27.03.1962
Neðri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. Þessarar hv. d. lauk athugun á því frv., sem hér er verið að ræða, s.l. fimmtudag, eftir að hafa verið á fundum dag eftir dag og eftir að málið hafði verið keyrt þar áfram af eins miklum hraða og frekast var hægt.

Ég hafði ekki tækifæri til þess að ræða í flokki mínum þær brtt., sem ég hugðist flytja við þetta frv., fyrr en á þingflokksfundi í gær, og ég skilaði þeim inn til skjalavarðar í morgun, og var verið að útbýta þeim nú fyrir nokkrum minútum. Ég vil taka þetta fram í upphafi til þess að undirstrika það, sem raunar hefur áður komið fram, að sá hraði, sem verið hefur á afgreiðslu þessa máls í heilbr.- og félmn., hefur gert það að verkum, að tími hefur verið mjög takmarkaður til eins nákvæmrar athugunar á frv. þessu og æskilegt hefði verið, og ber að harma það.

Eins og hv. alþm. vita, gegna sveitarfélögin í landinu þýðingarmiklum þætti í sambandi við þjóðarbúskap okkar íslendinga, eins og raunar alls staðar annars staðar. Sveitarfélögin hafa vissum afmörkuðum verkefnum að sinna, og til þess að geta rækt þau þurfa þau að sjálfsögðu að hafa verulegt fjármagn til umráða. Á undanförnum árum hafa þær raddir gerzt æ háværari í hópi sveitarstjórnarmanna, að sveitarfélögunum væru fengnir nýir tekjustofnar og þeim þannig gert auðveldara að ráðast í ýmsar framkvæmdir, sem þeim var nauðsynlegt að vinna. Sannleikurinn er sá, að sveitarfélögin hafa á undanförnum árum gengið eins langt og mögulegt hefur verið í því að afla tekna eftir þeim tekjustofnum, sem þau hafa haft. Þeir tekjustofnar hafa verið, eins og menn vita, fyrst og fremst tekjuútsvörin og veltuútsvörin.

Eins og komið hefur fram í umr. hér, var veltuútsvaraálagningin komin út í slíkar öfgar sums staðar, að sum sveitarfélaganna voru farin að leggja allt að 5% veltugjald á suman rekstur, og sjá allir, að slíkt nær ekki nokkurri átt. Forustumenn sveitarfélaganna hafa talið sig eiga siðferðilegar kröfur á því, að ríkissjóður útvegaði þeim einhverja nýja tekjustofna, ekki sízt fyrir þá sök, að með alls kyns löggjöf, sem afgr. hefur verið hér á hv. Alþ., hafa ýmis af rekstrarútgjöldum sveitarfélaganna verið stórhækkuð ár eftir ár.

Hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. lét að því liggja hér áðan, að forustumenn sveitarfélaganna stæðu í einhverri sérstakri þakkarskuld við núv. hæstv. ríkisstj. fyrir það, að hún hefði — fyrst allra ríkisstj. — sinnt því ákalli forustumanna sveitarfélaganna að útvega þeim nýja tekjustofna, þegar ríkisstj. og þingmeirihluti hennar ákvað á árinu 1960, að 1/5 söluskattsins rynni í jöfnunarsjóð sveitarfélaga og deildist þaðan út til þeirra.

Ég þekki dálítið til rekstrar eins bæjarfélags, þar sem ég á sæti í bæjarstjórn, þ.e.a.s. Kópavogskaupstaðar, sem nú þegar er orðinn fjórða mannflesta bæjarfélagið hér á landi og sýnilega verður eftir örfá ár næstfjölmennasta bæjarfélag á Íslandi. Ég viðurkenni að vísu, að við höfum kunnað að meta þann tekjuauka, sem bæjarsjóðurinn hefur fengið í sinn hlut af söluskattinum í gegnum jöfnunarsjóðinn. En ég fullyrði það, að á þeim tveim árum, síðan þessi tekjustofn var útvegaður þessu bæjarfélagi, hefur hann atgerlega — og meir en það — horfið í hækkanir, sem orðið hafa á rekstrarútgjöldum bæjarfélagsins vegna löggjafar, sem samþ. hefur verið á hv: Alþingi. Og vil ég þá sérstaklega tilnefna, að greiðslur til almannatrygginga hafa á tveim seinustu árum stórkostlega hækkað í þessu bæjarfélagi, eins og öðrum að sjálfsögðu, og greiðslur til sjúkrasamlaga hafa einnig stórkostlega hækkað.

