreginn vilja og óskir hinna smærri sveitarfélaga, en synja aftur hinum stærri sveitarfélögum um það. Mín till. er því sú, að öll sveitarfélög landsins fái að halda þeim sjálfsákvörðunarrétti, sem þau nú hafa um álagningu sinna útsvara, og legg til, að allur kaflinn um nýja skattstjóraembættafarganið verði felldur niður.

5. brtt. er sjálfsögð. Hún er um það að heimila sveitarstjórnum að breyta gjalddögum þeirra gjalda, sem eiga að renna í sveitarsjóð, til samræmis við gjalddaga útsvaranna, svo að hægt sé að hafa Þessa innheimtu meira sameinaða, t.d. láta gjaldseðil með öllum gjöldunum koma í einu, en ekki að þurfa að gefa út jafnmarga gjaldkröfuseðla og skattstofnarnir eru margir, en þannig var þetta í frv. Þessi till. er því ótvírætt til bóta miðað við hagkvæma framkvæmd.

Og svo er 6. till., sem viðurkennir það, að samkv. frv. verði þó nokkuð mörg sveitarfélög fyrir tekjuskerðingu við setningu laganna, og þess vegna er lagt til af meiri hl., að á árunum 1963–65 skuli ráðh. vera heimilt að verja fé úr jöfnunarsjóði til þess að bæta sveitarfélögum að nokkru eða öllu leyti þann halla, sem þau kunna að bíða vegna ákvæðanna um landsútsvör, ef hallinn er verulegur fyrir sveitarfélagið og útsvarsbyrði þess til muna meiri en almennt gerist. Þetta er verndarákvæði gagnvart þeim sveitarfélögum, sem verða fyrir tekjumissi við setningu þessara laga, lögfestingu Þessa frv., og er ég því fyllilega samþykkur, þótt eðlilegast hefði verið að búa svo um hnútana í frv. sjálfu, að tekjuskerðing yrði a.m.k. ekki mjög tilfinnanleg hjá neinu sveitarfélagi við þetta nýja tekjuöflunarfrv.

Þá kem ég að því að gera grein fyrir brtt. mínum, sem nú rétt í þessu hefur verið útbýtt og eru á þskj. 494. Þetta eru 13 till., sumar um grundvallaratriði frv., og vil ég fara um þær nokkrum orðum. (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann, hvort hann telji ekki rétt að gera hlé á ræðu sinni?) Jú, ég held það. Það er alveg nýtt efni í henni núna. (Forseti: Þá verður fundinum frestað til kl. 5.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. í fyrri hluta ræðu minnar, fyrir fundarhlé, hafði ég skýrt frá vinnubrögðum í n., rætt nokkuð um nál. meiri hl. og brtt. meiri hl. og gert grein fyrir afstöðu minni til þeirra tillagna, þar sem þær höfðu verið afgr. á nefndarfundi, þar sem ég hafði ekki mætt. Ég hafði þar komið máli mínu, þegar ég hugðist fara að gera grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt við málið.

1. brtt. mín á þskj. 494 er við 9. gr. frv. og er um það að slá þann varnagla í fyrsta lagi, að aðstöðugjaldið verði aldrei lagt á annað en samanlögð rekstrarútgjöld, og er það í samræmi við till. meiri hl., og í annan stað, að aðstöðugjald útgerðar- og fiskiðnaðarfyrirtækja skuli aldrei miðast við hærri rekstrarútgjöld en sem brúttótekjum rekstrarins nemur. Ég tel, að útgerðar- og fiskiðnaðarfyrirtæki hafi þarna sérstöðu, og það verður því að gjalda sérstaklega varhuga við að leggja ekki gjaldið á annað en bein rekstrarútgjöld þeirra, og tel eðlilegt, að það hámark sé sett, að viðmiðunin sé aldrei hærri en brúttótekjunum nemur. M.ö.o.: ég legg til, að 9. gr. orðist svo: „Aðstöðugjald skal miða við samanlögð rekstrarútgjöld vegna atvinnurekstrarins næstliðið almanaksár, þar með talin efnis- og vörukaup iðnfyrirtækja svo og fyrningarafskriftir samkv. ákvæðum skattalaga. Aðstöðugjald útgerðar- og fiskiðnaðarfyrirtækja skal þó aldrei miðast við hærri rekstrarútgjöld en brúttótekjum rekstrarins nemur.“

Þá legg ég enn fremur til, að aðstöðugjaldið skuli ekki vera frádráttarbært. Ég tel það allt annars eðlis en venjuleg útsvör og tel, að það sé ástæðulaust, að það sé frádráttarbært. Hins vegar er þarna aðeins um að ræða útlínur þess, hvernig þetta verður lagt á, og betra að stilla gjaldinu heldur betur í hóf. Það hygg ég að megi treysta sveitarstjórnunum til að gera. þar sem þær, eins og nm. sögðu fulttrúum Landssambands ísl. útvegsmanna, hljóta öllum öðrum fremur að skilja það, að ekki má slátra mjólkurkúnni.

