28.03.1962
Neðri deild: 78. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi spyrjast fyrir um hv. frsm. meiri hl, heilbr.- og félmn. (Forseti: Hann er í húsinu, og það er hægt að senda eftir honum.) Væri þá hægt að ná í hann? Það væri ágætt. (Forseti: Það er verið að gera tilraun til þess að ná í hann.) Ég þurfti einmitt að ræða lítið eitt við frsm. meiri hl. Hann gerði að umtalsefni nokkuð af því, sem ég hafði sagt við 1. umr. málsins, og ég vil fá tækifæri til að ræða við hann um nokkuð af því.

Hv. 5. þm. Vestf., frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., minntist í framsöguræðu sinni á nokkuð af því, sem ég hafði sagt um þetta mál við 1. umr. Ég hafði m.a. nefnt það, að ég teldi, að það þyrftu að vera skýr ákvæði í 9. gr. um undanþágur frá aðstöðugjaldi. Ég hafði nefnt þar sláturhús og mjólkurbú, sem segir, að skuli vera undanþegin þessu gjaldi, og það var ekki að ástæðulausu, að ég nefndi þetta, vegna þess að í útsvarslögunum frá 1960, 8. gr. þeirra 1., segir: „Undanþegin veltuútsvari eru sláturhús og mjólkurbú“ En svo kom það fyrir hjá samvinnufélagi, sem rekur sláturhús, að á bað var lagt veltuútsvar, á allar sláturfjárafurðirnar. Það var að sjálfsögðu kært yfir þessu, alla leið til ríkisskattanefndar, en hún vildi ekki fella þetta veltuútsvar niður. Ég veit ekki, á hverju þetta hefur verið byggt. Ef til vill á því, að í sömu útsvarslögum var, ef ég man rétt, heimild til að leggja nokkurt veltuútsvar á landbúnaðarvörur í umboðssölu. En hvernig sem þessu er háttað, þá varð þetta ákvæði á þessum stað að minnsta kosti gagnslítið eða gagnslaust fyrir gjaldandann. Hann varð að borga útsvar af þeim vörum, sem unnið var að í sláturhúsinu.

Hv. frsm. segir: Er hægt að orða þetta skýrar en er í frvgr.? Þetta orðalag er mjög svipað og var um veltuútsvarið í útsvarslögunum, og varð þó ágreiningur um það, eins og ég þegar hef lýst. Það er ef til vill ekki þörf á því að setja þetta inn í frvgr. öðruvísi en nú er. Ég geri ráð fyrir, að gefin verði út reglugerð um þetta, og þá mætti setja þarna skýrari og nákvæmari ákvæði um þetta, og ég vil einmitt út af þessu vekja athygli á einu. Yfirleitt er það svo með sláturhús, að við þau eru byggð frystihús, og kjöt af sláturfénaði er látið úr sláturhúsinu inn í frystihúsið. Það er yfirleitt ekki hægt að reka sláturhús nema hafa frystihús þar við, og þá þarf að hafa það alveg ákveðið, hvort þær afurðir, sem unnið er að í sláturhúsinu, verða ekki undanþegnar aðstöðugjaldi, eins fyrir því, þó að þær fari úr sláturhúsinu gegnum sambyggt frystihús og úr Því aftur á markaðinn. Þetta gæti að sjálfsögðu verið reglugerðarákvæði, en ég teldi æskilegt, að það kæmi glöggt fram, hvað hv. n., sem hefur undirbúið frv., segir um þetta, eða hvernig ætlazt er til, að þetta ákvæði verði skilið.

Hv. frsm. meiri hl. sagðist gleðjast yfir því, að ég hafði lýst því við 1. umr. um frv., að ég teldi nauðsynlegt að koma á meiri jöfnuði í álagningu gjalda til sveitarfélaga en verið hefði. Hann var eitthvað að tala um stefnubreytingu í þessu sambandi, en ég kannast ekki við það að hafa breytt um stefnu í því. Ég hef alltaf litið svo á, að það væri eðlilegt, að þessi gjöld væru sem jöfnust á mönnum, hvar sem þeir eru búsettir á landinu. Ég átti ekki neinn þátt í því, að það voru lögfestir þrír útsvarsstigar 1960, ég tel það til mikilla bóta, að útsvarsstiginn er nú orðinn bara einn. Ég átti ekki heldur þátt í því að lögfesta þau veltuútsvör, sem sett voru í lögin 1960 og hafa orðið þannig í framkvæmdinni, eins og ég gerði grein fyrir, að á ýmsum stöðum á landinu eru þau þrisvar til fjórum sinnum hærri en annars staðar. Ég benti á það við 1. umr. málsins, að ég teldi nokkra hættu á því, að aðstöðugjaldið, sem kemur í stað veltuútsvaranna, mundi einnig leggjast mjög misjafnlega þungt á landsmenn eftir því, hvar þeir eru búsettir, og það væri nauðsynlegt að vinna að meiri jöfnuði í þessu efni. Og mér þótti gott að heyra það, að hv. 5. þm. Vestf. virtist vera mér sammála um, að það væri rétt að vinna að því, að þessi gjöld leggist sem jafnast á menn, hvar sem þeir búa á landinu.