En hér kemur fleira til en þetta eitt. Að sjáifsögðu hafa verðtagsbreytingar í þjóðfélaginu áhrif á afkomu sveitarfélaganna ekki siður en einstaklinganna. Allar framkvæmdir á vegum sveitarfélaganna, hvort sem er við skólabyggingar, gatnagerðir eða hvað það nú er, hafa stórkostlega hækkað, fyrst og fremst af völdum þeirra tveggja gengislækkana, sem ákveðnar hafa verið hér á landi á valdatíma hæstv. núv. ríkisstj. Þannig held ég að mér sé óhætt að fullyrða, að þegar dæmið er gert upp, þá hafi forustumenn sveitarfélaganna sízt ástæðu til þess að þakka núv. hæstv. ríkisstj. sérstaklega fyrir það, að hún hafi sýnt málefnum sveitarfélaganna og tekjuþörf þeirra sérstakan skilning umfram það, sem aðrar ríkisstj. hafa gert á undanförnum árum.

Ég skal viðurkenna það, að mér hefur fundizt gæta óskiljanlegrar tregðu af hálfu forustumanna ríkisvaldsins á undanförnum árum með að bæta úr tekjuþörf sveitarfélaganna og fallast á, að ríkið eftirléti þeim eitthvað af þeim tekjustofnum, sem það hefur haft. En það þýðir ekki að deila um það núna, það er búið og gert og liðinn tími og kemur ekki aftur.

Ég vil þá að loknum Þessum fáu inngangsorðum víkja að efni frv. þess, sem hér er verið að ræða, og þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 511 við frv. Ég vil taka það fram strax í byrjun, að ég sé við fljótlegan yfirlestur, að í brtt. minni, tölul. nr. 4, er skekkja. Þar stendur, að persónufrádráttur fyrir fjórða barn eigi að vera 15 þús. kr., en á að sjálfsögðu að vera, að persónufrádráttur fyrir fjórða barn skuli vera 1500 kr. Ég bið hv. þm. að athuga það.

Frv. það um tekjustofna sveitarfélaga, sem við erum nú að ræða, ákveður, hverjir þessir tekjustofnar skuli vera, í 1. gr. frv. Þar segir, að tekjustofnar sveitarfélaga séu þessir: 1) Fasteignaskattur. 2) Aðstöðugjald. 3) Framlög úr jöfnunarsjóði, hluti af söluskatti og landsútsvör. 4) Útsvör.

Ég ætla að ræða meginatriði frv. í þeirri röð, sem þau eru sett fram í því, og geta þá í leiðinni þeirra brtt., sem ég hef flutt við það.

Í II. kafla frv. er fjallað um fasteignaskatt. Fasteignaskatturinn hefur í mörg ár verið fastur tekjustofn fyrir öll, a.m.k. hin stærstu, sveitarfélög í landinu, þannig að það fer ekki á milli mála, að fasteignaskatturinn út af fyrir sig er enginn nýr tekjustofn fyrir sveitarfélögin. Meginbreytingin á ákvæðum kaflans frá því, sem áður var, er sú, að nú á að lögbjóða, að sveitarfélögunum skuli skylt að leggja á fasteignaskatta. Áður var hér aðeins um heimild að ræða. Fasteignaskatturinn er ákveðið prósentgjald, eins og það er ákveðið í 3. gr., og í grg. með frv. er að finna upplýsingar um bað, að prósenturnar eru í þessari gr. ákveðnar þannig, að fasteignaskatturinn á að gefa jafnháar tekjur í sveitarsjóðina og hann hefur gert fram til þessa, þar sem hann hefur verið á lagður. En í 5. gr. frv. eru svo ákvæði um það, að sveitarstjórnir geti með reglugerð, sem ráðh, staðfestir. ákveðið að innheimta skatt þennan með allt að 200% álagi. Þetta þýðir það, að ef sveitarstjórnir nota sér heimildarákvæði þetta, þá mun fasteignaskatturinn í þeim sveitarfélögum verða þrefaldur frá því, sem hann hefur verið til þessa.