Rétt er, að ráðherra eigi þess kost að setja með reglugerð nánari ákvæði um álagningu gjaldsins.

Þegar 9. gr. væri komin í þetta horf, þá held ég. að það ætti ekki að geta komið neinu fyrirtæki að sök, að gjaldið sé lagt á eins og lagt er til í frv., á útgjöldin, þegar búið er að takmarka það á þennan hátt við sjálf rekstrarútgjöldin og veita rýmri skilyrði fyrir útgerðarfyrirtæki og fiskiðnaðarfyrirtæki en þar er gert. Þetta er mín fyrsta brtt. Og ég hef áður tekið það fram, að till. meiri hl. um breyt. á 9. gr. fer nokkuð í sömu átt, þó að þær séu engan veginn sama efnis. En fyrir hvorum tveggja, meiri hl. og minni hl. heilbr.- og félmn., vakir það sama, að slá þarna varnagla að því er snertir álagningu aðstöðugjaldsins.

Við 10. gr. flyt ég einnig smábrtt. í 10. gr. frv. segir, að aðstöðugjaldið megi ekki vera hærra en þar er tilgreint, frá 1/2% og upp í 2%. En ég legg til, að stafliður e bætist við þessa grein og að í honum séu skartgripaverzlanir, sælgætissölur, kvikmyndahús í einkarekstri, blómaverzlanir og lyfjabúðir og á þessi fyrirtæki megi leggja allt að 3%, Þ.e.a.s. að þarna bætist við einn gjaldliður í viðbót með hærra hámark en í hinum liðunum og að undir hann falli skartgripaverzlanir, sælgætissölur, kvikmyndahús í einkarekstri, blómaverzlanir og lyfjabúðir. Í sumum sveitarfélögum mun það vera til, að sérákvæði gildi um þessa tegund fyrirtækja og að það sé lagt á eftir hærri reglum og rýmri en önnur atvinnufyrirtæki í viðkomandi sveitarfélagi.

Þá kem ég að einni af veigameiri brtt. við frv., og er sú till. um landsútsvörin, Ég lét það í ljós við 1. umr. um málið, að ég teldi till. um landsútsvör vera allt of þröngar og þar af leiðandi kæmu af þessu minni tekjur en eðlilegt væri til handa sveitarfélögunum, og eru till. mínar um landsútsvörin allvíðtækar. Ég legg til, að 17. gr. breytist verulega og verði gerð víðtækari, að 18. gr. í þeirri mynd, sem hún er í frv., falli niður, og efni 19. og 20. gr. breytist einnig verulega samkv. mínum till.

Efni þessarar till. minnar er í fyrsta lagi það, að landsútsvör skuli greiða fyrirtæki og stofnanir, sem reka starfsemi, er nær til landsins alls, svo sem olíufélög, skipafélög, bankar, tryggingafélög, heildsölufyrirtæki, útflutningssamtök, verzlunarstofnanir ríkisins, þar með talin sölunefnd varnarliðseigna, einnig sementsverksmiðja ríkisins, áburðarverksmiðjan, viðtækjaverzlun ríkisins, landssmiðjan, ríkisprentsmiðjan Gutenberg og þau fyrirtæki önnur, sem félmrn. úrskurði að samkv. eðli málsins falli undir þessi ákvæði. Með þessu móti eru það miklu fleiri fyrirtæki, sem ekki aðeins er heimilt, heldur skylt að leggja á landsútsvör, en í frv. segir. Og þetta væri því, ef brtt. mín verður samþ., orðinn miklu gildari tekjustofn handa sveitarfélögunum. Til þess er ætlazt samkv. minni till., að landsútsvörin skuli renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaga, og er einnig gert ráð fyrir því í frv., en landsútsvörin skuli í heild skiptast í réttu hlutfalli við íbúatölu sveitarfélaganna. Þetta er á annan veg en í frv., því að þar er ætlunin, að fjórðungur landsútsvars falli til hverju sveitarfélagi, þar sem viðkomandi fyrirtæki er staðsett, en að 3/4 hlutar landsútsvarsins, sem slíkt fyrirtæki á að bera, skuli skiptast eftir íbúatölu. Á þessu er meginmunur. Ég hygg, að ekki verði með rökum móti því mælt, að eðlilegast er, að landsútsvörin skiptist á öll sveitarfélög landsins eftir íbúatölu.