Þetta er stór lagabálkur, og þm. hafa haft skamman tíma til að athuga þetta frv. hér í hv. d. Það er ekki gott að segja um það fyrir fram, hvernig þetta reynist í framkvæmdinni. Ég tel, að þarna séu ýmis ákvæði til bóta eða geti reynzt betri en það, sem við höfum búið við að undanförnu. En það er fyrst og fremst reynslan. sem sker úr um þetta, og ég held, að það væri mjög mikilsvert fyrir Alþ. að fá sem allra fyrst nokkra vitneskju um, hvernig framkvæmdin verður nú þegar í upphafi, eftir að þetta frv., ef að lögum verður, kemur til framkvæmda. Þess vegna vildi ég leyfa mér að skjóta því til hv. heilbr.- og félmn., hvort hún vildi ekki taka það til athugunar fyrir 3. umr. að bera fram till. um það, að í bráðabirgðaákvæði frv. væru sett fyrirmæli um það, að nú þegar á næsta sumri yrði safnað upplýsingum frá öllum sveitarfélögum um álagningu fasteignaskatts, aðstöðugjalds og útsvars á þessu ári. Það er erfitt fyrir hvern einstakan, sem hefur áhuga fyrir að kynna sér þetta, að safna saman slíkum upplýsingum, en ætti að vera auðvelt fyrir ríkisstj. að gera þetta. Það mætti búa til eyðublöð fyrir þessar upplýsingar, sem óskað væri eftir, og þá væri það ákaflega lítið verk fyrir sveitarstjórnir eða þá, sem leggja gjöldin á, að útfylla slíkar skýrslur, strax þegar álagningu gjaldanna er lokið.

Ég tel, að þær upplýsingar, sem þarna ætti að óska eftir, væru: Heildarupphæð fasteignaskatts í sveitarfélaginu og hvað mikið álag væri á skattinn samkvæmt 5. gr., ef notuð hefur verið heimildin til hækkunar á skattinum. Viðkomandi aðstöðugjaldinu yrði spurt um heildarupphæð þess í sveitarfélaginu og jafnframt þær reglur, sem farið hefur verið eftir við álagningu aðstöðugjaldsins, þannig sundurliðaðar, að sjáist, hvað hátt gjald er lagt á hverja grein atvinnurekstrar. Sé t.d. lagt mishátt gjald á vörur, þá sé tilgreindur hundraðshluti gjalds á hverja vörutegund eða vöruflokk. Í þriðja lagi væri svo óskað upplýsinga um heildarupphæð álagðra útsvara. Ef útsvör hafa verið hækkuð eða lækkuð samkvæmt heimild, þá sé tilgreint, hvað mörgum hundraðshlutum hækkun eða lækkun nemur.

Ég tel, að það ætti að óska eftir því, að sveitarfélögin sendu þessar upplýsingar strax að lokinni álagningu gjaldanna, og síðan ætti í ráðuneytinu að gera glögga yfirlitsskýrslu um álagninguna í öllum sveitarfélögunum samkv. þessum upplýsingum þeirra og sú skýrsla yrði lögð fram á Alþ, í byrjun reglulegs þings næsta haust. Það væri tiltölulega lítið verk að gera þetta, en ég held, að það væri mjög mikilsvert fyrir alþm. að hafa þegar á fyrsta ári slíka yfirlitsskýrslu um álagningu gjalda hjá sveitarfélögunum eftir þessum nýju reglum. Þá væri auðvelt að sjá, hvernig gjöldin hafa verið lögð á hvarvetna um landið, hvað há aðstöðugjöld hafa verið tekin og hvað mikill munur er á þeim, hvar eru aðstöðugjöldin lægst og hvar hæst. Það er nauðsynlegt að geta gert sér grein fyrir því, hvað þungt þetta leggst á menn í sveitarfélögunum, og einnig um hin gjöldin, fasteignaskattinn, því að það er heimild til að hækka hann töluvert frá því, sem ákveðið er í frv., og þá einnig um útsvörin, að hve miklu leyti eru notaðar heimildirnar til þess að hækka og lækka þau um ákveðinn hundraðshluta. Ég hef ekki orðað till. um þetta, því að ég hefði talið langæskilegast, ef hv. heilbr.- og félmn. vildi athuga þetta atriði á milli umræðna. Eins og ég sagði, þá er það víst, að það er ekki mikil fyrirhöfn fyrir sveitarstjórnirnar að útfyllta slíkt eyðublað, þegar lokið er álagningunni, og það væri ekki heldur mikið verk að semja úr þessu eina yfirlitsskýrslu. Það mundi ekki hafa neinn teljandi kostnað í för með sér, en mundi verða mjög til glöggvunar fyrir þm. á næsta þingi og auðveldara, ef slíkt lægi fyrir, að átta sig á því, hvernig þetta hefur reynzt í framkvæmdinni þegar á fyrsta ári.