Ýmsum kann að þykja eðlilegt að lögbjóða einhverja hækkun á fasteignasköttum, og staðreynd mun það vera, að sveitarfélög víða erlendis munu hafa aðaltekjur sínar af fasteignagjöldum í ýmissi mynd. En ef á það er litið, að á undanförnum tveim árum hafa hvers kyns álögur á fasteignir vaxið stórkostlega, fyrst og fremst í formi óbeinna skattaálaga, tolla og annars slíks, þá sjá menn, að það er meir en vafasamt að ætla að fara að auka við þá skattálagningu með því að hækka fasteignaskattinn svo stórkostlega eins og gert er ráð fyrir í frv. Sannleikurinn er sá, að eitt af þeim mörgu vandamálum, sem við er að glíma í dag, er það, hversu byggingarkostnaður er orðinn hár í þjóðfélaginu og aðgangur að lánsfé takmarkaður. Þetta hefur orsakað það, að víða liggur við borð, að þeir, sem ráðizt hafa í húsbyggingar og eru að reyna að koma upp yfir sig þaki, eru við það að missa húseignir sínar. Og ekki bætir það hlutskipti þeirra, ef hækka á stórlega fasteignagjöld af húsum þeirra með samþykkt þessa frv., en ákaflega er sennilegt, að ýmis sveitarfélög telji sig nauðbeygð til þess að nota hækkunarheimild frv.

III. kafli frv. fjallar um aðstöðugjald. Í 8. gr. segir, að sveitarstjórnir skuli hafa heimild til þess að innheimta aðstöðugjald í sveitarsjóð hjá atvinnurekendum. Gjaldstofn aðstöðugjaldsins er, eins og segir í 1. brtt. á þskj. 462, með leyfi hæstv. forseta: „Aðstöðugjald skal miða við samanlögð rekstrarútgjöld næstliðið almanaksár, þar með taldar fyrningarafskriftir skv. ákvæðum skattalaga, svo og vörukaup verzlana og efniskaup vegna framleiðslu iðnaðarfyrirtækja. Aldrei skal reikna aðstöðugjald af hærri upphæð en sem nemi brúttótekjum.“

Í frv., eins og það var, þegar það var lagt á borð okkar þm., var ákvæðið um gjaldstofn aðstöðugjaldsins talsvert annað en ég las hér áðan. Þar var gert ráð fyrir því, að hallarekstur eða tap á atvinnurekstri gæti verið gjaldstofn aðstöðugjaldsins. Að sjálfsögðu náði slíkt ákvæði ekki nokkurri átt og kom enda mjög óréttlátlega niður á hinar ýmsu atvinnugreinar í landinu, þar sem það mun nú vera staðreynd, að sjávarútvegurinn mun mjög víða vera rekinn með almennu tapi. Sérstaklega sjá menn. hversu fráleitt ákvæðið er, ef Þeir taka dæmið af afkomu togaraútgerðarinnar á Íslandi tvö undanfarin ár, þar sem upplýst er, að hallarekstur þeirra hafi numið, að mig minnir, að hér hafi komið fram í umr. um þessi mál, fast að 2 millj. kr. að meðaltali á togara. Eins og frv. var upphaflega, var ráð fyrir því gert, að leggja mætti aðstöðugjald á tap þetta. Hins vegar fékkst í heilbr.- og félmn. samkomulag um Það að breyta þessu ákvæði, og er að því stórkostlega mikil bót fyrir atvinnureksturinn í landinu.

Það er auðséð á ýmsum stöðum í frv., að aðstöðugjaldið mun verka svipað og tollur eða söluskattur. Það er gjald, sem að vísu atvinnureksturinn á að greiða, en mun í mörgum, ef ekki flestum tilfellum öðrum en þar sem um útflutningsatvinnuvegi er að ræða vera gjald, sem atvinnureksturinn mun fær um að koma af sér og yfir á viðskiptamenn sína. Einmitt vegna þess, að aðstöðugjaldið er Þessa eðlis, ber brýna nauðsyn til þess að taka ákvæði inn í frv., sem girða fyrir það, að útflutningsatvinnuvegirnir, sem hafa þessa sérstöðu, geti til viðbótar henni orðið fyrir því, að aðstöðugjaldið verði hækkað á þeim stórlega umfram það, sem veltuútsvarið var á þá á s.l. tveim árum. En í frv. eru engin ákvæði, er koma í veg fyrir það, þannig að það er sýnilegt, að eins og frv. er núna, mun vera heimilt að leggja á sumar greinar vinnslustöðva sjávarútvegsins allt að 2% aðstöðugjald á útgjöld hans.