Með frv., eins og það er, mundu Reykjavíkurborg verða tryggðar allháar upphæðir af landsútsvari með ákvæðinu um, að 1/4 hluti landsútsvarsins skuli falla til þess sveitarfélags, sem fyrirtækin eru staðsett í. En út á sína feiknaháu íbúatölu fær Reykjavík líka bróðurpartinn af landsútsvörunum með þessari skiptingu, með því að láta íbúatölu sveitarfélaganna einungis ráða skiptingunni og þannig sé hún hlutfallsleg á öll sveitarfélögin, hlutdeild þeirra í landsútsvörunum sé hlutfallsleg að öllu leyti við íbúatöluna.

Ég sé, að nokkrar brtt. eru þegar komnar fram viðvíkjandi þessari grein. Þar er lagt ti1,

að landsútsvör verði ekki lögð á síldarverksmiðjur ríkisins, en þær skuli í staðinn greiða 1% af brúttó-andvirði seldra afurða á hverju ári til þess sveitarfélags, þar sem þær eru starfræktar. Ég játa, að það gæti komið til mála að undanþiggja af ríkisfyrirtækjunum einna helzt síldarverksmiðjur ríkisins og e.t.v. sementsverksmiðjuna, gangandi út frá því í fyrsta lagi, að síldarverksmiðjurnar geti búið við svo misjafnt árferði, að það beri að ganga varlega til verks með að skattleggja þær í góðærinu, og hins vegar, að sementsverksmiðja ríkisins á að inna af hendi þá þjónustu fyrir landslýð allan að framleiða sem allra ódýrast sement, og því vafasamt, hvort nokkurt útsvar á að leggja á slíkt fyrirtæki eins og sementsverksmiðjuna. En að öðru leyti teldi ég sjálfsagt, að öll ríkisfyrirtæki, sem annast verzlun og viðskipti, verði berendur landsútsvars.

Hér er lagt til, að olíufélögin, skipafélög, sem þjóna landsbyggðinni allri, bankar og tryggingafélög skuli bera landsútsvar, en frv. nær ekki yfirleitt til þessara stofnana, félaga, samtaka og fyrirtækja.

Gjalddagi landsútsvaranna tel ég sé rétt, að sé á miðju ári, á miðju gjaldárinu, og er lagt til, að hann verði 1. júlí.

Þá er mín 4. till. sú, að eftir 17. gr. frv. komi ný grein, er verði 18. gr., og sé hún svo hljóðandi: „Samband ísl. sveitarfélaga skipar fimm manna nefnd, er annast niðurjöfnun landsútsvara, en félmrn. sér um innheimtu þeirra. Landsútsvarið skal á lagt eftir sömu reglum og lög ákveða hverju sinni. Kærur vegna álagðra landsútsvara koma fyrst til úrskurðar nefndar þeirrar, sem jafnar þeim niður, en heimilt er útsvarsgreiðanda að kæra útsvarið áfram til ríkisskattanefndar, ef hann vill ekki una úrskurði niðurjöfnunarnefndarinnar. Landsútsvarsskyld fyrirtæki skulu ekki greiða sveitarútsvar af þeim viðskiptum, sem landsútsvar nær til.“

Hér er um alveg nýtt ákvæði að ræða. Í fyrsta lagi er ætlazt til Þess, að sérstök n. leggi landsútsvörin á, en í frv. segir ekkert um það, hver skuli leggja þau á, en það virðist vera gengið út frá því, að það verk hvíli á félmrn., félmrn. sjálft eigi að leggja landsútsvörin á. Ég tel, að svo mikið kalli að í félmrn. sem öðrum ráðuneytum af daglegum störfum, að erfitt sé áð taka við svona umfangsmiklu verkefni beint inn í ráðuneytið til framkvæmda, verki, sem verði að vinnast á skömmum tíma, og sé því eðlilegra, að Samband ísl. sveitarfélaga velji úr hópi sveitarstjórnarmanna fimm manna nefnd til þess að jafna landsútsvörunum niður, hún standi ábyrg fyrir sínum verkum og megi kæra til hennar, og geri hún þá þær leiðréttingar, sem henni þykir þurfa. En fáist ekki sú leiðrétting, sem gjaldendur vilji sætta sig við, þá gangi málið til hins æðra úrskurðarstigs, sem ráð er fyrir gert í frv., þ.e.a.s. ríkisskattanefndar.

Í 18. gr. frv. er ætlunin að leggja landsútsvarið á eftir þeim reglum, sem þar eru tilgreindar, mismunandi hundraðshluta af hagnaði ríkisfyrirtækja, af heildarsölu stofnana, sem greindar eru í 17. gr. d., og af heitdarsölu olíufélag

anna. En í mínum till. er lagt til, að á þessi fyrirtæki og stofnanir, sem landsútsvör skuli greiða, sé lagt landsútsvar eftir sömu reglum og lagaákvæðum sem gildandi eru hverju sinni um útsvör á fyrirtæki, — þó að útsvarsupphæðin eigi að skiptast á sveitarfélögin í landinu, beri þau sams konar útsvör og þau hefðu borið við núverandi aðstæður.