Þegar frv. þetta var til umr. í hv. heilbr.- og félmn., barst n. meðal annarra erinda grg. frá Landssambandi ísl. útvegsmanna um frv., og er í þeirri grg. að finna ýmsar mjög athyglisverðar upplýsingar um það, hvernig gjald þetta kemur við sjávarútveginn, og vil ég —- með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa upp úr þessu erindi nokkur atriði. Þar segir:

„Í lögunum um veltuútsvar er sagt, að upphæð útsvarsins skuli ákveðin í hundraðshlutum af veltu, mismunandi eftir tegund, starfsemi og aðstöðu, en velta telst heildarsala vöru, vinnu og þjónustu. Upphæð veltuútsvarsins mátti skv. ákvæðum 6. gr. l. eigi vera hærri en allt að 2% af vinnslu sjávarafurða. En með 8. gr. l. er þessi réttur mjög takmarkaður, því að Þar segir: „Útsvar á veltu má ekki nema hærri hundraðshluta, miðað við tegund gjaldstofns, en hann var á hverjum stað árið 1959. Heimilt skal þó sveitarfélögum, sem lögðu á lægri veltuútsvör á árunum 1959, miðað við tegund gjaldstofns, en lögð voru á í Reykjavík á árinu 1959, að hækka útsvör á veltu í allt að þeim hundraðshluta, sem þar var þá á lagður.“ Það er þessi takmörkun,“ segir í bréfi L.Í.Ú. „á álagningarrétti sveitarfélaganna, sem hefur komið í veg fyrir það, að sveitarfélögin gætu hækkað veltuútsvarið upp í það hámark, sem tilgreint er í 6. gr. laga nr. 43 frá 1960. Á árinu 1961 var álagt veltuútsvar í Reykjavík 0.54% á hvers konar fiskiðnað og á Akureyri 0.5%. Þar við er að athuga, að útsvarsstigi í Reykjavík var síðar lækkaður um 11% og á Akureyri um 15%. Á hinum ýmsu stöðum úti á landi hefur veltuútsvarið á útgerð og fiskvinnslu verið mjög mismunandi. Það mun hafa verið hæst í Vestmannaeyjum, þar sem það nam 1.035%, Þegar útsvarsstiginn hafði verið lækkaður, en þar er þess að gæta, að í Vestmannaeyjum var ekki lagt veltuútsvar á bátana á s.l. ári.“

Enn fremur segir í Þessu erindi:

„Ákvæði 9. gr. frv, um, að telja skuli efnis- og vörukaup með útgjöldum, eru sérlega varhugaverð, þar sem svo virðist skv. Þeim, að greiða þurfi skattinn af efnis- og vörukaupum án tillits til þess, hvort umrætt efni hefur verið notað eða selt.“

Enn fremur segir í þessu bréfi L.Í.Ú.:

„Í lögum nr. 43 frá 1960, 8. gr., var bannað, að útsvar á veltu yrði hærra að hundraðshluta, miðað við tegund gjaldstofns, en hann var á hverjum stað árið 1959, og var þetta ákvæði, sem hindraði, að margar sveitarstjórnir gætu notað sér heimildina um að leggja á allt að 2% veltuútsvar. Í frv. þessu, eins og það liggur fyrir, eru engin slik takmörk lengur fyrir hendi, heldur er það lagt óskorað á vald sveitarstjórnanna að ákveða álagningu aðstöðugjaldsins upp að hámarkinu, eins og það er greint í d-lið 10. gr. frv., en undir þann lið mundu koma m.a. fiskverkunarstöðvar og síldarverkunarstöðvar. Breyt. frá veltuútsvari í aðstöðugjald mundi þýða hjá fiskiðnaðarfyrirtækjum, fiskverkunarstöðvum og síldarverkunarstöðvum hækkun, sem næmi frá 100–350%, eins og ákvæði frv. eru nú, Því að búast má við, að flestar sveitarstjórnir muni nota heimild þá, sem í frv. felst, til hins ýtrasta.“

Ég tel rétt að taka það fram í þessu sambandi, að bréf þetta er að sjálfsögðu samið, áður en samkomulag náðist um það í heilbr: og félmn. að breyta ákvæðum 9. gr. á þann veg, að ekki mætti framvegis leggja aðstöðugjald á taprekstur fyrirtækjanna, og mun því prósentgjald Þetta vera of hátt reiknað hjá þeim, miðað við frv. eins og það er nú.

„Ákvæði frv.,“ segir enn fremur í bréfi þessu, „um, að aðstöðugjald skuli frádráttarbært gagnvart tekjum, hefur ekki verulega þýðingu hjá fyrirtækjum sjávarútvegsins, þegar hallarekstur er jafnalgengur og hann hefur verið um mörg undanfarin ár. Engu að síður er ákvæðið æskilegt í frv. með tilliti til uppbyggingar í sjávarútvegi. Sérstaklega viljum vér benda á Þann reginmun, sem er á aðstöðu fyrirtækja sjávarútvegsins, sem háð eru erlendu markaðsverði fyrir framleiðslu sína, og verzlunarfyrirtækjum, iðnaðarfyrirtækjum, þjónustufyrirtækjum, sem selja vöru sína og þjónustu á innlendum markaði. Fyrirtæki sjávarútvegsins geta ekki hækkað verð framleiðslu sinnar til samræmis við hækkað kaupgjald, hækkað vöruverð og hækkaða skatta, í hvaða formi sem er, heldur kemur slík hækkun fram í auknum taprekstri fyrirtækjanna, og á þetta jafnt við, hvort sem um er að ræða fiskiskip eða hvers konar fisk- og síldarverkunarstöðvar, og til þess að hindra stöðvun fyrirtækja sjávarútvegsins af þessum sökum hefur orðið að grípa til útflutningsuppbóta og síðar að færa gengi íslenzku krónunnar til samræmis við framleiðslukostnað útfluttra afurða. Öðru máli gegnir um verzlunar-, iðnaðar- og þjónustufyrirtæki, sem selja vöru og Þjónustu sina á innlendum markaði og geta krafizt hækkunar á vöru, framleiðslu og þjónustu sinni í samræmi við aukinn tilkostnað.

Með skírskotun til þessa, sem að framan er sagt, förum vér eindregið fram á, að frv. verði breytt Þannig, að aðstöðugjaldið verði reiknað af heildarsölu vöru, vinnu og þjónustu, eins og veltuútsvarið var skv. lögum nr. 43 frá 1960. Jafnframt förum vér fram á, að öll fiskiðnaðarfyrirtæki, fiskverkunarstöðvar, síldarverkunarstöðvar, síldarverksmiðjur, sem ekki gilda um önnur sérákvæði, hvalvinnslustöðvar, niðurlagningar- og niðursuðuverksmiðjur, rækju- og humarverksmiðjur, fiskimjölsverksmiðjur og aðrar verkunarstöðvar sjávarafla eða vatnafiska, verði sett eins og fiskiskip undir a-lið 10. gr. frv., sem segir, að aðstöðugjald megi ekki vera hærra en allt að 0,5% af gjaldstofni. Til vara förum vér fram á, að sett verði ákvæði í frv. varðandi hundraðshluta aðstöðugjaldsins, þar sem ákveðið verði, að gjaldið megi ekki nema hærri hundraðshluta, miðað við tegund gjaldstofns, en hann var á hverjum stað árið 1959, hliðstætt við ákvæði 8. gr. laganna. í því sambandi má benda á þá miklu hækkun, sem orðið hefur á þessum gjaldstofni í krónutölu síðan árið 1959 vegna gengisbreytinga, svo að sama prósenta nemur nú miklu hærri krónutölu en þá.“

Að lokum segir í þessu bréfi:

„Það er því augljóst, að með frv. um tekjustofna sveitarfélaga og með frv. um tekju- og eignarskatt er verið að margfalda skattabyrði fiskiskipa og annarra fyrirtækja sjávarútvegsins, í fyrsta lagi með því, að aðstöðugjald það, sem koma skal í stað veituútsvarsins, er miklu hærra heldur en veituútsvarið var, auk þess sem samkv. frv. um tekju- og eignarskatt er gert ráð fyrir hækkun á matsverði fiskiskipa, sem hefur í för með sér stóraukinn eignarskatt og hækkun á útsvari að því leyti, sem það er miðað við eignir.“