Þegar gerð hefur verið grein fyrir álagningu útsvaranna á þennan hátt, kemur af sjálfu sér, að 18. gr. frv. og 19. gr. eiga að falla niður, en í framhaldi af þessu eru nauðsynlegar breyt. á 20. gr., og legg ég til, að hún verði svo hljóðandi:

„Félmrn. annast úthlutun framlaga jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna. Kostnaður við störf niðurjöfnunarnefndar landsútsvara samkv. 18. gr. greiðist af heildarupphæð landsútsvara. Við úthlutun ráðuneytisins á landsútsvörum til sveitarfélaganna er því heimilt að halda eftir 1% af tekjum jöfnunarsjóðs til Þess að mæta þörfum sveitarfélaganna samkv. 15. gr., unz sjóðurinn nemur alls 7 millj. kr.“

Það er heimilað í frv. að halda eftir 1% af tekjum jöfnunarsjóðs, þar til hann hefur náð 5 millj. kr. En ég tel það mark í Það lægsta og vil, að þessi heimild gildi, þar til sjóðurinn hefur náð 7 millj. kr., og mætti þó e.t.v. setja það mark hærra, svo að nokkurn veginn verði fyrir því séð, að jöfnunarsjóðurinn fengi nokkurn styrk og gæti orðið nokkuð verulega þess umkominn að hjálpa sveitarfélögunum samkv. ákvæðum 15. gr. Ég taldi nauðsynlegt að hafa ákvæði um það í mínum brtt., að niðurjöfnunarnefndin, sem ég geri ráð fyrir að leggi landsútsvörin á, fengi þóknun fyrir sín störf og þá að sjálfsögðu af heildarupphæð landsútsvara, áður en hún kæmi til skipta milli sveitarfélaganna.

8. brtt. mín er aðeins um gjalddaga á framlagi jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna, og er í tillögunni svo kveðið á, að framlag jöfnunarsjóðsins til sveitarfélaganna greiðist þrisvar sinnum á ári, fyrir 15. maí, fyrir 15. okt. og fyrir 15. jan. Er það í samræmi við till. stjórnar kaunstaðasamtakanna á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að ef sveitarféla~ skuldar ríkissjóði vegna ríkisábyrgðar og á að fá landsútsvar, megi halda landsútsvarinu eftir, að svo miklu leyti sem það hrekkur til til þess að greiða ábyrgðarskuldina, og gæti þá svo farið, að sveitarfélagið fengi ekkert af landsútsvarinu í sínar rekstrarþarfir og yrði þannig í einu stóru átaki að greiða sina ábyrgðarskuld. Nú ber að sjálfsögðu að búa svo um, að ríkið hafi fulla aðstöðu til að innheimta sínar ábyrgðarskuldir, og hef ég því lagt til, að ákvæðið um þetta verði svo hljóðandi:

„Nú kemst sveitarsjóður eftir setningu þessara laga í vanskil með greiðslur vegna veittra ríkisábyrgða, og skal þá taka upp samninga um greiðslur ábyrgðarskuldarinnar, áður en hluti sveitarfélagsins er greiddur. Þó má aldrei ganga nær gjaldgetu sveitarfélags en svo í slíkum samningum, að útsvarsbyrðar gjaldenda í viðkomandi sveitarfélagi geti orðið innan eðlilegra takmarka, miðað við önnur sveitarfélög með hliðstæða aðstöðu.“

Með þessu væri tryggt, að samningar tækjust milli ríkissjóðs og sveitarfélagsins um greiðslu á ábyrgðarskuld, og nokkur trygging fyrir því, að greiðslubyrðinni væri dreift á það tímabil, sem væri sveitarfélaginu viðráðanlegt, án þess að þurfa að ofþyngja skattþegnunum vegna þess, að greiðslan væri heimtuð í einu lagi.

Þá er 9. brtt. mín við 30. gr. frv. Meginbreytingin hjá mér er sú, að allir þeir undirtöluliðir í 30. gr., sem víkja að skiptingu útsvara milli sveitarfélaga, skuli falla niður, og að þær leifar af útsvaraskiptingu milli sveitarfélaga, sem ráð er fyrir gert í frv., hverfi algerlega. Ég tel, að þetta séu gamlar leifar, sem ekki sé nauðsynlegt að viðhalda og tæpast sé rétt að viðhalda lengur, en fæ ekki betur séð en því muni fylgja mjög umfangsmikil skriffinnska að veita þessum útsvarshlutum milli sveitarfélaganna, frá sveitarfélagi og til, sitt á hvað, en mjög óvist, að þetta hafi nokkra praktíska þýðingu fyrir sveitarfélögin eftir allt saman, og held því, að það væri mjög gott að losna við þessar seinustu leifar af skiptingu útsvara, og það væri gert alveg hreint borð að því er þetta snertir með samþykkt minnar 9. brtt. En till. er um það, að greinin orðist svo:

„a. Hvert sveitarfélag leggur útsvar á sina íbúa, sbr. 13. gr. l. nr. 35 frá 1960, um lögheimili. b. Á aðra aðila skal útsvar lagt í því sveitarfélagi, þar sem aðalstarfsemi þeirra fer fram. c. Þar í sveit skal útsvar gjalda, sem það var á lagt, og á hún allt útsvarið (þ.e.a.s. sveitin).

d. Eigi verður útsvar lagt á aðila nema í einu sveitarfélagi á sama ári.“

En eins og ég hef sagt, allir þeir undirliðir 30. gr., sem að einhverju leyti fjalla um skiptingu útsvara milli sveitarfélaga, falli niður.

Þá kemur, að því er ég tel, með 10. brtt. minni ein af veigameiri brtt., því að hún fjallar um sjálfan útsvarsstigann. Samkv. frv. er í 32. gr. heimilað að leggja útsvör á einstaklinga frá og með 15 þús. kr. hreinum tekjum. Það mark finnst mér vera svo lágt, að Það sé bókstaflega fjarstæðukennt að ætla manni með 15 þús. kr. hreinar tekjur að bera útsvar. Í brtt. minni miða ég við það, að útsvar verði ekki lagt á lægri tekjur hjá einstaklingum en 30 þús. kr. hreinar tekjur. Held ég, að till. mín verði skýrust með því að lesa upp, hvernig útsvarsstiginn kæmi til með að líta út samkv. minni till. frá 30 þús. kr. og upp áð 100 þús. kr. og þar yfir, en á sama hátt og hann er byggður upp í frv., og hef ég þar breytt stiganum til samræmis við grundvallarbreytinguna, nefnilega það tekjumark, sem byrjað er á. Till. er þá á þessa leið, að af 30–40 þús. kr. greiðist 1000 af 30 þús. og 16% af afgangi. Af 40–50 þús. kr. greiðist 2800 kr. af 40 þús. og 18% af afganginum. Af 50–60 þús. kr. greiðist 4800 kr. útsvar af 50 Þús. og 20% af afganginum. Af 60–70 þús. kr. greiðist 7 þús. kr. af 60 þús. kr. tekjum og 22% af afganginum. Af 70–100 þús. kr. greiðist 9500 af 70 þús. og 25% af afganginum. En af 100 þús. kr. og þar yfir greiðist 17 þús. af 100 Þús. kr. og 30% af afganginum, sem sé að greiða í útsvar 30% af tekjum umfram 100 þús. kr., og er það sama og stiginn kveður á um samkv. frv. Breyt. liggur því í því, að ekki er heimilt að leggja útsvar á eins lágar tekjur og ráð er fyrir gert í frv. En það, hvernig útsvarsþunginn leggst á frá 30 þús. og upp að 100 þús., er jafnað út með uppbyggingu stigans eftir mjög svipuðum reglum og hann er byggður upp eftir í frv. En eftir 100 þús. kr. tekjur er útsvarsbyrðin hin sama samkv. till. minni og stiganum eins og hann er í frv.

Þá eru og smábreyt. við a-lið þessarar gr., 32. gr., en ekki verulegar. í frv. segir, að frá útsvari, eins og það reiknast samkv. þessum stiga, sé veittur fjölskyldufrádráttur, 800 kr. fyrir konu, en fyrir hvert barn innan 16 ára aldurs á framfæri gjaldandans samkv. eftirfarandi reglum: Fyrir fyrsta barn 1000 kr., — þetta er eins samkv. minni tili., — fyrir annað barn 1100 kr. og fyrir þriðja barn 1200 kr. Þessar tölur eru allar óbreyttar samkv. minni till. En síðan segir í frv., að eftir það hækki frádrátturinn um 100 kr. fyrir hvert barn, en þegar barnahópurinn er orðinn fjögur eða fleiri, tel ég rétt, að frádrátturinn hækki, og legg til, að eftir Það verði 200 kr. frádráttur fyrir hvert barn, frá og með fjórða barni. Í frv. segir svo. að auk þessa frádráttar sé heimilt að draga frá útsvari samkv. 1. málsgr. allt að 800 kr., þannig að útsvör allra verði lækkuð um hér um bil sömu upphæð. Ég legg til, að þessi heimild breytist úr 800 kr. í 1000 kr., en meginreglan sé hin sama, að þannig sé hægt að lækka útsvör allra um hér um bil sömu upphæð. Og enn fremur legg ég til, að fella megi niður með öllu útsvarsálagningu á tekjur, sem séu lægri en svo, að útsvarið af þeim verði 1000 kr., og er það samhljóða ákvæði í frv. í þessum tölul. gr. eru svo einnig ákvæði um útsvarsálagningu á félög í tveimur þrepum, og hef ég ekki gert neina brtt. við þau.