Og svo enda þeir: „Stjórn L.Í.Ú. telur óhjákvæmilegt, að leiðrétt séu þessi ákvæði umræddra frv., af því að öðrum kosti er rekstri fyrirtækja sjávarútvegsins stefnt í voða, sem hafa mun ófyrirsjáanlegar afleiðingar.“

Svo mörg eru þau orð. M.a. með hliðsjón af þessum augljósu rökum, sem fram koma í því erindi frá L.Í.Ú., sem ég var að lesa hér áðan, hef ég leyft mér að flytja brtt. við 9. gr. III. kafla, um aðstöðugjald, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta, fyrri efnisbreytingin er þessi:

„óheimilt er framtalsnefndum og hreppsnefndum að leggja aðstöðugjald á útgjöld, er stafa af tjóni, sem gjaldandi hefur orðið fyrir í atvinnurekstri sínum.“

Þetta virðist sanngjarnt ákvæði, og vandséð eru rökin fyrir því að standa á móti samþykkt þess. Síðari efnisbreyt. við 9. gr. er Þessi:

„Aðstöðugjald má ekki nema hærri hundraðshluta, miðað við tegund gjaldstofns, en hundraðshluti veltuútsvars var á hverjum stað 1960. Heimilt er þó sveitarfélögum utan Reykjavíkur að hækka hundraðshluta aðstöðugjalds upp í það, sem gildir í Reykjavík, miðað við sömu tegund gjaldstofns.“

Hér er tekin upp efnislega varatillaga Landssambands ísl. útvegsmanna um breyt. á aðstöðugjaldinu.

Það kom fram í umr. hér áðan og hefur raunar komið fram áður, að sá gengishagnaður, er varð á útflutningsvörubirgðum, sem til voru í landinu í ágústbyrjun, þegar gengið var fellt í síðara skiptið, og gerður var upptækur í ríkissjóð, mun vera í kringum 150 millj. kr. Af þeirri fjárhæð munu 137 millj. kr. örugglega renna beint í ríkissjóð eða til hans þarfa. Auk þess kom það fram og hefur komið oft fram, að sú hækkun útflutningsgjaldsins, sem þá var ákveðin á sjávarafurðir, muni nema á heilu ári kringum 135 millj. kr. Þegar litið er á þessa gífurlegu eignaupptöku, sem sjávarútvegurinn, þ.e.a.s. framleiðendur, útvegsmenn og sjómenn, varð að þola nú fyrir nokkrum mánuðum umfram aðrar stéttir í þjóðfélaginu vegna þeirrar gengisbreytingar, sem framkvæmd var í ágústmánuði 1961, þá sýnast ekki einungis efnisrök liggja til þess, að tekið, verði upp ákvæði í III, kafla frv. eitthvað í svipaða átt og ég var að lýsa áðan, heldur mæla öll sanngirnisrök með því, að þau verði sett inn í frv. Atvinnuvegur, sem hefur verið skattlagður af því opinbera, eins og sjávarútvegurinn hefur verið á s.l. ári, umfram aðra atvinnuvegi í landinu, það er tæplega sæmandi, að með því frv., sem hér er verið að ræða, um tekjustofna sveitarfélaganna, skuli opnaðar leiðir einnig til þess að hækka á honum stórlega sveitargjöld, einnig umfram það, sem gildir um aðra atvinnuvegi. Ég tel því, að bæði efnisrök og sanngirnisástæður leiði til þess, að samþykkja eigi þær brtt., sem ég hér var að lýsa við 9. gr. frumvarpsins.

Það kemur fram í grg. með þessu frv. um 9. gr., að gjaldstofn aðstöðugjalds af umboðssölufyrirtækjum eigi að vera rekstrarútgjöldin. Þetta kemur hvergi greinilega fram í frumvarpsgreinunum sjálfum, svo að ég vil, til þess að taka af allan vafa, auglýsa eftir því hjá fyrirsvarsmönnum hæstv. ríkisstj. hér í deildinni, hvort þessi skilningur sé ekki óyggjandi og réttur.

Ég kem þá að því að ræða örlitið um IV. kafla frv., sem ber yfirskriftina: „Um jöfnunarsjóð sveitarfélaga.“ í honum er að finna ákvæði, sem tekin eru upp í 15. og 16. gr. frv. úr l. um jöfnunarsjóð, óbreytt. Í 17. gr. er hins vegar að finna nýmæli um landsútsvör, þá sem greiða eiga landsútsvör. Og í 18. gr. frv. er að finna upplýsingar um það, við hvað landsútsvörin eigi að miða og hver skuli vera prósenta þeirra.