Þá er komið að D-kafla frv. um álagningu útsvara, þ.e.a.s. 37.–46. gr. Þetta er kaflinn um hin nýju skattstjóraembætti og hvernig þau eigi að starfa meira og minna í samstarfi við framtalsnefndirnar og að álagningu útsvaranna. Ég legg til, að allur kaflinn falli niður, og þýðir þáð þá, að áfram eigi að gilda þær reglur og þau lagaákvæði frá bráðabirgðaákvæðum um útsvör 1960, sem nú gilda, þannig að niðurjöfnunarnefndirnar annist álagningu útsvaranna og skattstjórafyrirkomulagið, sem nú er í landinu, verði að sinni óbreytt. Þetta er að sjálfsögðu allveigamikil breyting á frv., en mundi á þessu ári a.m.k. ekki hafa verulega þýðingu, vegna þess að frv. er svo seint á ferð, að aðstandendur frv. játa, að ýmiss konar framkvæmdaratriði, sem gert er ráð fyrir í þessum kafla, séu óhugsanleg á árinu 1962 vegna þess, hvað seint það kemur.

Ég er í fyrsta lagi þeirrar skoðunar, að þetta nýja skattstjóraembættiskerfi verði dýrt og væri þannig gott við það að losna. í annan stað held ég, að eins og kaflinn er byggður upp, þá sé lítt framkvæmanlegt fyrir framtalsnefndirnar að vinna samkv. ákvæðum hans. Þeim virðist vera ætlað að vinna úr framtölum manna, áður en skattstjóri hefur um framtölin fjallað, og undirbúa þau að öllu leyti undir lokaálagningu útsvaranna. Ég tel, að miklu eðlilegra væri, að öll framtöl gjaldþegnanna færu strax á byrjunarstigi gegnum hreinsunareld skattstjóraembættanna, ef þau eiga á annað borð að vera, og að starfseminni þarna væri í verulegum atriðum vikið við frá því, sem ráð er fyrir gert í frv. En með till. mínum er synt fram hjá þessum agnúum á samstarfi framtalsnefndar og skattstjóra á Þann hátt, að núverandi fyrirkomulag eigi að gilda og efni þessa kafla ekki að koma til framkvæmda.

Ég hef áður á það bent, að ég óttast, að sú dreifing ábyrgðar, sem leiða muni samkv. frv. af verkaskiptingu milli skattstjóra og framtalsnefndar, geti reynzt óheppileg, ef til ágreinings kæmi vegna útsvarsálagningarinnar. Þá kynni svo að fara, að hver kenndi öðrum um. Ég tel og, að störf framtalsnefnda séu, eins og ég áðan sagði, litt framkvæmanleg með þeim hætti, sem frv. gerir ráð fyrir, og held, að það mundu koma í ljós verulegir agnúar við framkvæmd starfa með þeim hætti, sem ráð er fyrir gert. Ég held því, að ráðlegt væri að athuga sinn gang betur, jafnvel af þeim, sem vilja halda fast við það, að þetta nýja embættakerfi verði sett á fót.

Ég held, að skattstjóraembættin með umboðsmönnum þeirra í hverju sveitarfélagi og fjölmennu starfsliði, sem sé þess umkomið að ljúka niðurjöfnunarstarfi á skömmum tíma, eins og vera þarf og hlýtur að verða, hljóti að verða mjög dýr í framkvæmd. Þess vegna held ég, að það sé mesta fásinna, jafnvel öfugmæli, að tala um sparnað, eins og gert hefur verið í sambandi við fyrirhugaða skipun skattstjóraembættanna, og það sem verst er, að ég efast um, að þetta fyrirkomulag reyndist fyllilega starfhæft á ýmsum stöðum á landinu. Niðurstaða mín er sem sé þessi, að ég legg til, að allur D-kaflinn falli niður.