Í umr. þeim, sem hér hafa orðið hjá bæði frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. og eins frsm. 1. minni hl. heilbr.- og félmn., hafa komið fram sjónarmið, sem ég get ekki fallizt á. Báðir þessir aðilar hafa talað um það, að með ákvæðunum um landsútsvör væri verið að leggja sveitarfélögunum nýjan tekjustofn. Á þetta get ég ekki fallizt. Sannleikurinn er sá, að langflestir þeirra aðila, sem teknir eru upp í 17. gr. frv. sem gjaldendur landsútsvara, hafa áður greitt sveitarútsvör til einhverra sveitarfélaga í einni eða annarri mynd. Ég hef verið að reyna að finna út eftir þeim upplýsingum, sem er að finna í grg. með frv., hvað þeir aðilar, sem nú á í fyrsta skipti að gjaldleggja til sveitarsjóðanna, gæfu mikið í heildarpúlíu landsútsvaranna, sem talin eru nema 29.1 millj. kr. Þessir aðilar eru, eftir því sem mér sýnist vera, í fyrsta lagi sölunefnd varnarliðseigna, í öðru lagi áburðarverksmiðjan, í þriðja lagi Viðtækjaverzlun ríkisins, í fjórða lagi Ríkisprentsmiðjan Gutenberg. Mér skilst af þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, að þetta séu þeir aðilar, sem koma nýir inn sem gjaldendur landsútsvara. Og ég fæ ekki betur séð af þeim upplýsingum, sem hér er að finna um þetta, en þessir nýju gjaldendur komi til með að leggja í þessa púlíu einhvers staðar milli einnar og tveggja millj. kr. af 29.1 millj. kr. heildarupphæð, sem áður hefur að öðru leyti verið goldin til einhverra sveitarfélaga.

Það fer því fjarri að ætla, að landsútsvörin séu almennt fyrir sveitarfélögin einhver nýr tekjustofn. Það fer fjarri því. Landsútsvörin eru að vísu nýmæli út af fyrir sig, nýmæli, sem kveður á um aðra skiptingu á því fé, sem þessir aðilar hafa greitt, en gilt hefur til þessa. Í stað Þess t.d., að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins greiði til þeirra sveitarfélaga einna, þar sem áfengisútsölur eru og aðsetur stofnunarinnar, 5% gjald af hagnaði, þá er nú ákveðið, að útsvar þetta á áfengisverzlunina skuli renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna og skiptast eftír þeim reglum, sem þar um gilda. Ég get því á engan hátt tekið undir það með þessum framsögumönnum nefndarhlutanna, að landsútsvörin séu nýr tekjustofn almennt talað. Þau munu færa sumum sveitarfélögum auknar tekjur, en öðrum tilsvarandi tekjutap. Þannig skilst mér, ef þetta er réttur skilningur hjá mér á þessu, að það sé óyggjandi, að með frv. þessu séu sveitarfélögunum engir nýir tekjustofnar lagðir. Það er aðeins um að ræða hækkun á tekjustofnum, sem til voru, áður en frv. var lagt fram, og smávægilegar breyt. á því, hvert tekjur gjaldenda landsútsvara skuli renna.

Við 17. gr. frv. hef ég flutt brtt. um tvo nýja stafliði, sem ég legg til að bætt verði við greinina. Það er stafliður a) tryggingafélög, og stafliður b) bankar, sbr. 18. gr. e. hér á eftir. Ég er í sjálfu sér fylgjandi hugmyndinni um landsútsvör og tel hana, ef hún er rétt framkvæmd, til hinna mestu bóta almennt talað. En svo er hægt að ákvarða reglur um landsútsvör, að Þær leiði til óréttlætis. Það er bæði hægt að ganga það stutt í því að taka inn gjaldendur landsútsvara, að Þau gefi of lítið, og það er hægt að tina til aðila og sleppa öðrum, þannig að engin sanngirni væri í. Þannig hefur orðið með þetta frv. Það er talið, að landsútsvörin gefi 29 millj. kr. rúmlega. [Frh.]