Þá er 12. brtt. mín. Hún er við 47. gr. frv., um það, að b-liður gr. orðist svo: „Álagt útsvar, að frádregnu því, sem greiða ber samkvæmt a-lið, ber gjaldanda að greiða með sex jöfnum greiðslum á tímabilinu frá 1. ágúst til 1. febr. eftir ákvörðun sveitarstjórnar þannig: 1. ágúst, 1. sept., 1. okt., 1. nóv., 1. jan. og 1. febr.“ Nú mun það vera svo, að Þeir, sem greitt hafa útsvar sitt að fullu fyrir áramót, fá útsvarsupphæð sína dregna frá á næsta skattári, verða ekki útsvarsskyldir að því er snertir hina greiddu útsvarsupphæð. Og einnig þeir, sem greitt hafa útsvar sitt reglulega, þ.e. launþegar, og atvinnurekendur haldið eftir af tekjum þeirra mánaðarlega og skilað sveitarsjóðnum þannig útsvarsupphæð þeirra á reglubundnum gjalddögum, þeir munu hafa fengið útsvarið viðurkennt sem frádráttarbært, ef þeir höfðu greitt það fyrir 1. febr. næsta ár á eftir. Ég held, að það sé áreiðanlegt, að í frv., eins og það er, séu þessi ákvæði þrengd þannig, að öllum sé gert að skyldu að hafa greitt að fullu útsvar sitt fyrir áramót, og þannig gert ráð fyrir því, að þeir greiði einnig hluta af því eða lokaáfangann í desembermánuði. Nú er það vitað mál, að desember er af ýmsum ástæðum mörgum einna erfiðastur útgjaldamánuður og því gott að geta losnað við að eiga að greiða af útsvari sínu ásamt öllu öðru í þeim mánuði, og geri ég því ráð fyrir, að mönnum sé heimilt að ljúka útsvarsgreiðslu sinni í ágúst, september, október og nóvember, svo sé stokkið yfir desembermánuð og menn fái að ljúka útsvarsgreiðslunni í janúar og 1. febrúar, og þá njóti þeir þeirra fríðinda, sem menn njóta nú, einkum fastlaunamennirnir, ef þeir hafa greitt á þessum tíma. Þetta er ekkert stóratriði, en ég taldi þó ástæðulítið að þrengja þessi ákvæði, sem eru mönnum nokkuð til hægðarauka og ég held að brjóti ekki heldur mjög í bága við þarfir sveitarfélaganna, þó að Þeim sé haldið.

Þá er að lokum síðasta brtt. mín, sú 13., við 48. gr., og er um það, að hún orðist svo: „Sveitarstjórn setur nánari reglur um innheimtu útsvara eftir þessari gr., þ. á m. um þóknun til atvinnurekenda fyrir störf þau, sem þeim er falið að inna af hendi samkv. lögum þessum, og má kveða nánar á um allt slíkt í reglugerð.“ Hér er vikið að því, að skyldur eru lagðar á atvinnurekendur í sambandi við að skila útsvörum launamanna, en í frv. er einnig í 51. gr. gert ráð fyrir því, að á atvinnurekendur verði lagðar skyldur í sambandi við að skila til sveitarsjóðs einnig útsvörum fyrirtækja, sem þeir eiga skipti við, og er með þessari lokatill. minni ákveðið, að það megi semja um þóknun til atvinnurekenda fyrir slik störf. Þetta er þýðingarmikil aðstoð við sveitarstjórnirnar um að ná affallalaust inn tekjum sveitarfélagsins, og sýnist vera eðlilegt, að gjald geti komið fyrir svo mikilsverða þjónustu. En hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur fallizt á, samkvæmt tilmælum Landssambands íslenzkra útvegsmanna, að losa þá undan þessari skyldu og fella þannig niður 51. gr. frv. Ég býst við, að ýmsum sveitarfélögum muni þykja hún, eins og hún er í frv., nokkurs virði, og er því, eins og ég gerði grein fyrir í upphafi míns máls, andvígur þeirri till. meiri hl. heilbr.- og félmn., að þessi grein verði felld niður. Ákvæði þessarar 51. gr. frv. eru að minni hyggju nokkurn veginn alveg hliðstæða við þá skyldu, sem nú hvílir á atvinnurekendum að halda eftir af útsvörum launamanna og skila sveitarsjóði Þeirri upphæð. Aðeins er þessi regla nú færð yfir á atvinnurekendur, sem eiga viðskipti við önnur atvinnufyrirtæki útsvarsskyld. En á slíkum útsvarsupphæðum geta orðið vanskil engu siður en á útsvörum launamanna, sem Þannig þykir ástæða til að veita aðstoð við að innheimta. Það er sem sé öllum kunnugt, að atvinnurekendum er nú gert að skyldu, ef þess er krafizt, að halda eftir andvirði opinberra gjalda af kaupi launþega og standa ríki eða sveitarfélagi skil á greiðslu gjaldanna. Og í þessari 51. gr., sem meiri hl. leggur til að sé felld niður úr frv., er á hliðstæðan hátt ætlazt til þess, að sölusambönd og slíkir aðilar, sem annast sölumeðferð vara fyrir framleiðendur, skuli einnig, ef þess er krafizt, halda eftir útsvari og aðstöðugjaldi framleiðanda eða seljanda vöru og standa skit á hinum vangreiddu gjöldum til sveitarsjóðs. Það er ekki nema eðlilegt, að viðkomandi atvinnurekendur fari fram á það við löggjafann að vera leystir undan þessari skyldu, einkanlega ef ætlunin er að leggja þetta á þá án endurgjalds, og þannig blasti málið við þeim, þegar þeir hreyfðu sínum andmælum. Ég tel þetta það mikilsverða þjónustu og hliðstæða Þeirri þjónustu, sem nú er veitt sveitarfélögunum um innheimtu útsvara hjá launþegum, að það sé eðlilegt, að þessi gr. frv. standi og að heldur sé farið inn á það að greiða atvinnurekendum, sem þetta annast, fyrir þeirra ómak. Það mundi auðvelda mjög innheimtu sveitargjalda hjá framleiðendum og ýmsum öðrum, ef ákvæðið í frv. helzt og slíkum atvinnurekendum mætt af sanngirni með því að heimila þeim, að samið skuli við þá um umbun fyrir þjónustuna.

Ég hef nú gert grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt, og þess er ekki að dyljast, að sumar þeirra snerta ýmis grundvallarákvæði frv. Undir Þann flokk vil ég telja till. um aðstöðugjaldið, till. mína um landsútsvarið, till. mína um skattstigann og um álagningu útsvaranna. Ég hlýt að leggja þunga áherzlu á það, að þessar brtt. mínar fáist samþykktar, og tel, að ef þær yrðu samþ., væri það til mikilla bóta á frv.

Ég tel hugsanlegt, að heildarsamkomulag kynni að hafa fengizt í hv. heilbr.- og félmn. um einhverjar af þessum brtt. mínum, en ég vek enn athygli á því, að úr þessu hefur ekki fengizt skorið, þar sem svo mikið kapp var lagt á það af meiri hl. að ljúka afgreiðslu málsins í n., þó að ekki væru allir nm. þá viðstaddir og þannig gæfist ekki kostur á að bera saman ráð sin um lokaafgreiðslu mátsins á fultskipuðum nefndarfundi, en það hefði ég talið æskilegast um slíkt mál. En ég treysti þá á, að e.t.v. verði athugað milli 2. og 3. umr., hvort einhverjar af mínum till. væru þannig, að meiri hl. fengist til að sinna þeim og fallast á þær. Og hefði þó verið æskilegast, að vel hefði verið gengið úr skugga um það í n. sjálfri.

Það er augljóst, að þessi hraði, sem er á afgreiðslu málsins, er til baga. Hann er nálega óþinglegur. Þegar ég fór hér í ræðustól til að gera grein fyrir mínum till., var enn ekki búið að útbýta mínum brtt. Allir sjá, að æskilegast hefði verið, að hv. þm. hefðu þó þskj. með brtt. fyrir sér, þegar þær eru ræddar. En brtt. var svo útbýtt, meðan ég hélt mína ræðu. Slíkur hraði er óæskilegur. Það er nálega nauðsynlegt, að Þm. hafi þskj., sem verið er að ræða um, á borði fyrir framan sig, meðan umr. fara fram, en fái þau ekki fyrst að umr. lokinni.

Ég hef ekki enn þá séð, að búið sé að útbýta nál. 2. minni hl, hv. heilbr.- og félmn., og hef þannig enn, þegar ég lýk máli mínu, ekki séð hans nál. Og ég hef ekki heldur séð brtt. hans og get því á þessu stigi málsins ekki tekið neina afstöðu til þeirra. Þetta eru allt saman afleiðingar af því, að afgreiðsla málsins er rekin áfram með meiri hraða en svo, að hægt sé að veita þm. starfsaðstöðu til að taka Þátt í afgreiðslu málsins, og er það hvergi nærri gott. Ég skilaði nál. mínu og brtt. til prentunar upp úr miðjum degi í gær, en svo miklar annir eru í ríkisprentsmiðjunni nú vegna þess hraða, sem hafður er á störfum þingsins um afgreiðslu fjölda mála, að ríkisprentsmiðjan annar ekki prentun þskj. svo fljótt, að þau liggi fyrir þm., þegar mál er tekið til umr. Ég vil vona, að þeir, sem stjórna störfum þingsins, gefi þessu gaum, að það er varla boðlegt þm., að málin séu rekin svo hratt áfram, að ríkisprentsmiðjan geti ekki lokið prentun þskj., áður en málið er tekið til umr., allra sízt þegar um stórmál er að ræða eins og þetta. Ég skil ósköp vel aðstöðu forsetanna um það, að þeim er uppálagt að hraða mjög málum, og við því er ekkert að segja. Við viljum allir taka þátt í því að auka hraða þingstarfanna, þegar líður á þingtíma, og er eðlilegt og sjálfsagt. En hófs verður Þó að gæta um þetta, svo að það sé ekki algert málamyndakák á afgreiðslu stórmála. Þá er betra að fresta heldur afgreiðslu þeirra og á allan hátt miklu sómasamlegra.